Dómur verður kveðinn upp í máli Glitnir HoldCo gegn Útgáfufélagi Stundarinnar og Reykjavik Media, sem er í eigu Jóhannesar Kr. Kristjánssonar, í hádeginu í dag. Forsaga málsins er sú að sýslumaðurinn í Reykjavík féllst á lögbannskröfu þrotabús Glitnis þann 16. október síðastliðinn með þeim afleiðingum að bann var sett á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media, sem byggir á gögnum innan úr fallna bankanum.
Glitnir HoldCo ehf., eignarhaldsfélag utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, fór fram á það þann 10. október við sýslumannsembættið á höfuðborgarsvæðinu að lögbann verði lagt við birtingu Stundarinnar og Reykjavík Media ehf. á fréttum eða annarri umfjöllun sem byggja á eða eru unnar úr gögnum er varða einkamálefni verulegs fjölda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis. Á meðal þeirra sem fjallað hefur verið ítarlega um er Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Glitnir Holdco taldi að upplýsingarnar væru bundnar bankaleynd.
Glitnir hafði ráðið breska lögmannsstofu til að gæta hagsmuna sinna vegna umfjöllunar The Guardian sem byggir á sömu gögnum. Glitnir hafði jafnframt tilkynnt umrætt brot til Fjármálaeftirlitsins sem fer með rannsókn málsins.
Héraðssaksóknari hætti aftur á móti rannsókn á leka úr bankanum þann 18. janúar síðastliðinn. Fjármálaeftirlitið kærði lekann til embættisins eftir að fréttir fóru að birtast sem byggja á gögnum úr lekanum. Milli 20 og 30 manns voru teknir til skýrslutöku meðan á rannsókn málsins stóð en það skilaði engum upplýsingum um hver hefði dreift upplýsingunum úr Glitni né hver eða hverjir hefðu komið gögnum til fjölmiðla. Málið var því fellt niður.
Viðskipti Bjarna til umfjöllunar
Umfjöllun Stundarinnar, Reykjavik Media og The Guardian hófst með því að sagt var frá því 6. október síðastliðinn að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði selt allar eignir sínar í Sjóði 9 hjá Glitni, fyrir um 50 milljónir króna, dagana fyrir bankahrunið. Í desember árið 2016 hafði Bjarni verið spurður í sjónvarpsþætti á Stöð 2 út í eign sína í Sjóði 9 og hvort hann hefði selt. Þá svaraði hann því til að hann hefði ekki átt neitt sem skipti máli í sjóðnum.
Í umfjöllun Stundarinnar hefur einnig verið fjallað um tveggja milljarða króna kúlulán sem eignarhaldsfélag Bjarna og náinna fjölskyldumeðlima hans fengu til að kaupa allt hlutafé í N1, 50 milljón króna kúlulánaskuld hans sem var færð yfir á skuldsett eignarhaldsfélag Bjarna sem var síðan slitið og um að vitnisburður Bjarna í Vafningsmálinu svokallaða stangist á við þau gögn sem Stundin, Reykjavik Media og The Guardian hafa undir höndum. Þá hefur Stundin einnig greint frá því að gögnin sem miðillinn hafi undir höndum sýni að Bjarni hafi verið virkur þátttakandi í viðskiptum aflandsfélagsins Falson, sem hann átti hlut í.
Umfjöllun ætti erindi til almennings
Jón Trausti Reynisson, annar ritstjóra Stundarinnar, var afar ósáttur við lögbannið. Hann sagði að lögbannið hefði þær afleiðingar að Stundin mætti ekki vinna fréttir upp úr gögnunum og gæti því ekki birt frekari fréttir um mál, þar til réttaróvissu um heimild til þess hefði verið eytt. Ljóst var að niðurstaða myndi ekki fást í málið fyrr en eftir alþingiskosningarnar í október.
Jón Trausti sagði að öllum kröfum Glitnis Holdco hefði verið kröftuglega mótmælt af Stundinni, enda ætti umfjöllunin erindi við almenning. Hún fjallaði um samspil viðskipta og stjórnmála í aðdraganda hrunsins.
Hann sagði enn fremur að aðgerðir eins og þessar „hættulegar í lýðræðinu“, og hann taldi að dómstólar myndu ekki fallast á þessa heftun á tjáningarfrelsinu þegar á reynir.
Glitnir HoldCo höfðaði síðan þann 23. október síðastliðinn staðfestingarmál vegna lögbannsins og var fyrirtakan í málinu tæpum tveimur mánuðum síðar. Aðalmeðferðin fór fram í byrjun janúar á þessu ári.
Glitni væri tilkynnt ef birting stæði til
Eftir umfjöllun Kjarnans sem einnig var unnin upp úr Glitnisgögnunum barst Kjarnanum bréf þann 3. nóvember síðastliðinn frá Ólafi Eiríkssyni, lögmanni hjá LOGOS lögmannsstofu, fyrir hönd Glitnis HoldCo. Í bréfinu var því haldið fram að óheimilt væri að birta gögn eða upplýsingar úr gögnum sem Kjarninn byggði á. Ólafur sagði í bréfinu að umbjóðandi hans teldi birtingu fréttaskýringarinnar vera ólögmæta og brjóta í bága við þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki.
Í fréttaskýringunni kom fram að hún væri unnin upp úr skýrslu KPMG, skýrslu Ernst & Young, skýrslum frá Kroll og samantekt frá LEX. Allt væru þetta aðilar sem unnu fyrir skilanefnd Glitnis við að rannsaka fjármagnsflutninga og viðskipti innan hans í kringum bankahrunið.
Í bréfi lögmannsins var bent á að fyrir lægi lögbann, sem sett var á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum frá Glitni í október, við birtingu gagna og upplýsinga er byggja á gögnum sem bundin væru trúnaði.
Í ljósi þessa fór LOGOS, fyrir hönd Glitnis HoldCo, fram á við Kjarnann að hann veitti í fyrsta lagi upplýsingar um hvort frekari birting úr umræddum gögnum væri fyrirhuguð. Hér var átt við allar fréttir sem byggja á upplýsingum og/eða gögnum frá Glitni eða úr kerfum þess. Í öðru lagi var þess farið á leit við Kjarnann að ef frekari birting úr framangreindum gögnum væri fyrirhuguð um umbjóðanda þeirra, Glitni, væri tilkynnt fyrir fram með tveggja sólarhringa fyrirvara að slík birting stæði til.
Í niðurlagi bréfsins sagði að Glitnir HoldCo áskilji sér rétt til að grípa til allra lögmæta aðgerða vegna birtingar Kjarnans á umræddum trúnaðarupplýsingum.