Loftlagsstefna Stjórnarráðsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun allra tíu ráðuneytanna og Rekstarfélags stjórnarráðsins var samþykkt í ríkisstjórn í gær. Stjórnarráðið hyggst draga úr losun sinni á koltvísýring um samtals 40 prósent fyrir árið 2030. Auk þess stefnir Stjórnarráðið á að hafa verið kolefnishlutlaust í meira en tíu ár árið 2030 og binda að auka meira CO2 en það losar.
Í loftlagsstefnunni má finna greiningu á kolefnisfótspori Stjórnarráðsins og aðgerðir til draga úr því. Þar á meðal markmið um að draga úr flugferðum á vegum ráðuneytanna en losun koltvísýrings vegna flugferða starfsmanna, bæði innanlands og erlendis, var 963 tonn í fyrra.
Liður í að ná markmiðum Parísarsamningsins
Í síðustu viku mælti Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftlagsmál á Alþingi. Í frumvarpinu er lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins skuli að setja sér loftslagsstefnu. Verði frumvarpið að lögum þurfa ríkisaðilar að setja fram skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun viðkomandi starfsemi í loftlagsstefnunni, auk aðgerða svo þeim markmiðum verði náð.
Haustið 2018 kynnti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 Aðgerðaáætlunin er helsta tæki stjórnvalda til að tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins til 2030 og markmiði ríkisstjórnarinnar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir árið 2030 og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Loftslagsstefna Stjórnarráðsins er ein af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að ná þessu markmiði og er stefnunni einnig ætlað að vera fyrirmynd og hafa áhrif vítt og breitt um samfélagið.
Flug starfsmanna 70 prósent af heildarlosun Stjórnarráðsins
Í loftlagsstefnu Stjórnarráðsins eru birtir útreikningar á kolefnisspori Stjórnarráðsins en samkvæmt þeim hefur flug starfsmanna ráðuneytanna erlendis mestu loftslagsáhrifin eða 67 prósent af heildarlosun ráðuneytanna. Þar á eftir koma ferðir starfsmanna til og frá vinnu eða um 16 prósent af heildarlosun, akstur á vegum ráðuneyta 7 prósent, losun frá mötuneytum 5 prósent , flug starfsmanna innanlands 3 prósent, losun vegna þess úrgangs sem til fellur 1 prósent og loks orkunotkun 1 prósent.
Heildarlosun Stjórnarráðsins var 1377 tonn árið 2018, þar af var losun vegna flugferða á vegum ráðuneytanna og Rekstarfélags Stjórnarráðsins 963,4 tonn. Mest var losun Utanríkisráðuneytisins eða alls 403 tonn af koltvísýring vegna flugferða í fyrra.
Vegna þessarar gífurlegu losunar frá flugferðum starfsmanna ákvað Stjórnarráðið að veita því sérstaka athygli að finna leiðir til að draga úr losun vegna flugs án þess þó að setja alþjóðlegu samstarfi og skuldbindingum Íslands skorður.
Ætla koma upp fjarfundabúnaði í öllum ráðuneytum
Í stefnunni segir að Ísland sé eyja og því sé flug nær eini ferðakosturinn en Stjórnarráðið telur að það leynist tækifæri til samdráttar með skipulagningu og fjölgun fjarfunda. Því ætlar Stjórnarráðið að koma upp fjarfundabúnaði í öllum ráðuneytum og setja sér markmið um að auka hlutfall fjarfunda.
Jafnframt segir í stefnunni að gerð verði ítarleg greining á flugferðum ráðuneytanna og greining tækifæra til að draga úr losun vegna flugs. Auk þess verði þróuð veflausn sem veitir upplýsingar um kolefnisspor mismunandi flugleiða og tengir losunartölur úr flugferðum við markmið um samdrátt í losun. Þannig á að fást nauðsynleg yfirsýn yfir losun vegna flugferða sem er forsenda þess að geta dregið markvisst úr henni.
Fyrir árið 2022 hefur Stjórnarráðið sett sér markmið um draga úr flugi starfsmanna innanlands um 19 prósent og erlendis um 2 prósent.
Bjóða upp á rafhjól og óska eftir visthæfum leigubílum
Annað markmið í loftlagsstefnunni er draga úr losun vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu um 21 prósent fyrir árið 2022. Því hefur nú þegar hafist handa við að koma upp hjólaskýli og sturtuaðstöðu fyrir starfsmenn í ráðuneytunum. Jafnframt verður hleðslustöðvum fyrir rafbíla fjölgað við öll ráðuneyti.
Enn fremur hyggst Stjórnarráðið draga úr losun vegna aksturs á vegum ráðuneyta um 30 prósent. Starfsmönnum hefur þegar verið boðið afnot af rafhjólum til reynslu og aðgang að deilibíl. Þá verður bílafloti Stjórnarráðsins endurnýjaður fyrir 2021 með það að markmiði að ráðherra og þjónustubílar verði án jarðefnaeldsneytis. Auk þess mun Stjórnarráðið gera samninga við bílaleigur um visthæfa bíla og jafnframt verður óskað sérstaklega eftir visthæfum leigubílum.
Auk fyrrgreindra aðgerða verður komið á sérstöku landgræðslusvæði sem ráðuneytin og stofnanir geta nýtt fyrir kolefnisjöfnun. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ítrekaði í tilkynningu um loftlagstefnuna að það megi þó ekki gleyma að stóra verkefnið sé að draga úr losun. „Það er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir kolefnisjafni starfsemi sína en við megum þó aldrei gleyma því að stóra verkefnið er að draga úr losun. Gildi loftslagsstefnu Stjórnarráðsins er ekki síst að styðja við viðleitni sem flestra til að draga úr losun og sóun og senda jákvæð skilaboð út í samfélagið.“