Þórarinn Tyrfingsson og Eyþór Jónsson, læknir á Sjúkrahúsinu Vogi, segja að hugarfarsbreyting hafi orðið gagnvart neyslu á lyfseðilskyldum lyfjum hér á landi. Á opnum fundi um morfínsskyld lyf í vikunni sagði Eyþór að að fikt sé ekki með sama hætti og áður. Þeir sem voru að neyta „læknadóps“ hér áður fyrr voru bara „pillusjúklingar“ en í dag sé þessi neysla meira aðlaðandi í augum ungs fólks. Þórarinn sagði að unga fólkið sé að færa sig frá kannabisneyslu yfir í neyslu á morfínskyldum lyfjum. Aukin mis- og ofnotkun á þessum lyfjum sést hins vegar ekki á almennum sölutölum.
Kjarninn birti í síðustu viku fréttaskýringu um hert eftirlit með ávísunum ávana- og fíknilyfja. Reglugerð um ávana- og fíknilyf mun taka gildi þann 1. júlí næstkomandi. Áður en reglugerðin tekur gildi mun þó starfshópur sem skipaður var af heilbrigðisráðherra skila niðurstöðum um hvernig megi sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja. En hvað mun hert eftirlit hafa í för með sér?
Rannsóknir á fíkn og hverjir neyta fíkniefna benda til þess að þeir eru oft með undirliggjandi vandamál og sjúkdóma. Í rannsókn frá árinu 2010 á sprautufíklum á Íslandi kemur fram að 75 prósent af þeim sem svöruðu (200) greindu frá örorku og takmarkaðri reynslu af vinnumarkaði. Meirihlutinn hafði aðeins lokið grunnskólaprófi og 60 prósent verið handteknir eða ákærðir fyrir vímuefnabrot. Langflestir þjást af andlegum veikindum svo sem þunglyndi eða kvíða.
Þrennskonar hópar
Eyþór sagði á fundinum að það séu þrennskonar hópar af fólki sem háð er ópíóðum, eða morfínskyldum lyfjum. Fyrst eru þeir sem hafa fengið lyfin ávísað vegna mikilla verkja, annað hvort vegna uppskurðar eða af slysförum. Vegna langra veikinda og mikilla verkja verður einstaklingurinn háður, án þess að vilja það. Þessir sjúklingar hafa ekki undirliggjandi geðsjúkdóma eða eru í miklum félagslegum vanda.
Munurinn á ávana- og fíknilyfjum og öðrum eiturlyfjum liggur í því að neyslan á ávana- og fíknilyfjum er hættulegri því meiri hætta er á ofskömmtun. Því er unga fólkið sem ekki hefur langa sögu um neyslu í meiri hættu á því að taka of stóran skammt og deyja.
Við höfum áður séð svipað ástand sem nú er uppi á teningnum. Í kringum aldamótin fór neysla á ópíóðum að aukast en þá var contalgin mest notaðasta lyfið. Þá jókst innritun á sjúklingum yngri en 19 ára á sjúkrahúsinu Vogi sem og greining á fíkn í ópíóða. Eftir að Embætti landlæknis hóf notkun á lyfjaávísanagátt minnkaði neyslan og sömuleiðis innritun á sjúklingum með fíkn í ópíóða á sjúkrahúsið Vog. Síðan oxycondone, eða „oxy“ kom á markað á Íslandi árið 2012 hefur mis- og ofnotkun á því lyfi aukist. Samhliða því hefur innritunum á sjúklingum með fíkn í ópíóða aukist á Vogi.
Frá árinu 1990 hafa 1092 einstaklingar greinst með fíkn í ópíóða á Vogi. Af þeim eru 189 látnir eða 17 prósent. Árið 2016 létust sex einstaklingar á aldrinum 20-24 ára á Íslandi, fimm af þeim höfðu verið vistaðir á Vogi um skeið. Fimmtán einstaklingar á aldrinum 30-34 ára létust árið 2016 og höfði tíu af þeim verið vistaðir á Vogi á einhverjum tímapunkti.
Lyfjastofnun heldur utan um tölur um sölur frá heildsala til apóteka. Heildarfjöldi dagskammta af oxycondone hefur aukist töluvert frá því það kom á markað 2012. Heildarfjöldi dagskammta af fentanyl hefur einnig aukist frá árinu 2014
Í fréttum hefur mikið verið rætt um mótefnið naloxone, en það getur bjargað einstaklingi frá dauðsfalli ef hann hefur tekið inn of stóran skammt af ópíóðum. Naloxone er ekki fáanlegt á Íslandi án lyfseðils og enn sem komið er er lyfið aðeins í sprautuformi. Í Skandinavíu er lyfið fáanlegt sem nefúði og ekki er þörf á lyfseðli.
Margir hafa talað fyrir því að helstu viðbragðsaðilar fái lyfið í formi nefúða, en nauðsynlegt er að koma einstaklingi undir læknishendur sem fyrst ef grunur leikur á ofskömmtun.
Áhrif herts eftirlits
Þegar lyfjaávísanagagnagrunnurinn var tekinn í notkun árið 2006 minnkaði innlögnum á Vogi. Nú hefur innlögnum hins vegar farið aftur fjölgandi.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að erfitt sé að meta að svo stöddu hvaða áhrif hert eftirlit mun koma til með að hafa.
„Það má líkja þessu við rennandi vatn sem finnur sér ávallt auðveldustu leiðina og/eða einhverja leið. Í dag vitum við að þessi lyf eru bæði endurseld frá fólki sem þau hafa verið ávísuð á sem og með innflutningi. Hins vegar má alltaf búast við því að ef aukið eftirlit fer fram á einum stað þá þurfum við að vera viðbúnir því að önnur leið verði meira notuð svo sem innflutningur á þessum lyfjum.“ segir Margeir.
Helgi Gunnlaugsson prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands segir að ópíóða vandinn virðist ná til fjölbreyttari hóps en þeirra sem sækja í „hefðbundnari“ eiturlyf. Í Bandaríkjunum á vandinn rætur sínar að rekja til þess að aðgengi að þessum sterku ávanabindandi lyfjum er óhindrað. Lyfjafyrirtæki og heilbrigðisstofnanir hafa talsvert svigrúm til að ávísa ávana- og fíknilyfjum í miklu mæli. Margir sjúklingar verða því háðir án þess að ætla sér það og enda því á köldum klaka hins ólöglega markaðar. Þegar búið er að leysa út þau lyf sem ávísað var fyrir, stendur því sjúklingurinn frammi fyrir því að þurfa að kaupa sér efni á ólöglegum markaði. Þá er engin trygging fyrir því hvaða efni rata í hendurnar á honum enda er ekkert eftirlit eða neytendavernd með þeim efnum sem seld eru á svörtum markaði.
Helgi að það skipti miklu máli hvernig lyfjum af þessu tagi er ávísað og deilt út í samfélaginu. Hert eftirlit og regluverk er af hinu góða og hér á landi þurfum við að efla lyfjaávísanagagnagrunninn og eftirlit með ávísunum, án þess þó að þrengja að þeim sem raunverulega þurfa lyfin.
Framboð og eftirspurn
Helgi er í hópi norrænna fræðimanna sem rannsakar dópsölu á netinu. Hann segir að hér á landi séu starfræktir fjöldi lokaðra hópa á netinu sem ekki er erfitt að komast inn í. Þar er hægt að nálgast ávana- og fíknilyf og er því aðgengi tiltölulega auðvelt fyrir þá sem hafa áhuga á. Hert eftirlit leiðir af sér minna framboð, minna framboð gæti því hugsanlega leitt af sér hærra verð. Hærra verð gæti gert líf fíkla jafnvel enn erfiðara en það er í dag. Þess vegna skiptir miklu mál, segir Helgi, að fá lyfjamálin öll upp á yfirborðið og setja stíft regluverk utan um alla meðferð og neyslu ávana- og fíkniefna í stað þess að fela þau í skúmaskotum í samfélagsins.
„Málin eru samt alls ekki einföld. Samt hlýtur að vera farsælla að glíma við vandann í dagsljósi á mannúðlegan hátt en að ýta honum í myrka undirheimana þar sem ofbeldi í anda Al Capone á bannárunum í Bandaríkjunum er ætíð á næsta leiti eins og tíðar fréttir af handrukkun á Íslandi bera iðulega með sér.“ segir Helgi.