Seðlabankinn minntist á „kaflaskil“ í tilkynningu sinni um afléttingu hinnar svokölluðu bindiskyldu á mánudaginn fyrir tveimur vikum síðan. Aðgerðin markar vissulega breytta tíma, en með henni eru fjármagnshöftin sem sett voru á íslensku krónuna árið 2008 nær alveg losuð. Þótt bankinn muni enn hlutast í fjármagnshreyfingum til og frá landinu er þetta skref mikilvægt fyrir íslensku krónuna og hefur nú þegar haft mikil og góð áhrif á efnahagslífið.
Til varnar gegn spákaupmennsku
Þrátt fyrir að gjaldeyrishöft á íslenska neytendur, fyrirtæki og lífeyrissjóði voru losuð fyrir tveimur árum síðan hefur Seðlabankinn hindrað frjálst flæði fjármagns til landsins með svokallaðri bindiskyldu síðan árið 2016. Samkvæmt henni var erlendum fjárfestum gert að festa fimmtung af fjármagni sínu hér til lengri tíma, en með því varð Ísland að óálitlegri kosti fyrir fjárfestingar erlendis frá.
Margir úr fjármálalífinu hafa gagnrýnt þessa reglu, þar á meðal Samtök Atvinnulífsins og Agnar Tómas Möller, annar stofnenda GAMMA. Samkvæmt Agnari hefur tilvist hennar beinlínis leitt til hærri vaxta hér á landi vegna fjármagnsskortsins sem hún skapar hér á landi.
Seðlabankinn hefur hins vegar sagt bindiskylduna vera nauðsynlega til að koma í veg fyrir óstöðuga krónu og vaxtamunaviðskipti líkt og þau sem við sáum fyrir hrun. Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor og fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabankans, sagði í viðtali við Stöð 2 í fyrra að bindiskyldan stöðvi sókn í vaxtamunaviðskipti, en án hennar væri illmögulegt að vera með sjálfstæðan gjaldmiðil og hlúa að uppbyggingu lífskjara á traustum grunni.
Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans fyrr í mánuðinum hafa nú loks myndast aðstæður til að afnema bindiskylduna. Þar sem raunvextir á Íslandi séu nú orðnir sambærilegir því sem gerist erlendis sé minni hætta á þeirri spákaupmennsku sem fylgir vaxtamunaviðskiptum og óstöðugleika í gengi krónunnar undir frjálsum fjármagnsflutningum.
Minnkandi vaxtamunur milli Íslands og annarra landa sést vel þegar íslensk og bandarísk skuldabréf eru borin saman, en munurinn á ávöxtunarkröfu þeirra hefur snarminnkað eftir að innflæðishöftin voru sett á í júní 2016. Muninn má sjá á mynd hér að ofan, en hann var upp á sitt minnsta í desember síðastliðnum þegar Seðlabankinn tilkynnti afnám bindiskyldunnar.
Aldrei frjálst fjármagn undir krónu
Bindiskyldan var ein af aðgerðum Seðlabankans til að stuðla að fjármálastöðugleika eftir losun útflæðishaftanna árið 2017, en samkvæmt bankanum eru fjármagnshöft til og frá landinu svo gott sem úr sögunni nú þegar hún er afnumin.
Hins vegar, þótt höftin séu farin að nafninu til, verða fjármagnsflutningar til og frá landinu aldrei að fullu frjálsir svo lengi sem Íslendingar hafa krónuna í núverandi mynd. Ásgeir Jónsson, Ásdís Kristjánsdóttir og Illugi Gunnarsson minnast á þetta í skýrslu sinni um framtíð íslenskrar peningastefnu, en þar segir að sjálfstæð peningastefna sé aðeins möguleg ef einhver stjórn er á fjármagnshreyfingum landsins.
Þetta hefur Seðlabankastjóri líka sagt, en Seðlabankinn hefur útlistað fjölda aðgerða sem hann gæti farið í eftir losun hafta. Þeirra á meðal eru inngrip í gjaldeyrismarkaðinn, takmörkun á útrás íslenskra banka og bann á lán í erlendum gjaldmiðlum til þeirra sem hafa tekjur í krónum.
Samkvæmt bankanum er nauðsynlegt að hafa möguleika á að beita slíkum aðgerðum til þess að halda fjármálastöðugleika nú þegar íslenska krónan er svo gott sem haftalaus og fylgir núverandi peningastefnu.
Neytendur græða
Þrátt fyrir að hafa skapað stöðugleika í gjaldeyrismálunum voru innflæðishöftin ekki ókeypis fyrir íslenska neytendur. Þar sem bindiskyldan torveldaði erlendum fjárfestum að binda fé sitt hér á landi leiddi hún til þess að gengi krónunnar var veikara en það hefði annars verið. Með veikara gengi hækkar verð á innfluttri vöru og þjónustu, en þannig sköpuðu höftin verðbólguþrýsting og minnkuðu svigrúm Seðlabankans til vaxtalækkunar.
Afnám haftanna eru því góðar fréttir fyrir Íslendinga, en samhliða þeim hefur gengi krónunnar styrkst umtalsvert og verðbólguþrýstingur minnkað. Áhrif haftalosunarinnar eru greinileg ef litið er til helstu viðskiptamynta Íslands, en tvær stærstu styrkingar krónunnar gagnvart þeim á síðustu sex mánuðum áttu sér stað annars vegar þegar losunin var tilkynnt í desember og hins vegar þegar bindiskyldan var loks afnumin í byrjun mars.
Styrkinguna má sjá á mynd hér að ofan. Á síðustu tveimur vikum hefur krónan styrkst um rúm 3 prósent gagnvart pundi, evru og Bandaríkjadal, en rúm tveggja vikna styrking nam 4,6 prósentum eftir tilkynningu um losun haftanna síðastliðinn desember.
Mikilvægt mótvægi
Marsmánuður hefur sannarlega ekki verið tíðindalítill, en margt benti til þess að krónan gæti veikst nokkuð og verðbólguvæntingar aukist. Þar ber fyrst að nefna ólgu á vinnumarkaði og verkfallsundirbúning, en hagfræðingar hafa bent á að launahækkanir umfram framleiðniaukningu leiði til verðbólgu og gengisveikingu. Einnig hafa reglulega borist fréttir af ótraustri stöðu WOW air, en mögulegt gjaldþrot fyrirtækisins gæti leitt til snarprar gengisveikingar vegna samdráttar í ferðaþjónustunni og tilheyrandi verðbólguskots.
Sömu sögu er að segja um nýlegar fréttir um loðnuleysi, en samdráttur í sjávarútveginum eykur hættuna á gengisveikingu. Ofan á þetta allt ríkti svo mikil óvissa um ríkisstjórnarsamstarfið í síðustu viku, en slíkar fréttir leiða alla jafna til veikara gengis þar sem erlendir fjárfestar draga gjarnan úr fjárfestingum í löndum þar sem pólitískur óstöðugleiki ríkir.
Hins vegar, þvert á allar ofantaldar ástæður, styrktist krónan um 3 prósent á meðan á öllu þessu stóð, auk þess sem verðbólguvæntingar lækkuðu úr 3,4 prósentum niður í 3 prósent. Á kynningarfundi Seðlabankans fyrr í vikunni sagði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri lækkun verðbólguvæntinga vera fyrst og fremst vegna gengisstyrkingarinnar, en styrkingin sjálf skýrðist að stórum hluta af nýfjárfestingum í íslensk skuldabréf. Báðir þættirnir, sem eru afleiðingar af losun innflæðishaftanna, stuðluðu að því að Seðlabankinn kaus að halda vöxtum óbreyttum síðastliðinn miðvikudag, þrátt fyrir mikla óvissu annars staðar í hagkerfinu.
Ljóst er því að losun haftanna hefur veitt óvissuástandi undanfarinna vikna mikilvægt mótvægi þar sem áhrif þeirra hefur yfirgnæft allar hugsanlegar áhyggjur sem fólk kynni að hafa af verðbólgu og gengi krónunnar.
Er þetta nóg?
Hvort áhrif haftalosunarinnar muni vega nógu þungt til að halda verðbólgunni í skefjum í ár er enn óvíst. Hins vegar munu þau líklega hvetja til enn meiri fjárfestinga innanlands á næstu misserum og minnka verðbólguþrýsting. Ef Seðlabankinn er enn vel búinn til að grípa inn í ef ójafnvægi myndast á gjaldeyrismarkaði munu íslenskir neytendur njóta góðs af auknu frelsi krónunnar.