Hvað?
Mikil spenna hefur myndast í baklandi stéttarfélaganna í landinu á undanförnum misserum.
Verkalýðsforystan kaus að segja ekki upp kjarasamningum sínum við Samtök atvinnulífsins þann 28. febrúar, en samningarnir munu því gilda til áramóta. Kosning þessa efnis á formannafundi ASÍ var tvísýn og greiddu meðal annars fulltrúar tveggja stærstu aðildarfélaganna, VR og Eflingar, atkvæði með því að slíta samningum ASÍ við SA. Þar með var ljóst að fulltrúar meirihluta félagsmanna ASÍ væru á þeirri skoðun. Hins vegar þurfti einnig meirihluta atkvæða formanna þeirra aðildarfélaga sem atkvæðarétt áttu á fundinum. Meirihluti þeirra kaus að halda samingunum til streitu.
Í janúar hafði Sólveig Anna Jónsdóttir tilkynnt um framboð sitt til formanns embættis í Eflingu stéttarfélagi, en innan vébanda félagsins eru 28 þúsund félagsmenn. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, studdi Sólveigu Önnu til forystu, en hann sigraði með yfirburðuðum í formannskosningu í mars í fyrra og hlaut tæplega 63 prósent atkvæða. Sólveig Anna hafði betur í forystukjöri Eflingar í byrjun mars með rúmlega 80 prósent atkvæða. Hún hefur talað fyrir því að verkalýðshreyfingin taki róttækum breytingum, og að fólkið á gólfinu, sem lægstu launin hafi, fái meira vægi í baráttu hennar, auk þess sem breytt verði um stefnu þegar komið að lífeyris- og húsnæðismálum.
Ragnar hefur ítrekað lýst vantrausti á verkalýðsforystuna í heild sinni og sérstaklega Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ. Ragnar hefur ekki tekið sæti í miðstjórn ASÍ og hyggst ekki gera meðan Gylfi er það við stjórn. Með kjöri Sólveigar Önnu hitnar enn frekar undir Gylfa sem þarf að sækja sér endurnýjað umboð hjá Alþýðusambandinu í haust, hyggist hann halda áfram störfum.
Af hverju?
Forsendur kjarasamninga eru brostnar að mati verkalýðsforystunnar. Um það virðist hún einhuga, þó mismunandi skoðanir séu uppi um hvernig réttast hafi verið að bregðast við því. Í yfirlýsingu frá miðstjórn ASÍ frá því 21. febrúar kom fram að forsendur um að launastefna kjarasamninganna hafi verið stefnumarkandi hafi ekki gengið eftir. Nokkrum dögum fyrr hafði ASÍ sent frá sér yfirlýsingu vegna málefna kjararáðs. Starfshópur á vegum forsætisráðherra hafði komist að þeirri niðurstöðu að kjararáð hafi í ákvörðunum sínum um laun æðstu stjórnenda ríkisins, farið langt umfam viðmið rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda frá 2015, ákvarðanir þess verið óskýrar, ógagnsæjar og ekki samræmst fyrirmælum í lögum um störf ráðsins. Starfshópurinn varð sammála um að leggja kjararáð niður og leiðrétta útafkeyrslu þess, en ASÍ vildi að það yrði gert strax.
Mikil óánægja hefur verið með störf kjararáðs og ákvarðanir þess. Allt frá því kjararáð birti úrskurð um laun ráðamanna þjóðarinnar, á kjördag 29. október í fyrra, hefur verið mikill titringur á vinnumarkaði. Strax í kjölfar þess að úrskurðurinn lá fyrir afsalaði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sér hækkuninni, en þingmenn eða ráðherrar gerðu það ekki. Hafa laun ráðherra hækkað um 64 prósent, ráðuneytisstjóra um 49 prósent og laun þingmanna um 48 prósent svo dæmi séu tekin.
Lögum um kjararáð var breytt undir lok árs 2016 og tóku þær breytingar gildi um mitt síðasta ár. Tilgangur frumvarpsins var að fækka verulega þeim sem kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör og færa ákvarðanir um slíkt annað. Á meðal þeirra sem fluttust þá undan kjararáði voru fjölmargir forstjórar fyrirtækja í opinberri eigu.
Í lok febrúar bárust af því fréttir að forstjóri Landsvirkjunar hafi til dæmis fengið 39 prósenta launahækkun á síðasta ári. Kjarninn greindi frá því í kjölfarið að aðrir ríkisforstjórar hefðu einnig hækkað umtalsvert í launum á síðasta ári, þar á meðal Ingimundur Sigurpálsson sem fékk 17,6 prósenta launahækkun á síðasta ári. Laun Birnu Einarsdóttur bankastjóra Íslandsbanka hafa hækkað um 140 prósent frá því kjararáð úrskurðaði um laun hennar áður en lögin tóku gildi. Þann 26. mars var ársreikningur RÚV birtur þar sem fram kom að mánaðarleg heildarlaun og þóknanir Magnúsar Geirs Þórðarsonar hafi hækkað umtalsvert á milli ára og voru heildarlaun hans í fyrra 22,9 milljónir króna.
Hver varð niðurstaðan?
Ljóst að þær tugprósenta launahækkanir sem æðstu ráðamenn hafa fengið með úrskurðum kjararáðs, þingmenn, ráðherrar og aðrir háttsettir embættismenn, verða ekki teknar til baka með lögum. Starfshópur um kjararáð taldi það ekki færa leið að setja lög um afturvirka endurskoðun ákvarðana ráðsins sem hefðu í för með sér endurgreiðslukröfu.
Hækkanir kjararáðs, auk tugprósenta hækkana sem ríkisforstjórar og stjórnir ríkisfyrirtækja hafa tekið til sín, verða stefnumarkandi inn í komandi kjaraviðræður. Þrátt fyrir að kjarasamningarnir haldi fram til áramóta er ljóst að það er harður kjaravetur í uppsiglingu. Verkalýðsleiðtogarnir virðast allir sammála um að líkur séu á að verkfallsvopninu verði beitt óhikað verði ekki komið til móts við kröfur þeirra um launahækkanir til samræmis við aðra hópa í samfélaginu.