Í lok nóvember fór markaðsvirði Tencent yfir fimm hundruð milljarða markaðsvirðisþröskuldinn og rétt tók fram úr Facebook, 523 milljarðir bandaríkjadalir á móti 522 milljarða markaðsvirði Facebook. Með því varð Tencent fyrsta kínverska tæknifyrirtækið í hópi fimm verðmætustu fyrirtækja í heimi eftir 127 prósent vöxt á þessu ári og fylgir netverslunarrisinn Alibaba fast á eftir. Þá er Tencent eina af fimm verðmætustu fyrirtækjum í heimi sem er skráð í Hong Kong-kauphöllinni.
Starfsemi Tencent er marghliða en þróun fyrirtækisins síðustu tvo áratugi frá stofnun þess er samofin gríðarlega hraðri efnahagsþróun, vaxtar millistéttar og snjallsímavæðingarinnar í Kína.
Úr eftirhermun í frumkvöðlastarfsemi
Lengi vel voru kínversk tæknifyrirtæki í hugum margra Vesturlandabúa ódýrar eftirhermur fágaðri keppinauta í Japan og Bandaríkjunum. Í mörg ár hefur raunin hins vegar verið önnur; kínversk fyrirtæki eru fremst í flokki þegar kemur að þróun ofurtölva, rafrænna greiðslu-, samskipta og samgönguforrita, og gervigreind.
Gott dæmi um þessa þróun er vöxtur samskiptaforritsins WeChat (eða Weixin) sem er í eigu Tencent. WeChat hefur tæpan milljarð notendur, að mestu leyti í Kína, og hefur tekist að vaxa á mun víðfeðmari hátt en sambærileg forrit á borð við WhatsApp, Facebook Messenger og iMessage. WeChat er ekki bara spjallforrit sem leyfir notendum að senda ókeypis skeyti, hringja ókeypis símtöl og þar fram eftir götunum þó að grunnurinn að vinsældum þess byggi á því og forvera WeChat, spjallborðsins QQ, sem enn má finna á flestum heimilistölvum í Kína.
WeChat hefur tekist það sem flest samskiptaforrit hafa átt erfitt með; að fá notendur til að tengja greiðslukort sín við forritið. Kínverskir neytendur notast meira við snjallsíma en tölvur þegar kemur að netnotkun og fer um helmingur vefverslunar fram í gegnum snjallsíma. Í gegnum WeChat er hægt að borga fyrir vörur og þjónustu jafnt á netinu sem í búðum, borga reikninga, panta leigubíl, panta mat, panta tíma hjá lækni, kaupa utanlandsferð og sinna mannauðsstjórnun svo eitthvað sé nefnt. Með öðrum orðum snertir forritið flesta fleti fólks í daglegu lífi.
Tencent fær stóran hluta tekna sinna frá sölu tölvuleikja - fyrirtækið er stærsti tölvuleikjaútgefandi í heimi ef miðað er við tekjur - en fjárfestar binda miklar vonir við að hægt sé að finna nýjar tekjulindir í "vistkerfi" fyrirtækisins því margir armar þess væru vannýttir eins og er. Samkvæmt fjárfestingabankanum Goldman Sachs mun netverslunargeirinn í Kína tvöfaldast frá núverandi stærð í 2020 og þá verða metinn á um 1,7 trilljónir Bandaríkjadali.
Hnattvæðing kínversku tæknirisanna
Tencent og Alibaba hafa keypt og fjárfest í aragrúa af fyrirtækjum víðs vegar um heim til þess að efla samkeppnisstöðu sína. Til að mynda keypti Tencent finnska tölvuleikjafyrirtækið Supercell á 8,6 milljarða bandaríkjadali í fyrra, á meðan að Alibaba hefur meðal annars keypt stærsta netverslunarfyrirtæki Suðaustur-Asíu, Lazada, á einn milljarð bandaríkjadali.
Þá hefur Tencent breytt nálgun sinni í samkeppni WeChat við Facebook og Apple. Fyrir örfáum árum var áhersla lögð á að komast inn í vestræna markaði með öflugri auglýsingaherferð með knattspyrnumanninn Lionel Messi sem andlit fyrirtækisins. Það hefur ekki tekist nægilega vel til og hefur Tencent nú í auknum mæli ákveðið að fjárfesta í mörkuðum þar sem ekkert eitt fyrirtæki hefur enn haslað sér völl fullkomlega, einna helst á Indlandi. Tencent hefur ásamt tævanska fyrirtækinu Foxconn fjárfest í indverska spjallforritinu Hike Messenger, og ásamt Microsoft og eBay í indverska netverslunarfyrirtækinu Flipkart.
Samkeppni tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum og Kína virðist vera sterkari en nokkru sinni fyrr og eru góðar hugmyndir og útfærslur teknar upp og hermdar eftir af öllum aðilum. Þó er aðdragandi núverandi stöðu að einhverju leyti afleiðing takmarkanna í aðgengi vestrænna tæknifyrirtækja að kínverska markaðnum í gegnum fjölmörg ár. Eftir því sem að vefsvæði á borð við Google, YouTube og Facebook hafa lengi verið bönnuð, eða þau ákveðið að hætta starfsemi sökum umfangsmikillar ritskoðunar í Kína, samhliða ríkrar áherslu ríkisins á uppbyggingu kínverska tæknigeirans, hafa kínversk fyrirtæki náð að festa sig í sessi eins og raun ber vitni.