Gamla góða samstaðan flytur fjöll - Áfram Ísland

Ísland mætir Nígeríu í dag, og getur með sigri komist í kjörstöðu fyrir lokaleikinn í riðlinum gegn Króötum.

Argentína - Ísland – Stemningin í Hljómskálagarðinum 16. júní 2018
Auglýsing

Afleit byrjun hjá stjörnumprýddu liði Argentínu í D-riðli, hefur leitt til þess að Ísland hefur jafnvel enn meiri tækifæri til að komast upp úr riðlinum í 16 liða úrslit heldur en hægt var að ímynda sér - við fyrstu sýn - þegar dregið var í riðla fyrir keppnina.

Ísland og Nígería mætast í Volgograd í dag og spennan er rafmögnuð. Óhætt er að segja um ólíkar þjóðir sé að ræða. 

Nígería er fjölmennasta ríki Afríku með 190 milljónir íbúa, en íbúar á Íslandi eru 350 þúsund. Það er óþarfi að nefna það ekki -þrátt fyrir að það sé endurtekning númer svona þúsund - en Ísland er fámennasta landið í sögunni sem náð hefur landsliði í úrslitakeppni HM, og er nú þegar búið að stimpla sig með sínu fyrsta stigi og marki, sem Alfreð Finnbogason skoraði gegn Argentínu.

Auglýsing

Ísland spilar í bláu í dag, en var í hvítum búningum gegn Argentínu.

Ef fyrstu tveir leikir Argentínu í riðlinum hafa kennt okkur eitthvað - fyrst 1-1 jafnteflið gegn okkur Íslendingum og síðan 0-3 tapið gegn Króötum - þá er það þetta: góð samstillt lið geta flutt fjöll en góðir einstaklingar, sem ekki ná saman sem lið, eru heillum horfnir.

Lionel Messi, einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar, hefur ekki fundið sig í liði Aregentínu frekar en aðrir leikmenn liðsins. Þá má svo sannarlega deila um liðsval Sampioli þjálfara.


Í ofanálag sáust fáséð einstaklingsmistök hjá Caballero markverði Argentínu, þegar hann gaf Rebic fyrsta markið sem kom Króötum á lagið.

Fram að því hafði verið jafnræði með liðunum. Eftir það opnaðist leikurinn meira og Króatar voru þá í þægilegri stöðu. Gátu leyft sér að falla aðeins til baka og sækja svo hratt þegar færi gafst. Tvö mörk frá miðjumönnunum frábæru frá Barcelona og Real Madrid, Modric og Rakitic, söktu svo Argentínu endanlega.

Allt annar leikur

Vandamál Argentínu koma þeim ekki á óvart sem hafa fylgst með gengi liðsins á undanförnum árum. Liðið hefur virkað ósamstillt og nær sjaldan að létta pressunni af Messi, með framtaki annarra leikmanna. 

Leikurinn er fyrirsjáanlegur. En ekki má þó útiloka að Argentína komi til baka, og nái að knýja fram sigur gegn Nígeríu og berjast þannig til hins ítrasta fyrir 2. sætinu í riðlinum. Þegar öll sund virtust lokuð í undankeppninni tókst Argentínu að komast áfram, með snilldarframtaki Messi. 

Allt er því opið ennþá.

Leikurinn á eftir, milli Íslands og Nígeríu, hefur gríðarlega mikla þýðingu eins og gefur að skilja. Ísland getur með sigri pressað stíft á 2. sætið í riðlinum fyrir síðasta leikinn í riðlinum við Króata. Þá þekkjum við vel, eftir margar viðureignir á undanförnum árum. Ísland vann 1-0 sigur gegn Króötum á Laugardalsvelli, eins og frægt er, með marki Harðar Björgvins Magnússonar á síðustu mínútu.


Það segir okkur eitt: Ísland getur unnið Króatíu og hefur gert það! Einfalt og áhrifamikið. Þetta segir okkur líka þá sögu, að eins og leikirnir í riðlinum hafa spilast, þá á Ísland nokkuð góða möguleika á því að komast áfram. Það yrði stórkostlegt afrek sem myndi aldrei gleymast.

Nígeríumenn spila hraðan leik og eru líkamlega sterkir. Þeir eru líka með leikmenn sem eru góðir einn á móti einum, og geta þannig klárað leikina með einstaklingsframtaki.

Erfitt er að draga út leikmenn sem má telja til lykilmanna, þar sem Nígería leggur upp með að virkja liðsheildina í sóknar- og varnarleiknum. En Victor Moses, leikmaður Chelsea, hefur spilað vel fyrir Nígeríu og er ávallt hættulegur í sóknarleiknum. Hann þurfum við að passa.

Gylfi Þór, sýndu hvað í þér býr!

Þetta þekkjum við ágætlega frá því í leiknum gegn Argentínu. En Nígería er samt allt annar andstæðingur. Ísland mun fá meiri tækifæri til að sækja gegn Nígeríu og mun þurfa að sýna meira sjálfstraust með boltann en það gerði gegn Argentínu. Ef það má gagnrýna Ísland fyrir eitthvað þá er það ekki nægilega mikið sjálfstraust þegar kemur að því að halda boltanum. 

Án þess gera upp á milli manna í okkar frábæra og samstillta liði, þá er Gylfi Þór Sigurðsson lykilmaður gegn Nígeríu. Hann þarf að sýna hvað í honum býr, ekki síst í sóknarleiknum. Treysta sér til að halda boltanum og virkja aðra leikmenn með sér. Og láta vaða á markið þegar færi gefst.

Gylfi Þór Sigurðsson og Luka Modric, miðjumaðurinn frábæri í liði Króata.

Eins og hann hefur svo oft gert með landsliðinu, þegar mest á reynir. Hann er potturinn og pannan í sóknarleiknum, þegar Ísland nær sér á strik í honum.

Engan afslátt má þó gefa í aðalsmerki íslenska liðsins; samstilltum varnarleik og vel útfærðum föstum leikatriðum. Allir þurfa að standa saman sem einn maður. Tækifærið er fyrir framan okkur. Við gætum komist í 16 liða úrslit á HM! Áfram Ísland.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira eftir höfundinnMagnús Halldórsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar