Ekki er síður hátíðlegt á Þorláksmessu, degi fyrir jól, eins og á jólunum sjálfum þegar fólk er í óða önn við undirbúning og að hnýta síðustu slaufurnar á jólapakkana. Þeim sem enn eiga eftir að skreyta jólatréð gefst tækifæri til að ljúka við herlegheitin en margir njóta einnig jólaljósanna, ganga um bæinn og láta fjölskyldu og vini fá pakka. Og ekki má gleyma skötulyktinni sem angar á sumum heimilum og veitingastöðum þennan dag.
Þorláksmessa er dánardagur Þorláks Skálholtsbiskups Þórhallssonar, sem var útnefndur heilagur maður árið 1198, fimm árum eftir dauða sinn og er hann eini dýrlingur Íslendinga.
Prestaskortur á Íslandi
En hver var þessi Þorlákur sem messan er kennd við? Þorlákur helgi Þórhallsson fæddist árið 1133 og lést 1193, sextugur að aldri. Hann var frá Hlíðarenda í Fljótshlíð en hann hafði stundað nám í Odda. Hann varð prestur, aðeins 18 ára, en á þessum tíma var mikill prestaskortur í landinu. Seinna fór Þorlákur til náms í París og Englandi og var utan sex ár.
Hann kom þá heim og gerðist prestur á Kirkjubæ á Síðu. Þegar hann var búinn að vera þar í sex ár gerðist hann kanoki í fyrsta íslenska Ágústínaklaustrinu sem var stofnað 1168 og var hann orðinn ábóti þegar hann nokkrum árum síðar varð biskup í Skálholti.
Á alþingi 1174 var Þorlákur kosinn biskup í Skálholti í stað Klængs Þorsteinssonar. Þorlákur fór ekki utan til vígslu fyrr en 1177 og var vígður til biskups í Niðarósi 2. júlí 1178. Hann var biskup í Skálholti til dauðadags, 23. desember 1193.
Til er saga Þorláks biskups og þar kemur fram að honum líkaði afar vel að búa og starfa á Kirkjubæ og það var með trega að hann yfirgaf þann stað til að vinna að uppbyggingu klausturstarfsins í Þykkvabæ í Veri en þann stað þekkjum við í dag sem Þykkvabæjarklaustur í Álftaveri.
Fólk þótti gott að heita á Þorlák
Þorlákur Þórhallsson er eini helgi maðurinn sem Íslendingar eiga og var það Jóhannes Páll páfi II sem gaf út tilskipun 1985 þess efnis að hann hefði valið Þorlák helga verndardýrling Íslands. Í sögu Þorláks kemur fram að fólki þótti gott að heita á hann og hjálpaði hann mörgum.
Saga er af konu sem fékk augnaverk mikinn og hét á Þorlák og varð hún þegar heil. Í vatnavöxtum misstu menn kistur tvær fullar af verðmætum en þær heimtust þegar heitið var á Þorlák. Menn komust yfir ár eftir að hafa heitið á Þorlák og á alþingi fékk blindur maður sýn og daufur maður heyrn þegar lesnar voru upp Jarteinir Þorláks biskups. Þorlákur helgi var greinilega áhrifamikill og er kannski enn, ef menn heita á hann.
Efldi kirkjuvald á Íslandi
Þorlákur var mjög stjórnsamur í embætti og átti mikinn þátt í því að efla kirkjuvald á Íslandi. Kröfur hans um forræði kirknaeigna og tíunda og um almenna siðbót í hjónabandsmálum mættu mikilli mótspyrnu íslenskra höfðingja.
Barátta Þorláks biskups fyrir hreinlífi landsmanna og málstað kirkjunnar stuðlaði að því að hann komst í tölu dýrðarmanna. Fljótlega eftir lát hans fór orð af helgi hans og voru bein hans tekin úr jörðu 20. júlí 1198. Á alþingi 1199 voru fyrst lesnar upp kraftaverkasögur af Þorláki og dánardagur hans síðan lögtekinn messudagur. Þorláksmessa á sumar, upptökudagur beina hans, var lögtekinn 1237. Á kaþólskum tíma voru yfir 50 kirkjur helgaðar heilögum Þorláki og aðeins Pétri postula, Maríu og Ólafi helga voru helgaðar fleiri kirkjur en honum.
Jóhannes Páll páfi II útnefndi Þorlák verndardýrling Íslands með tilskipun 14. janúar 1985. Engin lýsing er til af Þorláki en þó hafa fleiri myndir verið gerðar af honum en öllum öðrum biskupum.
Þótti góður stjórnandi en málstirður
Þorlákur þótti góður stjórnandi. Hann var málstirður en laginn fésýslumaður og kunni vel að fara með vald. Rækti helgihald, var bæði reglusamur og hófsamur. Vín drakk hann í mannfagnaði öðrum til samlætis en aldrei sá á honum drykkju.
Snemma var því á borð borið að gott væri að heita á Þorlák til ölgerðar og víns. Hann kvæntist aldrei, bætti kirkju Klængs með steindu gleri, sem hann flutti heim eftir biskupsvígsluna. Hann átti í miklum deilum við veraldlega höfðingja, einkum uppeldisbróður sinn, Jón Loftsson.
Vísitasíuferðir Skálholtsbiskupa voru tímafrekar og erfiðar. Í hverri kirkju sem Þorlákur heimsótti söng hann fyrst lof heilagri þrenningu, eftir það lofaði hann þá helga menn eða konur sem kirkjan var helguð. Þá las hann Maríutíðir og lagðist loks á gólfið fyrir altari og bað lengi fyrir Guðs kristni.
Hann vígði kirkjur, blessaði fermingarbörn, sat veislur, leiðbeindi prestum, þótti spakur og ráðsnjall og litið var á hann sem helgan mann löngu fyrir andlátið.
Logaði á 130 vaxkertum
Þorlákur veiktist í vísitasíuferð og lést árið 1193 einni nóttu fyrir jólaaftan. Helgir menn á tólftu öld þóttu með sérstökum hætti farvegur Guðs náðar. Á dögum Þorláks væntu menn kraftaverka og sáu þau gerast.
Á fyrstu Þorlákstíðum logaði á 130 vaxkertum í kirkjunni sem viðstaddir höfðu borið með sér til virðingar við hinn látna. Árið 1198 var líkami Þorláks tekinn upp og kistunni komið fyrir í dómkirkjunni. Var þar á meðal gesta Guðmundur Arason, síðar nefndur góði, og stjórnaði hann söng.
Sagt var að af kraftaverkum Þorláks biskups „gafst mikið fé til staðarins í Skálholti af öllum löndum, er nafn hans var kunnugt, mest úr Noregi, mikið af Englandi, Svíþjóð, Danmörku, Gautlandi, Gotlandi, Skotlandi, Orkneyjum, Færeyjum, Katanesi, Hjaltlandi, Grænlandi en mest innan lands.“
Árið 1198 var samþykkt á alþingi að leyfa áheit á Þorlák biskup, sem helgan mann, og sama sumar voru bein hans tekin upp og skrínlögð 20. júlí. Er það síðan Þorláksmessa á sumri.
Sumarmessan hvarf úr tölu opinberra helgidaga
Kemur fram í bók Árna Björnssonar, Sögu jólanna, að sumarmessan hafi verið mun meiri kirkjuhátíð í katólskum sið en vetrarmessan því fólk hafi safnast skiljanlega fremur til Skálholts á miðju sumri en um hávetur. Eftir siðaskipti og afnám dýrlingatrúar hafi sumarmessan horfið úr tölu opinberra helgidaga en vetrarmessan haldið nokkru af sínum veraldlega sessi.
Enda þótt sjálf jólahátíðin hafi ekki hafist fyrr en á miðjum aftni á aðfangadag, var undirbúningur hennar á fullu skriði dagana áður. Þá hafi þurft að ljúka við að þrífa bæinn hátt og lágt, þvo rúmföt og nærföt. Þá voru og seinustu forvöð að steypa jólakertin.
Siður að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu
Alsiða var að sjóða jólahangiketið á Þorláksmessu og sumstaðar var fólki leyft að bragða á því eða hangiflotinu. Allt þetta tilstand olli því að fólk hlakkaði til Þorláksmessunnar líkt og sjálfra jólanna. Af þeim sökum var dagurinn fyrir Þorláksmessu sumstaðar kallaður hlakkandi, greinir Árni frá.
Jafnframt segir í bókinni að smáflís af hangiketi hafi þó ekki verið sá matur sem almennt einkenndi Þorláksmessu. „Auk sjálfs messudagsins var hún síðasti heili dagur jólaföstu og því tvöföld ástæða í katólskum sið til að neyta einna síst kjötmetis á þeim degi. Leifar af þeirri venju virðast hafa haldist eftir siðaskipti með þeim hætti að þá skyldi öðru fremur borða lélegan fisk.
Það hjálpaði ugglaust til að viðeigandi þótti að hafa viðbrigðin sem mest frá rýrum föstumat að kræsingum jólakvöldsins daginn eftir. Þar sem fiskur var ekki tiltækur sést getið um bjúgu úr mör og lungum eða stórgripabein. Af fiskmeti eru meðal annars nefndir megringar sem var magur harðfiskur soðinn, steinbítsroð, hákarl eða vel úldin ýsa. Til bragðbætis var þetta þó stundum hitað upp í hangiketssoðinu,“
Skata kæst og fín
Fyrir marga Íslendinga er engin Þorláksmessa án skötunnar. Lyktin af henni er stæk og virðist fólk annað hvort elska hana eða hata. Skata er kæst þannig að börðin eru tekin af, þau sett í ílát og látin standa í einhverjar vikur þar til fiskurinn er tilbúinn.
Kæsing er gömul aðferð við verkun matvæla þar sem maturinn er látinn gerjast og byrja að rotna. Á meðal þeirra matvæla sem algengast er að kæsa hér á landi er hákarl og skata en einnig þekkist að kæsa egg og eitthvað af fuglakjöti er líka kæst.
Árni segir í Sögu jólanna að á haustin veiðist skatan aðallega við Breiðafjörð og á Vestfjörðum en haustvertíðinni hafi einmitt lokið á Þorláksmessu. Á þeim slóðum höfðu menn því fengið meira en nægju sína af henni þegar kom að jólum og ekki nema eðlilegt að skata væri upphaflega hugsuð sem andstæða við jólakræsingarnar. Hún minni á lútfiskinn í Svíþjóð og vatnakarfann sem víða í Austur-Evrópu var og er hefðbundinn matur á aðfangadag.
„Svo fór þó með tímanum að fólk lærði að gera sér gott af skötunni og sumum fór að þykja hún ómissandi þáttur í jólahaldinu. Vestfirðingar bjuggu til stöppu úr kæstri skötu og mörfloti. Hún var síðan sneidd niður og stundum var reyktum bringukolli eða fuglsbringu hvolft yfir stöppudiskinn. Mörgum þótti lyktin af skötustöppunni fyrsta ákennilega merki þess að jólin væru að nálgast. Utan Vestfjarða var skatan sumstaðar elduð í hangiketssoðinu eða stöppuð saman við hangiflot,“ skrifar Árni.
Heimildir:
Saga jólanna e. Árna Björnsson
Visitklaustur.is
Skalholt.is