Danska smáeyjan Ærø, sunnan við Fjón flokkast undir það sem Danir nefna „udkantsdanmark“ sem mætti kannski á íslensku kalla jaðarsvæði. Íbúarnir eru rúmlega sex þúsund og lengst af voru landbúnaður og útgerð smábáta helsta lifibrauðið. Smábátaútgerðin hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár, atvinna dróst saman og margir, einkum ungt fólk, fluttu á brott.
Mörg jaðarsvæði glíma við þennan vanda, litlu svæðin eiga erfitt með að bjóða upp á margs konar þjónustu sem þó þykir sjálfsögð: skóla, heilbrigðisþjónustu, dægradvöl, umönnun aldraðra og margt fleira mætti nefna. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda og ýmiss konar aðgerðir virðist erfitt að snúa taflinu við og íbúum hinna dreifðu byggða fækkar ár frá ári. Fátt virðist fá stöðvað tímans rás í þessum efnum.
Aðgöngumiðinn að Evrópusambandinu
Fátt hefur verið meira í fréttum mörg undanfarin misseri en hinn stríði straumur fólks sem reynir að flýja stríð og ótryggt ástand í heimalöndum og leitar norður á bóginn, til landa Evrópusambandsins. Óskin um betra og öruggara líf er drifkraftur þessa fólks sem sér enga framtíð í heimalandinu, þótt draumur flestra sé líklega að geta búið í sínu föðurlandi og þurfa hvergi að fara. En að setjast að, fá landvistarleyfi, í einhverju Evrópusambandsríkjanna er ekki sjálfgefið.
Fjöldi þeirra sem óskar landvistarleyfis er meiri en mörg ESB löndin telja sig ráða við og málefni innflytjenda eru víðast hvar hitamál. Mörg ESB ríki hafa sett strangar reglur varðandi landvistarleyfi og fara ekki leynt með að þeim sé ætlað að takmarka fjölda þeirra sem „sleppa í gegnum nálaraugað“. En líkt og vatnið, sem ætíð finnur sér farveg, leitar mannfólkið leiða gegnum „nálaraugað.“
Gifting er aðgöngumiðinn
Innan ríkja Evrópusambandsins gilda þær reglur að ef kona eða maður frá landi utan ESB (t.d. Nígeríu) giftist manni eða konu frá einu aðildarríkja Evrópusambandsins (t.d. Danmörku) fær sú, eða sá, með nígeríska vegabréfið sjálfkrafa landvistarleyfi. Það leyfi gildir ekki bara í Danmörku, það gildir í öllum aðildarríkjum ESB.
Þær kröfur sem uppfylla þarf til að fá hjónavígslu eru hins vegar mjög mismunandi eftir ríkjum. Einna minnstar í Danmörku og þess vegna sækja margir þangað til að komast gegnum „nálarauga“ og til að láta pússa sig saman. Þótt hinar formlegu kröfur sé auðvelt að uppfylla fylgir giftingu óhjákvæmilega ýmislegt og það er þetta „ýmislega“ sem skapar atvinnu og tekjur.
Brúðkaupseyjan Ærø
Sveitarstjórnarmenn á Ærø voru meðal þeirra fyrstu í Danmörku til að koma auga á að „brúðkaupsbransinn“ (eins og einn þeirra komst að orði í viðtali) væri tekjulind. Sveitarfélagið Ærø eyddi talsverðu fé í að kynna eyjuna „brúðkaupseyjuna“, gerði meðal annars samkomulag við þýskar ferðaskrifstofur sem auglýsa sérstakar „giftingarferðir“ til Ærø. Ein slík heitir Speedwedding, sem verður að teljast lýsandi heiti fyrir starfsemina.
Forstjórinn sagði í viðtali við þýska Flensborgarblaðið að hjá Dönunum væri það einfaldlega svo einfalt að giftast. „Í sumum löndum krefjast yfirvöld ýmiss konar vottorða, t.d. fæðingarvottorðs, Danirnir vilja bara sjá vegabréfið og þar stendur náttúrlega fæðingardagurinn og ártalið,“ sagði ferðaskrifstofuforstjórinn kankvís á svip (að sögn blaðsins). Þegar hann var spurður hvort hann teldi að þau pör sem kaupa giftingarferð til Danmerkur væru ástfangin og staðráðin í að eyða ævinni saman sagðist forstjórinn barasta gera ráð fyrir því en annars kæmi sér það ekki við.
Búhnykkur
Fyrir lítið sveitarfélag eins og Ærø er það sannkallaður búhnykkur að svo margir skuli leggja leið sína þangað til að láta gefa sig saman. Í fyrra voru tæplega fimm þúsund pör gefin saman á Ærø. Flest pörin kaupa máltíðir og gistingu á eynni, það þarf í mörgum tilfellum að fara akandi til kirkjunnar, það þarf að borga prestinum, eða fógetanum, giftingarvottorðið kostar sitt, það þarf vígsluvotta og svo framvegis.
Á síðasta ári námu tekjur eyjarskeggja vegna giftinganna, varlega áætlað; um það bil 30 milljónum króna (um það bil 500 milljónir íslenskar) og það munar um minna. Mörg sveitarfélög í Danmörku líta Ærøbúana öfundaraugum og sum hafa lagt í talsverðan auglýsingakostnað til að ná athygli fólks í giftingarhugleiðingum. Ærø hefur þar, að minnsta kosti enn sem komið er, afgerandi forystu.
Málamyndagiftingar
Í langri umfjöllun dagblaðsins Berlingske var starfsmaður fógeta á Ærø spurður hvort reynt væri að ganga úr skugga um að hugur fylgdi máli hjá þeim pörum sem gefin væru saman. Starfsmaðurinn sagðist ekki hafa neitt leyfi til að reyna að kanna slíkt, ef vegabréfin sem fólk framvísaði væru gild gæti hann ekki neitað að gifta. Svar prests sem blaðamenn Berlingske ræddu við var á sömu leið. Blaðamennirnir, sem dvöldu í nokkra daga á Ærø, töldu augljóst að í sumum tilvikum, kannski mörgum, væru giftingarnar svokallaðar „málamyndagiftingar“ þar sem t.d. þýsk kona giftist manni frá Bangladess og fengi borgað fyrir.
Hjá dönsku lögreglunni fengu blaðamenn Berlingske staðfest að lögreglan hefði að undanförnu fengið margar ábendingar um að sumar þeirra hjónavígslna sem fram fara í Danmörku séu skipulagðar af einstaklingum sem stunda mansal. Hjá Evrópulögreglunni, Europol, kvað starfsmaður fastar að orði, þar á bæ hefðu menn vissu fyrir að glæpaflokkar hefðu notfært sér málamyndagiftingar, oftast í þeim tilgangi að neyða konur til vændis. Þegar þessi ummæli voru borin undir ferðamálafulltrúa Ærø svaraði hann því til að þótt prest eða fógeta grunaði eitthvað misjafnt væri ekkert hægt að gera. „Við kærum okkur ekki um að leggja glæpamönnum lið en það er löggjafans að búa um hnútana.“