Bergþóra Heiða Guðmundsdóttir gekk í gegnum missi en eiginmaður hennar féll frá þegar hún var 39 ára gömul. Þau áttu þrjú börn saman á umönnunaraldri og komst hún fljótlega að því að börn hennar stæðu ekki jafnfætis öðrum eftir áfallið.
Barnalífeyrir í staðinn fyrir meðlag
Þegar maki fellur frá hefur ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun. Stofnunin hefur heimild til að greiða dánarbætur í 6 mánuði og heimilt er að framlengja greiðslur ef hlutaðeigandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri í að minnsta kosti 12 mánuði til viðbótar, en þó aldrei lengur en í 48 mánuði. Einungis er framlengt í 12 mánuði í senn og síðan þarf að sækja um aftur.
Jafnframt hefur foreldrið rétt á greiðslu barnalífeyris vegna andláts foreldris sem kemur í stað meðlags frá hinu foreldrinu. Og ef foreldri er með fleiri en tvö börn á framfæri er hægt að sækja um mæðra- eða feðralaun. Ef eftirlifandi foreldri er lífeyrisþegi getur það átt rétt á heimilisuppbót.
Ójafnræði gagnvart börnunum
Bergþóra Heiða, eða Heiða eins og hún er gjarnan kölluð, er lögfræðingur að mennt. Hún gagnrýnir að ekki sé nægilega vel tekið tillit til aðstæðna fólks sem missir maka sína. Hún segir að lögin séu ekki sanngjörn hvað þetta varðar og bendir á að þau valdi ójafnræði milli barna sem eiga báða foreldra á lífi og þeirra sem misst hafa sína.
Fólk í minni stöðu er aftur á móti ekki með baráttuandann.
Hún segir fólki bregði þegar það heyri sögu hennar og þegar hún útskýri hvernig kerfið virkar. Hún veit til þess að erindi hafi verið send til alþingismanna og að reynt hafi verið að vekja athygli á þessum málum.
„Fólk í minni stöðu er aftur á móti ekki með baráttuandann,“ segir Heiða. Ekki sé auðvelt að berjast fyrir réttindum þegar aðstæður eru svo erfiðar og sorgin mikil.
Verra en að vera einstætt foreldri
Samkvæmt lögunum er ekki hægt að fá auka meðlag frá ríkinu ef þungt er í ári og enginn greiðir á móti einstæðu foreldri fyrir allt sem til fellur. Heiða tekur sérstaklega fram að hún sé að hugsa um börn foreldra sem eru látin sérstaklega. Það séu þau sem þetta kemur langverst niður á.
Þegar Heiða missti manninn sinn voru þau að koma yfir sig þaki og byggja sig upp fjárhagslega en þau dvöldu erlendis á þessum tíma. Þau áttu, eins og fram hefur komið, þrjú börn á umönnunaraldri sem gerði róðurinn erfiðan fyrir Heiðu. Hún segir að þrátt fyrir að hennar saga sé að sumu leyti frábrugðin þar sem hún bjó ekki á Íslandi þegar hún varð ekkja þá hafi hún samt sem áður byrjað að leita réttar síns fljótt eftir áfallið.
Hún komst að því að ríkið verður meðlagsgreiðandi við fráfall maka en slíkar greiðslur kallast barnalífeyrir. Ekki sé aftur á móti hægt að fá tvöfaldan barnalífeyri í tilfelli ekkna eða ekkla og enn fremur komi ríkið ekki til móts við fólk í sérstökum tilfellum þar sem fjárútláta er þörf.
Engin sérstök framlög
Heiða segir að erfitt geti reynst að fjármagna einsömul tannréttingar, fermingar, bílpróf og þess háttar útgjöld en ólíkt einstæðum foreldrum þá getur hún ekki sótt um sérstök framlög þegar það á við. Henni finnst að með þessu sé verið að mismuna börnum og að Tryggingastofnun túlki lögin þannig að þau eigi ekki rétt á frekari framlögum. Henni finnst mikið jafnréttismál að allir skulu vera jafnir fyrir lögum en þegar börn ekkna eða ekkja eiga í hlut þá sé það ekki raunin.
Þannig sé verið að mismuna börnunum og hegna þeim fyrir aðstæður þeirra. Foreldri í þessum aðstæðum geri iðulega sitt besta en fái mjög takmarkaða hjálp frá ríkinu. Aðeins þeir heppnu með gott bakland og há laun geti staðið undir þessum mikla kostnaði sem fylgir því að sjá fyrir börnum.
Heiða veit um dæmi þess að fólk, sem misst hefur maka sína, hafi orðið veikt og þurft að treysta á örorku í framhaldinu og að peningaáhyggjur hafi reynst erfiðar eftir sorg og missi.
Ekki komið nægilega á móts við fólk
Af þessum ástæðum segist Heiða vilja segja sína sögu; að ekki sé komið nægilega á móts við fólk í þessum aðstæðum og að misræmi sé milli réttinda barna. „Þetta gengur ekki, sum börn líða skort út af þessu lagalega misræmi,“ segir hún.
Þetta gengur ekki, sum börn líða skort út af þessu lagalega misræmi.
Hún bendir á að í annarri grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir að öll börn skuli njóta réttinda án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.
„Það vantar vitundarvakningu. Er ekki nóg að þessi börn hafi misst svo óskaplega mikið og þurfi síðan í ofanálag að takast á við þennan ójöfnuð?“ spyr Heiða. Áhrif foreldramissis eru augljóslega gríðarlega mikil og telur hún að samfélaginu beri að hjálpa þeim sem lenda í slæmum aðstæðum, að ríkinu beri að styðja við fólk sem á við sárt að binda og ekki síst börn þeirra.