Facebook birti hnapp á kjördag þann 28. október á síðasta ári, þegar kosið var til Alþingis. Tilgangur hnappsins var sá að notendur samskiptamiðilsins gætu látið fylgjendur sína vita að þeir hefðu greitt atkvæði í kosningunum sem og að nálgast upplýsingar um kjörstaði.
Í umfjöllun sem fréttasíðan The Guardian tók saman um hnappinn og notkun hans á alþjóðavísu er meðal annars rætt við þær Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur og Elfu Ýr Gylfadóttur, sem báðar starfa fyrir Fjölmiðlanefnd. Þær fylgdust báðar með hnappnum á kosningadaginn og tóku eftir því að hann birtist einungis sumum en ekki öðrum og oft með mismunandi hætti. Stundum var hnappurinn efst á Facebook-síðu notandans og stundum fyrir miðju.
Elfa, sem er framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, hafði meðal annars samband við Kristínu Edwald, formann landskjörstjórnar, sem fer með veigamikið hlutverk við undirbúning og framkvæmd kosninga til Alþingis sem vinna að rannsóknum á kosningamálum um kosningafræði samkvæmt vefsíðu stofnunarinnar. Hún hafði ekkert heyrt um málið. Hið sama átti við um dómsmálaráðuneytið sem fer með umsjón og framkvæmd almannakosninga á Íslandi.
„Allir“ á Íslandi fengu hnappinn
Í samtali við Kjarnann segist Elfa hafa leitað skýringa hjá Facebook. Eftir dúk og disk í febrúar á þessu ári náði hún sambandi við Janne Elvelid, fulltrúa Facebook í Stokkhólmi í Svíþjóð sem sér einnig um Ísland fyrir hönd fyrirtækisins. Janne sagði að Facebook hefði sent hnappinn til allra notenda á Íslandi – sem augljóslega passar illa við það sem Elfa sá sjálf á kjördag. En Janne sagði að hægt væri að stilla Facebook þannig að slíkt sæist ekki, því réðu notendur sjálfir og að Facebook gæti ekki rakið hverjir sjái hnappinn.
Elfa segir að Janne hafi ekki getað gefið henni neinar tölulegar upplýsingar. Facebook annað hvort búi ekki yfir þeim né séu þær aðgengilegar þannig að hann geti gefið þær upp. Hann sagðist hafa rætt hnappinn símleiðis við „einhvern“ í dómsmálaráðuneytinu til að hafa það á hreinu að hnappurinn myndi örugglega birtast á réttum degi, það er að segja á kjördag og að tengillinn myndi örugglega vísa á rétta síðu. En í dómsmálaráðuneytinu kannast enginn við neitt. Elfa segist meðal annars hafa rætt málið við hóp sem vinnur að endurskoðun kosningalöggjafarinnar, þar á meðal hvort setja eigi reglur um auglýsingar á samfélagsmiðlum. Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins í þeim hópi kom af fjöllum þegar Elfa nefndi hnappinn við hana.
Facebook fundaði með stjórnmálaflokkunum
Facebook er ekki með starfstöð á Íslandi. Janne og annar starfsmaður fyrirtækisins komu hins vegar til landsins fyrir kosningarnar til fundar við stjórnmálaflokkana til að kynna þeim með hvaða hætti þeir gætu komist í sem best samband við mögulega kjósendur í gegnum samfélagsmiðilinn. Fundurinn var haldinn í þinghúsinu á vegum Sjálfstæðisflokksins og aðeins útvaldir fengu að sitja fundinn gegn framvísun skilríkja.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir Þórður Þórarinsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins að fulltrúar Facebook hafi komið til landsins í aðdraganda kosninganna árið 2016. Haft hafi verið samband við fulltrúa margra eða flestra framboða til að bjóða upp á kynningu á notkunarmöguleikum Facebook í félagsstarfi auk auglýsingamöguleika sem fyrirtækið bjóði upp á. „Þegar boðað var til kosninga árið 2017 spurðumst við fyrir um hvort Facebook myndi efna til sams konar kynningar. Facebook játti því og óskaði eftir því að við myndum boða fulltrúa stjórnmálaflokka sem áttu fulltrúa á Alþingi á fundinn. Það var auðsótt mál,“ segir Þórður. Fundarboð hafi verið sent til Bjartrar framtíðar, Framsóknarflokks, Pírata, Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Vinstri grænna og var flokkunum boðið að senda 2 til 3 fulltrúa. Fulltrúar flestra eða allra flokka hafi mætt til fundarins.
Ekkert var minnst á hnappinn á fundinum.
Getur haft áhrif á kosningaþátttöku
Hnappurinn var fyrst notaður í Bandaríkjunum árið 2008 og síðan aftur árið 2010 og 2012. Í niðurstöðu rannsóknar Facebook á áhrifum hnappsins kemur fram að árið 2010 hafi um 340 þúsund kjósendur bæst við vegna hnappsins. Niðurstaðan var í grunninn: Hnappurinn virkar.
Elfa segir ómögulegt að vita hvaða íslensku kjósendur fengu að sjá hnappinn og hverjir ekki. Eins hvernig þeir voru valdir. „Þeir sem eru skráðir á Facebook eru auðvitað ákveðið þýði sem hægt er að nálgast með þessum hætti,“ segir Elfa. Þeir sem sjái hnappinn séu líklegri til að fara og kjósa og slíkt geti skekkt niðurstöðu kosninga.
Jón Steindór Valdimarsson, fulltrúi Viðreisnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem fer með kosningamál segir eðlilegt að hið opinbera beiti sér fyrir nákvæmari svörum frá Facebook þegar kemur að hnappnum og öðrum aðferðum sem fyrirtækið hafi eða kunni að hafa til að ná til kjósenda. „Stundum hættir manni til að líta á Facebook einfaldlega sem part af umhverfinu. En þetta er auðvitað fyrirtæki sem er að selja okkur. Maður þarf að spyrja sig, er eðlilegt að fyrirtæki sé að vekja athygli fólks á kosningum. Af hverju fá ekki allir þessi skilaboð? Er hugsanlegt að það séu einhverjir þarna að baki sem stjórna því hverjir fá það?“ spyr Jón Steindór. Hann bætir því við að þó jákvætt sé að hvetja fólk til að nota atkvæðarétt sinn þá þurfi að tryggja að slíkt sé gert með hlutlægum og almennum hætti og setur spurningamerki við að stór alþjóðleg fyrirtæki geri slíkt, án fullvissu um að þar sé að baki einhver samfélagsleg ábyrgð frekar en fjárhagslegur ávinningur.
Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, segir að málið snúist ekki síður um að kosningar eiga að vera leynilegar. „Það á ekki að koma neinum við hver er búinn að kjósa. Þannig er hægt að hafa áhrif á niðurstöðurnar til dæmis með því að senda viðbótarhvatningu á einhvern hóp sem ekki hefur skilað sér á kjörstað. Það skiptir máli hver er hinumegin að fylgjast með þessu. Hver er að fá upplýsingarnar um það hverjir eru búnir að kjósa?“
Kosningahnappurinn tilraun
Ljóst er að tilraunin sem Facebook er að framkvæma með kosningahnappnum víða um heim, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í Skotlandi, Ítalíu, Þýskalandi og í Brexit-kosningunum, mun halda áfram.
Traust notenda til Facebook hefur minnkað eftir að upp komst um notkun greiningarfyrirtækisins Cambridge Analytica á persónuupplýsingum um 90 milljónir notenda samfélagsmiðlsins, sem nýttar voru til að hafa áhrif á kosningahegðun bæði í Brexit-kosningunum sem og bandarísku forsetakosningunum.
Elfa hefur áhyggjur af tilgangi kosningahnappsins. Er hann fjárhagslegur eða samfélagslegur? Er hægt að misnota hann? Spurningar þingmannanna eru einnig réttmætar. Hver er ástæðan fyrir því að sumir sjá hnappinn en aðrir ekki? Getur verið að hægt sé eða hægt verði í framtíðinni að kaupa aðgang að hnappnum? Hefur það verið gert nú þegar? Mun flokkur sem nýtur til dæmis mikils fylgis meðal eldra fólks, eins og til að mynda Sjálfstæðisflokkurinn, geta fjárfest í því hjá Facebook að hnappurinn birtist hjá eldri notendum miðilsins. Eða munu Píratar, sem oft njóta mikils fylgist hjá ungu fólki, geta gert hið sama hjá því þýði?
Þessar vangaveltur fulltrúa Fjölmiðlanefndar og Alþings eru réttmætar. Og þeim verður að leita svara við hjá Facebook. Fyrirtækið svaraði ekki fyrirspurn Kjarnans um málið þegar eftir því var leitað.