Eftir frækinn „sigur“ á Argentínu þar sem íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði jafntefli við lið Argentínu í gær í ótrúlegum fyrsta leik liðsins á þessu stærsta sviði knattspyrnunnar í heimi er komið að því að einbeita sér að næsta verkefni.
Liðið mætir landsliði Nígeríu í borginin Volgograd næstkomandi föstudag. Verkefnið, þrátt fyrir að lið Nígeríu sé í töluvert lægra styrkleikaflokki en hið argentínska, er ekki auðvelt og mun ekki síður krefjast kænsku og skipulags en það sem fram fór í gær með hinum glæsta árangri.
Auglýsing
Nígeríska liðið
Lið Nígeríu er í 48. sæti á styrkleikalista FIFA á meðan hið íslenska er í því 22. Til samanburðar er lið Argentínu í því 5. og lið Króata í 20. sæti.
Nígeríska liðið laut í lægra haldi fyrir því króatíska í gær, 2-0, í nokkuð jöfnum leik, þrátt fyrir að að honum loknum hafi sigur Króata verið nokkuð sannfærandi. Bæði lið sóttu ágætlega, en sérfræðingar Fótbolta.net telja í leikgreiningu sinni að dagskipun Króata hafi verið að la´ta reyna á hinn 19 ára gamla Francis Uzoho í marki Nígeríu.
Fyrra markið var sjálfsmark á 32. mínútu eftir skalla frá Mandzukic í leikmanninn Oghenekaro Etebo og þaðan rataði boltinn í markið. Seinna markið kom úr vítaspyrnu sem fyrirliðinn Luka Modric nýtti með öruggum hætti. Vítið var dæmt eftir hornspyrnu á 70. mínutu en William Troost-Ekong braut á Mandzukic með því að bókstaflega halda utan um hann og halda honum þannig niðri. Troost-Ekong fékk að launum dæmt á sig vítið sem og gult spjald.
Nígeríumenn reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn það sem eftir lifði leik sem tókst ekki. Króatar sitja því á toppi riðilsins eftir fyrstu umferðina en Nígeríumenn eru stigalausir í því neðsta.
Tækifæri Íslendinga virðast liggja í föstum leikatriðum, sem Nígeríumenn áttu í erfiðleikum með í gær, enda hafa styrkleikar íslenska liðsins sannarlega legið þar undanfarin misseri.
Telja má líklegt að Nígeríumenn mæti nokkuð ákveðið til leiks, enda mikilvægt fyrir þá að fá eitthvað út úr leiknum gegn Íslandi, annars verða þeir úr leik.
Fótbolti.net greinir frá því að Nígeríumenn hafi prófað að spila með þriggja manna vörn í aðdraganda HM og Rohr segir möguleika á að hann stilli upp í slíkt kerfi gegn Íslandi á föstudaginn. „Hver leikur er mismunandi. Við vitum að við getum spilað með þrjá miðverði en þetta var ekki góður dagur til þess í dag," sagði Rohr eftir leikinn gegn Króatíu í gær.
Nígería
Nígería er fjölmennasta land Afríku, þar sem búa tæplega 180 milljónir manna.
Nígería er sjöunda fjölmennasta land heims. Olíulindir við ósa Níger hafa fært landinu mikil auðæfi. Nígería er tólfti stærsti eldsneytisframleiðandi heims og aðili að Samtökum olíuframleiðsluríkja frá 1971. Olíuafurðir mynda um 40% af útflutningi landsins. Alþjóðabankinn skilgreinir Nígeríu sem nývaxtarland og býst við því að landið taki við af Suður-Afríku sem stærsta hagkerfi álfunnar. Nígería er í Afríkusambandinu sem og Breska samveldinu.