Tilfinningar eru sammannlegar – en birtingarmyndirnar ólíkar
Breytilegt er hvernig fólk tekst á við tilfinningar sínar, gleði og sorgir. Þetta á jafnt við í dag og á landsnámsöld eins og sjá má á mismunandi hegðun í norrænum ritum og suður-evrópskum. Kjarninn spjallaði við Sif Ríkharðsdóttur en hún gaf nýlega út bók um tilfinningar í fornbókmenntum.
Ákveðnar tilfinningar eigum við öll sameiginlegar. Hins vegar er mismunandi hvernig við bregðumst við og hegðum okkur. Framkoma okkar er einnig menningarbundin. Þetta segir Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Hún hefur nú gefið út bókina Emotions in Old Norse Literature sem fjallar um tilfinningar í fornbókmenntum. Áður hafði hún gefið út bók sem fjallar um menningarstrauma á miðöldum og hvernig efni færist á milli menningarheima og tungumála.
Við tengjum við tilfinningar annarra
Eftir að hafa rannsakað tilfinningar í íslenskum bókmenntum annars vegar og frönskum hins vegar þá fannst Sif áhugavert að sjá hvernig fólk tengir við tilfinningar við lesturinn. Því þrátt fyrir að hugmyndir um þær séu gerólíkar því sem við þekkjum í dag þá tengir fólk engu að síður við þær.
„Við vitum um leið þegar einhver fer í uppnám eða þegar einhver verður reiður. Við vitum um leið hvaða tilfinningar er átt við þrátt fyrir að það sé ekki sagt berum orðum. Við tengjum við þær og finnum til með persónum, þannig að það er greinilegt að það er þráður sem rennur þarna í gegn sem tengir okkur saman,“ segir hún.
Hegðun mismunandi milli menningarsvæða
Sif segir að hegðun í þessum menningarheimum hafi verið mjög ólík á miðöldum. Í Rólandskviðu er riddurum til að mynda lýst sem mjög tilfinningaríkum og kemur fram í textunum að þeir gráti mikið, rífi í skegg sitt þegar þeir eru í uppnámi og falli í yfirlið. „Þeir falla jafnvel svo mikið í yfirlið að þeir falla af hesti sínum,“ segir hún og hlær.
Sif fór að velta því fyrir sér hvernig slíkt efni væri þýtt yfir á forníslensku og hvort ákveðinn skilningur hefði verið á mismunandi hegðun yfir höfuð. Hún segist hafa komist að því að svo sé.
Það sem var athyglisvert, að mati Sifjar, er að í þýðingum á Rólandskviðu á miðri 13. öld hafi verið reynt að forðast alla tilfinningalega hegðun. Róland er ein af frægustu hetjum sem tilheyrði ríki Karla Magnúsar á 8. og 9. öld. Frásagnir af honum voru skrifaðar á elleftu fram á þrettándu öld en þýddar á norrænu um miðja þrettándu öldina.
Sif segir að í þýðingunum sé mjög mikið dregið úr tilfinningunum. Í kviðunni er ýjað að því til dæmis að Róland hafi fallið af hesti sínum vegna þess að honum hafi orðið svo mikið um þegar vinur hans dó. Í norrænu útgáfunni sé aftur á móti tekið fram að hann hafi fallið í yfirlið vegna blóðmissis. „Þá var komin líkamleg útskýring á þessu,“ bendir hún á. Þannig séu orsakanirnar ólíkar eftir menningarheimum.
Sögurnar varðveittar á Íslandi
Þessar sögur eru þýddar yfir á norrænu í Noregi en þær berast mjög fljótt til Íslands. Sif segir að jafnvel hafi Íslendingar verið að þýða þær í Noregi við hirð Hákonar konungs. Þannig hafi þær borist tiltölulega hratt til Íslands en þær hafa verið varðveittar meira og minna alfarið á Íslandi.
Sif bendir á að ekki sé vitað hvenær breytingar hafi orðið á þýðingunum en nokkrir möguleikar komi til greina. Hugsanlega hafi þær orðið þegar textarnir voru endurritaðir eða við þýðinguna sjálfa. Erfitt sé að segja til um það en líklega sé um hvort tveggja að ræða.
Hefð á Íslandi fyrir lítilli tilfinningasemi
Á sama tíma á Íslandi var verið að skrifa Íslendingasögurnar þannig að hefðin er til staðar, að sögn Sifjar. „Við erum með hefð fyrir eddukvæðum og mörgum öðrum sögum. Í mörgum þessara bókmenntategunda þá er lagt upp úr því að sýna ekki tilfinningar. Þannig að þegar verið er að yfirfæra þessar bókmenntir þá sjáum við annars vegar að verið er að yfirfæra hegðunarmynstur inn í bókmenntahefð og hins vegar er verið að aðlaga það sem er verið að þýða að ákveðnu hegðunarmynstri sem er ríkjandi í íslenskum bókmenntum,“ segir hún.
Þegar efni er þýtt þá þarf að gera það þannig að það sé skiljanlegt nýjum áheyrendahópi eða lesendum. Sif segir að á miðöldum hafi þýðingar verið litnar öðrum augum en í dag. Þá var enginn höfundaréttur og allt önnur hugsun var við lýði um eignarrétt og hvað væri upprunalegt. Hún segir að þýðingar hafi einfaldlega verið annars konar leið til að skrifa. „Þá var litið á það sem ákveðinn máta til að skrifa, hvort sem þú varst að þýða milli tungumála eða endurvinna efni,“ bætir hún við.
Getum öll tengt við tilfinningar
„Þetta er eitthvað sem við getum öll tengt við,“ segir Sif um tilfinningar. Allir viti hvað tilfinningar eru enda erum við öll með þær. „Það að við getum verið að lesa texta frá tólftu, þrettándu og fjórtándu öld, frá menningarheimi sem er svona gjörólíkur okkar eigin, og við tengjum við textann í gegnum eigin tilfinningar. Það er að segja við lesum um ákveðnar persónur og um það sem þær eru að upplifa og við finnum til samkenndar þegar þær eru í uppnámi eða eru sorgmæddar. Þannig að tengsl okkar við textann byggja á tilfinningum,“ segir hún. Og að einhverju leyti varpi fólk eigin tilfinningum yfir á textann sem það les.
Eftir því sem Sif rannsakaði efnið meira þá komst hún að því að meira var um tilfinningar í fornbókmenntum Íslendinga en virtist við fyrstu sýn. „Það er einfaldlega hvernig þeim er miðlað sem er mjög ólíkt en til dæmis í fornfrönskum bókmenntum,“ segir hún.
Reynt að gæta hlutleysis í Íslendingasögunum
En af hverju er þessi munur milli norrænna tilfinninga og þeirra suðurfrá? Sif segir að ákveðin tilfinningaleg hegðun tengist greinilega Íslendingasögum, eddukvæðum og riddarasögum. Þannig hafi höfundar og þá væntanlega lesendur gert sér grein fyrir því, að einhverju leyti út frá tilfinningahegðun, hvort þeir væru að lesa Íslendingasögu eða riddarasögu.
Sögumenn forðast í Íslendingasögunum að lýsa því sem á sér stað innra með persónunum. Þannig reyna þeir alltaf að vera hlutlausir, að sögn Sifjar. Hún segir að atburðum sé lýst og því sem persónur voru að gera en ekki því hvernig þeim leið eða hvað þær voru að hugsa. „Þannig að við sjáum að mikið af dramatískum atburðum er lýst eins og þeir gerast. Án þess að nota tilfinningaorð og án þess að líta inn í huga persónanna,“ segir hún.
Þannig að við sjáum að mikið af dramatískum atburðum er lýst eins og þeir gerast. Án þess að nota tilfinningaorð og án þess að líta inn í huga persónanna.
Tilfinningum sé þannig gjarnan miðlað í gegnum til dæmis líkamann. „Við sjáum til að mynda að þegar Egill missir son sinn þá er því lýst hvernig hann ríður að sjónum til að sækja líkið og hvernig hann ríður með það heim. En því er ekki lýst hvað hann var að hugsa eða hvað hann sagði eða hvernig hann brást við. Og það eina sem við sjáum er að líkami hans belgist svo út að föt hans rifna,“ segir Sif. Þannig upplifum við í raun tilfinningarótið sem á sér stað innra með honum en því sé lýst í gegnum þessa smávægilegu athugasemd.
Tilfinningum lýst undir rós
Við sjáum líka í Brennu-Njáls sögu að þegar Bergþóra, móðir Skarphéðins, skammast í honum þá rétt hreytir hann í hana á móti en svo fær hann rauða díla í andlitið. Þetta gefur til kynna, að mati Sifjar, að hann sé í uppnámi, þó hann segi ekki neitt eða þó textinn þurfi ekki að greina sérstaklega frá því.
Þannig sé tilfinningum lýst mikið undir rós. Lesendur og áhorfendur þurfi að vera þátttakendur í að túlka textann og ákveðin bókmenntafræðileg tákn til þess að skilja að hér sé um að ræða tilfinningar.
Sif telur að með þessu móti komist skilaboðin til lesenda. „Já, alveg áreiðanlega. Því annars værum við ekki að lesa þessa texta,“ segir hún. „Og í raun held ég að einhverju leyti að þetta sé ástæðan fyrir því að þessir textar séu svona vinsælir ennþá. Vegna þess að þeir eru svo opnir að við verðum virk í að túlka textana og yfirfæra okkar tilfinningar og hugmyndir á textana.“
Ekki karlmannlegt að sýna tilfinningar
Endurspegla þessi skrif sýn á tilfinningar á þessum tíma? Sif segir að oft sé talað um „köldu“ Íslendingana og að ákveðinn mismunur sé á milli menninga. Það sé spurning að hvaða leyti og hvort þessir textar séu lýsandi fyrir ákveðna hegðun sem hafi verið menningarbundin. Eða hvort þeir séu jafnvel ákveðin forskrift að ákveðinni hegðun. Að fólk hafi tileinkað sér hegðun vegna þess að að henni hafi verið lýst með þessum hætti í bókmenntunum.
Hugsanlega sé þetta einhvers konar samspil. „En við vitum það náttúrulega ekki. Við vitum svo sem ekki hvernig fólk upplifði tilfinningar né hvernig það hagaði sér. Eina sem við höfum í raun eru bókmenntir og aðra texta eða minjar þar sem fjallað er um tilfinningar,“ bendir hún á.
Við vitum svo sem ekki hvernig fólk upplifði tilfinningar né hvernig það hagaði sér. Eina sem við höfum í raun eru bókmenntir og aðra texta eða minjar þar sem fjallað er um tilfinningar.
Sif segir að augljóslega sé tilfinningahegðun bundin við karlmennskuhugmyndir á þessum tíma, eins og bersýnilega sést í Íslendingasögunum. Þannig sé augljóst að karlmennska sé tengd við það að sýna ekki tilfinningar. Í Frakklandi hafi þessu verið öðruvísi farið. Þar hafi tilfinningahegðun verið beintengd við það að vera af hærri stéttum; að vera aristókrati. Þannig að það að geta sýnt miklar tilfinningar en þá á Sif við tilfinningar eins og að harma dauða einhvers sem karlmaður, hafi ekki verið ókarlmannlegt heldur sýndi það beinlínis að hann hafi verið af æðri stéttum.
Þannig gegni tilfinningar ákveðnu samfélagslegu og pólitísku hlutverki í Frakklandi á miðöldum sem þær gegndu ekki hér á landi.
Einungis nýlega farið að rannsaka tilfinningar
Ákveðin sprengja hefur orðið, að mati Sifjar, síðastliðin tíu ár í rannsóknum á tilfinningum innan margra sviða. Hún segir að sjálft hugtakið, tilfinning, verði í raun ekki til fyrr en á 19. öld innan sálfræðinnar. Þá hafi verið litið allt öðruvísi á tilfinningar, til að mynda var talið á miðöldum að líkamar fólks væru samsettir úr vessum og að þeir hafi stjórnað hegðun fólks og tilfinningum. Ef of mikið var af einum vessa eða of lítið af öðrum þá stýrði það andlegri og líkamlegri heilsu og tilfinningum.
Hún segir að nú nýlega sé farið að rannsaka tilfinningar í sagnfræði og hvernig þær hafa breyst í gegnum söguna. Miðaldir séu nýjasta sviðið.
En eru Íslendingasögurnar svipaðar hvað þetta varðar? Sif segir að þær séu mjög fjölbreyttar þannig að tilfinningum sé lýst með mismunandi hætti. Í sumum sé þeim lýst meira, til dæmis í svokölluðum ástarsögunum en þær fjalli að sjálfsögðu meira um tilfinningar.
Hjá konum höfum við fjölbreyttara svið yfir hvað sé leyfilegt í tilfinningahegðun. Þá er í lagi að vera sú sem grætur eða sem harmar dauða ástvina yfir í það að bæla tilfinningar rétt eins og karlmenn.
Staðaðar birtingarmyndir
Ákveðnar staðlaðar birtingarmyndir tilfinninga virðast birtast í Íslendingasögunum, að sögn Sifjar. Karlar vilji þannig bæla þær niður og brjótist þær oft út í líkamlegum myndum þar sem þeir ráða ekki almennilega við þær. „Hjá konum höfum við fjölbreyttara svið yfir hvað sé leyfilegt í tilfinningahegðun. Þá er í lagi að vera sú sem grætur eða sem harmar dauða ástvina yfir í það að bæla tilfinningar rétt eins og karlmenn,“ bendir hún á.
Þá sé konum gjarnan lýst með það markmið að yfirfæra tilfinningar yfir í hvöt til hefnda. Tilfinningar eru taugafræðileg og vöðvaviðbrögð, líkamleg og andleg viðbrögð. Ef hvötin á sér aftur á móti stað mörgum árum seinna þá séu tilfinningarnar ekki viðbragð, heldur einhvers konar útfærsla eða leikrit, þar sem verið sé að nota tilfinningalega hegðun sem leið til þess að hvetja til hefnda.
Fólk á miðöldum með minni einstaklingsvitund
Sif er hvergi nærri hætt að rannsaka tilfinningar í bókmenntum. „Þetta er svo óplægður akur enn og af nógu að taka í norrænum bókmenntum. Þetta er í raun bara smá sýnishorn,“ segir hún. Enn sé heill heimur sem hægt er að kanna betur.
Maður sér þetta fyrir sér eins og rými sem hann er að róta í til að lýsa tilfinningunni. Hann verður næstum því lamaður.
Það kom Sif á óvart við rannsóknir á tilfinningum að þær virðast tengjast í ríkum mæli sjálfsvitund. Hún segir að sjálfsmeðvitund sé ástand sem við tengjum betur við í dag, þ.e. við erum meðvituð um okkur sjálf. Á miðöldum hafi fólk lifað í hópasamfélagi og að það hafi ekki haft sömu hugmyndir um sjálft sig og í dag.
Meira leyfilegt í ljóðum
Í Egils sögu og í fleiri Íslendingasögum er jafnan forðast að lýsa tilfinningum, segir Sif. „Hins vegar höfum við ljóðin og þau virðast vera vettvangur til að miðla í raun þessu innra lífi. Það sem er ekki leyft í prósatextanum það verður leyfilegt í ljóðunum,“ segir hún. Egill tjái tilfinningar sínar í ljóðum sínum og segir Sif að með því fáist mjög athyglisverð innsýn inn í innra líf hans.
Lýsingin á því hvernig hann fer í gegnum sorgina er kunnugleg í dag; hvernig hann lýsir því að erfitt sé að beita tungunni til að móta orðin og hvernig hann verði að leita í huganum að orðunum. „Maður sér þetta fyrir sér eins og rými sem hann er að róta í til að lýsa tilfinningunni. Hann verður næstum því lamaður,“ segir hún og bætir því við að þetta lýsi í raun mjög vel sorg eins og þekkist í dag. Og að einhverju leyti eins og lýst er í taugalíffræði og hvað eigi sér stað við sorgarviðbrögð.
„Það sem Egill síðan gerir – að tjá sig um þennan missi í gegnum það að semja ljóðið Sonatorrek – svipar í raun mikið til þess sem við sjáum í handbókum sálfræðinnar um sorgarferli og um það hvernig eigi að takast á við sorgarferli,“ segir Sif.
Lesa
-
2. janúar 2023Höfundur Matador þáttanna látin – „Maður er ekkert merkilegur af því maður er gamall“
-
2. janúar 2023„Stjórna erlendar streymisveitur bráðum innlendri kvikmyndaframleiðslu?“
-
24. desember 2022Ólöf Arnalds safnar fyrir útgáfu fimmtu breiðskífu sinnar
-
20. desember 2022Hundrað ára afmæli Cafe Fodkold
-
18. október 2022Þekkt en þó óþekkt
-
9. október 2022Segja niðurskurð á framlögum færa fagsjóði listgreina á sama stað og þeir voru 2014
-
30. september 2022Staða menningarmála: Fornleifar
-
23. ágúst 2022Endurkoma smurbrauðsins
-
17. ágúst 2022Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
-
16. ágúst 2022Ævintýrið um Carmen rúllurnar