Snæfellsjökull skaust upp á stjörnuhimininn árið 1864 þegar hin fræga bók Leyndardómar Snæfellsjökuls: För í iður jarðar eftir Jules Verne kom út. Í þeirri bók siglir þýskur prófessor ásamt förunautum sínum til Íslands þar sem þau ferðast ofan í eldgíg Snæfellsjökuls á vit ævintýra. Jökullinn hefur orðið fleiri skáldum og öðrum listamönnum að yrkisefni og í dag er jökullinn vinsæll ferðamannastaður. Snæfellsjökull hefur hins vegar rýrnað mjög í hlýnandi loftslagi Íslands og er talið að eftir rúm þrjátíu ár verði jökullinn að mestu horfinn.
Rýrnun jökla skýr vitnisburður um hlýnun jarðar
Loftslag fer hlýnandi um allan heim og benda margar athuganir til þess að breytingar frá því um miðbik síðustu aldar séu fordæmalausar þegar litið er til síðustu árþúsunda. Árið 2016 var það heitasta á jörðinni frá upphafi mælinga og árið 2017 það næstheitasta. Áhrifin eru víðtæk en heimshöfin hafa hlýnað, sjávarborð hækkað og jöklar bráðnað hraðar.
Ástæða hlýnunarinnar er fyrst og fremst aukinn styrkur koltvísýrings og fleiri gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Aukning gróðurhúsalofttegundanna er af mannavöldum og stafar einkum af bruna á kolum og olíu til raforkuframleiðslu, í samgöngum og iðnaði, minni bindingu koltvísýrings vegna gróðureyðingar og losun metans í landbúnaði. Aukinn styrkur ákveðinna lofttegunda í andrúmslofti breytir varmageislun frá jörðinni þannig að neðri hluti lofthjúpsins og yfirborð jarðar hlýna.
Flatarmál jökla hefur minnkað á við höfuðborgarsvæðið á 18 árum
Jöklar eru mesta ferskvatnsforðabúr jarðar og leysingavatn frá jöklum er notað til áveitna á landbúnaðarland, auk þess safnast það í ár og vötn og verður að drykkjarvatni dýra og milljóna manna. Jökulvatn er líka víða notað til rafmagnsframleiðslu, eins og hér á landi en einn tíundi hluti Íslands er hulin jöklum.
Umhverfisráðuneytið hefur falið Vatnajökulþjóðgarði í samstarfi við Veðurstofu Íslands að sjá um verkefnið Hörfandi jöklar. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftlagsmálum og er verkefninu ætlað að auka vitund fólks um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla Íslands og alls heimsins.
Í yfirliti Hörfandi jökla um íslenska jökla árið 2018 segir að íslenskir jöklar hafi hopað hratt í um aldarfjórðung og að rýrnun jökla sé einhver helsta afleiðing hlýnandi loftslags hérlendis og skýr vitnisburður um hlýnunina. Alls hefur flatarmál íslenskra jökla minnkað um rúmlega 750 ferkílómetra síðan um síðustu aldarmót en til samanburðar eru sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Seltjarnes, Garðabær, Hafnarfjörður og Mosfellsbær samanlagt um 759 ferkílómetrar.
Á síðustu árum hefur heildarflatarmál jökla hér á landi minnkað um það bil 40 ferkílómetra árlega að meðaltali og á árinu 2018 hopuðu jökulsporðar víða um tugi metra. Af þeim jöklum sem mældir eru af sjálfboðaliðum Jöklarannsóknafélagi Íslands hopuðu Kaldalónsjökull í Kaldalónsjökull í Drangajökli, Sólheimajökull í Mýrdalsjökli og Skeiðarárjökull mest árið 2018 eða um 100 til 300 m. Hraðast hörfar Breiðamerkurjökull þar sem kelfir af honum í Jökulsárlón, milli 200 og 300 metra árlega. Þá styttist Hagafellsjökull eystri í Langjökli um 700 metra þegar dauðísbreiða slitnaði frá sporðinum í fyrra.
Þjóðin tapar ef Snæfellsjökull hverfur
Snæfellsjökull er einn þeirra jökla sem hefur rýrnað mjög í hlýnandi loftslagi síðustu áratuga og greindi Veðurstofa frá því í lok apríl að nú sé jökulinn aðeins 30 metra þykkur að jafnaði . Ef horft er aftur til byrjunar síðustu aldar þá er Snæfellsjökull helmingi minni nú en árið 1910, þá var hann 22 ferkílómetrar en nú er hann um 10 ferkílómetrar. Veðurstofa telur það líklegt að hann hann verði að mestu horfinn árið 2050.
Þjóðgarðinn Snæfellsjökull er mikið sóttur af ferðamenn og sagði Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi, í samtali við RÚV, að breytingarnar á Snæfellsjökli hafi áhrif á svæðið. „Þetta hefur svolítil áhrif að sjálfsögðu á svæðið. Jökullinn er aðdráttarafl þjóðgarðsins, þó það fara nú kannski ekki margir upp á hann, en hann tapar svolitlu gildi á þessu. Þjóðin tapar líka, tveir þriðju hlutar þjóðarinnar hefur þennan jökul fyrir augum. Reykjavík sem dæmi, íbúar Reykjavíkur og nágrennis, þetta er eini jökullinn sem þeir sjá þannig í sjálfu sér er það kannski þjóðin í heild að tapa svolitlu.“
Aukin eldvirkni og skriðhætta
Breytingar á jöklum hafa margvíslegar afleiðingar þar á meðal hækkun sjávar, skriðuföll, aukin eldvirkni og breytingar á lífríki. Íslenskir jöklar geyma um 3500 rúmkílómetra af ís og á vef Hörfandi jökla segir að ef allur þessi ís bráðnaði þá væri hægt að kaffæra allt Ísland í 30 metra djúpu vatni eða hækka sjávarborð heimshafanna um einn cm. Ef allir jöklar heimsins bráðnuðu mundi sjávarborð hækka um allt að 65 metra og kaffæra stóran hluta alls ræktar- og borgarlands jarðarinnar.
Í Vatnajökulsþjóðgarði blasa við margs konar ummerki um jöklabreytingar sem nú verður vart víða á jörðinni sökum hlýnunar lofthjúpsins af mannavöldum. Þar á meðal er jökulsárlón en það byrjaði að myndast um 1935. Það er nú ásamt Breiðárlóni og nokkrum öðrum minni lónum við jaðar Breiðamerkurjökuls yfir 30 ferkílómetrar að flatarmáli. Síðustu árin hafa lónin samtals stækkað um 0,5 til 1 ferkílómetra árlega að meðaltali.
Önnur afleiðing jöklabreytinga er að árið 2016 sameinuðust allar ár Skeiðárssands, sem þýðir að nú falla öll vötn frá Skeiðarárjökli í einum farvegi í fyrsta sinn frá Miðöldum. Þessi breyting, sem er af völdum hörfunar jökuljaðarsins, er einhver skýrasta birtingarmynd hlýnandi loftslags hér á landi samkvæmt Hörfandi jöklum.
Auk þess getur hörfun jökla valdið skriðuföllum úr fjallshlíðum og á síðastliðnum árum hafa miklar skriður eða berghlaup fallið á Morsárjökul og Svínafellsjökul. Hætta er á að hrun ofan í jökullón framan við hopandi jökla valdi skyndilegum flóðbylgjum sem geta ógnað fólki og mannvirkjum.
Þá er farglétting vegna bráðnunar jökla er talin örva kvikuframleiðslu sem getur leitt til aukinnar gosvirkni en um 2 prósent af virku gosbeltunum liggur undir jökli. Líkanreikningar sem herma eftir jökulhörfuninni á tímabilinu 1890 til 2010 gera ráð fyrir að kvikuframleiðsla aukist um 100 til 135 prósent vegna fargléttingar. Samkvæmt Hörfandi jöklum gætir þessara áhrifa nú þegar í aukinni virkni eldstöðva undir Vatnajökli.
Skora á ríkisstjórnina að lýsa yfir neyðarástandi
Jöklabreytingar í framtíðinni ráðast aðallega af því hve hratt og mikið loftslagið hlýnar. Loftslagsspár gera ráð fyrir að veðurfar á Íslandi hlýni um um það bil 2 gráður á yfirstandandi öld og að jafnvel hlýni enn meira á næstu öld þar á eftir. Jöklalíkön Hverfandi jökla benda til þess að innan 200 ára verði Vatnajökull horfinn að mestu. Þá gæti Vatnajökull misst um 25 prósent af núverandi rúmmáli á næstu 50 árum.
Í byrjun október á síðasta ári kom út ný skýrsla loftlagssérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að hitastig á jörðunni muni hækka um 1,5 gráðu fyrir 2030 ef ekki er brugðist hratt við. Í skýrslunni er kallað eftir að ríki heims grípi til stórtækra aðgerða en ef framheldur sem horfir gætu stór svæði í heiminum orðið ólífvænleg. Skýrslan þykir einskonar lokaútkall en ljóst er að ef snúa á þróuninni við fyrir 2030 þarf pólitískan vilja stjórnvalda.
Frjálsu félagasamtökin Landvernd hafa skorað á ríkisstjórn Íslands að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga. Ályktun þess efnis var samþykkt á aðalfundi samtakanna þann 30. apríl síðastliðinn. „Ástandið er þannig að framtíð barnanna okkar er verulega ógnað og framtíð mjög margra lífvera á jörðinni er verulega ógnað. Við verðum að grípa til aðgerða og við verðum að gera það strax. Þetta er neyðarástand,“ sagði Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar í viðtali við fréttastofu RÚV.
Samtökunum þykir aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftlagsmálum sem kynnt var síðasta haust ekki ganga nógu langt og benda á að áætlun stjórnvalda er hvorki tímasett né magnbundin. Í ályktun aðalfundar Landverndar eru lagðar til aðgerðir í tíu liðum sem eiga að skila skjótum samdrætti í losun. Meðal annars er lagt til að innheimt verði kolefnisgjald af flug- og skipsfarþegum koma til landsins og að sala á dísil- og bensínbílum verði bönnuð frá 2023. Auk þess er lagt til að styrkjakerfið í landbúnaði verði endurskipulagt og dregið verði úr framleiðslu dýrða afurða um fjörutíu prósent.
Breskir þingmenn hafa samþykkt að lýsa yfir neyðarástandi í umhverfis- og loftlagsmálum. Tillaga þess efnis var samþykkt þann 1. maí síðastliðinn en samþykktin er sögð lýsa vilja þingsins í málinu. Ríkisstjórninni ber þó ekki lagaleg skylda til þess að bregðast við henni.