Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör, eru í 247. sæti yfir ríkustu menn Bretlands samkvæmt nýbirtum árlegum lista The Sunday Times. Bræðurnir falla um 50. sæti á listanum milli ára vegna þess að hlutabréf í Bakkavör, sem er skráð á hlutabréfamarkað í Bretlandi, lækkuðu um fjórðung milli ára.
Alls er sameiginlegur auður bræðranna tveggja metinn á 560 milljónir punda, 89 milljarða króna, samkvæmt úttektinni. Í fyrra, þegar Ágúst og Lýður sátu í 197. sæti listans, voru þeir metnir á 700 milljónir punda, eða 111,3 milljarða króna á núvirði. Auður þeirra hefur því skroppið saman um 22,3 milljarða króna milli ára. Árið áður, 2017, hafði auðurinn hins vegar vaxið gríðarlega, eða um 550 milljónir punda, sem á núvirði er 87,5 milljarðar króna. Á því ári einu saman stukku bræðurnir upp um 688 sæti á lista The Sunday Times.
Í umfjöllun The Sunday Times um Bakkavararbræðurna segir að Ágúst, sem er 54 ára, og Lýður, sem er 51 árs, hafi alls hagnast um 158 milljónir punda, 25,1 milljarð króna, með því að selja hlutabréf í Bakkavör þegar félagið var skráð á markað í Bretlandi á árinu 2017. Auk þess eigi þeir enn um helming hlutafjár í Bakkavör, en markaðsvirði félagsins í heild er nú um 702 milljarðar króna, auk annars konar eigna.
Bakkavör er einn af stærstu framleiðendur örbylgjumáltíða og annarra tilbúna rétta sem seldar eru til stærstu matvöruverslanakeðja Bretlands, á borð við Tesco, Marks & Spencer, Waitrose og Sainsbury. Hjá samstæðunni starfa yfir 19 þúsund manns.
Voru stærstu eigendur Kaupþings
Bræðurnir voru þungavigtarleikmenn í íslensku viðskiptalífi á bóluárunum fyrir hrun. Þeir höfðu árum saman byggt upp matvælafyrirtækið Bakkavör, sem þeir stofnuðu á Seltjarnarnesi á níunda áratugnum, auk þess sem bræðurnir höfðu breitt vel úr sér; voru stærstu einstöku eigendur Kaupþings, keyptu Símann af ríkinu í stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, áttu tryggingafélagið VÍS, fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu og meira að segja sinn eigin fjölmiðil, Viðskiptablaðið, sem þá var farinn að koma út fjórum sinnum í viku og var með tugi starfsmanna innanborðs.
Umsvif bræðranna fyrir hrun voru flest í gegnum fjárfestingafélagið Existu, mömmu undirliggjandi félaganna, sem var skráð á markað en þeir áttu stærstan hluta í og stýrðu.
Daginn eftir fall Kaupþings, snemma í október 2008, var 40 prósent hlutur Existu í Bakkavör færður til nýs félags í eigu Ágústs og Lýðs, ELL 182 ehf. Félagið greiddi 8,4 milljarða króna fyrir hlutinn. Viðskiptin voru fjármögnuð með seljendaláni frá Existu. Ekki var greint frá því opinberlega þegar þau áttu sér stað. Exista var almenningsfélag þegar þetta var ákveðið í eigu þúsunda hluthafa. Ágúst og Lýður, ásamt samstarfsmönnum sínum, héldu um alla þræði í Existu á þessum tíma. Þegar upp komst um söluna á hlutnum í Bakkavör og að hún hefði verið fjármögnuð af Existu lét Ágúst meðal annars hafa eftir sér í fréttum Stöðvar 2 að sú gagnrýni sem hefði komið fram á kaupin væri einvörðungu til komin vegna vanþekkingar á málinu. „Þessi aðgerð er eingöngu til þess fallin að eignir Bakkavarar út um allan heim haldist í höndum Íslendinga og kröfuhafar hafi aðgang að þeim“. Salan var hins vegar ógild á endanum, að undirlagi kröfuhafa, sem höfðu ekki sömu sýn og bræðurnir á málið. Sérstakur saksóknari rannsakaði einnig söluna. Það mál var síðar fellt niður og ekki þótti tilefni til að ákæra í því.
Staða Bakkavarar á þessum tíma var þannig að félagið var að niðurlotum komið og þurfti á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda. Hinn mikli vöxtur, sem fólst aðallega í því að kaupa upp önnur fyrirtæki í matvælaiðnaði, oft á yfirverði, hafði skilið Bakkavör eftir afar skuldsett.
Misstu eignarhlut en réðu samt
Það flækti málið enn frekar að sumir lánasamningarnir við erlenda banka voru þess eðlis að þeir voru bundnir við að Lýður og Ágúst myndu stjórna Bakkavör. Það þýddi að ef þeir misstu eignarhlut sinn þá þyrftu þeir samt að stýra samsteypunni áfram. Auk þess virðast bræðurnir alltaf hafa haft mikið traust hjá þeim erlendu bönkum sem lánað hafa þeim fé. Fulltrúar þeirra sögðu beint út við íslenska kröfuhafa að þeir treystu engum á Íslandi nema Lýð og Ágústi.
Enn frekari flækjur urðu til vegna skuldabréfaútgáfu Bakkavarar Group. Til einföldunar er líklega best að útskýra uppsetningu Bakkavarar-samstæðunnar þannig að rekstrarfélagið Bakkavör, sem átti eignir út um allan heim, skapaði tekjur hennar. Rekstrarfélagið og allar undirliggjandi eignir þess voru einnig veðsettar fyrir mörg hundruð milljón punda lánum sem Bakkavör hafði tekið, að mestu leyti hjá erlendum stórbönkum og Kaupþingi, til að geta stækkað jafn hratt og raun bar vitni.
Fyrir ofan rekstrarfélagið í skipuritinu var síðan móðurfélagið Bakkavör Group. Það var í raun aðeins eignarhaldsfélag sem átti hlut í rekstrarfélaginu Bakkavör. Þrátt fyrir að allar undirliggjandi eignir samstæðunnar væru veðsettar fjármálastofnunum réðst Bakkavör Group í útgáfu á margar milljarða króna skuldabréfaflokki sem jók á skuldir samstæðunnar.
Íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir fagfjárfestar keyptu alla útgáfuna. Þegar allt fór á hliðina hjá bræðrunum, Existu og Bakkavör vöknuðu þessir skuldabréfakaupendur upp við að þeir voru svo aftarlega í kröfuhafaröðinni í Bakkavör að líklegast myndu þeir aldrei fá krónu upp í kröfur sínar. Þannig skapaðist hvati til að reyna að semja á þann hátt að það myndi skila lífeyrissjóðunum og öðrum kröfuhöfum Bakkavarar Group einhverju til baka.
Á grunni þessara hvata gerði Bakkavör Group nauðasamning í upphafi árs 2010. Í honum fólst að kröfuhafar, að mestu leyti Arion banki og skuldabréfaeigendur á borð við lífeyrissjóðina, tóku yfir félagið en bræðrunum var gefið tækifæri til að greiða kröfuhöfunum til baka fyrir mitt ár 2014. Gengi það eftir myndu bræðurnir fá 25 prósenta eignarhlut í Bakkavör.
Bakkavör Group var stærsta fyrirtæki á Íslandi miðað við veltu árið 2011. Þá nam velta fyrirtækisins 312 milljörðum króna og var um 20 milljörðum króna meiri en hjá Actavis Group, hinum alþjóðlega risanum sem var með höfuðstöðvar á Íslandi á þessum tíma. Nú hafa höfuðstöðvar beggja fyrirtækjanna verið færðar úr landi. Til að átta sig á stærðargráðunni var þriðja stærsta fyrirtæki landsins á þeim tíma Marel. Velta þess árið 2011 var um 108 milljarðar króna, eða um þriðjungur af því sem Bakkavör Group velti. Það var því augljóslega eftir miklu að slægjast með því að ná yfirráðum yfir Bakkavör Group.
Slæmur rekstur tryggði fjórðungshlut
Í upphafi árs 2012 var orðið augljóst að forsendur nauðasamninganna myndu ekki halda. Hrávöruverð hafði hækkað mikið mánuðina á undan og innkaup fyrirtækja innan Bakkavararsamstæðunnar þyngst. Á sama tíma gekk erfiðlega fyrir Bakkavör að velta þessum hækkunum út í verð á þeim vörum sem samsteypan framleiðir. Því var ákveðið að breyta kröfum í nýtt hlutafé. Til að fá bræðurna til að samþykkja þá aðgerð, sem ella hefðu getað haldið Bakkavör í herkví fram á sumarið 2014, var fallist á að leyfa þeim að kaupa fjórðungshlut í félaginu.
Á aðalfundi Bakkavarar Group í maí 2012 voru þessar breytingar og ýmsar aðrar samþykktar. Í stuttu málið yrði kröfum kröfuhafa Bakkavarar Group breytt í hlutafé í breska rekstrarfélagi samstæðunnar, íslenska Bakkavör Group yrði slitið og bræðurnir myndu fá að kaupa fjórðungshlut í breska félaginu og hluthafasamkomulag sem tryggði þeim meirihluta stjórnarmanna í Bakkavör, sem gert hafði verið í aðdraganda nauðasamninga árið 2010, yrði fellt úr gildi.
Fjórðungshlutinn fengu bræðurnir að kaupa á fjóra milljarða króna. Innra virði Bakkavarar miðað við eiginfjárstöðu samstæðunnar var um 20 milljarðar króna og því ljóst að bræðurnir voru að greiða minna en eina krónu fyrir hverja nafnvirðis krónu. Þeir voru sem sagt að fá góðan samning.
Sá góði vilji sem kröfuhafarnir sýndu bræðrunum á þessum aðalfundi vakti athygli. Mesta athygli vakti líklegast að lífeyrissjóðirnir, sem voru stórir kröfuhafar, hafi samþykkt þessa niðurstöðu. Bræðurnir Lýður og Ágúst höfðu nefnilega kostað þá meira fé en nokkur annar.
Auk þess virðast margir innan lífeyrissjóðakerfisins vera sammála um að skuldabréfaútgáfa Bakkavarar Group hafi verið ein svívirðilegasta misnotkun á trúgirni og oft á tíðum barnslegri einfeldni sjóðanna sem átti sér stað fyrir hrun. Bréfin voru enda seld á tóma skel þar sem allar undirliggjandi eignir Bakkavarar Group voru veðsettar upp í topp hjá öðrum kröfuhöfum. Þá er ótalin sú tilraun þeirra að reyna að halda eignum sínum á kostnað kröfuhafa.
Í kjölfar aðalfundarins fóru bræðurnir á fullt í að kaupa hlutafé annarra hluthafa. Og þeir buðust til að greiða þeim í reiðufé. Tilboðið á þeim tíma var um 70 aurar á hverja nafnvirðiskrónu. Þeir sem að málinu komu á sínum tíma fullyrða að féð sem bræðurnir buðu hafi ekki verið lánsfé frá fjármálastofnunum. Mikið var því rætt um hvaðan þeir hefðu fengið slíka fjármuni, enda virtust þeir tilbúnir með marga milljarða króna í handraðanum.
Miklar arðgreiðslur til aflandsfélaga
Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að Lýður og Ágúst væru með mikið fé á milli handanna. Hollenska félagið sem þeir áttu, Bakkabraedur Holdings B.V., sem hélt á eignarhlutum þeirra í Existu og Bakkavör, hafði greitt þeim miklar arðgreiðslur á uppgangsárunum fyrir hrun. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram að það félag hefði verið á meðal þeirra aðila sem þáðu hæstar arðgreiðslur allra félaga í eigu Íslendinga á þessum tíma. Alls fékk félagið tæpa níu milljarða króna í arðgreiðslur á árunum 2005 til 2007.Afar erfitt hefur verið að nálgast upplýsingar um hvernig þeim arðgreiðslum var ráðstafað. DV greindi frá því vorið 2013 að félagið væri enn starfandi en skuldaði um 67 milljarða króna í lok árs 2011. Eignir þess voru nánast engar. Undir öllum eðlilegum kringumstæðum væri svona félagi, sem augljóslega var einvörðungu til utan um hlutabréfaeign í Existu sem nú er verðlaus, slitið. Í frétt DV kom fram að samkvæmt hollenskum lögum þurfi tveir kröfuhafar félaga þar í landi að krefjast gjaldþrots yfir því. Eini kröfuhafi Bakkabraedur Holding B.V. sem vitað er um er Arion banki. Bankinn hafði reynt að ganga á hollenska félagið en ekkert gengið vegna þessa ákvæðis laganna. Bræðurnir áttu hollenska félagið í gegnum kýpverskt félag, Bakkabraedur Holding Strategic Investments Limited. Mikil bankaleynd hefur ríkt á Kýpur og nánast ómögulegt hefur reynst að verða sér úti um ársreikninga félaga sem eru skráð þar.
Í Panamaskjölunum
Kjarninn greindi frá því um miðjan maí 2016 að Bakkavararbræðurnir áttu að minnsta kosti sex félög sem skráð eru til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum. Þær upplýsingar eru fengnar úr Panamaskjölunum. Litlar sem engar upplýsingar eru um hvers konar starfsemi er í félögunum í skjölunum. Þar er ekki að finna neina lánasamninga þeirra við önnur félög, yfirlit yfir hverjar eignir félaganna sex hafa verið né hver tilgangur þeirra er. Kjarninn sendi Ágústi og Lýð, og Bjarnfreði Ólafssyni, spurningar um félögin sex í aðdraganda þess að málið var opinberað. Þar var meðal annars spurst fyrir um hvaða eignir væru í umræddum félögum, hvort uppruni þeirra fjármuna sem þar eru vistaðir hafi verið á Íslandi og hvort fé hafi farið úr þeim til félaga eða einstaklinga á Íslandi.
Þar var einnig spurt hvort eignir félaganna sex hefðu verið á meðal þeirra eigna sem uppgefnar voru í skulduppgjörum bræðranna og félaga í þeirra eigu við kröfuhafa sem fram hafi farið á undanförnum árum. Spurt var af hverju félögin væru með heimilisfesti á Bresku Jómfrúareyjunum, hvar þau hafi greitt skatta og gjöld og hvort allir skattar og gjöld hafi verið greiddir. Engin svör bárust við fyrirspurn Kjarnans.
Gegnsæið er þó meira á Íslandi en á Kýpur og í Panama. Í gegnum opinber gögn sem send voru inn til fyrirtækjaskrár var því hægt að bræðurnir virtust hafa aðgang að miklu fé. Og þeir komu með það heim til Íslands í unnvörpum.
Nýttu sér fjárfestingarleiðina
Leiðin sem bræðurnir notuðu til að koma fénu heim var fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands. Virði evranna sem þeir áttu í erlendum félögum hafði þegar aukist um 50 prósent í krónum talið vegna gengisfalls íslensku krónunnar og fjárfestingarleiðin bauð upp á um 20 prósenta viðbótarvirðisaukningu. Þeir voru því mættir á brunaútsölu.
Tvö félög í eigu bræðranna, Korkur Invest og BV Finance, voru nýtt í þennan gjörning. BV Finance kom með 463 milljónir króna í júlí 2012 og Korkur gaf síðan út skuldabréf upp á þrjá milljarða króna í ágúst sama ár og var með heimild til að gefa út að minnsta kosti milljarð til viðbótar. Til að fá að taka þátt í fjárfestingarleiðinni þarf að koma með sömu upphæð inn í landið án afsláttar. Því er ljóst að Lýður og Ágúst fluttu mikið fé inn í íslenskt hagkerfi árið 2012.
Bræðrunum varð strax ágengt í þeirri viðleitni sinni að bæta vel við fjórðungshlutinn sem þeir fengu til að byrja með. Lífeyrissjóður Starfsmanna ríkisins seldi þeim strax sinn hlut. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, sagði við Fréttablaðið að tilboðið hefði komið í gegnum ótengdan aðila og að trúnaður ríkti um efni hans fyrst um sinn. Lýður og Ágúst voru ekki þeir einu sem söfnuðu sér hlutum á þessum tíma, en þeir voru langstórtækastir. Þeir settu sig í samband við nokkur smærri fjármálafyrirtæki og létu þau leggja inn tilboð fyrir sig og altalað var á markaðnum hverjir stæðu að baki þeim.
Þann 27. september 2012 var síðan haldinn hluthafafundur í Bakkavör Group til að slíta félaginu. Þegar kom að honum áttu bræðurnir þegar rúmlega 30 prósent í rekstrarfélaginu sem undir því hvíldi, og ber nú nafnið Bakkavör Group. Á meðal þeirra aðila sem höfðu einnig selt þeim eignarhluti var þrotabú Glitnis. Verðið sem þeir voru farnir að greiða fyrir hvern hlut fór þó hægt og bítandi hækkandi og var komið yfir eina krónu fyrir hverja nafnvirðiskrónu.
Í kjölfar slitanna mátti ekki lengur stunda viðskipti með „gömlu“ hlutabréfin í Bakkavör án undanþágu Seðlabankans heldur þurftu slík viðskipti að fara fram í Bretlandi og með hluti í breska rekstrarfélaginu Bakkavör. Áður en það gerðist bættu Lýður og Ágúst þó duglega við sig. Þeir keyptu meðal annars hluti Íslandssjóða (sjóðsstýringarfyrirtækis í eigu Íslandsbanka), MP banka og minni lífeyrissjóða. Verðið sem þeir greiddu fyrir var komið upp í meira en 1,5 krónur á hlut. Alls náðu bræðurnir að tryggja sér um 38 prósenta hlut með þessum hætti. Þeir sem þekkja vel til á markaðnum voru sammála um að meðalverð í öllum þessum viðskiptum hafi verið um ein króna á hlut. Samkvæmt því hafa bræðurnir greitt um átta milljarða króna fyrir 38 prósenta hlut sinn.
Þegar Bakkavararbræður hófu gegndarlaus uppkaup á hlutum í Bakkavör myndaði hópur íslenskra aðila, fyrrum kröfuhafa Bakkavarar sem hafði tapað gríðarlegum fjárhæðum á viðskiptum við félagið, blokk á móti bræðrunum með rúmlega 50 prósent eignarhlut. Á meðal þeirra sem tilheyrðu þeirri blokk eru Arion banki, sem átti um 34 prósent, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður. Auk þess voru Almenni lífeyrissjóðurinn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóðir hluti af blokkinni. Forsvarsmenn hennar hafa sagt að það sé vægast sagt ólíklegt að nokkur þeirra muni selja hlut sinn til bræðranna. Aðrir eigendur í Bakkavör eru meðal annars vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management Ltd. sem eignaðist um fimm prósenta hlut með uppkaupum á kröfum og hlutafé. Sá sjóður er einnig á meðal stærstu eigenda Klakka, sem áður hét Exista.
Sögðu nornaveiðar eiga sér stað á Íslandi
Ástandið á milli þessara blokka var lengi vel, vægast sagt, eldfimt. Það endurspeglaðist vel á fyrsta stjórnarfundinum sem haldinn var í Bakkavör eftir að gamla móðurfélaginu var slitið haustið 2012. Arion-blokkin gerði þar kröfu um að fá að skipa stjórnarformann félagsins, en Lýður Guðmundsson sat þá í því sæti. Fyrir því færði hún tvenns konar rök: Í fyrsta lagi gengi ekki að bræðurnir héldu tveimur valdamestu stöðunum innan Bakkavarar-samstæðunnar, en Ágúst er forstjóri hennar. Í öðru lagi töldu aðilar í blokkinni í besta falli óþægilegt að Lýður sæti sem stjórnarformaður vegna ákæru sem sérstakur saksóknari gaf út á hendur honum vegna hlutafjáraukningar í Existu, sem hann hlaut síðar dóm. Arion-blokkin taldi að sú staða gæti skaðað félagið í Bretlandi og því væri það Bakkavör ekki til framdráttar að hann gegndi stöðunni á meðan málið væri leitt til lykta. Bræðurnir hafa á hinn bóginn selt þá sögu í Bretlandi, með góðum árangri, að nornaveiðar eigi sér stað á Íslandi. Þar þurfi að hengja einhvern fyrir það sem gerðist og þeir, ásamt öðrum, séu fórnarlamb þeirrar kröfu.
Þeir voru ekki sáttir við tillöguna og bentu á að þeir, sem stærstu einstöku eigendur Bakkavarar, ættu rétt á formannssætinu.
Frá árinu 2013 var unnið að endurfjármögnun Bakkavarar. Þegar henni yrði lokið átti alltaf að setja félagið í söluferli. Ljóst var á samtölum við þá sem höfðu komið að rekstri Bakkavarar fyrir hönd fyrrum kröfuhafa félagsins að þá myndu bræðurnir vilja finna einhvern sem er þeim hliðhollur til að kaupa hlut Arion banka og lífeyrissjóðanna. Þeir sem voru stærstir í þeirri blokk sögðu hins vegar alltaf í einkasamtölum að þeir myndu vilja selja hæstbjóðanda, og ræddu þá um samkeppnisaðila Bakkavarar á borð við Greencore eða Two Sisters, sem myndu ná einhverri samþættingu í rekstri sínum með kaupunum.
Og þannig stóðu mál þangað til snemma árs 2016.
Eru þátttakendur í íslensku viðskiptalífi
Í janúar 2016 var send tilkynning til fjölmiðla um að BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta hefði selt 46 prósent hlut sinn í breska félaginu Bakkavör Group til félags sem er í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs og bandarískra fjárfestingasjóða í stýringu hjá The BaupostGroup L.L.C. Kaupverðið nam 147 milljónum punda, eða 27,3 milljörðum króna. Sameinaði lífeyrissjóðurinn og dótturfélag Klakka seldu jafnframt sinn fimm prósent hlut í Bakkavör Group og má ætla að kaupverðið hafi verið um þrír milljarðar króna. Kaupendur skuldbundu sig til að leggja fram kauptilboð í alla aðra útistandandi hluti í félaginu, rétt um ellefu prósent, á sömu kjörum.
Bræðurnir og meðfjárfestar þeirra höfðu því eignast 89 prósent í Bakkavör og skuldbundið sig til að kaupa þau ellefu prósent sem upp á vantar. Kaupverðið á þeim hluta var um 6,5 milljarðar króna.
Ágúst og Lýður, ásamt meðfjarfestum sínum, voru því að kaupa 62 prósent hlut í Bakkavör á 36,8 milljarða króna. Áður höfðu þeir eignast 38 prósent fyrir átta milljarða króna. Virði Bakkavarar hafði því tæplega þrefaldast frá því að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og fleiri seldu bræðrunum hlut sinn í Bakkavör Group árið 2012.
Bræðurnir höfðu endurheimt fyrirtækið sem þeir stofnuðu á Suðurnesjunum á níunda áratug síðustu aldar endurskipulagt, endurfjármagnað og án þess að upprunalegir kröfuhafar þess hafi fengið nema brotabrot af þeim peningum sem þeir lánuðu eða fjárfestu í félaginu til baka.
Og 2017 Bakkavör skráð á markað í Bretlandi. Þá nam verðmiðinn á því meira en þreföldu kaupverði af BG12 ehf., eða rúmlega einum milljarði punda, jafnvirði um 159 milljarða króna á núvirði.
Bræðurnir hafa líka stundað viðskipti á Íslandi. Haustið 2017 keyptu þeir, Kvika og hópur annarra einkafjárfesta, færsluhirðingarfyrirtækið Kortaþjónustuna á eina krónu eftir að það hafði ratað í alvarlegan lausafjárvanda vegna gjaldþrots breska flugfélagsins Monarch. Samhliða lagði þessi hópur fyrirtækinu til um 1,5 milljarð króna í nýtt hlutafé.
Eftirhrunsárin hafa þó ekki bara verið ein stanslaus sigurganga. Lýður hlaut átta mánaða fangelsisdóm fyrir sinn hlut í því að senda ranga tilkynningu til fyrirtækjaskrár í hinu svokallaða Exista-máli. Þá var tilkynnt um hlutafjáraukningu upp á 50 milljarða í lok árs 2008, en aðeins var greitt fyrir það um einn milljarður króna.
Þessi umfjöllun byggir að hluta á bókinni Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kom út haustið 2018.
Lestu meira:
-
4. ágúst 2020Rannsókn á Lindsor-málinu í Lúxemborg lokið og því vísað til saksóknara
-
9. júlí 2020Lindsor-rannsóknin nær til nýrra grunaðra og á að ljúka fyrir haustið
-
15. maí 2020Annað opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar
-
11. nóvember 2019Opið bréf til Ármanns Þorvaldssonar
-
21. október 2019Deutsche Bank taldi „skaðlega umfjöllun“ um samkomulag valda kerfisáhættu fyrir heiminn
-
15. október 2019Kaupþing felldi niður bótamál gegn fyrrverandi stjórnendum
-
14. september 2019Breska ríkið búið að selja síðustu kröfuna á Kaupþing
-
24. maí 2019Skýrsla um neyðarlánið kemur á mánudag klukkan 16
-
24. maí 2019Skýrsla um neyðarlánið frestað í þriðja sinn á örfáum vikum
-
13. maí 2019Enn frestast birting skýrslu um neyðarlánið