Ein stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir eru þær breytingar sem hafa orðið og eru fyrirséðar vegna loftslagsmála. Vandamálið er ekki nýtt af nálinni en umræðan hefur sprungið út síðustu ár, sem og meðvitund fólks um hvað gera skuli til að sporna við þeirri þróun sem á sér stað.
En er nóg að gert?
Guðmundur Ingi Guðbrandsson ákvað að taka slaginn þegar honum bauðst að taka við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir einu og hálfu ári sem utanþingsráðherra fyrir Vinstri græn. Hann er með BSc próf í líffræði frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í umhverfisfræðum frá Yale háskóla í Bandaríkjunum. Hann var framkvæmdastjóri Landverndar á árunum 2011 til 2017 en starfaði áður við rannsóknir í vist- og umhverfisfræðum við Háskóla Íslands og við alþjóðamál og rannsóknir hjá Landgræðslu ríkisins, svo eitthvað sé nefnt.
En hvernig hefur verið að stíga úr störfum fyrir Landvernd yfir í ráðuneytið og stjórnmálin? „Ja, ég sagði ekki nei við þessu,“ segir hann og kímir. „Mér fannst þetta alveg frábært tækifæri og ég gerði mér grein fyrir því, og geri enn, að ég mun ekki ná að gera allt sem ég myndi vilja gera. Bæði vegna þess að það er ekki víst að ég nái pólitískri samstöðu um það en líka vegna tímaskorts.“
Ég nenni ekki að velta mér allt of mikið upp úr fortíðinni. Það er bara að ganga til verka og koma hlutunum áfram.
Á síðustu árum hafa verkefnin hlaðist upp í umhverfismálunum, að sögn Guðmundar Inga. „Áður en ég kom í ráðuneytið þá horfði ég til þeirra hluta sem mér fannst ég vera búinn að bíða lengi eftir að myndu gerast. Eitt af því var aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, að ég tali nú ekki um að hafa hana fjármagnaða. Annað var að auka náttúruvernd og viðhald íslenskrar náttúru sem snýr bæði að því að friðlýsa stærri svæði – eins og Miðhálendisþjóðgarðinn sem ég held að sé gríðarlegt efnahagslegt tækifæri – sem og aðgerðir í plastmálum sem er stórt umhverfismál sem fær miklu meiri athygli núna. Ég vil að Íslendingar skipi sér í fremstu röð þar,“ segir hann.
Guðmundur Ingi telur því starfið vera frábært tækifæri sem hann sé mjög þakklátur fyrir og hann ætli að nota tímann eins vel og hann getur. „Ég nenni ekki að velta mér allt of mikið upp úr fortíðinni. Það er bara að ganga til verka og koma hlutunum áfram,“ segir hann.
Finnur fyrir vonleysi rétt eins og hver annar
Umtöluð skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í heiminum kom út í október síðastliðnum. Í henni kemur fram að ríki heims hafi aldrei átt jafn langt í land með að uppfylla markmið sín í loftslagsmálum. Magn gróðurhúsalofttegunda heldur áfram að aukast í andrúmsloftinu og hitastig jarðar heldur áfram að hækka. Skýrslan sýnir fram á að ríki heims hafa ekki gripið til nægilegra ráðstafana til þess að markmiðið náist um að hiti á jörðinni fari ekki yfir 1,5 gráður að jafnaði.
Í skýrslunni segir enn fremur að ríki heims þurfi að þrefalda aðgerðir sínar til þess að hægt verði að halda hitastigi á jörðinni innan við tvær gráður, miðað við stöðuna nú. Til þess að hitastigið fari ekki yfir 1,5 gráður þurfi ríkin að auka þær fimmfalt.
Þegar ráðherrann er spurður út í persónuleg viðbrögð við skýrslunni þá svarar hann um hæl að auðvitað sé hann einungis mannlegur. „Ég finn alveg fyrir vonleysi rétt eins og hver annar. Ég er umhverfisfræðimenntaður og þá gengur maður í gegnum einn stóran sálfræðitíma. Vegna þess að þú byrjar að læra um vandamálin og það tekur langan tíma, því þau eru mörg og víðfeðm. Svo lærir maður hvers konar lausnir og stjórntæki við höfum til þess að takast á við þessi vandamál. Maður má ekki gefast upp áður en komið er í þann hluta. Og ég er á þeim stað núna að vinna við að hugsa í lausnum og framkvæma þær. En ég tel mjög mikilvægt að maður geri sér grein fyrir umfangi viðfangsefnisins – hvort sem þú vilt kalla það vandamál eða áskorun,“ segir hann.
Þrátt fyrir þetta þá segist Guðmundur Ingi vera þannig gerður að hann líti svo á að verkefnin séu spennandi og skemmtileg og trúir hann að þau að muni færa Íslendinga í rétta átt.
Margt jákvætt verið að gera
Guðmundur Ingi segir enn fremur að margt jákvætt sé gert í loftslagsmálunum – bæði innanlands og erlendis – en engu að síður sé þetta risavaxið verkefni. „Það er ekkert annað í boði en að vera jákvæður og hrinda verkefnunum í framkvæmd hverju af öðru. Það er sú vegferð sem við byrjuðum á í haust og hún heldur áfram. Ég get alveg sagt það að ég var búinn að bíða í mörg ár eftir að fá fjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en hún hefur aldrei komið fram áður. Þannig að það eitt og sér er ákveðinn sigur fyrir umhverfið okkar.“
Hann telur að auðvitað hefði verið æskilegt að byrjað hefði verið fyrr. „Það sem er þó svo mikilvægt er að við náum einhvern veginn að koma þessum málum á þann stað að ekki komi bakslag og allt verði eins og áður var,“ segir hann.
Vildi veita fyrirtækjum aðlögunartíma
Guðmundur Ingi mælti í lok janúar síðastliðnum fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem varðar notkun burðarpoka. Lagt er til í frumvarpinu að frá og með 1. júlí næstkomandi verði óheimilt að afhenda alla burðarpoka, þar með talið burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og skuli gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.
Frá og með 1. janúar 2021 verði síðan óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án gjalds. Bannið sjálft á þannig við um plastpoka en ekki burðarpoka úr öðrum efnum.
Eftir að frumvarpið var lagt fram vöknuðu spurningar um af hverju plastpokabannið tæki ekki gildi þegar í stað. Guðmundur Ingi segir ástæðuna vera til að veita fyrirtækjum aðlögunartíma.
Breytt hugsun varðandi framleiðslu, neyslu og úrgang
Guðmundur Ingi segist leggja áherslu á þrennt í sínu starfi. Í fyrsta lagi séu það loftslagsbreytingarnar, í öðru lagi neysla, sóun og úrgangsmál og í þriðja lagi vernd og varðveisla fjölbreytileika í landslagi, jarðminjum og lífríki; þ.m.t. vernd víðerna og þess sem sérstakt er á Íslandi.
Fyrsta skrefið var stigið í fyrra þegar loftslagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar voru kynntar og í ár var áherslan lögð á plastmálin. Guðmundur Ingi segir að markmiðið sé að nálgast neyslu- og úrgangsmál og sóunarmál með heildstæðum hætti undir hatti hins svokallaða hringrásarhagkerfis. Hann telur um breytta hugsun vera að ræða hvernig horft sé á framleiðslu, neyslu og úrgang.
Plastmálin eru þar að mínu mati eitt af forgangsmálum, matarsóun er annað og svo það að hvetja til nýsköpunar og ná utan um að nýta hlutina betur og lengur en við gerum.
„Í staðinn fyrir – eins og þetta er í meginatriðum í dag – að eitthvað sé framleitt, síðan sé þess neytt og svo verði til einhver úrgangur, og þar með bara hættum við og losum okkur með einhverjum hætti við úrganginn; urðum hann, brennum hann, o.s.frv. – í staðinn fyrir að hafa þetta línulegt þá búum við til hring þannig að á þessum stigum kerfisins séum við alltaf að huga að því að nýta sem best það sem fer inn og reyna að nýta það einnig sem fer út með einhverjum hætti þannig að hliðarafurðir, afgangar og slíkt sé notað sem hráefni í frekari framleiðslu í stað þess að henda því. Hringrásarhagkerfið gengur út á þetta,“ segir hann.
Þetta þýði að huga verði betur að framleiðslu, sem og neyslu og síðan að því hvernig úrgangur er meðhöndlaður. „Plastmálin eru þar að mínu mati eitt af forgangsmálum, matarsóun er annað og svo það að hvetja til nýsköpunar og ná utan um að nýta hlutina betur og lengur en við gerum,“ segir hann.
Plastpokafrumvarpið fyrst og fremst táknrænt
Til þess að innleiða þetta hringrásarkerfi eru stjórnvöld að taka upp hinar ýmsu reglugerðir frá Evrópusambandinu. „Árið í ár fer svo í að kortleggja þetta og nálgast málin út frá þessari heildrænu sýn. Og síðan að byrja á aðgerðum, því þær er nú alltaf það sem hrinda þarf í gang sem allra allra fyrst. Við munum koma með einhverjar breytingar á lögum í haust en það má segja að frumvarpið með plastpokana sé hluti af þessu. Það er þó bara ein aðgerð af mörgum í plastmálunum,“ segir Guðmundur Ingi.
Hann segir plastpokafrumvarpið fyrst og fremst táknræna aðgerð, því hún snerti líf okkar allra. Hann bendir á að vandinn sé víðtækari, því vörurnar sem fólk ber heim í plastpokunum séu einnig iðulega í plastumbúðum. Enn fremur bendir hann á að um þriðjungi matvæla í heiminum sé hent, þannig að því megi segja að þriðjungur innihalds pokans muni enda í ruslinu. Þannig sé plastpokafrumvarpið einungis lítill hluti af „stóra plastvandanum“.
Hrædd við að tala um neyslu
Til viðbótar við þetta tók ráðherrann á móti tillögum í haust sem kveða meðal annars á um að setja úrvinnslugjald á plastumbúðir til þess að reyna að draga úr þeim eins og hægt er. Jafnframt komu líka fram tillögur um að samræma og skylda flokkun. Guðmundur Ingi telur það vera grundvallaratriði í nútímasamfélagi að fólk fari betur með hluti og að úrgangur sé nýttur sem hráefni í frekari framleiðslu og til verðmætasköpunar.
„Við þurfum fyrst og fremst að huga að því hvernig við getum takmarkað sem mest það sem fer inn í keðjuna, þannig að úrgangurinn verði minni. En við verðum einnig að nýta hann eins vel og við getum. Við Íslendingar höfum verið svolítið hrædd við að tala um neyslu,“ segir Guðmundur Ingi og rifjar upp orðræðuna fyrir hrunið 2008. „Ef einhver sagði orðið græðgi þá var það eitthvað sem ekki mátti taka sér í munn því þá var maður ekki maður með mönnum. Maður var algjör tuðari og afturhaldsseggur; að hamla framförum og allt þetta. En ég held að við séum komin á aðeins annan stað núna og það er algjörlega nauðsynlegt að samband okkar og neyslunnar sé endurskoðað.“
Loftslagsskýrslan hristi upp í fólki
Þegar Guðmundur Ingi er spurður hvort þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt í loftslagsmálum séu nægar þá svarar hann um hæl og segir að sá pakki hafi verið settur fram sem fyrsta skref. „Það var alveg ljóst að við tæki nánari greining á þeim aðgerðum sem þar eru lagðar fram. Og þetta var sett í samráðsgátt til að athuga hvað fólki fyndist um þær,“ segir hann.
Nú sé unnið úr þessum umsögnum og tekin inn atriði eins og fyrrnefnd skýrsla milliríkjanefndar SÞ um loftslagsmál. Í því samhengi bendir hann á að skýrslan hafi gengið lengra en gengur og gerist. „Hún hristi upp í fólki og gerði það móttækilegra,“ segir hann en ráðherrann telur að margir hafi sýnt loftslagsmálum meiri áhuga og athygli síðan skýrslan kom út.
Það sem bíður Íslendinga alþjóðlega sé í fyrsta lagi að fara inn í sameiginlegar aðgerðir Noregs og Evrópusambandsins. „Einfaldlega vegna þess að Evrópusambandið hefur verið leiðandi í þessum málum eins og Norðmenn. Og með því að semja við sambandið að vera með í þeirra sameiginlega markmiði um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þá teljum við okkur frekar geta verið með þeim sem mest gera. Það veitir okkur aðhald og aðstoð,“ segir hann og bendir á smæð Íslands í þessu samhengi. „Þá tökum við upp ákveðnar reglugerðir frá þeim sem hjálpa okkur til að þess að halda utan um þetta allt saman. Ég tel það mjög mikilvægt,“ segir Guðmundur Ingi.
Tekur allt tíma – verðum að byrja strax
Ráðherrann bendir á að ríkisstjórnin hafi sett fram tvö megin flaggskip til að takast á við loftslagsmálin. Í fyrsta lagi sé um að ræða grundvallarkerfisbreytingu sem felur í sér að draga úr mengandi innfluttu jarðefnaeldsneyti – bensíni og olíu – í vegasamgöngum og hætta að lokum að nota það. Í öðru lagi að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt, og að draga úr losun frá framræstu landi með endurheimt votlendis.
„Það er ekki síður mikilvægt að byrja á því strax til þess að við eigum meiri líkur á því að ná markmiði okkar um kolefnishlutleysi árið 2040. Það tekur nefnilega tíma að safna koltvísýringnum saman í jarðvegi og í gróðrinum,“ segir hann en verkefnið telur hann vera mjög spennandi. Nú vinni stjórnvöld sérstaklega að útfærslu þessara tveggja flaggskipa og muni þau kynna frekari aðgerðir seinna á þessu ári.
Einn biti í einu
Í grein Guðmundar Inga sem birtist á Kjarnanum í byrjun febrúar síðastliðins fjallaði hann um plastvandann en hann sagði vandann vera stóran og að hann yrði að taka alvarlega. Hann líkti vandamálinu við að borða fíl, þar sem það væri nú ærið verkefni. Og hvernig borðar maður fíl? Nú, með því að taka einn bita í einu. Hann lítur svo á að plastpokafrumvarpið sé einn slíkur biti – aðgerð sem virkjar fólk með beinum hætti við að hugsa um lausnir án plasts.
Þannig erum við smátt og smátt að éta fílinn. En þá er svo ofboðslega mikilvægt að stjórnvöld séu ekki þau einu sem éta fílinn heldur þurfum við öll að hjálpast að við að borða þessa bita.
Annar biti sé að stofna svokallaðan loftslagssjóð en honum er fyrst og fremst ætlað að setja fjármagn í nýsköpun fyrir loftslagsvæna tækni og starfsemi. Stjórn loftslagssjóðs var skipuð þann 14. febrúar síðastliðinn en hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála meðal annars með því að styrkja þróunarstarf og rannsóknir á sviði loftslagsvænnar tækniþróunar og nýsköpunar á Íslandi og verkefni er lúta að rannsóknum, kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
Enn annar biti sem Guðmundur Ingi segir að búið sé að taka með menntamálaráðuneytinu er að auka fræðslu og þekkingu um loftslagsmál í skólum. „Þannig erum við smátt og smátt að éta fílinn. En þá er svo ofboðslega mikilvægt að stjórnvöld séu ekki þau einu sem éta fílinn heldur þurfum við öll að hjálpast að við að borða þessa bita,“ segir hann. Þannig sé hægt að ná árangri.
Ákveðin málamiðlun farin
Aðspurður hvort verið sé að gera nóg varðandi þessi mál þá svarar hann að hann geti náttúrulega ekki fullyrt um það. „En það eru hvatar í kerfinu sem hafa skilað sér í vexti sem er jákvætt. Á móti kemur að það þarf til dæmis líka að passa að ekki verði of ódýrt að nýta bensín og dísilbíla. Einnig þarf að verðleggja notkun á bensíni og olíu og til þess höfum við hækkað kolefnisskatt. Það má alveg deila um það; kannski mætti hann vera hærri? Ég er þeirrar skoðunar að hann mætti vera hærri. En hér var ákveðin málamiðlun gerð,“ segir hann.
Guðmundur Ingi telur að Íslendingar hefðu þurft að koma fyrr inn með sterkum hætti í loftslagsmálin. „Maður sér ekki árangur „einn, tveir og þrír“ vegna þess að það tekur tíma að umbylta þessum kerfum. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna er einmitt bent á að lítill tími sé til stefnu og er ég hjartanlega sammála því. En það er einnig mikilvægt að við sjáum að stefnt sé í rétta átt og að losunin fari að minnka hratt. Það er ekki ásættanlegt að hún sé ennþá að aukast eins og í vegasamgöngum. Þess vegna einbeitum við okkur svona rosalega að því.“
Maður sér ekki árangur „einn, tveir og þrír“ vegna þess að það tekur tíma að umbylta þessum kerfum. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna er einmitt bent á að lítill tími sé til stefnu og er ég hjartanlega sammála því.
Hvati til að gera starfsemi umhverfisvænni
Guðmundur Ingi segist jafnframt vera í viðræðum við stærstu fyrirtækin sem menga hvað mest hér á landi, á borð við álverin og flugfélögin sem eru í allt öðru kerfi en íslenska ríkið ber ábyrgð á. Þar á hann við alþjóðleg kerfi þar sem fyrirtæki fá einungis úthlutað ákveðnum heimildum. „Ef sú heimild er ekki nóg – og dugar ekki upp í mengunina hjá þeim – þá þurfa þau að kaupa auka heimildir. Potturinn minnkar og minnkar eftir því sem árin líða þannig að þau fá færri og færri ókeypis heimildir sem þýðir að þau þurfa að borga meira og meira. Það skapar hvata fyrir þau til að gera starfsemina umhverfisvænni og draga úr losuninni frekar en að kaupa losunarheimildir,“ segir hann. Þó viðurkennir hann að það sé í sumum tilfellum tæknilega erfitt en í öðrum auðveldara. „Þetta á að hvetja fyrirtækin til þess að hugsa tímanlega út í þessi mál.“
Hann tekur Hellisheiðavirkjun sem dæmi. Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, setti reglur árið 2010 um losun á brennisteinsvetni sem varð til þess að fyrirtækið þurfti annað hvort að fjárfesta í mjög dýrum hreinsibúnaði eða þróa aðrar aðferðir með einhverjum hætti. „Þau fóru í CarbFix-verkefnið sem gengur út á það að brennisteinsvetni er dælt niður í berglög þar sem það kristallast. Einnig er koltvísýringi dælt niður. Á árinu 2017 losuðu þau sig við 34 prósent af loftslagsútblæstrinum hjá sér niður í jarðlög þar sem þau kristallast í berglögum. Það er ekkert sem bendir til þess að það gufi upp – heldur séu efnin bara þar. Kostnaðurinn við þetta hjá þeim er sambærilegur við verðið á losunarheimildunum sem þessi fyrirtæki, eins og álverin og flugfélögin, þurfa að kaupa. Fyrir álverin, sem eru með útblástur út um stromp, þá er í rauninni kominn ákveðinn hvati fyrir þau að dæla efnunum ofan í jörð. Vissulega þurfa þau borholu en þá fer þetta að verða möguleiki fyrir þau vegna þess að kerfið er alltaf að herða að þeim og verðið á losunarheimildum hækkar.“
Guðmundur Ingi telur að ekki sé rétt að líta svo á að fyrirtæki á Íslandi geri ekki neitt eins og sumir myndu hugsanlega halda fram. Hann segist hafa átt í samtali við þau – kallað þau á fund til sín og hvatt þau til þess að koma í þetta stóra verkefni sem varðar kolefnishlutleysi 2040. „Því stjórnvöld geta það ekki án þessara fyrirtækja. Þau eru stórir aðilar í þessu stóra samhengi,“ segir hann. Mjög vel hafi verið tekið í þessar hugmyndir og segir Guðmundur Ingi að verið sé að móta stefnu um hvernig hægt sé að standa fyrir því að fyrirtæki setji sér markmið rétt eins og stjórnvöld.
Horfir líka á hlutina út frá efnahags- og samfélagslegri vídd
Hvernig er það að vera umhverfis- og auðlindaráðherra þegar hagsmunir rekast á, til að mynda hagvaxtartölur, ferðamennska og loftslagsmál? Guðmundur Ingi segist reyna að horfa á hlutina ekki einungis út frá umhverfisvídd sjálfbærrar þróunar heldur líka út frá efnahagslegri og samfélagslegri vídd. „Það er alveg ljóst að túrisminn er mjög mikilvæg atvinnugrein fyrir Íslendinga. Hann hefur einnig aukið mjög vitund Íslendinga – og þeirra sem hingað heimsækja okkur – á náttúruperlunni Ísland, sem síðan skilar sér í aukinni kröfu um náttúruvernd. Á sama tíma og við heyrum fréttir af því þá er of mikið álag á suma staði vegna ferðamanna og eru staðirnir margir hverjir í hættu,“ segir hann.
Það eru einhverjir staðir þar sem við viljum frekar takmarka fjöldann sem kemur vegna þess að við viljum ekki eyðileggja þetta náttúrulega yfirbragð.
Til þess að sporna við eyðileggingu ferðamannastaðanna er verið að takast á við vandamálið í stjórnkerfinu, að sögn Guðmundar Inga. Árið 2016 hafi tekið í gildi lög sem búa til ramma utan um það hvernig hægt sé að takast á við þetta og nú hafi í fyrsta sinn verið sett fjármagn í málaflokkinn, en um fjórir milljarðar hafi komið aukalega inn í verkefnið á árunum 2019 til 2023.
Hann segir að ýmiss konar viðbrögð megi greina við þessum fyrirbyggjandi aðgerðum. „Þá ætlum við til dæmis að leggja stíga og koma upp salernisaðstöðu þar sem þess er þörf. Einnig einbeitum við okkur að friðlýstum svæðum fyrst og fremst. Við notum þessa peninga í aukna landvörslu; bæði til að fræða um náttúruna og líta eftir umgengni og öðru slíku. Þannig að mjög jákvæðir hlutir eru að gerast þarna núna með auknu fjárframlagi.“
„En ég hef líka litið til þess í þessu samhengi að við verðum ekki endilega að byggja alls staðar upp innviði. Það eru einhverjir staðir þar sem við viljum frekar takmarka fjöldann sem kemur vegna þess að við viljum ekki eyðileggja þetta náttúrulega yfirbragð,“ segir Guðmundur Ingi en hann hefur jafnframt lagt áherslu á að innviðir þurfi að falla að landslagi. Ekki sé sama hvernig þessum hlutum sé háttað.
„Þá komum við líka að þessu sem ég hef lagt mjög ríka áherslu á og tengist náttúruverndinni. Það er þessi líffræðilega fjölbreytni sem við verðum að huga að. Fjölbreytni jarðfræðinnar og jarðminja en mjög hefur gengið á víðernin á síðustu árum og áratugum,“ segir hann. Nú vinni hann að því að koma á Miðhálendisþjóðgarði en þar eru stærstu víðernissvæði Íslands. Hann hefur beðið Náttúrufræðistofnun um að koma með tillögur að því hvaða víðerni á Íslandi eigi að friðlýsa og nú bíður hann eftir svörum.
Íslendingar líta á víðernin sem sjálfsagðan hlut
Guðmundur Ingi bendir á að fyrir Íslendingum séu víðernin sjálfsögð. „Við sjáum fyrir okkur víðáttu sem er með litlum inngripum mannsins en þetta er bara allt öðruvísi í hinni þéttbýlu Mið-Evrópu,“ segir hann. Bandaríkin og Kanada eigi slík víðerni en á Íslandi sé þetta samt sem áður sérstakt. „Við verðum að byggja á þessari sérstöðu og við eigum að varðveita hana,“ segir hann.
Auk miðhálendisverkefnisins kallaði hann eftir tillögum um hvað Náttúrufræðistofnun teldi að eigi að vernda af lindasvæðum sem einnig eru mjög merkileg á Íslandi. „Við erum með mjög stór lindasvæði á borð við Þingvallavatn og Suðurá og Svartá í Þingeyjarsýslu sem rennur út í Skjálfandafljót.“
Einnig er Ísland mjög fossaríkt land og rifjar Guðmundur Ingi það upp þegar hann bjó á Sri Lanka í tvo mánuði en hann segist hafa verið mjög spenntur fyrir því að fara í þjóðgarð þar í landi. „Þar var aðalaðdráttaraflið foss en ég gekk næstum því fram hjá honum vegna þess að þetta voru eiginlega bara flúðir. Þá gerir maður sér grein fyrir því hvað við erum með magnaða fossa,“ segir hann og hlær.
Fiskeldið ógn við laxastofna
Eitt sem honum finnst sérstaklega vert að nefna, en heyrir ekki undir hans ráðuneyti, eru villtir laxastofnar. „Þeir eru gríðarlega verðmæt auðlind hér á landi. Reyndar eru ferskvatnsfiskar á Íslandi mjög merkileg auðlind vegna þess að mjög fáar tegundir eru hér en aftur á móti eru búsvæðin fjölbreytt. Sem þýðir það að sumar af þessum tegundum hafa þróast með ótrúlegum hætti á einungis þessum 10.000 árum frá því að ísöld lauk og þær námu hér land,“ segir hann en sem dæmi um þetta nefnir hann fisk í Þingvallavatni þar sem fjögur afbrigði eru til af bleikju vegna þess að fiskurinn hefur þróast genatískt að mismunandi aðstæðum, fæðu og búsvæðum.
„Laxinn okkar er líka merkilegur en mismunandi stofnar eru eftir landsvæðum. Þannig að erfða- og líffræðilega er laxinn okkar mikilvægur, bæði út frá náttúrunni og náttúruvernd. Og laxastofnum – eða Atlantshafslaxinum – þessari tegund sem finnst hér, hefur víða hnignað. Bæði í Evrópu og á austurströnd Ameríku. Ekki alls staðar, en víða. Á Íslandi hefur tekist ágætlega að varðveita og viðhalda þeim vegna þess að við erum með ágætiskerfi til þess. En þá kemur inn þessi ógn sem fiskeldið er,“ segir hann.
Hagsmunir rekast á
Ráðherrann spyr hvernig Íslendingar ætli að láta þetta hvort tveggja ganga upp. Þarna stangist hagsmunir fiskeldisfyrirtækja – sem og hagsmunir landeigenda – á við náttúruvernd. Að hans mati er gríðarlega mikilvægt að fara varlega í þessum efnum. „Ég sé þetta þannig fyrir mér að fiskeldið þurfi að þróast á næstu 10 til 15 árum í þá átt að ekki verði um neina erfðablöndum að ræða. Það kallar á breyttar aðferðir við laxeldið,“ segir hann.
Guðmundur Ingi telur þetta vera mikið hagsmunamál – og gríðarlegt náttúruverndarmál. „Og ég myndi vilja sjá þetta þannig að atvinnuveginum væri gefinn ákveðinn tímarammi til að aðlaga sig að þessum breytingum. Og á sama tíma væru hvatar fyrir fyrirtækin að þróast í þessa átt. Þetta er stóra myndin í þessu.“
Fiskeldislöggjöfin er ekki á borði ráðherrans en að hans mati þarf að nálgast þau mál með þessum hætti. „Mér finnst það líka samræmast við stjórnarsáttmálann sem kveður á um að þróa eigi fiskeldi með tilliti til sem minnstrar áhættu fyrir líffræðilegan fjölbreytileika villtra stofna.“
Lesa meira:
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind