Flokkabandalag Kristilegra demókrata og systurflokksins í Bæjaralandi fékk 33 prósent atkvæða í kosningum til þýska sambandsþingsins í gær. Angela Merkel, kanslari Þýskalands og leiðtogi bandalagsins, segist ætla að mynda nýja ríkisstjórn fyrir jól.
Bandalagið hlaut verri kosningu en í kosningunum árið 2013 þegar það hlaut 41,5 prósent atkvæða eða 9,5 prósentustigum minna. Sósíal demókratar, samstarfsflokkur Bandalagsins í ríkisstjórn síðustu fjögur árin, hlaut einnig verri kosningu en síðast, og fékk nú 20,4 prósent atkvæða.
Bæði Bandalagið og Sósíal demókratar fengu verstu kosningu í þingkosningum í gær síðan um miðja síðustu öld. Miðað við skoðanakannanir þá hefur fylgistapið verið töluvert á undanförnum vikum, á kostnað öfgahægriflokksins Valkostur fyrir Þýskaland (þ. Alternative für Deutschland) sem er nú þriðji stærsti flokkurinn á Sambandsþinginu.
Martin Schulz, formaður Sósíal demókrata, segist ekki ætla að starfa með Merkel í ríkisstjórn að nýju og stillir flokki sínum upp í stjórnarandstöðu á því kjörtímabili sem nú fer í hönd.
Það er því ljóst að Merkel þarf að mynda nýja samsteypustjórn í Þýskalandi. Takist Merkel að mynda stjórn verður það fjórða kjörtímabilið í röð sem hún gegnir stöðu kanslara í Þýskalandi.
Öfgaflokkur fékk góða kosningu
Á vef þýska dagblaðsins Süddeutsche Zeitung eru taldir til fjögur meginatriði sem lesa má úr kosninganiðurstöðunum.
- Bandalagið hefur tapað miklu, en það er enn nógu sterkt gagnvart öðrum stjórnmálaöflum að Angela Merkel getur myndað nýja ríkisstjórn og verið kanslari fjórða kjörtímabilið í röð.
- Það er ekki hægt að mynda meirihluta á vinstri væng þýskra stjórnmála. Það helgast ekki aðeins af slæmri niðurstöðu Sósíal demókrata, því bæði Vinstriflokkurinn og Græningjar fengu alls ekki nóg.
- Það er heldur ekki hægt að mynda meirihluta í íhaldssama- og frjálslynda armi þýskra stjórnmála.
- Róttæka andspyrnan gegn Merkel er svo sterk að „skelfilegur“ fjöldi fólks kaus öfgahægriöfl á þýska sambandsþingið.
Þetta eru því nokkur tímamót í þýskri stjórnmálasögu. Þó allar líkur séu á að Merkel verði áfram kanslari, þá er staða hennar veikari en áður.
Sú staðreynd að öfgahægriflokkurinn Valkostur fyrir Þýskaland sé nú þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu er einnig söguleg, enda hafa róttækar stjórnmálahreyfingar á hægrivængnum ekki náð fótfestu í Þýskalandi eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar.
Öfgaöflin eru hins vegar enn einangruð í þýskum stjórnmálum. Enn er stór meirihluti Þjóðverja sem telur Valkost fyrir Þýskaland vera skammarlegan fyrir þingið. Það má geta þess að þó kosning öfgaaflana hafi verið góð þá eru enn fjórir fimmtu hlutar kjósenda sem völdu ekki Valkost fyrir Þýskaland. Ólíklegt þykir að aðrir stjórnmálaflokkar vilji starfa með Valkosti fyrir Þýskaland.
Margir Þjóðverjar líta á að ris öfgaaflanna í kosningunum sé af sama popúlíska meiði og í Bretlandi og Bandaríkjunum þar sem kjósendur ákváðu að hafna viðvarandi ástandi með því að kjósa gegn því hefðbundna. Þýska stjórnmálakerfið stóð storminn betur af sér en breska eða bandaríska kerfið. Hinn almenni kjósandi í Þýskalandi hefur haft hag af aukinni hnattvæðingu og mörgum þykja öfgar í stjórnmálum ekki heillandi, í sögulegu tilliti.
Það virðist þó vera grunnt á samstöðunni innan flokksins Valkostur fyrir Þýskaland. Eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir var fögnuðurinn fljótur að breytast í innanflokksátök. Frauke Petry, einn leiðtoga flokksins og andlit flokksins útávið, sagðist ekki ætla að taka sæti á þinginu undir merkjum flokksins. Ekki er enn á hreinu hvers vegna hún ákvað að gera þetta.
Merkel reynir við smærri flokka
Sú ríkisstjórn sem Merkel mun að öllum líkindum reyna að mynda verður samsteypustjórn þriggja flokka, Bandalagsins, Frjálsra demókrata og Græningja. Slíkt stjórnarsamstarf hefur þegar fengið nafnið „Jamaíka“ enda eru litir flokkana þeir sömu og í jamaíska fánanum; Svartur, gulur og grænn.
Viðbragðið við niðurstöðum kosninganna á mörkuðum var að mestu neikvætt, enda er búist við því að stjórnarmyndun muni taka töluverðan tíma. Þá óttast markaðurinn að langt stjórnarmyndunarferli muni flytja einbeitinguna frá samningaviðræðum Evrópusambandsins um útgöngu Breta úr sambandinu til samningaviðræðna í Berlín.