Meðalaldur háskólanema á Íslandi er hæstur á í Evrópu og íslenskir háskólanemar eru lengur að klára háskólanám en háskólanemar í Evrópu. Þetta kemur fram í skýrslu EUROSTUDENT sem kom út í apríl.
Stúdentar hafa ítrekað bent á að kjör þeirra eru ekki nógu góð og að samanborið við Norðurlöndin standi íslenskir stúdentar höllum fæti. Framfærslulán til stúdenta frá Lánastofnun íslenskra innlendra námsmanna er um 92 prósent af grunnframfærsluviðmiðum, en kemur til með að hækka upp í 96 prósent fyrir skólaárið 2018-2019.
Frítekjumarkið er 930 þúsund krónur en það hefur staðið í stað frá árinu 2014 en á þessum árum hafa laun í landinu hækkað um 38% að meðaltali. Engir afslætti standa stúdentum til boða ef þeir klára nám á tilskyldum tíma með viðunandi einkunn. Til þess að fá það lán sem stúdent sótti um þarf hún að ná þeim einingum sem hún sótti um, og að lágmarki 22 einingar ef hún ætlar að fá eitthvað greitt út.
60 prósent telja sig búa við mjög alvarlegan fjárhagsvanda
„LÍN styður ekki nógu vel við háskólastúdenta í dag þar sem framfærslan dugar ekki stúdentum til að framfleyta sér út mánuðinn, en hún er undir grunnframfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Þetta veldur því að stúdentar neyðast oftar en ekki til að vinna samhliða skóla til þess að ná endum saman,“ segir Elísa Björg Grímsdóttir, nýkjörinn lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þetta kemur fram í nýútgefinni skýrslu EUROSTUDENT ásamt því að Íslendingar vinni mest allra Evrópuþjóða samhliða námi og eru lengur að klára námið.
Einnig kemur fram í skýrslunni að Íslandi er hæsti meðalaldur meðal háskólanema. „Þar segir enn fremur að meira en 60% þeirra sem styðjast við ríkisbundinn námsstuðning, telja sig búa við mjög alvarleg fjárhagsleg vandamál. Það er lang hæst af öllum þátttökulöndum.“ segir Elísa.
„Það má segja að það sé til staðar ákveðið hvatakerfi í núverandi lánasjóðskerfi við lánshæfar einingar en núna lánar LÍN aðeins fyrir 480 ETCS, þ.e.a.s. þú getur ekki fengið lánað fyrir endalausu námi - sem hægt er að túlka sem ákveðinn hvata til að klára námið, en væri einnig hægt að túlka sem hvata til að vera sem lengst í námi. Framkvæmdarstjóri LÍN hefur talað um að það sé hvati í kerfinu til að vera sem lengst í námi og taka sem mest lán því þegar fólk er á annað borð komið með hátt lán, yfir tíu til fimmtán milljónir, þá borgarðu ekki meira þó þú skuldir mikið og hluti lánsins verður að styrk sem fólk borgar aldrei til baka.“
Takmarkað magn af rannsóknum eru tiltækar til að skýra hvers vegna brottfall verður. Hrefna Hjartardóttir skoðaði í lokaverkefni sínu til meistaragráðu í hagnýtri tölfræði brottfall úr námskeiðinu hagnýt stærðfræðigreining. Námskeiðið var inngangsnámskeið í tölvunarfræði, lyfjafræði og lífefnafræði. Hún skoðaði brottfall úr námskeiðinu haustið 2012. Þá voru 484 skráðir í námskeiðið, en aðeins helmingur lauk áfanganum. Fjórðungur hóf ekki nám þrátt fyrir að vera skráður og fjórðungur hætti í áfanganum. Brottfallið var nokkuð jafnt og þétt yfir önnina en flestir hættu þó á fyrstu fimm vikum annarinnar. Nemendur á fyrsta ári hættu frekar í áfanganum og nemendur í tölvunarfræði og lífefnafræði voru líklegri til að hætta.
Margir áfangar á fyrsta ári eru gríðarlega erfiðir og leggja miklar kröfur á nemendur. Hagnýt stærðfræðigreining er einn af þeim áföngum og eins og rannsókn Hrefnu gefur til kynna, eru nemendur á fyrsta ári líklegri til að hætta í áfanganum.
Ekki eru til tölur um hversu margir af þeim sem hætta í áfanganum hætta í skólanum. Ef aðeins 50% ljúka áfanganum má gera ráð fyrir að einhver hluti, á bilinu 10-20% hafi fallið. Þeir nemendur skrá sig svo haustið eftir í áfangann og eru þá líklegri til að ná honum þegar þeir eru komnir á annað ár.
Í lögfræðinni er bæði inntökupróf og síu áfangangar, almenn lögfræði og inngangur að lögfræði. Einstaklingur kemst ekki inn í námið nema ná lágmarks einkunn á A-prófi. Á fyrsta ári eru tveir áfangar sem nemandi þarf að ljúka til að mega halda áfram á annað ár.
Núverandi kerfi hvetur nemendur til að vinna með skóla
„Betra hvatakerfi gæti mögulega spornað við brottfalli en við höfum engin gögn sem segja til um fylgni milli LÍN og brottfalls, en það myndi líklega hafa jákvæð áhrif að breyta núverandi kerfi með því að setja á fót einhverskonar hvatakerfi. Núverandi lánasjóðskerfi ,,hvetur” fólk frekar til þess að vinna með skóla og taka færri einingar í senn, fremur en að sinna einungis náminu sem lengir því námstímann. Tilgangur hvatakerfis er að styðja við stúdenta og ætti að vera til þess fallinn að stúdentar ná að klára námið á tilsettum tíma.“ segir Elísa.
Elísa segir að hvatakerfið þyrfti að bjóða upp á ákveðið svigrúm og tekur dæmi um norska lánakerfið. Í Noregi þarf námsmaður að klára ákveðins tímaramma til að fá niðurfellingu á hluta lánsins sem getur verið allt að 40 prósent.
Um 7300 manns sóttu um skólavist í Háskóla Íslands fyrir skólaárið 2017-2018, en um fjögur þúsund útskrifuðust með stúdentpróf um áramótin 2016-2017 og vorið 2017. Í vor eru framhaldsskólar í fyrsta skipti að útskrifa þá nemendur sem ljúka námi á þremur árum. Samhliða því munu nemendur sem ljúka námi á fjórum árum útskrifast. Það er því ljóst að háskólarnir munu þurfa að taka við auknum fjölda nemenda á næstu tveimur árum. Algengt er að nemendur taki sér eitt ár í pásu og ferðist um heiminn eða safni peningum fyrir námi.