Tilvistarkrísa hins góða neytanda
Plastið er orðið tákn þeirrar umhverfisvár sem íbúar jarðarinnar glíma við og hefur gríðarleg vitundarvakning átt sér stað á síðustu misserum og árum. Með miklu upplýsingaflæði geta ákvarðanir þeirra sem vilja vera meðvitaðir neytendur flækst fyrir þeim; hvað skal versla og í hverju á að bera það heim. Svo er spurning hvort þetta skipti yfirhöfuð einhverju máli í stóra samhenginu?
Í flóknum heimi hraðra breytinga getur reynst erfitt að fóta sig sem neytandi – og hlýtur fólk að velta því fyrir sér hver áhrif þeirra eigin neyslu og lifnaðarhátta séu. Plastnotkun hefur orðið ákveðin táknmynd þeirra vandamála sem mannkynið stendur frammi fyrir og ekki er óalgengt að rekast á myndir af urðunarstöðum fullum af plastpokum, maga sjávardýra útbelgda af plastúrgangi og fuglum með kippuplast fast um hálsinn með fréttum eða póstum á samfélagsmiðlum. Raunveruleikinn vekur því ugg og ákveðinnar viðhorfsbreytingar gætir varðandi umhverfisvernd og loftslagsmál á síðustu árum.
Margar spurningar vakna þegar að því kemur að ákveða hvernig best sé að snúa þessari þróun við – er það til að mynda einungis stjórnvalda og fyrirtækja að setja lög og reglur fyrir fólk að fylgja eða getur hver og ein manneskja haft sín áhrif? Við flóknum vandamálum eru oft flókin svör og er plastvandinn eitt þeirra vandamála. Ein skilaboð sem neytendur hafa fengið er að sleppa því að kaupa plastpoka í verslunum og nota pappírs- eða fjölnota poka í staðinn til að bera vörurnar heim. Þetta virðist þó ekki vera svo einfalt þegar fleiri þættir eru skoðaðir eins og kolefnisspor pokanna og þegar kostir og ókostir þeirra eru bornir saman byrja málin að flækjast.
Tekur allt að því þúsund ár að grotna niður
Ekki er auðvelt að svara því hvort pappírspokar eða plastpokar séu umhverfisvænni, eða þá fjölnota pokar. Bandaríska blaðið The New York Times fjallaði um málið í mars síðastliðnum og þar er bent á að plastpokar, sem grotna margir ekki niður fyrr en að árhundruðum loknum, geti skapað mikið úrgangsvandamál. Hins vegar útheimti framleiðsla pappírspoka meiri orku og útblástur gróðurhúsalofttegunda, sem sé ekki gott út frá loftslagsbreytingum.
Endurnýtanlegir pokar geti þannig verið ágætis málamiðlun ef passað er upp á þá og þeir notaðir mikið. Það sem sett sé í pokann hafi þó á endanum meiri áhrif á umhverfið en hvaða tegund af poka notaður sé.
Vandinn við plastpokana er sá að þeir enda iðulega á ruslahaugunum og aðeins örlítill hluti þeirra er nokkurn tímann endurunninn. Meirihluti þeirra er því urðaður, þar sem það getur tekið þá allt að því þúsund ár að grotna niður. Jafnframt fylgir plastpokanum sá galli að hann er léttur og fýkur auðveldlega út í náttúruna og veldur þar miklum skaða.
Plast var uppgötvað í kringum aldamótin 1900 og varð strax mikilvægur staðgengill fyrir vörur sem gerðar voru úr dýrum, til að mynda horn, skjaldbökuskeljar og fleira. Plast kemur við sögu í lífi flestra á hverjum degi og er hluti af nánast öllum okkar daglegum athöfnum, bæði heima við og í vinnu. Vörur úr plasti geta verið vörur sem auka öryggi okkar eins og öryggishjálmar- og gleraugu, auk barnabílstóla. Margar vörur sem auðvelda líf okkar eru úr plasti til dæmis umbúðir utan um matvæli, tölvur, farsímar og burðarpokar. Einnig er plast í vörum sem hafa skemmtanagildi eins og leikföng, sjónvörp og annað.
Til að framleiða plast er að mestu leyti notuð olía og jarðgas en einnig efni eins og kol, sellulósi, gas og salt. Eiginleikar plasts eru þeir að endingartími þess er yfirleitt nokkuð mikill. Plast er slitsterkt svo það hverfur ekki eða eyðist heldur brotnar í smærri og smærri plasthluta í náttúrunni, kallað örplast. Plast er það létt efni að það flýtur. Það getur þar af leiðandi borist um hundruð kílómetra í vötnum og höfum og valdið þannig skaða langt frá upprunastað sínum. Gríðarstórir flákar af plasti hafa þegar myndast í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi þar sem hafstraumar hafa borið það. Það er síðan fast í þessum gríðarstóru hringstraumum sem þar eru.Notkunartími einnota plasts er mjög stuttur því einnota umbúðum er hent um leið og búið er að drekka vatnið, kaffið, borða brauðið, ávextina og fleira. Að meðaltali er talið að hver plastpoki sé notaður í um tuttugu mínútur og endi síðan í ruslinu eða úti í náttúrunni.
Á Íslandi er magn umbúðaplastúrgangs um 40 kílógrömm á hvern íbúa á hverju ári eða alls á Íslandi um 13.000 tonn á ári. Þegar talað er um umbúðaplast er átt við allt umbúðaplast sem tengist lífi einstaklings, heimili, skóli, vinna. Endurvinnsla á umbúðaplasti er aðeins um 11 til 13 prósent á Íslandi. Ekki eru til góðar heildartölur fyrir annað plast sem ekki er skilgreint sem umbúðir og er til að mynda í raftækjum, leikföngum, húsgögnum og slíku.
Heimild: Umhverfisstofnun
Pappírspokinn ekki gallalaus
Pappírspokinn er ekki heldur gallalaus þrátt fyrir að grotna hraðar niður en plastpokinn. Í grein The New York Times er bent á að þegar litið er hlutina út frá útblæstri þá séu pappírspokarnir mun verri en plastpokarnir. Þó svo að pappírspokar séu úr trjám, sem séu tæknilega séð endurnýjanleg auðlind, þá útheimti talsvert meiri orku að búa til kvoðu og framleiða pappírspoka en að búa til einnota plastpoka úr olíu.
Árið 2011 gerði Umhverfisstofnun Bretlands rannsókn á líftíma mismunandi pokategunda þar sem horft var til hvers einasta framleiðsluþáttar. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknarinnar þarf að að endurnota pappírspoka að minnsta kosti þrisvar til að umhverfisáhrifin verði jafnmikil og af því að nota plastpoka úr pólýetýleni einu sinni. Og ef plastpokar eru notaðir endurtekið þá koma þeir enn betur út.
Auðveldara er að endurvinna og jarðgera pappírspoka heldur en plastpoka en niðurstaða bresku rannsóknarinnar var sú að jafnvel þessar aðgerðir höfðu lítið að segja í stóra samhenginu. Pappírspokar koma út sem lakari kostur út frá loftslagsbreytingum, nema þeir séu notaðir oft.
Fjölnota pokar sjálfbærir ef notaðir oft
Sama breska rannsóknin skoðaði líka fjölnota poka, sem og þyngri og endingarbetri plastpokar eða bómullarpokar. Niðurstaðan var sú að þessir pokar eru aðeins sjálfbærir ef þeir eru notaðir oft. Framleiðsla bómullarpoka er þannig engan veginn kostnaðarlaus. Bómullarræktun útheimtir mikla orku, landsvæði, áburð og skordýraeitur og getur valdið alls kyns umhverfisáhrifum, allt frá útblæstri gróðurhúsalofttegunda til niturmengunar í rennandi vatni.
Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að neytandi þyrfti að endurnýta bómullarpokann sinn 131 sinni til að hafa minni áhrif á hlýnun jarðar en léttur plastpoki sem er aðeins notaður einu sinni. Svo er það breytilegt eftir framleiðendum hvort nota þyrfti hina endingarbetri plastpoka fjórum eða allt að ellefu sinnum til að bæta fyrir þau loftslagsáhrif sem framleiðsla þeirra kostar umfram hina einnota.
Hvað er kolefnisspor?
Kolefnisspor vöru og þjónustu segir okkur hversu mikill útblástur gróðurhúsalofttegunda fylgir framleiðslu og notkun þeirra. Því minna sem kolefnissporið er, því minni áhrif hefur varan eða þjónustan á loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar. Kolefnisspor orkuframleiðslu er yfirleitt mælt í losun á koltvísýringsígildum á framleidda orkueiningu, eða sem grömm af CO2 á hverja kílówattstund raforku og varma.
Losun gróðurhúsalofttegunda er jafnan mæld í koltvísýringsígildum. Það á líka við um kolefnissporin sem eru einfaldur og skýr mælikvarði á hversu mikil gróðurhúsaáhrif felast í ákveðinni afurð, framleiðsluferli eða framleiðslustað. Áhugavert er að reikna út kolefnisspor sitt og þannig gera sér betur grein fyrir því hvaða þættir í hinu daglega lífi hafa mest áhrif. Á þann hátt geta fyrirtæki og einstaklingar fundið leiðir til þess að minnka kolefnisspor sín og kolefnisjafna þau.Plastpokafrumvarpið fyrst og fremst táknræn aðgerð
Mælt hefur verið fyrir frumvarpi á Alþingi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem varðar notkun burðarpoka. Lagt er til í frumvarpinu að frá og með 1. júlí næstkomandi verði óheimilt að afhenda alla burðarpoka, þar með talið burðarpoka úr plasti, án endurgjalds á sölustöðum vara og skuli gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun. Frá og með 1. janúar 2021 verði síðan óheimilt fyrir verslanir að afhenda burðarpoka úr plasti, hvort sem er með eða án gjalds. Bannið sjálft á þannig við um plastpoka en ekki burðarpoka úr öðrum efnum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur sagt plastpokafrumvarpið fyrst og fremst vera táknræna aðgerð, því hún snerti líf okkar allra. Hann bendir á að vandinn sé víðtækari, því vörurnar sem fólk ber heim í plastpokunum séu einnig iðulega í plastumbúðum. Enn fremur bendir hann á að um þriðjungi matvæla í heiminum sé hent, þannig að því megi segja að þriðjungur innihalds pokans muni enda í ruslinu. Þannig sé plastpokafrumvarpið einungis lítill hluti af „stóra plastvandanum“.
Að auki tók ráðherrann á móti tillögum í haust sem kveða meðal annars á um að setja úrvinnslugjald á plastumbúðir til þess að reyna að draga úr þeim eins og hægt er. Jafnframt komu fram tillögur um að samræma og skylda flokkun. Guðmundur Ingi telur það grundvallaratriði í nútímasamfélagi að fólk fari betur með hluti og að úrgangur sé nýttur sem hráefni í frekari framleiðslu og til verðmætasköpunar.
„Við þurfum fyrst og fremst að huga að því hvernig við getum takmarkað sem mest það sem fer inn í keðjuna, þannig að úrgangurinn verði minni. En við verðum einnig að nýta hann eins vel og við getum. Við Íslendingar höfum verið svolítið hrædd við að tala um neyslu,“ segir Guðmundur Ingi og rifjar upp orðræðuna fyrir hrunið 2008. „Ef einhver sagði orðið græðgi þá var það eitthvað sem ekki mátti taka sér í munn því þá var maður ekki maður með mönnum. Maður var algjör tuðari og afturhaldsseggur; að hamla framförum og allt þetta. En ég held að við séum komin á aðeins annan stað núna og það er algjörlega nauðsynlegt að samband okkar og neyslunnar sé endurskoðað.“
Lífræna baðmullin verst
Þegar við færum okkur yfir í stóru spurningarnar varðandi reglur, neyslu og val neytenda þá spyrja margir sig hvort aðgerðir á borð við plastpokabannið skipti máli í stóra samhenginu við loftslagsmál. Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hefur rannsakað loftslagsmál til fjölda ára og segir hann í samtali við Kjarnann að stutta svarið við þeirri spurningu sé nei.
„Það mætti hugsanlega flækja þetta frekar og segja að ef plastpokabann yrði að almennri reglu um allan heim þá værum við í raun að skapa nýjan vanda vegna þess að heildarumhverfisáhrifin af plastpokaframleiðslu eru miklu minni en til dæmis af pappírspokum, svo við tölum ekki um fjölnota burðarpoka úr baðmull. Samkvæmt skýrslu sem danska umhverfis- og matvælaráðuneytið lét vinna eru pappírspokar 40 sinnum frekari á náttúrulegar auðlindir en plastpokar og taupokarnir 7000 til 20000 sinnum verri. Verst er lífræna baðmullin, því hún kallar einfaldlega á orkufrekari framleiðslu, meira pláss, o.s.frv.,“ segir hann.
Ef við tryggðum það að öllu plasti væri fargað eftir kúnstarinnar reglum ættu allir fremur að nota plastpoka en til dæmis fjölnota burðarpoka úr baðmull.
Reglan ætti að vera að nota hvern einnota poka þrisvar, fjórum sinnum. „Ef við notuðum alla plastpoka nokkrum sinnum og förguðum þeim rétt væri hægt að tvö- til þrefalda tölurnar frá danska umhverfisráðuneytinu. Og það má árétta að í dönsku skýrslunni er gert ráð fyrir að plastið sé brennt í lokin sem er ekkert endilega besta leiðin,“ segir hann.
Getur skapað falska umhverfisvitund
Guðni bendir á að kosturinn við plastpokabannið geti verið sá að það veki fólk til vitundar um umhverfismálin en ef eina niðurstaðan sé sú að við fyllum taupokana okkar af sama ákafanum og áður sé þetta sýndargjörningur, sem skapi falska umhverfisvitund. Aðalatriðið sé að minnka neyslu, draga úr lönguninni til að fylla alla poka af dóti sem vel hægt er að lifað án. „En auðvitað er þetta flóknara en svo að hægt sé að svara þessu í svona stuttu máli og þarf að slá alls kyns varnagla.“
Þegar Guðni er spurður út í þá togstreitu sem myndast getur milli umhverfissjónarmiða og loftslagsmála þá segir hann að loftslagsmálin séu auðvitað umhverfisverndarmál og plastnotkun sé hnattrænn vandi. „En auðvitað breytast áherslurnar eftir því sem við víkkum sjóndeildarhringinn, frá til dæmis staðbundinni landvernd yfir í spurningar um almennar aðgerðir í loftslagsmálum. Þannig eru margir landverndarsinnar umhverfissóðar og um leið brjóta þeir gegn því landi sem þeir segjast ætla að vernda. Margir sem láta sig vernd hálendisins varða eru til dæmis með risavaxin sótspor og taka þannig beinan þátt í eyðingu landsins sem þeir hafa svarið að verja.“
Hann telur að ekki sé hægt að kalla sig umhverfisverndarsinna og taka á engan hátt ábyrgð á sótsporum sínum eins og þurfi að gera með því að takmarka flug og kjötneyslu. „Mér hefur sýnst áherslan vera sú að tryggja að landinu sé ekki breytt í einhvers konar framleiðsluland og leggja til dæmis fremur áherslu á þjónustu. Fara frá stóriðju yfir í túrisma.“ Engu sé breytt með því að horfa á þetta gamla viðhorf sem sé því miður allt of ráðandi.
„En ef rúmur milljarður flýgur á hverju ári heimshorna á milli til þess að „njóta“ breytir hann jörðinni á stórtækari hátt en nokkur uppistöðulón myndu t.d. gera, þótt vissulega auðgi menn líf sitt líka með ferðalögum. Túrismi er stóriðja skynfæranna og hann er varinn af djúpstæðri þörf eftir neyslu, upplifunum og auðvitað af skiljanlegri þörf fyrir að komast út úr nærumhverfinu. Íslensk umhverfisverndarstefna hefur fókuserað allt of mikið á það að breyta Íslandi úr framleiðslusvæði yfir í stað þar sem neysla og upplifun fer fram. Landvernd var t.d. styrkt af flugfélaginu Wow air sem er í raun erfitt að skilja ef við skilgreinum Landvernd sem umhverfisverndarsamtök,“ segir Guðni.
Plast vandræðavara
Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að meðvitund varðandi þessi mál megi ekki takmarkast við burðarpokann. En þrátt fyrir það lítur hún svo á að litlu aðgerðirnar, á borð við plastpokabannið, skipti einnig gríðarlegu máli. „Því ef við ráðum ekki við litlu aðgerðirnar þá ráðum við heldur ekki við þær stóru,“ segir Elva en hún telur að ekki þurfi sérstaklega að rökræða bannið, það sé borðleggjandi.
Hún segir enn fremur að plast sé vandræðavara, því bæði hafi það sínar góðu og slæmu hliðar. Plast sé stöðugt efni og létt í flutningi og því gott hvað það varðar en einstaklega óhentugt þegar það er notað einungis einu sinni. „Við þurfum að breyta söluhegðun þannig að ekki séu til boða allar þessar umbúðir,“ segir Elva. „Vandamálið er að við ofnotum plastið og framleiðum einnota vörur. Við þurfum að búa til vörur sem endast.“
Elva bendir jafnframt á að plast sé forsenda þess samfélags sem við búum við í dag. Það sé notað í hinum ýmsu raf- og öryggistækjum og gagnist vel þegar það er nýtt með skynsömum hætti.
Vandamálið er að við ofnotum plastið og framleiðum einnota vörur. Við þurfum að búa til vörur sem endast.
Samgöngur, matur og vörur með mestan útblástur
Jukka Heinonen, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild, hefur kannað hvernig neysludrifið kolefnisspor Íslendinga dreifist um heimsbyggðina. Í rannsókn Jukka frá árinu 2017 kemur fram að við útreikning á kolefnisspori neyslu íslenskra heimila hafi gögn um útgjöld þeirra meðal annars verið tengd við erlendan gagnabanka um vistspor landa. Í ljós kom að meðalárskolefnisspor vegna neyslu íslenskra heimila reyndist áþekkt því sem gerist meðal þjóða Evrópusambandsins – þrátt fyrir sérstöðu Íslands í orkumálum. Samgöngur, matur og vörur voru þeir flokkar sem voru ábyrgir fyrir stærstum hluta útblásturs íslenskra heimila.
Rannsóknin sýndi einnig að um 71 prósent útblásturs heimila var vegna innfluttra vara og reynist útblástursbyrðin vegna neyslu íslenskra heimila mest í þróunarríkjum. „Niðurstöðurnar sýna að þörf er á víðtækari nálgun á útreikningi á útblæstri gróðurhúsalofttegunda en áður auk þess sem stefnumótun verður að taka mið af honum, bæði á Íslandi og annars staðar í heiminum. Rannsóknin getur því nýst til framtíðar fyrir velmegandi þjóðir sem vinna að lágmörkun útblásturs,“ sagði Jukka þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á sínum tíma.
Íslenskt samfélag býr við ákveðna lág-kolefna tálsýn
Jukka segir í samtali við Kjarnann að rannsóknin eigi enn vel við í dag. „Íslenskt samfélag „útvistar“ meirihluta losunar og býr við ákveðna lág-kolefna tálsýn. Þetta á jafnvel enn betur við í Reykjavík, þar sem lítil framleiðsla á sér stað. Borgin tilkynnir mjög litla losun en áhrif hennar eru mjög mikil í alþjóðlegum samanburði.“
Jukka bendir á að matvæli séu stór hluti af losun Íslendinga og eru þau í reynd í öðru sæti á eftir samgöngum. „Þessi losun á sér stað að mestum hluta utan landsteinanna og í flutningi matvælanna til Íslands. Á Íslandi fer fram kjötframleiðsla, sem losar mikið sama hvar. Það er algengur misskilningur að til dæmis íslenska lambið sé á einhvern hátt framleitt sjálfbært þar sem raunin er sú að loftslagsáhrifin eru ótengd staðbundnum aðstæðum á Íslandi.“
Hann telur að kolefnisspor vegna matvæla myndi minnka til muna með grænmetismiðuðu mataræði og sérstaklega með staðbundinni grænmetisframleiðslu sem kæmi í staðinn fyrir kjötframleiðslu.
Fréttaskýringin birtist einnig í nýjasta tölublaði Mannlífs.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind