Ungmenni hvaðanæva að úr heiminum mótmæltu aðgerðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Íslensk börn og unglingar létu sig ekki vanta en mörg hundruð marseruðu frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Austurstræti og niður á Austurvöll þar sem hópurinn safnaðist saman.
Mikil stemning var meðal ungmennanna og voru kröfurnar skýrar; þau vilja aðgerðir í loftslagsmálum og þau vilja þær núna. Einnig hrópuðu þau í takt: „Við erum bara börn, framtíð okkar skiptir máli!“
Á Facebook-síðu viðburðarins kemur fram að um verkfall sé að ræða og að það sé innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Nú þegar hafa tugþúsundir ungmenna farið að hennar fordæmi og flykkst út á götur til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar, meðal annars í Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Svíþjóð.
„Við viljum sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir,“ skrifa þau.
Þau benda á að stjórnvöld hafi sett sér aðgerðaráætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 sem geri meðal annars ráð fyrir kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. „Við viljum styðja við bakið á þeim aðgerðum, en betur má ef duga skal. Núverandi aðgerðaáætlun er ekki í samræmi við markmið um að halda hlýnun innan 1,5 gráðu á heimsvísu og við krefjumst aðgerða sem eru líklegar til að skila þeim árangri.“
Ljóst sé að stórauka þarf fjárframlög til loftslagsaðgerða. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) reiknast til að verja þurfi 2,5 prósent af heimsframleiðslu til loftslagsmála á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun innan við 1,5 gráður. Núverandi áætlun er upp á 0,05 prósent af þjóðarframleiðslu á ári næstu fimm árin.
Þau krefjast þess að Ísland taki af skarið, hlusti á vísindamenn, lýsi yfir neyðarástandi og láti hið minnsta 2,5 prósent af þjóðarframleiðslu renna beint til loftslagsaðgerða. Þar verði atvinnulífið einnig að axla ábyrgð og til þess verði ákveðin viðhorfsbreyting að eiga sér stað.
„Við viljum afdráttarlausar aðgerðir. Núna. Fyrir komandi kynslóðir. Fyrir loftslagið!“
Kjarninn greindi frá því í gær að hin sextán ára Greta Thunberg hefði verið tilnefnd til Friðarverðlauna Nóbels en hún hefur öðlast heimsfrægð fyrir baráttu sína og aktívisma gegn loftslagsbreytingum.
„Við höfum tilnefnt Gretu Thunberg vegna þess að ef við gerum ekkert til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar þá verður það tilefni til stríða, átaka og fjölgun flóttamanna,“ sagði norski þingmaðurinn Freddy André Øvstegård. „Greta Thunberg hefur komið af stað fjöldahreyfingu sem ég lít á sem mikið framlag til friðarmála.“
Greta er fædd í Stokkhólmi þann 3. janúar 2003 og er dóttir leikarans Svante Thunberg. Í fréttaskýringu RÚV um þessa athyglisverðu stelpu segir að afskipti hennar af loftslagsmálum hafi byrjað fyrir alvöru í maí í fyrra þegar hún var meðal vinningshafa í ritgerðasamkeppni sem Svenska Dagbladet efndi til. Upp úr því hafi ýmsir haft samband við hana og næstu vikur hafi verið lagt á ráðin um aðgerðir sem skólakrakkar gætu gripið til til að vekja athygli á loftslagsmálum.
Hún hafi hins vegar ekki séð fram á að þær aðgerðir myndu gera mikið gagn, þannig að hún ákvað að gera þetta bara ein og sjálf. Það fyrsta sem hún hafi gert var að útbúa stórt spjald á stofugólfinu heima hjá sér með áletruninni Skolstrejk för klimatet eða Skólaverkfall fyrir loftslagið.
Þann 20. ágúst hafi hún skrópað í skólanum og setið þess stað ein með spjaldið fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi, ákveðin í að vera þar á skólatíma hvern einasta dag fram yfir sænsku þingkosningarnar 9. september. Krafa hennar var einföld. Að ríkisstjórn Svíþjóðar myndi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið.
Eftir 9. september hafi Greta farið að mæta í skólann fjóra daga í viku og látið nægja að vera í verkfalli á föstudögum. Og smátt og smátt hafi fleiri farið að veita þessu uppátæki eftirtekt, ekki bara í Stokkhólmi og ekki bara í Svíþjóð, heldur út um allan heim.
Athygli vakti þegar Greta ferðaðist með lest til Katowice í desember síðastliðnum – þar sem hún ávarpaði aðildarríkjafundinn COP-24 – og aftur til Davos í janúar til að ávarpa árlegan fund Alþjóðaviðskiptaráðsins.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Möguleg ljós- og lyktmengun af nýju landeldi við Þorlákshöfn þurfi nánari skoðun
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Skipulagsstofnun dregur fram kosti Miðleiðar að Fjarðarheiðargöngum
-
30. desember 2022Áskorun til þingmanna: Takið þátt í Veganúar!
-
30. desember 2022Árið sem Íslendingar hentu minna af fötum en kínverskur tískurisi hristi upp í hlutunum
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
29. desember 2022Vindmyllur við Lagarfoss þurfa í umhverfismat
-
28. desember 2022Vilja nota kopar á kvíar í Arnarfirði – eitrað og jafnvel skaðlegt segir Hafró
-
26. desember 2022Framtíðin er núna