Kvennafrídagurinn er runninn upp í fimmta sinn og í dag eru konur hvattar til að leggja niður vinnu klukkan 14.55 og fylkja liði á samtöðufund á Arnarhóli klukkan hálf fjögur. Þetta er í fimmta sinn á 43 árum sem konur koma saman, krefjast kjarajafnréttis og samfélags án misréttis. Í ár er lögð áhersla á að vekja athygli á ofbeldi og áreiti gagnvart konum á vinnustöðum, konur eiga að vera óhultar heima og í vinnu.
„Þótt Ísland eigi að heita paradís fyrir konur í alþjóðlegu samhengi er ljóst að víða er pottur brotinn. Enn er langt í land með að ná jöfnum launum og jöfnum kjörum. Enn verða konur fyrir kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustöðum sem og heima fyrir, eins og #MeToo bylgja síðasta vetrar minnti okkur öll harkalega á. Enn eru kvennastörf minna metin þegar kemur að launum, réttindum og virðingu í samfélaginu,“ segir á heimasíðu Kvennafrídagsins.
Launamunur kynjanna
Meðalatvinnutekjur kvenna eru 74 prósent af meðalatvinnutekjum karla, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna. Reiknað er út frá þeim tölum að konur hafi unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. níu til fimm. Því eru konur hvattar til að leggja niður vinnu klukkan 14:55 í dag. Ef launamunur kynjananna heldur áfram að breytast með sama hraða munu konur ekki ná ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047, eða eftir 29 ár.Samkvæmt heimasíðu Kvennafrísins er litið á kynbundinn mun á atvinnutekjum í stað óútskýrðs launamun kynjanna þegar reiknað er hvenær konur eru búnar að vinna fullan vinnudag vegna þess að kerfisbundið ójafnrétti felst ekki bara í óútskýrða launamuninum heldur líka í mun fleiri þáttum. Hlutir eins og hlutfall í stjórnunarstöðum, vinnutími, menntun, starf, atvinnugrein og barneignir svo eitthvað sé nefnt. Þótt þessir þættir útskýri hluta af launamuninum þá réttlæta þeir hann ekki heldur vekja upp fleiri spurningar á borð við hvers vegna hlutur kynjanna sé svo ójafn í þessum þáttum.
Kvennafrídagurinn
Þennan dag fyrir fjörutíu og þremur árum lögðu um 90 prósent allra íslenskra kvenna niður vinnu og skildu íslenskt atvinnulíf eftir í lamasessi þann daginn. Markmiðið var að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Gríðarlegur fjöldi kvenna safnaðist saman á útifundi á Lækjartorgi, eða um 25.000 konur, og vöktu athygli á launamisrétti, vanmati á störfum kvenna og skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Kvennafrídagurinn vakti athygli um allan heim og sýndi að samstaðan er sterkasta vopnið. Síðan hafa konur komið saman og krafist kjarajafnréttis og samfélags án ofbeldis fjórum sinnum, árin 1985, 2005, 2010 og 2016.
Hér erum við svona margar!Öldin hennar, sjónvarpsþættir framleiddir í tilefni af aldarafmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. Leikstjórn: Hrafnhildur Gunnarsdóttir , Krumma Films ehf - Raven Films . Framleiðandi, Margret Jonasdottir. Framleitt fyrir RÚV af Sagafilm Hér er farið til baka í sögunni alla leið til 24.10.1975 þegar íslenskar konur brutu blað í heimssögunni og kröfðust jafnréttis með eftirminnilegum hætti. Horfið á andlit kvennanna sem ruddu brautina. Við skuldum þeim að halda áfram, okkar vegna og dætra okkar vegna. Viljum við bjóða dætrum okkar samfélag þar sem þær njóta ekki kjarajafnréttis eða jafnræðis á öllum sviðum sem manneskjur? #kvennafri #jöfnkjör
Posted by Kvennafrí on Saturday, October 15, 2016
Að baki dagsins stóðu kvennasamtök, kvenfélög og stéttarfélög sem skipulögðu daginn á degi Sameinuðu þjóðanna en fyrr á því ári hafði Allsherjarþing SÞ helgað áratuginn 1975 til 1985 málefnum kvenna. Ein af þeim kvennasamtökum sem stóðu fyrir Kvennafrídeginum var Rauðsokkahreyfingin.
Rauðsokkur
Eitt vorkvöld árið 1970 tóku 28 konur sig saman og héldu fund í kjallara Norræna húsins. Þetta kvöld ákváðu þessar kynngimögnuðu konur að mynda samtök sem ynnu að bættum mannréttindum, jafnréttismálum og þá sérstaklega kvenfrelsismálum. Þessir konur áttu seinna meir eftir að kenna sig við nafnið Rauðsokkur, klæðast rauðum sokkum í kröfugöngum og breyta, ásamt kynsystrum sínum, stöðu kynjanna á Íslandi til frambúðar.
Árið 1970 var raunveruleiki kvenna á Íslandi annar en hann er í dag. Konur höfðu almennt minni menntun en karlar, þær voru orðnar þátttakendur í atvinnulífi landsins en aðallega í láglaunavinnum. Þær báru ennþá nánast alla ábyrgð á heimilum enda mikill skortur á dagheimilum fyrir börn. Þátttaka kvenna í stjórnun landsins var nánast engin, aðeins ein kona sat á þingi og örfáar konur sátu í borgarstjórn. Engin kona gegndi stöðu bæjarstjóra og örfáar konur stýrðu fyrirtækjum og stofnunum. Engin kona gat kallað sig sérfræðing, það mátti finna einn kvenkyns prófessor í Háskóla Íslands og ein kona gegndi stöðu yfirlæknis. Giftar konur voru skráðar undir eiginmenn sína og erfitt var að finna þær í símaskrá eða á dyrabjöllu. Getnaðarbyltingin var komin og farin. Konur voru fyrst og fremst mæður og eiginkonur og þessi staða þeirra var orðin rótgróin.
Baráttumál áttunda áratugarins
Barátta Rauðsokka snerist fyrst og fremst um hugarfarsbreytingu í samfélaginu en barátta þeirra mætti fyrst mikilli mótstöðu bæði hjá körlum og konum. Í bókinni Vaknaðu kona! segir í viðtölum við forystukonur hreyfingarinnar: „Mér fannst við vera endurskapa þjóðfélagið í allra þágu. Við álitum að karlar væru heftir í ákveðna fjötra sem aðeins sumir þeirra kærðu sig um. Seinna rann það upp fyrir mér, að við yrðum að ógna körlum, og neyða þá til að afsala sér forréttindum sínum.“
Helstu baráttumál þeirra var að koma á raunverulegu jafnrétti kynjanna, að berjast fyrir sjálfsákvörðurrétti kvenna yfir líkama sínum, barneignum og kynlífi. Þær vildu launa- og vinnujafnrétti, jafnrétti í menntun, að konur væru metnar að meiri verðleikum en ekki bara sem húsmæður og eiginkonur. Þær kröfðust þess að kæmi væri á fæðingarorlof og stofnuð dagheimili fyrir börn til þess að þær gætu staðið körlum jafnfætis á vinnumarkaðinum.
Arfleið Rauðsokkuhreyfingarinnar
Rauðsokkahreyfingin leið undir lok árið 1982 en í sinni tuttugu og tveggja ára baráttu sýndu Rauðsokkur að með róttækum baráttuaðferðum, samstöðu og „djarfri“ framkomu er hægt að hrista upp í samfélaginu og breyta rótgrónum staðalímyndum. Staða kvenna á Íslandi hefur breyst töluvert á síðustu 46 árum vegna margra þátta en það er ljóst að hluti af því er að þakka Rauðsokkum. Dagvistarheimili þykja sjálfsögð sem og fæðingarorlof. Fóstureyðingar eru líka sjálfsögð réttindi í dag en lögin um sjálfsákvörðunar rétt kvenna er talin einn stærsti sigur Rauðsokka.
Önnur baráttumál hafa tekið við í jafnréttisbaráttunni með árunum en baráttumálið sem enn stendur er launajafnréttið. Að útrýma kynbundnum launamismun er enn helsta baráttumálefni kvenna á kvennafrídaginn árið 2018 en 43 árum áður voru Rauðsokkur að berjast fyrir þvi sama. Mikilvægt er að læra af sögunni og átta sig á því að réttindi eru ekki sjálfsögð heldur urðu til vegna þess að einhver barðist fyrir þeim. Íslenskar konur eiga Rauðsokkum margt að þakka og það er mikilvægt að afrek þeirra gleymist ekki. Sýnum samstöðu í verki, mætum á Arnarhóli í dag og sameinumst í að berjast fyrir jafnrétti. Hættum að breyta konum – breytum samfélaginu – til hins betra!