Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi
Arion banki var skráður á markað um mitt ár. Þar með var hann fyrstur bankanna þriggja sem endurreistir voru á rústum þeirra sem hrundu í október 2008 að losna að fullu úr viðjum ríkisins og komast í almenna eigu. En árið hefur ekki bara verið dans á rósum fyrir bankann. Ýmsir viðskiptavinir hans hafa glímt við rekstrarvanda, sem hefur haft áhrif á afkomu Arion banka.
Lokakaflinn í fléttunni um framtíð Arion banka, eina stóra viðskiptabankans á Íslandi sem er ekki að meirihluta í ríkiseigu, fór fram á fyrri hluta árs.
Hann hófst þegar lífeyrissjóðum landsins var boðið að kaupa allt að fimm prósent hlut í bankanum. Sjóðirnir höfðu til 12. febrúar að svara tilboðinu. Þeir sögðu pass hver á fætur öðrum.
Í kjölfarið var þeim skilaboðum komið til Bankasýslu ríkisins að vilji væri hjá Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðir eru stærstu hluthafarnir, að virkja kauprétt á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka og greiða um 23 milljarða króna fyrir 13 prósent hlut ríkisins.
Samhliða fór fram stjórnarfundur hjá Kaupþingi sem, samkvæmt heimildum Kjarnans, stóð fram á nótt. Niðurstaða hans var meðal annars sú að tveir af erlendum hluthöfum bæði Kaupþings og Arion banka, Attestor Capital og fjárfestingarbankinn Goldman Sachs, myndu kaupa 2,8 prósent hlut í Arion af Kaupþingi til viðbótar við það sem þeir áttu. Auk þess keyptu rúmlega 20 sjóðir í stýringu fjögurra af stærstu sjóðsstýringarfyrirtækjum Íslands: Stefnis, Íslandssjóða, Landsbréfa og Júpíter, samtals 2,54 prósent hlut. Samanlagt kaupverð var um 9,5 milljarðar króna.
Gátu miðað við gamalt uppgjör
Ástæða þess að salan á hlutnum var keyrð í gegn þennan dag var einföld: þá var hægt að miða kaupverðið við níu mánaða uppgjör Arion banka. Miðað við það er verðið sem greitt var fyrir 0,805 krónur á hverja krónu af eigin fé sem bankinn á. Ef verðið hefði farið niður fyrir 0,8 krónur hefði forkaupsréttur ríkisins á hlutnum virkjast. Ef viðskiptin hefðu farið fram 14. febrúar hefði það gerst.
15. febrúar var samþykkt að Arion banki myndi kaupa 9,5 prósent hlut í sjálfum sér af Kaupskilum, félagi í eigu Kaupþings, stærsta eiganda bankans. Um er að kaup á eigin bréfum í samræmi við ákvörðun hluthafafundar. Til viðbótar var greidd arðgreiðsla upp á 7,9 milljarða króna.
Mikil pólitísk átök urðu um ofangreindar vendingar. Hluti þingmanna vildi að stjórnvöld myndu grípa inn í ferlið með einhverjum hætti, annað hvort með því að nýta forkaupsrétt sinn á hlutum í Arion banka eða með því að hafna nýtingu Kaupþings á kaupréttinum á hlut ríkisins. Ástæðan var meðal annars sú að umfjöllun fjölmiðla, m.a. Kjarnans, hafði sýnt fram á að það var mikið falið virði í Arion banka. Stjórnvöld töldu hvorugt gerlegt, enda engar forsendur til staðar til nýtingar á forkaupsréttinum og nýting kaupréttar í samræmi við gerða samninga. Auk þess er það skoðun margra ráðamanna að æskilegt sé að ríkið selji að minnsta kosti hluta þeirra bankaeigna sem það á.
Skráður á markað
Um miðjan maí tilkynnti Arion banki að hann ætlaði að efna til útboðs á hlutabréfum í bankanum. Jafnframt var greint frá því að ætlunin væri að skrá bréfin í kauphöll bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Til sölu yrði að minnsta kosti 25 prósent hlutur en í mesta lagi 40 prósent.
Síðasta uppgjör Arion banka fyrir skráningu þótti ekki mjög gott. Hagnaður samstæðu bankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 nam 1,9 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2017. Arðsemi eigin fjár var aðeins 3,6 prósent samanborið við 6,3 prósent fyrir sama tímabil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóðlegum samanburði.
Í skráningarlýsingu bankans sagði að Arion banki teldi að rekstur hans hefði þróast með jákvæðum hætti frá því í lok mars 2018. „Hreinar vaxtatekjur jukust í apríl, að hluta til vegna aukinnar verðbólgu, sem hefur jákvæð áhrif á vaxtamun bankans þar sem hann á meiri verðtryggðar eignir en skuldir. Hreinar vaxtatekjur jukust einnig vegna endurgreiðslu á skuldabréfi á fyrsta ársfjórðungi 2018 sem bar tiltölulega háa vexti, sem dró úr vaxtakostnaði. Lánasafn bankans hefur stækkað í samræmi við vöxtinn á fyrsta ársfjórðungi með áframhaldandi vexti í húsnæðislánum, lánum til lítilla og meðalstórra félaga og útlánum til fyrirtækja. Tryggingastarfsemi bankans hefur batnað eftir erfiðan fyrsta ársfjórðung. Kostnaðargrunnur hefur fylgt sambærilegri þróun og fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 og virðisrýrnun útlána hefur verið að mestu óbreytt frá lokum fyrsta ársfjórðungs. Verkefnastaða á útlánasviðum og í fyrirtækjaráðgjöf eru í góðum farvegi.“
Í tilkynningu sem birt var um miðjan maí, þar sem útboðið var boðað, sagði að markmið Arion banka sé að vera með arðsemi eigin fjár sem sé yfir tíu prósent. Til að ná því er líklegt að breyta þurfi fjármögnun bankans mjög með því að greiða út eigin fé og sækja víkjandi lán (sett markmið er að minnka eiginfjárhlutfall úr 23,6 prósent í 17 prósent), minnka rekstrarkostnað umtalsvert (kostnaðarhlutfall er nú 70,8 prósent en sett markmið er að ná því undir 50 prósent) t.d. með því að fækka starfsfólki og ná hóflegum vexti í útlánum sem sé í takti við vöxt í þjóðarframleiðslu á Íslandi í nánustu framtíð.
Arion banki var svo skráður á markað í júní. Fyrsta stóra bankanum sem hafði verið reistur á brunarústum þeirra sem orsökuðu bankahrunið hafði verið skilað á markað tæpum tíu árum eftir að hrunið átti sér stað. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, sagði þó í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut síðla árs að hann vonaðist til þess að hinir tveir myndu fylgja honum þangað í nánustu framtíð.
Í dag er eignarhald Arion banka með þeim hætti að Kaupþing ehf. er enn stærsti eigandinn með 32,67 prósent. Þá á Arion banki 9,31 prósent hlut í sjálfum sér. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital (tíu prósent), Attestor Capital (7,31 prósent) og Och-Ziff Capital (6,58 prósent) koma þar næst. Stærsti innlendi fjárfestirinn í bankanum er Gildi lífeyrissjóður með 2,47 prósent hlut.
Flugfélögin lita stöðu Arion banka
Vendingar í flugheiminum hafa haft neikvæð áhrif á rekstur Arion banka á síðari hluta árs. Bankinn átti umtalsverða hagsmuni undir hjá bæði Primera Air og WOW air, en Primera fór í þrot í byrjun októbermánaðar og WOW air hefur háð dauðastríð mánuðum saman sem enn sér ekki fyrir endann á.
Arion banki sendi frá sér afkomuviðvörun 2. október, sama dag og Primera óskaði eftir greiðslustöðvun. Þar sagði að vegna ófyrirséðra atburða gerði bankinn ráð fyrir því að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir sem myndu hafa neikvæð áhrif á rekstrarafkomu hans á þriðja ársfjórðungi 2018. Áhrifin áttu að verða allt að 1,8 milljarðar króna.
Augljóst var að þarna var um áhrif af gjaldþroti Primera að ræða, þótt það væri ekki sagt berum orðum.
Þegar afkoma þriðja ársfjórðungs var kynnt var greint frá því að hún væri undir væntingum. Arðsemi eigin fjár var 2,3 prósent á þriðja ársfjórðungi, sem telst lítil arðsemi í alþjóðlegum samanburði.
Bankinn hóf auk þess söluferli á Valitor á árinu og samdi við Citigroup um miðjan nóvember um ráðgjöf vegna þeirrar sölu. Til stendur að selja meirihluta eða allt hlutafé í greiðslumiðlunarfyrirtækinu.
Vandræðin í Helguvík
Önnur vandræðaeign Arion banka er kísilmálverksmiðja United Silicon í Helguvík. Bankinn tók yfir verksmiðjuna snemma árs, stofnaði félagið Stakksberg utan um hana, ætlar sér að koma henni aftur í starfsemi og svo selja hana.
Mikil andstaða er hins vegar við þau áform hjá íbúum Reykjanesbæjar og félagasamtökin „Andstæðingar stóriðju í Helguvík“ hafa staðið fyrir undirskriftasöfnun til að m.a. afturkalla starfsleyfi Stakksberg. Samtökin vilja að íbúar sveitafélagsins fái að kjósa um það hvort þeir kæri sig yfirhöfuð um stóriðjuuppbyggingu í Helguvík.
Kjarninn greindi frá því um miðjan desember að lögmaður félags Arion banka hefði sent Skipulagsstofnun bréf þar sem kom fram að hann teldi að íbúakosning um breytingar á skipulagi á svæðinu sem félagið hefur óskað eftir að láta vinna sé ekki lögmæt.
Í bréfinu sagði lögmaður Stakksberg að þegar hafi verið fallist á starfsemina sem hafi fengið öll leyfi og sé meðal annars með gilt starfsleyfi. „Verksmiðjan hefur þegar verið byggð á lóðinni fyrir um 22 milljarða króna. Um er að ræða réttindi sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og atvinnuréttindi sem njóti verndar 75. gr. stjórnarskrár. Um slík réttindi verði ekki kosið í almennum kosningum að mati Stakksberg ehf.“
Verði kosið um málið, og niðurstaða þeirrar kosningar verði sú að starfsemi kísilmálmverksmiðjunnar verði hafnað, þá telur Stakksberg Reykjanesbæ hafa bakað sér bótaskyldu. „Í þessu sambandi er minnt á að þegar unnin fjárfesting í verksmiðju Stakksberg nemur um 22 milljörðum króna.“
Lestu meira:
-
24. desember 2019Jólasaga: Litla stúlkan með eldspýturnar
-
4. janúar 2019Af hverju má ekki skipta gæðunum jafnt?
-
2. janúar 2019Þú veist ekki þegar þú sefur hjá í síðasta sinn
-
1. janúar 2019Stöndum vörð um lífskjörin
-
1. janúar 2019Arion banki varð fyrsti nýi bankinn til að fá frelsi
-
31. desember 2018Mest lesnu aðsendu greinar ársins 2018
-
30. desember 2018Mest lesnu viðtölin 2018
-
30. desember 2018Ár styttri vinnuviku
-
30. desember 2018Endurnýjun verkalýðsbaráttunnar
-
30. desember 2018Árið sem flugfélögin ógnuðu stöðugleikanum