Kaupin á fjölmiðlunum sem fóru alls ekki eins og lagt var upp með
Sýn birti ársreikning sinn í gær. Félagið ætlaði að auka rekstrarhagnað sinn umtalsvert með kaupum á ljósvakamiðlum 365 miðla í lok árs 2017. Niðurstaðan er allt önnur og nú hafa þrír stjórnendur verið látnir fara á stuttum tíma, afkomuviðvaranir verið sendar út og rúmlega 40 prósent af markaðsvirðinu er horfið.
„Uppgjör fjórða fjórðungs markar þau tímamót að sameinað fyrirtæki hefur lokið heilu rekstrarári. Rekstraráætlanir sem lágu til grundvallar hafa ekki gengið eftir af ýmsum orsökum eins og endurspeglast í lækkun á útgefnum horfum. Samspil margra þátta leiðir til veikari reksturs en búist var við: Í fyrsta lagi hafa krefjandi ytri aðstæður með óvissu í efnahagslífinu haft áhrif á sjónvarpsáskriftir og auglýsingasölu. Í öðru lagi hefur kostnaður við nýja starfsemi verið nokkuð hærri en búist var við auk þess sem kostnaðarhækkanir voru umtalsverðar vegna veikingar íslensku krónunnar á fjórða fjórðungi ársins. Í þriðja lagi ollu hnökrar í tengslum við yfirfærslu viðskiptavina um mitt ár álagi á þjónustuver á sama tíma og samkeppnin á markaðnum var mikil. Þetta samspil skapaði brottfall, aukinn sölukostnað og lækkun meðaltekna á viðskiptavini á fjórða fjórðungi.“
Þetta eru var haft eftir Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Sýnar, í tilkynningu til kauphallar þegar ársreikningur félagsins var birtur í gær. Tilkynningin birtist í fréttakerfi kauphallarinnar klukkan 20:51:26. Rúmum tveimur mínútum síðar, klukkan 20:53.37, birtist önnur tilkynning þar um að Stefán hefði náð samkomulagi við stjórn Sýnar um að láta af störfum. Stefán er þriðji stjórnandi Sýnar sem hefur verið látinn fara á þessu ári. Í byrjun árs voru tveir aðrir reknir, þar á meðal Björn Víglundsson, sem var yfir miðlum félagsins. Hans hlutverk hafði sérstaklega verið að leiða samþættingu fjölmiðlahluta Sýnar við aðrar einingar Fjarskipta og vinna að vöruþróun.
Stjórn Sýnar hefur falið Heiðari Guðjónssyni, stjórnarformanni félagsins sem á átta prósent hlut í því, að annast í auknum mæli skipulag félagsins og gæta þess að rekstur þess sé í réttu og góðu horfi fram að ráðningu nýs forstjóra. Stærstu eigendur Sýnar eru íslenskir lífeyrissjóðir. Sex slíkir eiga samtals 45,5 prósent hlut.
Ljósvakamiðlar keyptir á milljarða
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars í fyrra. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
365 miðlar fengu greitt fyrir með 10,92 prósent hlut í Sýn, tæplega 1,6 milljarði króna í reiðufé auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af vaxtaberandi skuldum. Eigendur 365 miðla, sem eru félög tengd Ingibjörgu Pálmadóttur, seldu eignarhlutinn sinn í Sýn í október í fyrra á tvo milljarða króna. Því má segja að þeir hafi fengið um 3,6 milljarða króna í reiðufé út úr sölunni auk þess sem Sýn tók yfir 4,6 milljarða króna af skuldum 365 miðla. Samanlagt er kaupverðið samkvæmt því um 8,2 milljarðar króna.
Í tilkynningu sem send var til kauphallar 30. nóvember 2017, daginn áður en Sýn fékk ljósvakamiðlanna afhenta, sagði að „velta sameinaðs félags mun nema um 22 milljörðum króna og skila um 5 milljörðum króna í EBITDA hagnað þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram eftir 12-18 mánuði.“
Áætlun um tekjur stóðst í fyrra. Tekjur voru tæplega 22 milljarðar króna. En EBITDA-hagnaður (rekstrarhagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) var 3,2 milljarðar króna, sem var töluvert frá því markmiði sem átti að ná með samlegðaráhrifunum. Og einungis fjórum prósentum hærri en árið áður, þegar ekki var búið að samþætta ljósvakamiðlanna inn í reksturinn. Það þýðir að rekstrarhagnaðurinn jókst nær ekkert við það að kaupa þá.
Hagnaður ársins var 473 milljónir króna. Enginn arður verður greiddur út, enda afkoman langt undir væntingum.
Kostnaður hærri og enski boltinn að fara
Það lá raunar fyrir og þannig myndi fara. Allur kostnaður við það að taka yfir fjölmiðlanna reyndist hærri en lagt var upp með. Dagskrárkostnaður reyndist hærri, auglýsingasala og sala sjónvarpsáskrifta lægri og annar kostnaður vegna samþættingu varð meiri. Sýn sendi tvær afkomuviðvaranir frá sér á síðustu mánuðum ársins 2018 og hækkaði verð á sjónvarps- og fjarskiptaþjónustu félagsins um allt að 30 prósent um mánaðamótin nóvember/desember.
Staðan var erfið allt árið. Alls lækkaði markaðsvirði þess um 38,3 prósent á síðasta ári, meira en í nokkru öðru skráðu félagi. Frá því að hinir keyptu ljósvakamiðlar voru afhentir Sýn hefur markaðsvirðið lækkað um tæp 41 prósent, úr 19,3 milljörðum króna í 11,5 milljarða króna. Kaupin hafa því kostað hluthafa 7,8 milljarða króna í töpuðu markaðsvirði.
Enn ein blóðtakan varð þegar Síminn tryggði sér réttinn af sýningu á enska boltanum frá og með næsta keppnistímabili. Í samrunaskrá vegna kaupa á miðlum 365, sem var óvart birt á vef Samkeppniseftirlitsins með trúnaðarupplýsingum vorið 2017, kom fram að um þrjú þúsund áskrifendur væru að Sportpakka Stöðvar 2 og tæplega 1.400 manns með Risapakkann, sem inniheldur einnig íþróttastöðvarnar. Hluti þessara áskrifenda gæti verið í hættu þegar enski boltinn er ekki lengur í boði innan hennar. Í nýlegri greiningu Arion banka á Sýn er áætlað að um fimm þúsund viðskiptavinir gætu farið frá félaginu samhliða því að það missir enska boltann. Út frá þeim forsendum spáði greiningin fyrir um tekjusamdrátt hjá Sýn á árinu 2020.
Óvissa vegna efnis frá Fréttablaðinu
Fleiri áhættuþættir eru til staðar. Í tengslum við kaupin á ljósvakamiðlunum var líka gerður samstarfssamningur milli 365 miðlar og Sýnar. Í honum fólst að efni Fréttablaðsins, sem var einnig í eigu 365 miðla en var ekki hluti af kaupunum, ætti áfram birtast á Vísi.is í 44 mánuði eftir að kaupin ganga í gegn. Það þýddi að Vísir.is myndi geta birt allt efni Fréttablaðsins að morgni í tæp fjögur ár þrátt fyrir að fjölmiðlarnir verði ekki lengur í eigu sama aðila.
Þegar samruninn var samþykktur af Samkeppniseftirlitinu með skilyrðum kom fram að eftirlitið hefði talið að gildistími þessa samnings væri of langur. Eftir viðræður eftirlitsins við Sýn þá var ákveðið að stytta gildistímann. Ekki hafa fengist upplýsingar um hversu mikið en ljóst er að hann mun renna út í nánustu framtíð. Ef Vísir, sem er í harðri samkeppni við mbl.is um að vera mest lesni vefur landsins, ætlar að halda umfangi sínu í birtu efni þarf þá að auka umtalsvert við kostnað við rekstur vefsins til að bæta upp fyrir það efni sem mun ekki lengur birtast þar þegar samningnum lýkur.
Í sátt sem Sýn gerði við Samkeppniseftirlitið vegna kaupana þá skuldbatt félagið sig til að halda áfram rekstri þeirra fjölmiðla sem voru andlag kaupanna næstu þrjú ár. Í því fólst meðal annars áframhaldandi rekstur fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar eða sambærilegra fréttastofa. Þessi skuldbinding var þó ekki án fyrirvara. Í sáttinni segir að félagið geti „gert breytingar á framboði frétta eða framleiðslu íslensks efnis vegna verulegra utanaðkomandi neikvæðra breytinga á markaðsaðstæðum.“
Breyttar uppgjörsaðferðir hækka EBITDA
Í fréttatilkynningu vegna ársreiknings Sýnar sem send var út í gær kom fram að EBITDA horfur, miðað við óbreyttar aðstæður, fyrir þetta ár séu á bilinu 3,2 til 3,7 milljarðar króna. Þær hafa væri endurskoðaðar til lækkunar um 440 milljónir króna.
En Sýn ætlar hins vegar að vera með EBITDA hagnað upp á 6 til 6,5 milljarða króna á þessu ári. Þeim árangri ætlar félagið að ná með breyttri reikningsskilaaðferð við meðhöndlun sýningarrétta, sem verður ný færður á óefnislegar eignir og bætir EBITDA-horfur um 2,2 milljarða króna til hækkunar, og innleiðingu á reikningsskilastaðlinum IFRS 16, sem hækkar EBITDA-horfur um 550 milljónir króna. Hvorug aðgerðir er þó til komin vegna bætingu í rekstri.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi