Framlag Kjarnans á árinu 2016
Kjarninn er fimm ára í vikunni. Af því tilefni verður rifjað upp það helsta sem hann hafði til málanna að leggja á hverju því starfsári sem hann hefur verið til, á hverjum degi í þessari viku. Í dag er farið yfir árið 2016.
Fátt benti til þess að í upphafi árs 2016 að íslenskt samfélag væri á leiðinni á hliðina. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafði einhvern vegin verið í ólgusjó allt kjörtímabilið þrátt fyrir nánast fordæmalausa efnahagslega uppsveiflu. Evrópumál, veiðigjöld, tilraunir til að breyta skipulagi Seðlabankans, vinnumarkaðsdeilur, svelt heilbrigðiskerfi og endalausar deilur um fjárframlög til RÚV höfðu sett mark sitt á kjörtímabilið.
En ríkisstjórnin hafði lokið sínu stærsta máli, að semja við kröfuhafa föllnu bankanna um að þeir gæfu eftir hluta af eignum sínum, og fram undan átti að vera ár þar sem auknar vinsældir yrðu tryggðar með notkun stöðugleikaframlaga upp á mörg hundruð milljarða króna. Það hefði átt að duga til að hífa fylgi ríkisstjórnarflokkanna upp og skapa aðstæður til áframhaldandi setu.
Þetta átti þó eftir að verða árið sem allt breyttist. Mesta fréttaár í Íslandssögunni.
Panamaskjölin skekja heimsbyggðina
Borgunarmálið, sem Kjarninn hóf umfjöllun um í nóvember 2014, hélt áfram. Í janúar var greint frá því að kaup VIsa Inc. á Visa Europe gætu skilað Borgun milljörðum króna sem ekki var tekið tillit til þegar ríkisbankinn Landsbankinn seldi hlut sinn í félaginu á lágu verði bak við luktar dyr. Málið varð til þess fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans sögðu af sér í mars en stuðningi var lýst við bankastjórann Steinþór Pálsson. Í nóvember birti Ríkisendurskoðun svo svarta skýrslu um eignasölu Landsbankans á árunum 2010-2016. Steinþór sagðist ekki að segja af sér. Viku síðar var hann hættur.
Umfangsmesti gagnaleki sögunnar átti sér stað þegar ótilgreindur aðili komst yfir gögn frá panömsku lögfræðistofunni Mossack Fonseca, sem sérhæfir sig í stofnun og umsýslu aflandsfélaga í skattaksjólum. Í byrjun apríl hófu fjölmiðlar út um allan heim, í samstarfi við alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ), að birta umfangsmiklar umfjallanir úr lekanum. Ísland lék stórt hlutverk þar, enda sýndu gögnin að um 600 Íslendingar ættu um 800 félög hjá Mossack Fonseca.
Hinn 3. apríl var sýndur sérstakur Kastljósþáttur þar sem greint var frá eignarhaldi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þá forsætisráðherra, á aflandsfélaginu Wintris. Í félaginu eru geymdar milljarðaeignir og opinberað var að Wintris væri kröfuhafi í bú bankanna. Viðtal við Sigmund Davíð, sem hann gekk út úr, varð heimsfrétt. Daginn eftir þáttinn fóru fram fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þar sem afsagna og nýrra kosninga var krafist. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra 5. apríl 2016 og ný ríkisstjórn undir forsæti Sigurðar Inga Jóhannssonar lofaði kosningum síðar á árinu.
Kjarninn lék lykilhlutverk bæði í umfjöllun um Panamaskjölin, þar sem hann vann úttektir um umfangsmikla viðskiptamenn á borð við Bakkavararbræðurna Ágúst og Lýð Guðmundssyni og hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur, og um pólitískar afleiðingar birtingu þeirra. Þá opinberaði Kjarninn að aflandsfélag í eigu fjölskyldu þáverandi forsetafrúar Íslands, Dorritar Moussaieff væri í Panamaskjölunum, þrátt fyrir að foretinn, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði neitað því opinberlega að hann eða einhver í fjölskyldu hans tengdist aflandsfélögum. Ísland var skyndilega heimsfrétt og allra augu voru á litlu eldfjallaeyjunni.
Nýr forseti
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur var kjörinn forseti Íslands í forsetakosningum í júní. Hann hlaut 39,1 prósent atkvæða sem var öllu minna en hann hafði mælst með í skoðanakönnunum. Alls kynntu 22 um að þau hygðust bjóða sig fram; þeirra á meðal Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, eftir að hafa hætt við að hætta sem forseti. Hann hætti svo aftur við. Níu voru á endanum í framboði. Aldrei hafa fleiri verið í forsetaframboði á Íslandi. Einn þeirra sem kom inn með miklum krafti, og eyddi miklum fjármunum í að reyna að ná kjöri, var Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins. Þrátt fyrir að Davíð hafi náð að draga til sín mikla athygli á meðan að á kosningabaráttunni stóð hafði hann ekki erindi sem erfiði og endaði með einungis 13,7 prósent atkvæða, sem skilaði honum í fjórða sæti á eftir Guðna Th., Höllu Tómasdóttur og Andra Snæ Magnasyni.
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tók fyrsta sinn þátt á stórmóti þegar „strákarnir“ kepptu á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi í sumar. Ísland keppti í riðli með Portúgal (sem varð að lokum Evrópumeistari) og gerði jafntefli við Ronaldo og félaga í fyrsta leik sínum á stórmóti. Okkar menn komust alla leið í átta liða úrslit eftir að hafa niðurlægt England í Nice. Þar mætti Ísland Frakklandi sem reyndist á endanum of stór biti fyrir nýliða Íslands. Eftir stóð frábær árangur íslenska landsliðsins. Kjarninn var á staðnum og skrifaði einstæðar fréttaskýringar af því sem átti sér stað þar sem áherslan var oft á tíðum á aðra hluti en endilega knattspyrnuna sem spiluð var.
Stjórnvöld kynntu áætlun sína um losun fjármagnshafta sumarið 2015. Lykilatriði í þeirri áætlun voru samningar við kröfuhafa um að slíta þrotabúum föllnu bankanna og og aðgerðir til að taka á hinni svokölluðu aflandskrónuhengju. Í ágúst 2016 var lagt fram langþráð frumvarp um breytingar á lögum um gjaldeyrismál. Í þeim fólust stærstu skref sem stigin höfðu verið í átt að losun fjármagnshafta frá því að þeim var komið á haustið 2008. Frumvarpið varð að lögum 11. október og fækkaði undanþágum frá höftum um 50-65 prósent.
Annus horribilis hjá Sigmundi Davíð
Sigmundur Davíð tilkynnti síðsumars um að hann ætlaði að snúa aftur. Hann var enn formaður Framsóknarflokksins og taldi sig eiga að geta gengið að því vísu að leiða ríkisstjórn að nýju. Flokksfélagar hans voru ekki allir sammála. 10. september var haldinn miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins í Hofi á Akureyri. Þar flutti Sigmundur Davíð rúmlega klukkutíma langa ræðu studdur glærum með sterku myndmáli þar sem hann fór yfir stöðu stjórnmála, árangur sinn og það sem hann telur vera þaulskipulagða aðför að sér. Þátttakendur í þeirri meintu aðför eru stórir leikendur í alþjóðafjármálakerfinu og fjölmiðlar víða um heim.
Sigurður Ingi hélt líka þar sem hann greindi frá því að hann treysti sér ekki til að starfa áfram sem varaformaður flokksins eftir komandi flokksþing vegna samskiptaörðugleika í forystu Framsóknarflokksins.
Ákveðið hafði verið að halda flokksþing Framsóknar í byrjun október, nokkrum vikum fyrir kosningar. Átta dögum fyrir það og tæpum mánuði fyrir kosningar var sprengju kastað inn í starf Framsóknarflokksins þegar Sigurður Ingi tilkynnti að hann myndi bjóða sig fram til formanns gegn Sigmundi Davíð. Í stað þess að stilla saman strengi fyrir kosningabaráttu var flokkurinn klofinn í herðar niður. 2. október fór formannskosning fram á flokksþingi Framsóknarflokksins. Spennan var áþreifanleg og ljóst að mjótt yrði á mununum. Sigurður Ingi sigraði á endanum með 370 atkvæðum gegn 329 atkvæðum Sigmundar Davíðs. Á meðan að Sigurður Ingi hélt sigurræðu sína og kallaði eftir því að flokkurinn þjappaði sér saman sat Sigmundur Davíð sem fastast í sæti sínu í Háskólabíói, þar sem flokksþingið fór fram. Þegar á leið stóð hann skyndilega upp og rauk út úr bíóinu með fréttamannahjörð á eftir sér.
Afleit ár Sigmundar Davíðs varð sífellt verra.
Alþingiskosningar fyrir tímann og gjörbreytt landslag
Kosið var til Alþingis 29. október 2016, rúmu hálfu ári áður en að kjörtímabilinu átti að ljúka. Kosningarnar voru merkilegar fyrir margar sakir. Sjö flokkar náðu mönnum inn, þar á meðal nýi flokkurinn Viðreisn, sem fékk sjö þingmenn kjörna, sem var einn besti árangur nýs flokks frá upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn hélt velli á meðan Framsóknarflokkurinn minnkaði niður í átta þingmanna flokk. Píratar náðu tíu þingmönnum, minna en spáð hafði verið, VG fengu tíu og Björt framtíð og Samfylkingin 4 og 3 eftir að hafa um tíma báðir verið utan þings samkvæmt könnunum. Aldrei höfðu fleiri nýir þingmenn tekið sæti og aldrei höfðu kynjahlutföll verið eins jöfn.
Það gekk hins vegar erfiðlega að mynda ríkisstjórn og þrátt fyrir að öll möguleg mynstur hefðu verið mátuð, jafn opinberlega sem bakvið luktar dyr. Og þegar árið var liðið var enn ekki búið að mynda ríkisstjórn. En hún var í kortunum og var á lokum mynduð snemma árs 2017. Sú átti eftir að verða óvinsælasta ríkisstjórn Íslandssögunnar og sitja í skemmri tíma en nokkur gat ímyndað sér. Kjarninn fjallaði ítarlega um allar þessar pólitísku hræringar.
Kjarninn hélt áfram að greina samfélagsbreytingar út frá hagtölum og sagði frá því í desember að mun fleiri Íslendingar hefðu flutt burt frá landinu á undanförnum þremur árum en aftur til þess.
Ástæðurnar væru nokkrar. Hér væru ekki að verða til „réttu“ störfin, lífsgæði sem mælast ekki í tekjuöflun stæðust ekki samanburð og það ríkti neyðarástand á húsnæðismarkaði.