Mynd: Bára Huld Beck

Árið 2018: Vantraust á dómsmálaráðherra og bætur til þeirra sem voru teknir af lista

Í mars var vantrauststillaga á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra lögð fram vegna framgöngu hennar í Landsréttarmálinu. Í október unnu tveir umsækjendur um stöðu dómara í Landsrétti sem voru metnir á meðal þeirra hæfustu en ráðherra ákvað að skipa ekki, mál sitt gegn íslenska ríkinu. Kjarninn heldur áfram að gera upp árið 2018.

Um mið­nætti 5. mars lögðu tveir stjórn­ar­and­stöðu­flokk­ar, Píratar og Sam­fylk­ing, fram van­traust­s­til­lögu á Sig­ríði Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra. Sú gjörð á rætur sínar að rekja í Lands­rétt­ar­mál­inu svo­kall­aða, sem snýst um að mats­­nefnd um hæfi umsækj­enda um dóm­­ara­emb­ætti við Lands­rétt, nýtt milli­­­dóm­­stig, lagði fram til­­lögu um 15 hæf­­ustu ein­stak­l­ing­anna í fyrra­vor til að taka við 15 stöð­­um. Sig­ríður ákvað að breyta þeirri til­­lögu og færa fjóra af lista mats­­nefnd­­ar­innar en setja fjóra aðra í stað­inn. 

Í des­em­ber 2017 komst Hæst­i­­réttur að þeirri nið­­ur­­stöðu að Sig­ríður hefði brotið gegn stjórn­sýslu­lögum með athæfi sínu í málum sem tveir mann­anna sem höfðu verið færðir af list­­anum höfð­uðu. Hinir tveir hafa síðan höfðað bóta­­mál á hendur rík­­inu.

Auglýsing

Í könnun sem Mask­ína vann fyrir Stund­ina kom fram að 72,5 pró­­­sent lands­­­manna vildu að Sig­ríður segi af sér emb­ætti.  Spurt var „Finnst þér að Sig­ríður Á. And­er­sendóms­­­mála­ráð­herra eigi að segja af sér ráð­herra­­­dómi eða á hún að sitja áfram sem dóms­­­mála­ráð­herra?“

Vöruðu ráðherra ítrekað við

Van­traust­s­til­lagan kom í kjöl­far þess að umboðs­maður Alþingis sendi bréf til stjórn­­­skip­un­­ar- og eft­ir­lits­­nefndar. Þar kom fram að hann myndi ekki hefja frum­­­kvæð­is­rann­­­sókn á mál­inu í ljósi yfir­­­stand­andi umfjöll­unar dóm­stóla og Alþingis um mál­ið. Hann gerði hins vegar nokkrar veiga­­­miklar athuga­­­semdir við máls­­­með­­­­­ferð­ina, meðal ann­­­ars þá að hann teldi að sá tveggja vikna frest­­­ur, sem ráð­herra hefur ítrekað borið við að hafi haft áhrif á mög­u­­­leika hennar til að rann­saka mál­ið, hafi ekki átt við í því til­­­­­felli.

Að auki benti hann sér­­­stak­­­lega á skyldu sér­­­fræð­inga ráðu­­­neyt­is­ins til að veita ráð­herra ráð­­­gjöf, til að tryggja að ákvarð­­­anir hans séu lögum sam­­­kvæmt og að öll stjórn­­­­­sýsla ráð­herra og ráðu­­­neytis sé í sam­ræmi við ólög­­­festa rétt­­­mæt­is­­­reglu stjórn­­­­­sýslu­rétt­­­ar. Ráð­herra hafi í þessu til­­­viki verið veitt sú ráð­­­gjöf, en minnst þrír sér­­­fræð­ingar ráðu­­­neyt­is­ins ráð­lögðu  Sig­ríði ítrekað við því að breyt­ingar á lista Lands­rétt­­­ar­­­dóm­­­ara og sá ófull­nægj­andi rök­­­stuðn­­­ingur sem þeim breyt­ingum fylgdi gæti verið brot á stjórn­sýslu­lögum, eins og síðar kom á dag­inn.

Tillagan felld

Til­lagan var tekin fyrir á Alþingi 6. mars. Þar var hún felld. Atkvæði féllu þannig að 33 voru á móti til­­lög­unni, 29 með­­­fylgj­andi og einn sat hjá, Berg­þór Óla­­son Mið­­flokki.

Auglýsing

Tveir þing­­menn Vinstri grænna, Rósa Björk Brynj­­ólfs­dóttir og Andrés Ingi Jóns­­son, studdu til­­lögu um van­­traust, en aðrir stjórn­­­ar­­þing­­menn voru á mót­i.

Í kjöl­farið hefur því verið haldið fram, meðal ann­ars af vara­for­manni Sjálf­stæð­is­flokks­ins, að stjórn­ar­meiri­hlut­inn telji nú 33 þing­menn en ekki þá 35 sem sitja á þingi fyrir stjórn­mála­flokk­anna þrjá sem mynda rík­is­stjórn.

Fá bætur

Áðurnefndur dómur Hæstaréttar var í málum þar sem Ást­ráður Har­alds­­­­son og Jóhannes Rúnar Jóhanns­­­­son, sem urðu báðir af dóm­­­­ara­­­­sæti í Lands­rétti vegna ákvörð­unar Sig­ríð­­­­ar, stefndu rík­­­­inu vegna ákvörð­unar hennar.

Þeir eru báðir starf­andi lög­­­­­­­menn og lögðu ekki fram nein gögn sem gátu sýnt fram á fjár­­­­hagstjón vegna ákvörð­unar ráð­herra. Skorað var á þá fyrir dómi að leggja fram skatt­fram­­­­töl og þar með upp­­­­lýs­ingar um tekjur sínar þannig að unnt væri að taka afstöðu til þess hvort þeir hefðu beðið „fjár­­­­tjón vegna þeirra ákvarð­ana dóms­­­­mála­ráð­herra sem um ræðir í mál­in­u“. 

Hvor­ugur þeirra gerði slíkt og þess vegna var íslenska ríkið sýknað af við­­­­ur­­­­kenn­ing­­­­ar­­­­kröfu um fjár­­­­tjón. Íslenska rík­­­inu var hins vegar gert að greiða þeim miska­bæt­­­ur. 

Tveir aðrir menn sem voru á lista dóm­­­­nefndar yfir þá sem átti að skipa dóm­­­­ara höfð­uðu ekki slík mál. Annar þeirra, Jón Hösk­­­­ulds­­­­son hér­­­­aðs­­­­dóm­­­­ari, sendi hins vegar kröfu á íslenska ríkið eftir að dómur Hæsta­réttar lá fyrir þar sem hann krafði það um skaða- og miska­bætur vegna skip­unar í Lands­rétt. Þeirri kröfu var ekki svarað og í kjöl­farið höfð­aði Jón mál.

Auglýsing

Jón krafð­ist þess að fá bætt mis­­­­mun launa, líf­eyr­is­rétt­inda og ann­­­­arra launa­tengdra rétt­inda dóm­­­­ara við Lands­rétt ann­­­­ars vegar og hér­­­­aðs­­­­dóm­­­­ara hins veg­­­­ar. Jón krafð­ist þess að fá þennan mun greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár. Lands­rétt­­­­ar­­­­dóm­­­­arar fá 1,7 millj­­­­ónir króna í laun á mán­uði en hér­­­­aðs­­­­dóm­­­­arar 1,3 millj­­­­ónir króna.

Eiríkur Jónsson ákvað að fylgja í fót­­spor Jóns snemma á þessu ári og stefndi rík­­inu. Hann er fæddur árið 1977 og er því rúm­lega fer­tugur að aldri. Eiríkur átti því um 27 ár eftir á vinn­u­­­­­mark­aði þegar skipað var í Lands­rétt miðað við hefð­bund­inn eft­ir­­­­­launa­ald­­­­­ur.

Í október komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið þyrfti að greiða mönnunum tveimur bætur vegna ólögmætra athafna dómsmálaráðherra. 

Hér­aðs­dómur Reykja­víkur dæmdi Jóni fjórar millj­ónir króna í skaða­bæt­ur, 1,1 milljón króna í miska­bætur auk þess sem ríkinu var gert að greiða 1,2 milljón króna máls­kostnað hans. 

Dóm­ur­inn féllst á bóta­skyldu rík­is­ins gagn­vart Eiríki en hann mun þurfa að höfða skaða­bóta­mál til að inn­heimta þá bóta­skyldu. Ríkið greiddi 1,2 milljón króna máls­kostnað hans. 

Meira úr sama flokkiFréttaskýringar