Recep Tayyip Erdogan var kjörinn forseti Tyrklands í gær. Hann fékk 52,5 prósent atkvæða. Þetta staðfesti formaður kjörstjórnar í gærkvöldi. Þar af leiðandi þarf ekki að kjósa að nýju milli tveggja efstu eftir tvær vikur. Muharrem Ince, leiðtogi Lýðræðisflokksins CHP, fékk 30,7 prósent en kjörstjórn mun ekki birta lokaniðurstöðurnar úr forsetakosningunum fyrr en föstudaginn næstkomandi.
Erdogan lýsti í gærkvöldi yfir sigri í kosningunum og sagði að þjóðin hefði treyst sér til að sitja eitt kjörtímabil til viðbótar. Hann hélt ræðu á svölum höfuðstöðva AK-flokksins í höfuðborg Tyrklands. „Sigurvegari þessara kosninga er hver og einn einstaklingur á meðal 81 milljóna ríkisborgara landsins,“ sagði hann. Flokkur hans Réttlætis- og þróunarflokkurinn AK, fékk enn fremur flest atkvæði í þingkosningunum en kosið var til þings á sama tíma. Þegar 99 prósent atkvæða höfðu verið talin var flokkurinn með 42 prósent atkvæða en CHP með 23 prósent. Kjörsókn var góð, eða 87 prósent.
Kjarninn rifjaði upp sögu Erdogans og atburði síðastliðinna ára.
Víðtækar stjórnarskrárbreytingar samþykktar
Þann 10. desember árið 2016 setti forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, fram tillögur að víðtækum stjórnarskrárbreytingum sem höfðu það að markmiði að safna öllu framkvæmdarvaldi stjórnsýslunnar í hendur Erdogan. Breytingarnar voru samþykktar, fyrst af þinginu og síðar í þjóðaratkvæðagreiðslu, með naumum meirihluta í apríl á síðasta ári. Þær táknuðu stærstu umrót í stjórnarfari landsins frá stofnun lýðveldisins af Mustafa Kemal Atatürk árið 1923 eftir sex hundruð ára keisaradæmi Ottómana.
Stjórnskipan landsins var breytt með afgerandi hætti; embætti forsætisráðherra hefur verið afnumið og hefur framkvæmdavald færst að fullu til embætti forseta sem mun einnig hafa fullt vald yfir gerð fjármálaáætlana, og hafa völd forseta yfir dómsvaldinu aukist til muna og stjórnar hann nú skipan dómara. Forseta landsins er ekki lengur skylt að rjúfa tengsl sín við stjórnmálaflokka og munu þingmenn ekki lengur geta beint spurningum til forsetans. Þá hafa reglur varðandi vantrauststillaga til forsetans verið hertar og þurfa núna 60 prósent þingmanna að samþykkja hana en lokaákvörðun verður í höndum stjórnarskrárréttar sem er að mestu leyti skipaður af dómurum útnefndum af forsetanum sjálfum. Það má segja að stjórnarskrárbreytingarnar geri Erdogan að einræðisherra og mun hann tæknilega séð geta gegnt embætti forseta fram til ársins 2034.
Tilraun Erdogan er nýr kafli í langvinnri baráttu hans til að auka völd sín og hafa ýmsir afdrifaríkir atburðir bæði innanlands og utan stuðlað að auknu rými fyrir einræðistakta í landi sem fyrir rúmum áratug síðan stóð í umfangsmiklum lýðræðislegum umbótum til að uppfylla skilyrði ESB-aðildar.
Fékk ekki að taka við embætti forsætisráðherra
Oddur Stefánsson skrifaði fréttaskýringu um einræðistakta Erdogan fyrir Kjarnann, en í henni kemur fram að Erdogan hafi verið vinsæll borgarstjóri í Istanbúl á tíunda áratugnum. Hann stofnaði árið 2001 AK-flokkinn sem vann stórsigur í þingkosningunum 2002.
Erdogan sjálfur gat ekki tekið við embætti forsætisráðherra strax vegna fangelsisdóms sem hann hlaut árið 1999 fyrir hatursorðræðu eftir að hann þuldi ljóð eftir þjóðernissinnann Ziya Gökalp í ræðu til stuðningsmanna sinna. Lagabreytingar ári seinna gerðu það að verkum að hann fékk að taka við embættinu árið 2003 en ljóst var að hin íslamska þjóðernisstefna sem einkenndi hugmyndafræði Erdogan ætti litla samleið með hinu veraldlega lýðveldi sem Atatürk stofnaði og sem tyrkneski herinn hefur sögulega álitið sem sitt hlutverk að vernda.
Erdogan sat á forsætisráðherrastóli í ellefu ár áður en hann varð forseti árið 2014 en lífskjör í Tyrklandi höfðu stórbatnað á þessu tímabili. Frá stofnun AK-flokksins hefur hann haft meirihluta á þingi í alls 13 ár og virðist vera að Erdogan, sem lét hin óhugnanlegu titilorð falla í upphaf valdatíð sinnar: „Lýðræði er eins og lest; þú ferð úr henni þegar þú ert komin á áfangastað,“ telji að tími sé kominn til að stíga úr lýðræðislestinni.
Hryðjuverkatíðnin í Tyrklandi hefur aukist til muna síðastliðin ár en talið er að sjálfstæðishreyfing Kúrda, PKK, hafi staðið fyrir tilræði þar sem 400-kílogramma sprengja sprakk í nálægð við leikvang Besiktas-fótboltaliðsins í Istanbúl og drap 44 manns þann 10. desember árið 2016, og bílsprengju sem sprakk fyrir utan Erciyes-háskóla í Kayseri-fylki þann 17. desember sama ár sem drap 13 manns, en einnig hefur Íslamska ríkið staðið fyrir hryðjuverkaárasum á borð við sprengjutilræðin á Atatürk-flugvellinum í Istanbúl um sumarið þar sem 41 manns misstu lífið.
Misheppnað valdarán
Þann 15. júlí fyrir tveimur árum reyndi hópur herforingja að ræna völdum í landinu en mistókst eftir að hafa reynt að ná stjórn á samskiptaæðum landsins og þingi ásamt því að reyna að handsama Erdogan sjálfan. Talið er að fleiri hópar innan hersins hafi komið sér saman um valdaránstilraunina en Erdogan hefur lagt alla sök á Cemaat-hópinn, íslamska hreyfingu undir stjórn klerksins Fethullah Gülen sem hefur verið í útlegð í Pennsylvania-fylki í Bandaríkjunum frá árinu 1999. Hreyfing Gülen er ýmist kennd við trú eða ákveðna túlkun á hlutverki og uppbyggingu Tyrklands, og rekur tyrkneska skóla út um allan heim. Gülenistar eru fjölmennir og mátti finna víðs vegar í valdamiklum embættum hjá hinu opinbera og í viðskiptalífi Tyrklands.
Neyðarástandi var lýst yfir í kjölfar valdaránstilraunarinnar og á skömmum tíma hafði Erdogan látið handtaka um 40 þúsund einstaklinga sem taldir voru tengjast atburðunum á einn eða annan hátt. Þá hafði um eitt hundrað þúsund opinberum starfsmönnum verið sagt upp ásamt þúsunda blaðamanna og fræðimanna. Jafnvel áður en valdaránstilraunin átti sér stað voru flestir fjölmiðlar í landinu hliðhollir eða jafnvel beinlínis stjórnað af stuðningsmönnum AK-flokksins en í kjölfar hennar hefur verið sótt enn harðara að óháðum fjölmiðlum.