Flokkarnir ellefu hafa mismunandi sýn á hvernig bæta megi atvinnumál á Íslandi og hvernig nýtingu auðlinda eigi að vera háttað. Á vefsíðunni Betra Ísland er hægt að lesa helstu stefnumál flokkanna og taka þátt í rökræðum.
Tilgangurinn með síðunni er að tengja saman almenning og þingmenn, hvetja til góðrar rökræðu og að fá fólk til að tala saman og byggja upp traust. Þetta segir Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúa ses. en lesa má frekar um verkefnið í frétt Kjarnans um vefsíðuna.
Kjarninn tók saman helstu áherslumál í málaflokknum en allir flokkarnir nema einn hafa skilað inn stefnumálum á Betra Ísland. Hægt er að lesa um fleiri stefnumál og taka þátt í umræðunni á síðunni sjálfri.
Samfylkingin
Flokkurinn vill búa Íslendinga undir nýju tæknibyltinguna. Þau segja að fjölga þurfi vellaunuðum störfum hér á landi og auka fjölbreytni þeirra um allt land. Til þess þurfi að byggja atvinnulífið í enn frekara mæli á hugviti, listum og nýsköpun.
Sú þróun sé líka nauðsynleg til þess að bregðast við þeirri öru þróun í tækni sem nú á sér stað um heim allan og er að gjörbreyta þeim störfum sem mannshöndin og hugur kemur að. Lykilatriði í þeim undirbúningi sé stórsókn í skólakerfinu sem gerir Íslendingum kleift að vera virkir þátttakendur í þessari framþróun.
Alþýðufylkingin
Þau telja að fiskistofnar eigi að vera félagsleg eign. Veiðiheimildum eigi að úthluta til byggðarlaganna. Byggðarlög sem eru með sterka útgerð og fiskvinnslu eða eru nærri fiskimiðum eigi að njóta þess. Fiskveiðar á verksmiðju-skala, eins og togarar, eigi að borga fyrir veiðileyfin. Veiðar á handverks-skala, eins og trillur, eigi ekki að þurfa að borga neitt heldur veiða frjálst.
Alþýðufylkingin vill félagslega fjármálaþjónustu fyrir bændur. Þau segja að bóndi sem hefur búskap þurfi fyrst að kaupa jörðina sína, jafnvel þótt hann erfi hana þurfi hann að kaupa systkini sín út. Til þess ætti hann að fá vaxtalaus lán frá félagslega reknu fjármálakerfi. Sama þegar hann þurfi að endurnýja vélar hjá sér, húsakost eða annað sem krefst lántöku.
Einnig vilja þau rýmkum reglugerðir um sláturhús. Reglugerðir um sláturhús eru fengnar frá ESB í gegn um EES. Fylkingin álítur sem svo að þær eigi kannski við úti í hinni stóru Evrópu en á Íslandi þýði þær að sláturhús reki sig ekki nema þau séu stór, og landið beri ekki sérlega mörg stór sláturhús.
„Einu sinni var sláturhús í svotil hverri sveit. voru kannski frystihús mestan part ársins en nýtt sem sláturhús í nokkrar vikur á haustin. Í dag þarf að keyra með kindur o.fl. dýr í vögnum jafnvel 400 kílómetra eða meira. Nær þetta einhverri átt?“ spyr Alþýðufylkingin.
Miðflokkurinn
Þau ætla að lækka tryggingagjald til samræmis við atvinnustig því aukið svigrúm fyrirtækja komi öllu samfélaginu til góða.
„Við ætlum að lækka tryggingagjaldið enn meira fyrir fyrstu 10 starfsmenn fyrirtækis til að koma til móts við minni fyrirtæki og auðvelda nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum reksturinn.“
Viðreisn
Viðreisn segist ætla að tryggja þjóðareign í framkvæmd. „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar,“ segir í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þau telja að þessa hugmynd þurfi að tryggja í framkvæmd ef hún á ekki að vera orðin tóm. Það sé best gert með því að úthluta aflaheimildum til takmarkaðs tíma í senn. Tímabundna samninga megi endurnýja og taka gjald fyrir, til dæmis með uppboðum.
Framsóknarflokkurinn
Framsókn telur að neytendur eigi rétt á skýrum upplýsingum um uppruna, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif. Þau segjast vilja fylgja fast eftir reglum um upprunamerkingar og tryggja að þær nái til allra matvæla þar sem þau eru seld.
Tryggja þurfi nýsköpun og vöruþróun í landbúnaði til að fjölskyldurekstur í greininni verði hagstæður. Framsókn vill skapa aðstæður fyrir frekari framþróun við endurskoðun búvörusamninganna 2019.
Þau benda á að grafalvarleg staða sé í sauðfjárrækt vegna 30 prósent verðlækkunar á afurðum og lokunar markaða erlendis. Þau segjast vilja auka stuðning tímabundið til að hjálpa bændum að komast yfir þennan hjalla og lögleiða verkfæri til sveiflujöfnunar svo að þessi staða komi ekki upp aftur. Sauðfjárrækt sé undirstaða dreifðra byggða víða um land.
Jafnframt segja þau að ótrygg afhending raforku hringinn í kringum landið standi atvinnulífi fyrir þrifum, skapi mikinn kostnað, valdi óþægindum í heimilisrekstri og daglegu lífi fólks. Framsókn vill tryggja raforkuöryggi í landinu en þau segja að afhending raforku sé ein af lykilstoðum innviða í landinu og þjóni bæði almenningi og fyrirtækjum. Framsókn vill flýta þrífösun rafmagns um land allt.
Framsókn segist ekki vilja einkavæða Landsvirkjun. Almenningur eigi að njóta hins mikla arðs sem Landsvirkjun muni skila um ókomin ár. Landsvirkjun gegni lykilhlutverki í nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa til framtíðar til hagsældar fyrir íslenska þjóð.
Þau telja að vöxtur og viðgangur laxeldisins megi ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta íslenska laxastofnsins. Framsókn vill ná sátt um uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á Íslandi. Slík sátt náist aðeins með virku eftirliti og rannsóknum ásamt tryggu regluverki og vísindalegu áhættumati. Beita þurfi mótvægisaðgerðum sem lágmarka umhverfisáhrif af eldinu og taka mið af bestu fáanlegu tækni.
Tekjur af komugjaldi skuli nýta til verndunar náttúrunnar, nauðsynlegrar uppbyggingar innviða og til að bæta aðstöðu við ferðamannastaði.
Framsókn telur ótímabært að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Við núverandi aðstæður sé ótímabært að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan sé gjaldeyrisskapandi atvinnugrein og víðast hvar í neðra þrepi. Framsókn vill verja samkeppnishæfni greinarinnar með því að hverfa frá áformum um hækkun virðisaukaskatts.
Þau segja að vegna þess að sveitarfélög hafi ekki beinar tekjur af ferðamönnum þá vilji þau að gistináttagjald sé ákveðið hlutfall af verði gistingar. Eðlilegt sé að hvert sveitarfélag ráðstafi því gistináttagjaldi sem þar fellur til uppbyggingar á innviðum samfélagsins.
Vinstri græn
VG telur að aukin fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun sé grundvallaratriði til að tryggja velsæld samfélagsins til framtíðar. Meðal þess sem þarf að gera sé að búa betur að verkmenntaskólum og tryggja að fjármögnun íslenskra háskóla verði sambærileg við háskóla á Norðurlöndum.
Stórbæta þurfi aðstöðu ferðamanna og tryggja að ferðaþjónusta og náttúruvernd fari saman. Setja þurfi skýr markmið um vistvæna ferðaþjónustu og nýta enn betur möguleika á að tengja menningu og ferðaþjónustu. Tryggja þurfi eðlilegt hlutfall sveitarfélaga í tekjum af ferðaþjónustu.
Þau benda á að öflugur innlendur landbúnaður, með áherslu á nýsköpun og lífræna ræktun, sé undirstaða heilnæmrar og öruggrar matvælaframleiðslu í landinu þar sem hagur bænda og neytenda fari saman.
Meginmarkmiðið með sterkri sjávarútvegsstefnu sé sjálfbær nýting fiskistofnanna, ábyrg umgengni um lífríki hafsins, samhengi í byggðaþróun og síðast en ekki síst að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar.
Píratar
Píratar vilja að gerð verði langtímaáætlun um skipulag og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi með umhverfisvernd í fararbroddi allra ákvarðanna.
Skynsamlegur stuðningur gagnist bæði bændum og neytendum Endurskoðum núverandi stuðningskerfi til bænda, þar sem virkir bændur sem viðhafa viðurkenndar starfsaðferðir eigi rétt á grunnstuðningi sem tryggir afkomuöryggi bænda.
Til að atvinnulíf um allt land blómstri og allir njóti tækifæra þurfi að uppfæra tengingar. „Tengjum Ísland með þriggja fasa rafmagni, betri samgöngum milli landshorna og virkri nettengingu um allt land. Píratar skilja að góð nettenging er grunnstoð fyrir atvinnulíf um allt land,“ segir í áherslum þeirra.
Þau segja að uppbygging ferðaþjónustunnar krefjist skýrrar stefnumótunar, þar sem sjálfbærni og fagmennska eru höfð að leiðarljósi við uppbyggingu á þjónustu, samgöngum og aðbúnaði á viðkomustöðum ferðamanna. Tryggja þurfi viðhald og uppbyggingu á innviðum landsins samhliða auknum ferðamannastraumi og dreifa álagi af viðkvæmum svæðum. Aukinn hluti hagnaðar vegna ferðaþjónustu á hverjum stað verði eftir í nærsamfélaginu.
Píratar vilja að handfæraveiðar verði gerðar frjálsar og aðgengilegar þeim sem kjósa að stunda þær til atvinnu. Tilgangurinn sé að stuðla að nýliðun og sjálfbærri nýtingu sjávar ásamt kærkominni búbót fyrir gjörvallt landið. Kerfið verði einfaldað og sveigjanleiki aukinn til að auðvelda nýjum aðilum að stofna og reka útgerð. Handfæraveiðar skuli háðar skynsamlegum takmörkunum og fjölda leyfa á einstaklinga, lögaðila og eftir tegundum báta.
Íslenska ríkið, fyrir hönd þjóðarinnar, eigi að bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skuli leigugjaldið renna í ríkissjóð. Skuli öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar. Með þessum hætti væri jafnræði, nýliðun og sanngjarn arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlind hennar tryggður.
Þau vilja lækka tolla á matvæli og innflutningshömlur, aðrar en af heilbrigðisástæðum, í áföngum og fella að lokum niður.
Upphæðin sem fer í að niðurgreiða og styrkja landbúnaðinn verði skipt niður jafnt á bændur landsins og greidd til þeirra beint sem laun. Þessi greiðsla verði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um lágmarks framleiðslu per býli á ári. Meginatriðið sé að bændur geti haldið áfram matvælaframleiðslu, fengið laun og auk þess selt afurðir sínar án þess að hafa áhyggjur af afkomunni. Hluti af hugmyndinni er einnig að skoða möguleikann á að afnema tollvernd sem myndi þá hækka bændalaunin.
Björt framtíð
Björt framtíð segist vilja nýta betur þá orku sem Íslendingar vinni í stað þess að virkja.
Ísland gæti þannig orðið brautryðjandi í sjálfbærri og vistvænni fiskeldistækni.
Flokkur fólksins hefur ekki skilað inn stefnumálum sínum á síðuna og áherslur Dögunar og Sjálfstæðisflokksins vantar varðandi atvinnuvegi og auðlindir.
Tekið skal fram að þessi listi er ekki tæmandi. Á næstu dögum mun Kjarninn einnig vera með umfjöllun um önnur mál sem varða umhverfismál, dómstóla, stjórnarskrá og lýðræði.