1. 18 Færeyjar
Færeyjarnar eru 18 talsins, þar af eru 17 þeirra í byggð, og spanna tæpa 1.400 ferkílómetra. Færeyingar telja rétt rúmlega 50 þúsundum, en höfuðborg og fjölmennasti bær eyjanna er Þórshöfn, eða Tórshavn, með um 13 þúsund íbúa.
2. Tyrkjarán og hernám Breta
Elstu fornleifar um mannaferðir á eyjunum eru 1700 ára gamlar, en norrænir og breskir menn settust þar fyrst að um 800. Fyrstur þeirra er talinn vera Grímur Kamban, sem átti ættir sínar að rekja til Bretlandseyja. Saga Færeyinga er að mörgu leyti svipuð og Íslandssaga, til að mynda átti sér stað Tyrkjarán árið 1629, þjóðernisvakning á 19. öldinni og hernám Breta árið 1940. Færeyingar hafa einnig löngum verið nánir bandamenn Íslands og lánuðu íslenska ríkinu til dæmis 6,6 milljörðum króna eftir hrunið í október 2008, fyrst allra þjóða.
3. Heimastjórn undir Danmörku
Færeyjar tilheyra konungsríki Danmerkur, ásamt Danmörku og Grænlandi, og er því Danadrottning formlegur þjóðhöfðingi eyjanna. Þjóðin hefur þó eigin heimastjórn, sem hún fékk árið 1948. Heimastjórnin hefur æðsta framkvæmdavald í flestum málaflokkum, utan löggæslu, æðsta dómsvalds og utanríkismála. Formaður heimastjórnarinnar er kallaður lögmaður Færeyja, en Aksel V. Johannesen hefur gegnt því embætti frá árinu 2015.
4. Yvirgangsfólk við bumbu
Tungumál Færeyinga, færeyska, kemur úr fornnorrænum mállýskum eins og íslenska. Nútímaritmál á færeysku varð samt ekki til fyrr en undir lok 19. aldar og tók mið af íslensku ritmáli. Frelsishetjan Jón Sigurðsson var helsti aðstoðarmaður Færeyinganna við að sníða færeyska stafsetningu. Ritmálið líkist því mjög íslensku, þótt sömu orð hafi ekki alltaf sömu merkingu í báðum löndum. Til dæmis eru orðin „Hryðjuverkamenn með sprengju“ þýdd yfir á færeysku sem „Yvirgangsfólk við bumbu.“
5. Ríkari en Danmörk
Í fyrra var landsframleiðsla Færeyinga rúmar sex milljónir íslenskra króna á mann og var hún hærri en í Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku. Helsta tekjulind þeirra er sjávarútvegur og fiskeldi, en eitt stærsta fyrirtæki eyjanna er laxeldisfyrirtækið Bakkafrost. Stór hluti af þjóðartekjum Færeyinga er í formi styrkja frá Danmörku, en árið 2011 námu þeir 13% af landsframleiðslu.
6. Íþróttagarpar
Líkt og Íslendingar hafa ýmsir Færeyingar náð góðum árangri í íþróttum þrátt fyrir fámenni þjóðar sinnar. Þekktasti íþróttamaður þeirra er Páll Joensen sundmaður, en hann náði bronsverðlaunum á heimsmeistaramóti Alþjóðasundsambandsins, FINA, árið 2012. Einnig spilaði fótboltamaðurinn Gunnar Nielsen í ensku Úrvalsdeildinni með Manchester City. Gunnar spilar nú sem markmaður FH.
7. Mikil lífsgæði
Færeyjar koma tiltölulega vel út á ýmsum mælikvörðum um lífsgæði. Árið 2016 var atvinnuleysi þar í landi 2,8%, auk þess sem eyjarnar bjuggu við næstmesta jöfnuð í heimi með Gini-stuðul upp á 0,23. Lífslífur við fæðingu voru 78 ár meðal karlmanna og 83,2 ár meðal kvenmanna í fyrra, sem er nokkuð lægra en á Íslandi en hærra en í Danmörku.
8. Hvalveiðar og samkynhneigðir
Færeyingar hafa orðið þekktir fyrir íhaldssöm viðhorf í garð samkynhneigðra, en þekkt var þegar þingmaður þeirra, Jenis av Rana, neitaði að mæta til kvöldverðarboðs með Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2010. Jóhanna var þá forsætisráðherra Íslands, en Jenis kvaðst ekki vilja mæta vegna kynhneigðar hennar. Enn fremur sögðu Samtökin 78 samkynhneigða Færeyinga yfirgefa heimalandið sitt í stórum stíl vegna ótta við ofsóknir árið 2006. Síðan þá hefur margt áunnist í réttindabaráttu þeirra, en samkynhneigðir fengu lagalega vernd gegn ofsóknum seinna sama ár auk þess sem hjónabönd þeirra voru lögleidd fyrir tveimur árum síðan.
Þjóðin hefur einnig verið gagnrýnd fyrir hvalveiði sína, og þá sérstaklega veiðiaðferðina sem þeir kalla Grindardráp.Síðasta Grindardráp átti sér stað síðastliðinn þriðjudag, en talið er að Færeyingar veiði á bilinu 800 til 900 grindhvali með þessari aðferð árlega.
9. Nokkur „heimsmet“ Íslendinga slegin
Vegna lítils íbúafjölda hafa Færeyingar, líkt og Íslendingar, slegið mörg heimsmet þegar miðað er við höfðatölu. Raunar slá þeir einnig nokkur met sem stundum hafa verið eignuð Íslendingum á heimsvísu, til að mynda í fjölda nóbelsverðlaunahafa miðað við mannfjölda. Einnig er talið að þjóðþing Færeyinga, Tínganes, sé að minnsta kosti fimm árum eldra en Alþingi og því mögulega elsta starfandi þjóðþing í heimi.
10. Ólavsøka
Hátíðin Ólafsvaka, eða Ólavsøka er haldin hátíðleg dagana 28. og 29. júlí, en Færeyingar líta gjarnan á hana sem þjóðhátíð sína. Hún er kennd við Ólaf Haraldsson, konung Noregs á elleftu öld og inniheldur marga viðburði, líkt og kappróður, tónleikar og dansleikir þar sem dansaður er færeyskur keðjudans.