Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Bókaskatturinn að koma
Það eru mjög mörg góð mál sem eru á leiðinni frá ríkisstjórninni. Til dæmis bókaskatturinn, breytingar á skatta- og bótakerfinu til lægri og millitekjuhópa. Ég held að það komi til með að svara ákveðnu ákalli,“ segir Bjarkey sem er nefndarmaður í fjárlaganefnd en von á er á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar strax á fyrsta degi þingsins.
Bjarkey segir mörg önnur mál muni koma í framhaldinu sem ættu að vekja bæði umræðu og athygli. „Samgönguáætlunin, lög um kynrænt sjálfræði sem hefur verið lengi í undirbúningi, vinnumarkaðsmálin verða einnig eflaust fyrirferðarmikil á komandi hausti,“ segir Bjarkey og bætir því við aðspurð að hún ætli að leyfa sér að vera bjartsýn þegar komi að kjaramálunum. „Þetta er eitthvað sem kemur upp með reglubudnum hætti og við höfum þurft að takast við á hverjum tíma. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sú aðkoma sem að hefur verið kallað eftir af hálfu ríkisins, að hún verði allavega eitthvað í þá veru að hún geti orðið til góða.“
Viðbúið að hægt gæti snögglega á í ferðaþjónustunni
Um aðstæður í efnahagslífinu nefnir Bjarkey ferðaþjónustuna sérstaklega. „Auðvitað er með ferðaþjónustuna eins og aðrar atvinnugrienar að ef að þetta stækkar mjög hratt þá er alltaf viðbúið að það geti hægt snögglega á. Maður verður að vona sama hvort það er flugið eða aðrir angar ferðaþjónustunnar að það ekki mikið högg. Aukningin gat auðvitað aldrei orðið 30 prósent til varanlegrar framtíðar. Við þurfum að hafa varann á og aðallega þeir sem að þessu standa. Það er auðvitað fylgst með þessu.“
Takmarka arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu
Bjarkey segir þingflokk Vinstri grænna ætla að leggja áherslu á fjölmörg spennandi mál í vetur. „Það eru nokkur mál sem okkur finnst mikilvægari en önnur. Til dæmis takmörkun á arðgreiðslum hjá veitendum heilbrigðisþjónustu. Einnig viljum við breyta hlutafélagalögum þannig að heimiluð verði viðurlög ef brotið er á lögum um kynjahlutfall í stjórnum fyrirtækja. Við munum leggja fram frumvarp um endurskoðun á lagaumhverfi er varða uppkaup á landi, þar verður eignarhaldið, ábúðin og lögheimilisskráningar undir svo eitthvað sé nefnt. Við ætlum að reyna að komast eins langt í þessu og við komumst.“
Bjarkey segir VG einnig vilja segja á stofn svokallaða Innflytjendastofu. „Snýr almennt að innflytjendum á Íslandi, ekki bara hælisleitendum, heldur bara öllum þeim sem flytja til landsins í lengri eða skemmri tíma. Þetta verði einhvers konar upplýsingamiðstöð þar sem fólk fær upplýsingar um sinn rétt.“
Halda lýðræðiskarnival
Þá vilja VG-liðar leggja sérstaka áherslu á frekari móttöku flóttamanna vegna umhverfisáhrifa, halda „lýðræðiskarnival“ sem er hugsað fyrir þá sem fá sinn kosningarétt 18 ára eða nýja ríkisborgra. „Við sjáum þetta fyrir okkur sem dag á hverju áru þar sem öllum þeim sem fá kosningarétt það árið fengju fræðslu um hvað felst í þessum nýju réttindum, hvernig á að kjósa, lýðræðið kynnt fyrir þeim og gert aðgengilegt.“