Tíu ár eru liðin frá því að alþjóðlega fjármálakreppan skall á. Áhrif hennar voru gríðarleg út um allan heim og sum lönd fóru mun verr út úr efnahagshruninu en önnur. Talsverður munur er á því hvernig ríki tókust á við afleiðingar og áskoranir efnahagshrunsins. Eystrasaltslöndin, Eistland, Lettland og Litháen voru á meðal þeirra landa sem fengu verulega að finna fyrir afleiðingum fjármálakreppunnar. Þetta eru ekki stór eða fjölmenn lönd en þau hafa sérstaka tengingu við Norðurlöndin. Ísland var fyrst allra landa í heiminum til að viðurkenna sjálfstæði þeirra eftir hrun Sovétríkjanna, hin Norðurlöndin fylgdu svo í kjölfarið.
Í dag eru ríkin þrjú sjálfstæð og öll orðin hluti af Evrópusambandinu. Þau gengu jafnframt í Atlantshafsbandalagið árið 2004. Í gegnum árin hefur verið nokkuð samráð á milli Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna. Þau sitja meðal annars saman í Eystrasaltsráðinu og hafa sameiginlega skrifstofu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin eru að mörgu leyti ólík ríki en áhugavert er að skoða hvernig þessar þjóðir tókust á við fjármálakreppuna nú tíu árum síðar.
Hvernig brugðust Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin ólíkt við fjármálahruninu?
Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, gaf nýverið út bók um þessi mál sem heitir „The Economic Crisis and its Aftermath in the Nordic and Baltic Countries: Do as We Say and Not as We Do.“ Í bókinni ber Hilmar saman hvernig Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin tókust á við afleiðingar fjármálakreppunnar.
Á Norðurlöndunum, að Íslandi undanskildu, var samkvæmt Hilmari varla hægt að tala um alvarlega kreppu árið 2008 heldur frekar slæma og skammvinna niðursveiflu. Eystrasaltsríkin glímdu við mun alvarlegri áföll. Hagvöxtur í ríkjunum árin fyrir hrun hafði einkum verið drifinn áfram af erlendu fjármagni, aðallega frá Norðurlöndunum, sem streymdi inn í bankageirann og ýtti undir banka- og fasteignabólu. Efnahagsstefna þeirra hafði á sama tíma byggst á lágum sköttum, litlu regluverki og takmörkuðu félagslegu kerfi. Því höfðu ríkin litla burði til að bregðast við efnahagshruninu og afleiðingarnar urðu gríðarlegar á íbúa landsins. Ríkin búa við hagvöxt í dag en atvinnuleysi er enn meira en fyrir fjármálakreppuna og tíðir búferlaflutningar ungs fólks úr landi eru áhyggjuefni.
Ólík kerfi
Norðurlöndin eru lönd með sterkt velferðarkerfi, nokkuð stöðugan hagvöxt, lítið atvinnuleysi og nokkuð jafna tekjuskiptingu. Því voru Norðurlöndin, samkvæmt bók Hilmars, með mun meiri burði til að með bregðast við krísum og voru fljótari að taka við sér. Eystrasaltslöndin eru á hinn bóginn bæði fátækari og í viðkvæmari stöðu vegna ójafnrar tekju- og auðskiptingar innan þeirra landa.
Eftir fall Sovétríkjanna þá stóðu Eystrasaltríkin frammi fyrir stórtækum breytingum. Í samtali við Kjarnann bendir Hilmar á hversu athyglisvert það sé að Eystrasaltslöndin ákveði á þessum tímamótum ekki að horfa til Norðurlandanna og þeirra velferðarkerfa heldur taka þau upp nýfrjálshyggjukerfi. Kerfi með takmörkuðum ríkisafskiptum, flötum sköttum, lágum eignasköttum og einkavæddum ríkisfyrirtæki. Hilmar bendir í bók sinni á að Eystrasaltslöndin hafi verið undir stjórn Sovétríkjanna í tugi ári og að þau séu lítil lönd, frekar einangruð og óundirbúin fyrir þessar miklu breytingar. Vonast var til að frjálshyggjan myndi leiða af sér mikinn hagvöxt sem hún gerði í kjölfar mikilla erlendra lána. Árið 2004 gengu Eystrasaltslöndin síðan í Evrópusambandið.
Hilmar sagði í samtali við Kjarnann að lönd með sveigjanlegri efnahagsstefnu, sjálfstæðan gjaldmiðil og meira frelsi í ríkisgjöldum séu líklegri til ná sér hratt á strik eftir efnahagsáföll en lönd sem hafa tekið upp evruna. Áður en lönd geta tekið upp evruna þurfa þau að beita miklu aðhaldi í ríkisfjármálum samkvæmt forskrift myntbandalagsins. Hilmir bætir við að fastgengisstefna samhliða miklum niðurskurði í ríkisfjármálum sé ekki líkleg leið til að auka hagvöxt, sér í lagi í hjá nýmarkaðsríkjum eins og Eystrasaltsríkjunum.
Evrópusambandið og Svíar leyfðu ekki gengisfellingu
Í bókinni segir frá því hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til 15 prósent gengisfellingu í Lettlandi en Evrópusambandið og Svíar höfnuðu því. Svíar eiga nefnilega að mestu bankakerfi Eystrasaltslandanna. Greint er frá því að þegar fjármálahrunið átti sér stað þá hitti sænski fjármálaráðherrann forsætisráðherra Lettlands á flugvellinum Arlanda í Svíþjóð til að tala um hvernig best væri að bregðast við hruninu. Í kjölfarið voru gerðar kröfur um mikinn niðurskurður frá ESB og Svíþjóð, þar sem m.a. skólar og sjúkrahús voru lokuð. Útkoma aðgerðanna árið 2008 varð sú að efnahagur Eystrasaltsríkjanna var lengur að jafna sig og lífskjör almennings versnuðu mikið. Ástandið jók enn frekar á fólksflótta frá löndunum þremur og er sú staða núna komin upp að Eystrasaltsríkin eru lent í vítahring þar sem unga og vel menntaða fólkið sem gæti eflt hagkerfið leitar út í heim eftir betri tækifærum og auknum lífsgæðum.
Framtíð Eystrasaltsríkjanna
Hilmar nefnir í bók sinni ýmsa ytri þætti sem skapa erfitt umhverfi fyrir Eystrasaltslöndin. Ákveðin óvissa ríkir um þessar mundir um skuldbindingar Bandaríkjanna í NATO sem skapar óöryggi fyrir Eystrasaltsríkin þrjú þar sem þau eru hluti af Nato og með landamæri að Rússlandi. Samkvæmt bókinni telja Eistland, Lettland og Litháen sig betur varin gegn mögulegum yfirgangi Rússlands með því að ganga í Nato og eiga í nánu samstarfi við Evrópusambandið. Eystrasaltslöndin telja sig betur stödd í félagsskap stórþjóða Evrópu en ein og afskipt.
Staða Eystrasaltsríkjanna er erfið. Fasta gengið hefur ekki gengið vel innan Evrusvæðisins og mikið aðhald er á ríkissjóðum. Líkt og greint var frá hér fyrir ofan þá ríkir enn meira atvinnuleysi en fyrir hrun, tekjuójöfnuður er mjög mikill í öllum þremur löndnunum og ungt fólk flytur í burtu. Aðspurður segir Hilmar leiðina áfram ,fyrir Eystrasaltslöndin, vera að reyna breyta skattkerfum sínum til að búa til möguleika á að byggja upp mennta- og heilbrigðiskerfið. Hilmar segir enn fremur að það sé mikilvægt að muna að það er möguleiki að nálgast jöfnuð í samfélaginu þótt lítið svigrúm sé til að auka fjármagn til velferðarkerfisins.
Skulda þeim aðstoð
Hilmar segir Svíþjóð og ESB skulda Eystrasaltslöndunum meiri aðstoð til að hjálpa við að leiðrétta niðurskurðinn sem varð á velferðarkerfinu í löndunum eftir hrun. Eystrasaltslöndin þurfa að vera harðari í samskiptum við stærri ríki og ríkjasambönd eins og Evrópusambandið til að fá sínu fram. Hann segir jafnframt stefnu Evrópusambandsins í ríkisfjármálum í raun of þrönga fyrir þessi tiltölulega nýju sjálfstæðu ríki.
Hilmar segir jafnframt að þessir miklu niðurskurðir hefðu aldrei getað verið framkvæmdir á Norðurlöndunum án þess að mótmæli hefðu brotist út. Eystrasaltslöndin hafi hins vegar í ljósi sögunnar ekki mikla hefð fyrir mótmælum. Svíar sögðu Eystrasaltsríkjunum að leggjast í harðar aðgerðir en gerðu ekki slíkt hið sama þegar þau lentu sjálf í kreppu á tíunda áratuginum. Titill bókarinnar vísar í þetta: „Do as we say, not as we do.“
„Efnahagsstefna Evrópusambandsins er byggð á stöðugleika, sem er mikilvægur einn og sér, en stefna Evrópusambandsins mætti miðast meira við jöfnuð. Aðgerðir Evrópusambandsins eftir hrun sneru að miklu leyti að því bjarga bönkum frekar en fólki,“ segir hann en telur þó ljóst að Evrópusambandið hafi haft áhyggjur af því að ef sænsku bankarnir myndu falla í Eystrasaltsríkjunum þá myndu áhrif þess teygjast til Norðurlandanna og þá hefði það orðið ansi stór skellur fyrir Evrópusambandið. „Þó að sambönd séu á milli landanna þá hugsar hvert land aðeins um sig þegar efnahagsleg áföll skella á,“ segir Hilmar.