Páskar eru á næsta leiti og margir Íslendingar þegar farnir í páskafrí enda skólakrakkar komnir í frí. Páskaeggjaát og öll herlegheitin eru framundan. Sunnudagurinn fyrir páska er nefndur pálmasunnudagur og markar hann upphaf dymbilvikunnar. Jesús er sagður hafa komið til Jerúsalem á pálmasunnudegi, ríðandi á asna. Mannfjöldinn fagnaði með pálmagreinum og stráum af ökrum og breiddi auk þess yfirhafnir sínar á veginn. En af hverju er þessi síðasta vika fyrir páska kölluð dymbilvika?
Þessi vika hefur gengið undir ýmsum nöfnum, þar á meðal dymbildagar, dymbildagavika, dymbildægur, dymbilvika, efsta vika, helga vika, helgu dagar, kyrravika, píningarvika og páskavika.
Á Vísindavefnum kemur fram að orðið dymbildagar finnist í rituðu máli frá því laust eftir 1300 en jafnframt segir að orðið geti að sjálfsögðu verið mun eldra. „Merkilegt er að það kemur ekki fyrir í íslenskum lögbókum, hvorki í Kristinna laga þætti Grágásar, sem var lögtekinn á Alþingi um 1130, né Kristinrétti hinum nýja (1275), og ekki heldur í Jónsbók (1281). Gæti það bent til þess að þetta hafi í upphafi verið alþýðuorð sem ekki komst í opinber skjöl fyrr en tiltölulega seint. Orðið dymbilvika sést ekki í íslensku fyrr en í kirkjuordinansíu Kristjáns 3. frá 1537, sem Gissur biskup Einarsson þýddi árið 1541,“ segir á vefnum.
Margar tilgátur um orðið „dymbill“
Erfitt reynist að finna skýringar á því af hverju dymbilvika er kölluð þessu sérstaka nafni. Hvaðan kemur nafnið? Á Vísindavefnum segir að talið sé að nafngiftin sé dregin af einhverju áhaldi, sem kallað var dymbill, og notað var í kaþólskum sið við guðsþjónustur undir lok sjöviknaföstu, enda finnist hlutir með þessu heiti í upptalningu kirkjugripa í máldögum.
Þessi dymbilorð þekkjast einnig í gömlum norskum og sænskum textum, sem og í hjaltlensku, en eiga sér enga einhlíta hliðstæðu í öðrum málum. Í umræddri viku deyfðu menn öll ljós og hringdu ekki klukkum.
Nokkrar tilgátur hafa komið fram um hvað þessi dymbill var. Í fyrsta lagi gæti verið um að ræða klukkukólf sem var vafinn tuskum í því skyni að dempa hljóminn. Í öðru lagi trékólf sem settur var í kirkjuklukku í stað málmkólfs. Í þriðja lagi barefli til að lemja kirkjuklukkurnar utan og í fjórða lagi ljósastjaka sem stóð á kirkjugólfi og var notaður í stað ljósahjálms. Í fimmta lagi áhald til að slökkva á kertum, samanber þýska orðið Dümpfel og í sjötta lagi einhvers konar handskellu úr tré sem notuð var í stað málmbjöllu við guðsþjónustur á umræddum dögum.
Dymbill=trétól?
Greinarhöfundur Vísindavefsins bendir enn fremur á að Halldór Laxness hafi talið dymbil vera hljóðdeyfi á strengjahljóðfæri. Ásgeir Blöndal Magnússon greinir frá í Orðsifjabók sinni að orðið dymbill sé oftast talið skylt orðinu dumbur, sem þýðir að vera þögull, mállaus, hljóðdaufur, en gæti eins verið í ætt við demba og dumpa, og eiginleg merking sé þá slagkólfur.
Árni Björnsson þjóðháttafræðingur, sem skrifar um málið í bók sinni Sögu daganna, fullyrðir að afskrifa megi þrjár fyrstu hugmyndirnar sem nefndar eru hér að ofan. Hann skrifar að ekki hafi verið eins illframkvæmanlegt að vefja kólfinn og skipta um kólf, en báðar þessar tilgátur eru út í hött þegar af þeirri ástæðu að klukkurnar áttu að steinþegja á þessum dögum. Sama hafi verið að segja um þá aðferð að berja klukkur utan eins og alþekkt er til dæmis á Gotlandi. Slíkt hafi víðar verið gert við jarðarfarir, en ekki í dymbilviku, alltjent ekki á miðöldum. Auk þess sé ekki vitað til þess að neitt sérstakt áhald hafi verið notað til þess arna, heldur venjuleg barefli úr tré eða hnöttóttir steinar sem tuskum var stundum vafið um til að deyfa hljóðið.
Hann ritar jafnframt að hvort sem orðið dymbill sé hljóðlíking við latneska orðið tinnibulum eða skylt orðinu dumbur, verður að teljast líklegast að það eigi upphaflega við um trétól þau sem notuð voru í staðinn fyrir klukkur og málmbjöllur á sorgardögum kirkjunnar vegna píslarsögu Jesú Krists. Hin hljómrænu umskipti í guðsþjónustunni á þessum dögum hafi ætíð þótt mjög áhrifamikil og eftirminnileg og hefðu hæglega getað gefið dögunum alþýðlegt nafn.
„Eflaust hefur einnig þótt eftirminnilegt í guðsþjónustunni á dymbildögum þegar slökkt var á stórum kertastjökum með sérstakri viðhöfn. Við siðaskiptin hurfu tréskellurnar vitaskuld með öllu, en ljósastjakarnir hljóta að hafa verið nýttir eftir sem áður, hvort sem haldið var áfram að slökkva á þeim eftir gömlum kúnstarinnar reglum eður ei. Það er því engan veginn útilokað að nafnið dymbill hafi færst af tréskellum yfir á ljósastjaka,“ skrifar Árni.
En hvert sem svarið er þá halda Íslendingar áfram að kalla vikuna fyrir páska dymbilviku. Við tökum þannig við nýjum siðum og samlögum við þá eldri – og borðum súkkulaði.
Gleðilega páska!
Heimildir: Vísindavefurinn