Þöggunarmenning og leyndarhyggja eru hugtök sem hafa verið í deiglunni síðustu mánuði. Ástæðan er ekki sú að umræða sé þögguð sérstaklega mikið niður núna heldur eru hlutir að koma upp á yfirborðið sem alltaf hafa verið til staðar en fyrst núna er fólk að stíga fram og tala um þá.
Hreyfingar spretta út frá einstökum atvikum og sameinast fólk bak við myllumerki á samfélagsmiðlum. Þar má nefna sem dæmi #freethenipple, #höfumhátt, #metoo, #þöggun, #égerekkitabú og #kæraEygló. Allar þessar byltingar eiga það sameiginlegt að einangrað tilvik hrindi af stað atburðarás sem leiðir af sér samstöðu þúsunda kvenna og karlmanna.
Nú pósta konur víðsvegar um heim sögur af kynferðisáreiti og -ofbeldi undir myllumerkinu #metoo. Flestar konur þekkja það að búa í heimi þar sem áreiti er talið óhjákvæmilegur hluti af tilverunni og í gegnum þær þúsundir frásagna sem nú ganga á samfélagsmiðlum opinberast hversu algengt þetta er.
Stjórnmálin ná ekki að takast á við þessi vandamál því breytingarnar verða þegar fólk lætur í sér heyra. Í krafti fjöldans stíga konur fram undir myllumerkjum og greina frá reynslu sinni og upplifunum en oft er um að ræða þöggun gegn kynferðisbrotum eða minnihlutahópum.
#metoo á rætur sínar að rekja til ársins 2006
Kynferðislegt áreiti og kynbundið ofbeldi er veruleiki sem fjöldi kvenna þarf að takast á við. Dómskerfið og stjórnmálin hafa ekki náð að vernda þolendur og þau samfélagsnorm sem viðgangast ýta undir skömm og þöggun.
Eins og fyrr segir er myllumerkið #metoo mjög áberandi á samfélagsmiðlum um þessar mundir. Ástæðan er fall og brot framleiðandans Harvey Weinstein. Hann hefur verið ásakaður um að áreita fjölda kvenna en margar leikkonur hafa stigið fram og greint frá sinni reynslu af honum.
Leikkonan Alyssa Milano, sem er fræg fyrir leik sinn í þáttunum Melrose Place, Who´s the Boss og Charmed, var áhrifavaldur þess að #metoo náði slíkri útbreiðslu sem raun ber vitni eftir að hún hvatti á Twitter þann 15. október síðastliðinn konur að stíga fram og segja frá reynslu sinni.
If you’ve been sexually harassed or assaulted write ‘me too’ as a reply to this tweet. pic.twitter.com/k2oeCiUf9n
— Alyssa Milano (@Alyssa_Milano) October 15, 2017
Myllumerkið á uppruna sinn í grasrótarsamtökum árið 2006 þegar aðgerðasinninn Tarana Burke bjó það til á samfélagsmiðlinum MySpace. Hugmyndin var sú að tengja saman svartar konur sem orðið höfðu fyrir kynferðisofbeldi og að nota samkennd til að styrkja konur og efla þær.
Mótmælin gáfu öðrum rödd
Leynd, spilling og valdníðsla eru hugtök sem einkenna orðræðu síðustu missera. Kerfið bregst hvað eftir annað en í krafti fjöldans þorir fólk að tjá sig um obeldi eða áreiti sem það hefði annars aldrei gert.
Fjöldi myllumerkja sem fá útbreiðslu eykst ár frá ári en að baki þeim eru þúsundir manneskja sem tjá sig, mótmæla og greina frá veruleika sínum sem áður þótti ekki viðeigandi að tala um. Þegar fólk stígur fram þá gefur það öðrum rödd og snjóboltaáhrifin sem fylgja í kjölfarið eru óneitanleg.
Gríðarleg fjölmiðlaumfjöllun einkenndi síðastliðið sumar eftir að upp komst að dæmdur kynferðisafbrotamaður, Robert Downey, hefði fengið uppreist æru á síðasta ári. Róbert Downey hlaut þriggja ára fangelsisdóm árið 2008 fyrir kynferðisbrot gegn fjórum barnungum stúlkum.
Eljan skilaði breytingum
Í kjölfarið mótmælti fólk á netinu undir myllumerkinu #höfumhátt og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál úrskurðaði þann 11. september síðastliðinn að dómsmálaráðuneytinu bæri að gefa upp allar þær upplýsingar sem tengdust máli Roberts. Í framhaldinu var upplýst að faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra hefði verið einn meðmælanda fyrir því að Hjalti Sigurjón Hauksson, dæmdur barnaníðingur, fengi uppreist æru. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra viðurkenndi að hafa upplýst Bjarna um aðkomu föður hans í júlí. Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu í kjölfarið eins og títtnefnt er orðið.
En hverju hefur myllumerkið #höfumhátt áorkað? Það sameinaði fólk í mótmælum sem á endanum felldi heila ríkisstjórn eftir að þolendur kynferðisofbeldis mótmæltu þeirri leynd sem fylgdi gögnum varðandi uppreist æru. Ljóst þykir að elja þeirra hafði þau áhrif að almenningur vaknaði og stjórnsýslan í leiðinni.
Kallað var eftir betra kerfi og endalokum þöggunar. Fólk tjáði sig og krafa þess snerist um aukna virðingu fyrir fólki. Að skila megi skömminni þangað sem hún eigi heima.