Nýtt þing hefst fljótlega, nánar tiltekið þriðjudaginn 11. september. Ríkisstjórnin mun leggja fram fjárlög á fyrsta fundi, sem segja má að verði í raun fyrstu fjárlög þessarar ríkisstjórnar þar sem væntanlega má sjá stefnumótun hennar þar sem fjárlög síðasta árs voru lögð fram sérstaklega seint vegna ríkisstjórnarslitanna og kosninga.
Kjarninn tók nokkra þingmenn úr mismunandi flokkum tali um þingveturinn framundan og áherslumál flokkanna þetta árið. Í þetta skiptið var það Willum Þór Þórsson varaformaður þingflokks Framsóknarflokksins.
Stefnan skýrist enn frekar
Eðli málsins samkvæmt byrjar þingið svolítið á fjárlögunum. Það verður stóra málið og í fyrstu umræðu munu þar fléttast inn önnur mál í tengslum við fjárlögin. Við vitum meira að hverju við göngum núna þar sem við höfum verið að vinna með bæði ríkisfjármálastefnuna og ríkisfjármálaáætlunina og þessi fjárlög hvíla á þessum skjölum. Stefna ríkisstjórnarinnar mun koma bara sterkar og sterkar fram eftir því sem frá líður og skýrist enn frekar með þessum fjárlögum,“ segir Willum.
Aðgerðir í fjölskyldumálum
Hann segist reikna með að stjórnarandstaðan komi að þeim málum sem fyrirséð er að verði stór í umræðunni og taki rými í vetur. „Það eru auðvitað kjaraviðræðurnar og þær mögulegu aðgerðir sem að stjórnvöld koma með inn í samningana. Við höfum séð eitthvað nú þegar af þeim aðgerðum sem fyrirhugaðar eru og eru þá staðfestar í þessum fjárlögum, eins og lækkun á tryggingargjaldi. Svo er spurning hvort við munum stíga lengra og hraðar til jarðar í því, það auðvitað vitum við ekki. En þetta verða til dæmis einhverjar aðgerðir í fjölskyldumálum, til dæmis þegar kemur að barnabótum, en þetta mun allt koma frekar í ljós.“
Munu verja kaupmáttinn
Aðspurður um hvort hann sjái fyrir sér harðan kjaravetur framundan segist Willum ætla að leyfa sér að vera bjartsýnn. „Við erum bara sem þjóð búin að ná of miklum árangri og ná langt í að ná niður skuldum, lækka vaxtabyrði og nú erum við í færum til að setja inn í stóru kerfin okkar, heilbrigðis-, menntakerfið og samgöngurnar. Það hefur náðst hér verðstöðugleiki og þar af leiðandi kaupmáttaraukning yfir línuna síðustu misseri og það veruleg. Spár og gagnrýni í kringum ríkisfjármálaáætlun, var að spár um mjúka lendingu myndu ekki halda - þær líta vel út þannig að ég held að þegar að aðilar vinnumarkaðarins ganga að fullri alvöru að borðinu þá muni þeir horfa til þessara þátta og verja kaupmáttinn.“
Taka á vanda sauðfjárbænda til lengri tíma
Áherslur Framsóknar í vetur verða margvíslegar segir Willum. „Við þurfum að taka utan um vanda sauðfjárbænda sem brugðist var við bara með skammtíma innleggi. Við höfum farið vel yfir það og viljum styðja við aðgerðir í þeim efnum. Það þarf að finna lausn til lengri tíma, skoða þessa virðiskeðju og stöðuna og ég heyri að það er vilji til er vilji til þess og okkur er mjög umhugað um að vinna að því.“
Þá segist Willum ánægður með að samgönguáætlunin muni koma fram á næstu vikum. „Við erum að setja verulega aukna fjármuni í þennan málaflokk,“ segir hann og lítur á hana sem svar við ákalli í þessum málaflokki.
Orkumálin of hratt í farveg tilfinninga og ESB
Willum nefnir einnig þriðja orkupakkann sem hann segir að ríkisstjórnin muni þurfa að taka sterka stöðu í og það muni hvíla á öllum flokkum. Aðspurður um hvort Framsókn muni leggjast gegn pakkanum segir hann svo ekki vera en það séu tvær hliðar á þessu máli.
„Hér er búið að innleiða fyrsta og annan pakkann og það er í raun og veru eðlilegt að sameiginlega EES nefndin komist að þeirri niðurstöðu að þriðji pakkinn komi í kjölfarið. Það er ekkert þar sem að breytir neinu hér á landi þangað til ef einhvern tímann yrði sett í samband með sæstreng til Bretlands. Þangað til reynir ekkert á það og ég reikna með að, ef það myndi einhvern tímann reyna á það inn í framtíðina, þá yrði gengið frá öllum skilmálum og skilyrðum varðandi framsali á valdi. Við erum ekkert að framselja meira vald heldur en við höfum gert.“
Willum segir brýna þörf á umræðu um þetta mál, þennan þátt tilskipunarinnar og orkumálin almennt af yfirvegun. „Mér finnst málið fara of hratt í farveg tilfinninga og ESB. Við stjórnmálamenn þurfum að fara yfir þetta af yfirvegum og mér finnst afar mikilvægt að það sé sterk pólitísk forysta af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þessu. Við í Framsókn höfum mjög sterka ályktun þegar kemur að framsali valds og virðum hana og högum okkur út frá því.“
Grænu málin falli vel að Framsókn
Að endingu segir Willum afar jákvætt hversu aukið sé framlag til grænu málanna. „Til umhverfis og loftslagsmála og farið í raunverulegar aðgerðir til að við getum staðið við okkar skuldbindingar samkvæmt Parísarsáttmálanum og það eru verkefni sem að falla mjög vel að hugmyndafræði okkar Framsóknarmanna.“