Árið 2018: Borgarstjórnarkosningar sem sýndu ákall á breytingar
Konur verða ráðandi í Reykjavík næstu fjögur árin. Aldrei áður hefur borgarstjórn endurspeglað fjölbreytileika borgarbúa með jafn skýrum hætti og í þeim átta framboðum sem kjörin voru. Sumir flokkar voru sigurvegarar og aðrir töpuðu illa.
Borgarstjórnarkosningar fóru fram 26. maí 2018. Alls náðu átta flokkar kjöri og hafa aldrei verið fleiri. Sitjandi meirihlut féll og enginn augljós meirihluti var til staðar til að að taka við.
Ein allra áhugaverðasta niðurstaða kosninganna var sú að konur verða í miklum meirihluta í Reykjavík næsta kjörtímabil. Alls eru 15 þeirra 23 borgarfulltrúa sem kjörnir voru í kosningunum konur. Og sex þeirra átta framboða sem náðu kjöri eru leidd af konum. Einungis risarnir tveir, flokkarnir sem gerðu tilkall til borgarstjórastólsins í krafti stærðar sinnar, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, eru leiddir af körlum. Þá voru tveir frambjóðendur sem fæddir eru í öðru landi kjörnir í borgarstjórn og nýr yngsti borgarfulltrúi sögunnar er af blönduðum uppruna.
Hver vann?
Það voru margir sem töldu sig sigurvegara kosninganna í Reykjavík. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig 5,1 prósentustigi milli kosninga. Það er langmesta bætingin hjá þeim flokkum sem sátu í borgarstjórn síðasta kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn varð líka stærsti flokkurinn í höfuðborginni að nýju og niðurstaða hans var betri en nær allar kannanir, og raunar allur aðdragandi kosninganna, benti til. Í þessu ljósi vann Sjálfstæðisflokkurinn augljósan sigur.
En niðurstaðan, 30,8 prósent, var líka næst versta niðurstaða Sjálfstæðisflokks í Reykjavík frá upphafi borgarstjórnarkosninga. Hún var til að mynda lakari en árið 2010, þegar flokkurinn fékk 33,6 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn fékk átta borgarfulltrúa kjörna.
ósíalistaflokkurinn var augljós sigurvegari, og gat sagt slíkt án nokkurs fyrirvara. Hann náði 6,4 prósent atkvæða og Sanna Magdalena Mörtudóttir, leiðtogi hans, var í kjölfarið í mjög sterkri stöðu í borgarstjórn. Sanna þótti standa sig afburðavel í öllum kosningaþáttum sem hún kom fram í í aðdraganda kosninga og þrátt fyrir að vera yngsti borgarfulltrúi sögunnar – hún var ný orðin 26 ára þegar hún var kjörin – þá var hún oft eins og fullorðni einstaklingurinn í herberginu þegar aðrir oddvitar tókust á með hefðbundnum hætti.
Miðflokkurinn og Flokkur fólksins voru einnig sigurvegarar í Reykjavík einfaldlega vegna þess að þau náðu fólki inn í fyrsta sinn. Á landsvísu mátti slá því föstu að Miðflokkurinn væri stóri sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna þar sem flokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar náði að skjóta niður rótum mjög víða.
Píratar bættu einnig við sig fylgi á milli kosninga og voru eini flokkurinn í fráfarandi meirihluta sem gerði það.
En stóri sigurvegari kosninganna í Reykjavík var Viðreisn. Flokkurinn er nú orðinn þriðji stærsti flokkurinn í borginni eftir að hafa boðið sig þar fram í fyrsta sinn og er með tvo borgarfulltrúa.
Hverjir töpuðu?
Vinstri græn guldu afhroð í kjördæmi formanns síns, forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur. Einungis 2.700 manns kusu flokkinn í Reykjavík. Til samanburðar kusu 14.477 einstaklingar Vinstri græn í þingkosningum sjö mánuðum áður. Flokkurinn fékk einungis 4,3 prósent atkvæða og einn kjörinn fulltrúa, Líf Magneudóttur. Hann er næstminnstur allra þeirra framboða sem náðu kjöri í maí.
Samfylkingin tapaði líka illa. Þótt flokkurinn sé næst stærstur í borginni eftir kosningarnar, og hafi náð 25,9 prósent atkvæða, þá missti hann heil sex prósentustig af fylgi milli borgarstjórnarkosninga.
Þá er ónefndur Framsóknarflokkurinn, sem fékk 3,2 prósent atkvæða og náði ekki inn manni í Reykjavík. Í ljósi þess að um er að ræða kjördæmi varaformannsins og vonarstjörnunnar Lilju Alfreðsdóttur, og þess að Framsóknarflokkurinn er rúmlega 100 ára gamall flokkur með sterka innviði og mikla reynslu af kosningum, var niðurstaðan verulegt áhyggjuefni. Rifja má upp að Halldór Ásgrímsson heitinn, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, ákvað að draga sig í hlé úr stjórnmálum í kjölfar borgarstjórnarkosninganna 2006, þegar Framsókn fékk 6,1 prósent atkvæða. Halldór sagði meðal annars að hann væri að axla ábyrgð á lakri stöðu flokksins í þeim kosningum með því að stiga til hliðar.
Björt framtíð, sem sprottið hafði upp úr Besta flokknum og setið í meirihluta í átta ár, hvarf af sjónarsviðinu.
Dagur hélt borgarstjórastólnum
Ljóst var á niðurstöðu kosninganna að ákall var um breytingar. Meirihlutinn var kolfallinn og tvær burðarstoðir hans töpuðu umtalsverðu fylgi.
Nýr meirihluti var kynntur 12. júní í rjóðri við Breiðholtslaug. Hann samanstóð af Samfylkingu, Viðreisn, Pírötum og Vinstri grænum.
Í þeirri kynningu kom fram að Dagur B. Eggertsson,oddviti Samfylkingar, myndi halda áfram sem borgarstjóri Reykjavíkur. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, yrði formaður borgarráðs og Pawel Bartoszek annar maður á lista Viðreisnar, yrði forseti borgarstjórnar í þrjú ár en Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, myndi fyrst gegna því hlutverki í eitt ár.
Hér að neðan má lesa helstu atriðin í meirihlutasáttmála flokkanna fjögurra sem kynntur var samhliða.
Lestu meira:
-
24. desember 2019Jólasaga: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
4. janúar 2019Af hverju má ekki skipta gæðunum jafnt?
-
2. janúar 2019Þú veist ekki þegar þú sefur hjá í síðasta sinn
-
1. janúar 2019Stöndum vörð um lífskjörin
-
1. janúar 2019Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi
-
31. desember 2018Mest lesnu aðsendu greinar ársins 2018
-
30. desember 2018Mest lesnu viðtölin 2018
-
30. desember 2018Ár styttri vinnuviku
-
30. desember 2018Endurnýjun verkalýðsbaráttunnar
-
30. desember 2018Árið sem flugfélögin ógnuðu stöðugleikanum