Vladimír Pútín Rússlandsforseti vill láta rannsaka eiturefnaárásina á Skripal-feðginin ítarlega. Þetta kom fram í máli forsetans á fundi hans í Tyrklandi í gær, en þar fundaði hann með Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta.
Pútín var staddur í Tyrklandi til að fylgjast með fyrstu skóflustungu við byggingu fyrsta kjarnorkuvers Tyrkja, en það verður reist af rússnesku ríkisorkufyrirtæki. Kostnaðurinn við uppbygginguna er talinn nema um 20 milljörðum dollara.
Skripal feðginin, þau Sergej og Yulia fundust meðvitundarlaus á bakk í Sailsbury í Bretlandi þann 4. mars. Yulia er komin til meðvitundar en ástand föður hennar telst enn alvarlegt.
Liggur ekki fyrir hvaðan eitrið kemur
Í máli Pútíns um eiturefnaárásina kom fram að hann vildi láta rannsaka hana ítarlega og gerði kröfur um að Rússar fái að taka þátt í rannsókninni.
Pútín sagði 20 þjóðir geta framleitt þetta tiltekna taugaeitur sem notað var til að eitra fyrir Skripal feðginunum, en talsmaður breskrar rannsóknarstofu sem hefur rannsakað eitrið hefur greint frá því að ekki hafi verið hægt að staðfesta að það komi frá Rússlandi.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lýsti því yfir á mánudag að hann teldi mögulegt að Bretar standi að baki árásinni, til að beina athygli frá vandamálum landsins vegna útgöngu þess úr Evrópusambandinu. Hann hefur sagt samskipti Rússa við Bandaríkin í frosti og neitar með öllu að þeir beri nokkra ábyrgð á árásinni.
Yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar, Sergei Naryshkin, sagði í dag að árásin væri hlægileg ögrun breskra og bandarískra öryggissveita. Hann gerði athugasemdir við að fjöldi Evrópuríkja ákvæði að fylgja stjórnvöldum í Bretlandi og Bandaríkjunum í blindni og spyrja engra spurninga.
Vilja að Bretar biðjist afsökunar
Rússnesk stjórnvöld hafa krafist afsökunarbeiðni frá Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og ríkisstjórnar hennar, fyrir að hafa tengt Pútín við árásina. Segja þau fíflaganginn hafa gengið of langt. Kenningin um að Rússar hafi staðið að baki árásinni hafi ekki verið staðfest og muni ekki verða staðfest.
Bretar hafa sagt mjög líklegt að Rússar beri ábyrgð á árásinni og sagði Boris Johnson utanríkisráðherra Bretlands að yfirgnæfandi líkur væru á að Pútín sjálfur hafi fyrirskipað árásina.
Fjölmörg vestræn ríki hafa vísað rússneskum erindrekum og diplómötum úr landi. Þar á meðal Bretland og Bandaríkin, en auk þess Þýskaland, Frakkland, Pólland, Danmörk, Ítalía, Holland, Kanada ásamt fleirum. Samtals hefur 130 rússneskum erindrekum verið vísað úr landi víða um heim.
Ríkisstjórn Íslands ákvað að taka þátt í samstilltum aðgerðum vestrænna ríkja vegna árásarinnar með því að fresta öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum um óákveðinn tíma. Af þeirri ákvörðun leiðir að íslenskri ráðamenn munu ekki sækja heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar.
Rússar brugðust við þessum aðgerðum með því að vísa bandarískum og völdum evrópskum erindrekum úr landi. Þar á meðal starfsmenn ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í St. Pétursborg en henni verður lokað.