Mynd: Nasdaq Iceland

Telja að virði Heimavalla sé tvöfalt hærra

Skráning Heimavalla á markað hefur ekki gengið sem skyldi. Lítill áhugi hefur verið á félaginu hjá lífeyrissjóðum landsins, það hefur sætt gagnrýni fyrir áhrif sín á húsnæðismarkað og ómögulegt hefur reynst að losna undan arðgreiðslubanni með því að klára endurfjármögnun. Ítarlegt verðmat Arctica Finance á Heimavöllum sýnir hins vegar að eignir félagsins séu verulega vanmetnar. Nánar tiltekið um 14 milljarða króna.

Heima­vellir er stærsta leigu­fé­lag lands­ins sem starfar á almennum leigu­mark­aði. Mark­aðsvirði félags­ins, sem hefur verið skráð í Kaup­höll Íslands í rúmt ár, er um 13 millj­arðar króna.

Til­raunir til að afskrá félagið af mark­aði fóru nýverið út um þúf­ur. Þær skýr­ingar voru gefnar fyrir þeirri veg­ferð að Heima­vellir hafi ekki fengið góðar mót­tökur hjá stærstu fjár­festum lands­ins, sér­stak­lega líf­eyr­is­sjóð­um, og að end­ur­fjár­mögn­un­ar­til­burðir Heima­valla hafi ekki staðið undir vænt­ing­um.

Ýmsir við­mæl­endur Kjarn­ans, meðal ann­ars á meðal hlut­hafa í Heima­völl­um, telja hins vegar að önnur ástæða sé líka fyrir þeim til­raun­um. Ástæða sem byggi á verð­mati frá Arct­ica Fin­ance sem sagði að virði eigna Heima­valla sé um 14 millj­örðum krónum meira en mark­aðsvirð­ið. Því hafi verið til mik­ils að vinna að selja þær eignir og taka út mik­inn hagn­að.

Ríkið seld­i...

Heima­vellir voru stofn­aðir árið 2015. Þá var ákveðið að renna saman nokkrum minni leigu­fé­lög­um, sem áttu sam­tals 191 íbúð, í eitt og og úr urðu Heima­vell­ir.



Í kjöl­farið rúll­aði bolt­inn hratt. Heima­vellir keyptu hvert eigna­safnið á fætur öðru, oft af Íbúða­lána­sjóði sem var að losa um eignir sem hann hafði setið uppi með.

Stærsta við­bótin kom þó síðla árs 2016 þegar Heima­vellir eign­uð­ust 716 íbúðir á Ásbrú, gamla varn­ar­liðs­svæð­inu á Mið­nes­heiði, með því að sam­ein­ast félag­inu Ása­byggð, sem hét áður Háskóla­vell­ir. Það hafði eign­ast flestar þeirra árið 2008 þegar þær voru keyptar af Kadeco. Kadeco hafði verið stofnað til að taka við fast­eignum á svæð­inu í kjöl­far þess að banda­ríski her­inn yfir­­gaf her­­stöð­ina á Mið­­nes­heiði.

Íslenska ríkið á bæði Íbúða­lána­sjóð og Kadeco. Því var stærsti selj­andi fast­eigna til Heima­valla við skatt­greið­end­ur, eða íslenska ríkið fyrir okkar hönd.

Á þessum árum jókst umfang Heima­valla hratt. Virði fjár­fest­inga­eigna félags­ins, sem voru hús­næði í útleigu eða bygg­ingu, fór úr því að vera 10,2 millj­arðar króna í lok árs 2015 í að vera 53,5 millj­arðar króna snemma árs 2018. Alls jókst umfang Heima­valla því fimm­falt á um tveimur árum.

...Og ríkið lán­aði

Hug­mynda­fræðin á bak við hinn mikla vöxt Heima­valla var sú að ná félag­inu upp í þá stærð að það væri hægt að skrá félagið á mark­að. Slík skrán­ing var boðuð á fyrri hluta árs 2018 og skrán­ing­ar­lýs­ing Heima­valla var birt 23. apríl það ár. Þar var hægt að finna ítar­legar upp­lýs­ingar um hvernig félagið hafið vaxið og fjár­magnað sig.



Líkt og áður sagði keyptu Heima­vellir stærstan hluta þeirra íbúða sem félagið hafði eign­ast af íslenska rík­inu. Auk þess var opin­berað í skrán­ing­ar­lýs­ing­unni að fjár­mála­fyr­ir­tæki í eigu íslenska rík­is­ins væru helstu lán­veit­endur þess. Ann­ars vegar er þar um að ræða Íbúða­lána­sjóð og hins vegar rík­is­bank­ann Lands­bank­ann.

Eig­in­fjár­hlut­fall Heima­valla hafði hækkað mjög mikið á fáum árum, úr 10,5 pró­sent í lok árs 2015 í 32,9 pró­sent í mars­lok 2019, meðal ann­ars vegna hækk­andi fast­eigna­verðs og mik­ils vaxtar Heima­valla.

Það er því nóg af reiðufé inni í Heima­völl­um. En eig­endur félags­ins hafa þó aldrei borgað sér arð. Ástæðan var ekki vilja­leysi. Þeir máttu það ein­fald­lega ekki.

Þegar Heima­vellir keyptu upp eigna­söfn Íbúða­lána­sjóðs þá fylgdu með sér­stök lán sem veitt höfðu verið á grund­velli reglu­gerðar sem átti að tryggja að lán­veit­ingar sjóðs­ins færu ein­ungis til aðila sem ekki væru reknir í hagn­að­ar­skyni.

Reglu­­gerðin sem um ræð­ir, númer 1042/2013, snýst um að Íbúða­lána­­sjóð­­ur, sem er í eigu rík­­is­ins, veiti lán til sveit­­ar­­fé­laga, félaga og félaga­­sam­­taka sem ætl­­aðar eru til bygg­ingar eða kaupa á leig­u­í­­búð­­um. Mark­mið reglu­­gerð­­ar­innar var að „stuðla að fram­­boði á leig­u­í­­búðum fyrir almenn­ing á við­ráð­an­­legum kjöru­m“.  

Íbúðalánasjóður seldi Heimavöllum íbúðir og lánaði félögum samstæðunnar umtalsverða fjármuni.
Mynd: Bára Huld Beck

Reglu­gerðin setur þau skil­yrði að allir sem fái lán undir hatti hennar megi ekki vera reknir í hagn­að­­ar­­skyni „og úr þeim má hvorki greiða arð né arðs­­gild­i“.

Af þeim 18,4 millj­örðum króna sem Íbúða­lána­sjóður hafði veitt í lán á grund­velli þeirrar reglu­gerðar sum­arið 2018 höfðu um átta millj­arðar króna farið til Heima­valla, eða 43,4 pró­sent allra slíkra lána.

Alls skuld­uðu Heima­vellir Íbúð­ar­lána­sjóði 18,6 millj­arða króna á þessum tíma, en hluti þeirra lána eru svokölluð almenn leig­u­í­­búð­­ar­lán sem um gilda mun rýmri regl­­ur.

Ekk­ert af mark­mið­unum náð­ist

Með því að skrá Heima­velli á markað var von­ast til að ná nokkrum mark­mið­um: að skrán­ingin myndi leiða til þess að félagið gæti end­ur­fjár­magnað lán sín á betri kjörum og losnað með því út úr arð­greiðslu­höml­unum sem Íbúða­lána­sjóðs­lánin settu á þau.

Þá var von­ast til þess að fleiri stórir fjár­fest­ar, sér­stak­lega stofn­ana­fjár­festar á borð við íslensku líf­eyr­is­sjóð­ina, myndu taka þátt í útboði á hlutum í félag­inu í aðdrag­anda skrán­ing­ar. Auk þess tryggir skrán­ing selj­an­leika á hluta­bréfum sem er ekki til staðar hjá óskráðum félög­um.

Það má segja að ekk­ert af þessum mark­miðum hafi náðst.

Í fyrra­vor fjöll­uðu íslenskir fjöl­miðlar um að hluti eig­enda og stjórn­enda Heima­valla hefðu fundið leið til þess að taka fé út úr félag­inu á annan hátt en með því að greiða arð. Það var gert í gegnum þóknana­greiðslur sem greiddar voru til eign­ar­halds­fé­lags­ins Heima­valla GP, sem séð hafi um umsýslu eigna fyrir Heima­velli. Alls námu þær þóknana­greiðslur rúm­lega 480 millj­ónum króna á árunum 2015 til loka árs 2017.



Bara á árinu 2017 fékk félagið greitt 270 millj­­ónir króna vegna þókn­ana fyrir grein­ingu og fram­­kvæmdar fjár­­­fest­inga. Samn­ingi milli Heima­valla GP og Heima­valla var svo slitið í októ­ber 2017, í aðdrag­anda skrán­ingar á mark­að, enda hefði slíkur samn­ingur ekki litið vel út hjá skráðu félagi.

Gagn­rýni Ragn­ars Þórs vóg þungt

Fyr­ir­komu­lagið var harð­lega gagn­rýnt, sér­stak­lega af Ragn­ari Þór Ing­ólfs­syni, for­manni VR. Hann sagði í stöðu­upp­færslu á Face­book þann 25. apríl 2018, um mán­uði fyrir skrán­ingu Heima­valla, að með því hafi útvöldum hópi gef­ist kostur á „400 millj­óna króna hlut á silf­ur­fati sem árang­urstengd greiðsla fyrir að keyra upp leigu­verð á fákeppn­is­mark­aði þar sem skelfi­legt ástand á hús­næð­is­mark­aði hefur skapast, vegna lít­ils fram­boðs, og hefur keyrt upp fast­eigna­verð og þar af leið­andi fast­eigna­mat og á end­anum eignir félags­ins. Það hlýtur að vera krafa verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og sjóð­fé­laga líf­eyr­is­sjóð­anna að eig­endur félags­ins verði ekki verð­laun­aðir frekar með fjár­fest­ingum líf­eyr­is­sjóða í útboði félags­ins. Við því verður harka­lega brugð­ist ef svo verð­ur!“

Nú þegar er búið að slíta út úr félag­inu hund­ruðir millj­óna í formi þókn­ana fyrir ráð­gjafa­störf og fleira. Nú gefst...

Posted by Ragnar Þór Ing­ólfs­son on Wed­nes­day, April 25, 2018

Útboðið olli von­brigðum

Í hluta­fjár­út­boði Heima­valla voru boðnir til sölu 750 millj­ónir hluta en heim­ild var til staðar að hækka útboðið upp í 900 millj­ónir hluta ef eft­ir­spurn gæfi til­efni til. Það gerði hún ekki.

Fjár­festar áttu að gera til­boð á bil­inu 1,38- 1,71 krónur á hlut fyrir stærstan hluta þess sem var til sölu. Nið­ur­staðan varð sú að vegið með­al­tal var 1,39 krónur á hlut, eða mjög nálægt lægri mörk­un­um. Ekki reynd­ist þörf á að stækka útboðið enda ekki eft­ir­spurn eftir því að kaupa umfram­hlutafé á því verði sem von­ast var eft­ir. Athygli vakti t.d. að áhugi ann­arra líf­eyr­is­sjóða en þeirra sem þegar voru í eig­enda­hópnum var lít­ill sem eng­inn.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gagnrýndi Heimavelli harðlega í aðdraganda skráningar félagsins á markað.
mynd: Bára Huld Beck

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að þar hafi gagn­rýni Ragn­ars Þórs og önnur umræða um ábyrgð Heima­valla á háu leigu­verði á almennum mark­aði spilað stóra rullu. Líf­eyr­is­sjóð­irnir hafi ekki viljað fjár­festa í félagi sem virtist, að minnsta kosti sam­kvæmt almennri umræðu, vera með and­stæða hags­muni við stóran hóp sjóðs­fé­laga þeirra.

Bréf Heima­valla voru svo tekin til við­skipta 24. maí 2018 í Kaup­höll­inni og verðið í lok dags var ell­efu pró­sentum lægra en með­al­tals­gengið í útboð­inu. Eftir fyrsta dag á mark­aði lækk­aði heild­ar­virði Heima­valla í 13,9 millj­arða króna.

Gengi bréfa í Heima­völlum hefur síðan þá aldrei farið yfir 1,29 krónur á hlut og rétt rúmu ári eftir skrán­ingu er gengið ein­ungis 1,20 krónur á hlut.

Ekki nægj­an­leg eft­ir­spurn eftir skulda­bréfum

Þrátt fyrir von­brigðin með þátt­töku í útboð­inu og lít­inn sem engan áhuga stærstu leik­enda á íslenskum hluta­bréfa­mark­aði á því að fjár­festa í Heima­völl­um, þá hélt félagið sínu striki. Enn var stefnan að ná betri kjörum á fjár­magns­mark­aði og losna undan arð­greiðslu­bann­inu sem fylgdi hinum dýru lánum frá Íbúð­ar­lána­sjóði. Í hálfs­árs­upp­gjöri Heima­valla í fyrra, sem birt var í lok ágúst, kom fram að félagið ætti í sam­­starfi við Arion banka um útgáfu á fast­­eigna­­tryggðum skulda­bréfum sem er stefnt að bjóða fjár­­­festum í októ­ber 2018. „Við teljum að skulda­bréf hjá skráðu félagi með veði í vönd­­uðu íbúða­safni ætti að höfða til margra lang­­tíma­fjár­­­festa,“ sagði í frétta­til­kynn­ingu.

Það gekk hins vegar hægt að end­ur­fjár­magna lán Heima­valla. Gefnir voru út skulda­bréfa­flokkar en mark­mið Heima­valla með útgáfu þeirra náð­ust ekki.

Enn var uppi­staðan af skuldum Heima­valla við Lands­bank­ann og Íbúða­lána­sjóð í formi verð­tryggðra lána. Áhugi fjár­festa á hluta­bréfum félags­ins var áfram lít­ill eða eng­inn. Virði þeirra ein­fald­lega hagg­að­ist ekki úr kjall­ara Kaup­hallar Íslands.

Breytt um kúrs

Í nóv­em­ber 2018 var send til­kynn­ing til Kaup­hallar Íslands um að Heima­vellir hefðu tekið upp ný stefnumið og ætl­uðu að end­ur­skipu­leggja fast­eigna­safn sitt. Verið var að breyta um kúrs ein­ungis nokkrum mán­uðum eftir að skrán­ing á markað gekk í gegn.

Í til­kynn­ing­unni sagði að selja ætti fast­eignir fyrir 17 millj­arða króna á árunum 2018 til 2020 og kaupa á móti nýjar fyrir níu millj­arða króna. Í nýjum stefnu­miðum félags­ins var fjölgun minni íbúða gerð að for­gangs­máli, áhersla lögð á að eiga heil fjöl­býl­is­hús og auka hlut­deild íbúða sem væru á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þess­ari línu var fylgt næstu vik­urnar og eignir annað hvort seldar eða settar í sölu.

Í lok jan­úar fóru hlut­irnir hins vegar að ger­ast hratt. Ljóst var að skrán­ing Heima­valla á markað hafði alls ekki lukk­ast og hluti þeirra sem höfðu fjár­fest í félag­inu voru óánægðir með stöð­una. Fyrst var til­kynnt, þann 31. jan­úar 2019, að Guð­brandur Sig­urðs­son, fram­kvæmda­stjóri Heima­valla, myndi stíga til hliðar í lok mars­mán­að­ar.

Heimavellir voru skráðir á markað í lok maí í fyrra. Síðan þá hefur verið reynt að afskrá félagið og Guðbrandur Sigurðsson, sem sést hér hringja bjöllunni frægu, hefur stigið til hliðar sem framkvæmdastjóri félagsins.
Mynd: Nasdaq Ísland

Degi síðar var greint frá því að stjórn Heima­valla hefði borist erindi frá þremur hlut­höfum þar sem farið var fram á það við stjórn félags­ins að hún boð­aði til hlut­hafa­fundar þar sem til­laga yrði gerð um afskrán­ingu Heima­valla af mark­aði eða að slík til­laga yrði sett á dag­skrá aðal­fundar 14. mars 2019.

Afskrán­ing en ekki yfir­töku­skylda

Hlut­haf­arnir þrír voru Snæ­ból ehf. (7,54 pró­sent), Gana ehf. (7,54 pró­sent) og Klasi ehf. (3,85 pró­sent). Sam­tals áttu þessir þrír hlut­hafar 18,93 pró­sent í Heima­völlum og um tengda aðila var að ræða. Klasi ehf. er í eigu Siglu ehf. sem er fjár­fest­inga­fé­lag í eigu Snæ­bóls ehf. og Gana ehf. Þau félög eru í eigu Finns R. Stef­áns­sonar og Tómasar Krist­jáns­son­ar.

Í til­kynn­ingu til Kaup­hall­ar, sem er skrifuð á bréfs­efni Arct­ica Fin­ance, umsjón­ar­að­ila afskrán­ing­ar­inn­ar, sagði að það væri „mat hlut­haf­anna að taka hluta­bréf­anna til við­skipta hjá NAS­DAQ Iceland hf. hafi ekki skilað væntum ávinn­ingi fyrir hlut­hafa og félag­ið.“

Til­boðs­verðið var 1,30 krónur á hlut sem var aðeins yfir skráðu gengi Heima­valla en undir því verði sem hluta­bréf félags­ins voru seld á í útboð­inu í aðdrag­anda skrán­ing­ar.  Í bréf­inu sagði: „Til­gang­ur­inn með hinu val­frjálsa til­boði er að greiða fyrir töku hluta­bréfa Heima­valla hf. úr við­skiptum hjá NAS­DAQ Iceland hf. og veita þeim hlut­höfum sem hugn­ast ekki afskrán­ing, kost á að selja. Ljóst er að selj­an­leiki bréfanna, sér­stak­lega minni hluta, mun minnka við afskrán­ingu úr kaup­höll og upp­lýs­inga­gjöf til hlut­hafa verður tak­mark­aðri, þetta getur verið for­sendu­brestur og áhættu­þáttur sem ein­hverjir hlut­hafa vilja forð­ast.“

Í aðdrag­anda aðal­fundar Heima­valla lagði síðan félagið AU 3 ehf. fram til­boð í 27 pró­sent hlut í Heima­völlum fyrir fjóra millj­arða króna. Þeir sem ætl­uðu að leggja AU 3 til fé voru áður­nefnt Sigla, félagið Umbreyt­ing slhf., Varða Capi­tal og Eign­ar­halds­fé­lagið VGJ ehf.

Eig­andi AU 3 var Umbreyt­ing og stærsti eig­andi þess er Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna og áður­nefnt Snæ­ból með 14,72 pró­sent hlut hvor. Auk þess átti VÍS stóran hlut, eða 7,85 pró­sent.

Ekki mynd­að­ist yfir­töku­skylda við til­boðið og því áttu þeir sem vildu ekki taka því að halda áfram að vera í hlut­hafa­hópi Heima­valla eftir að félagið yrði afskráð. Slíkt hefði þýtt mun minni selj­an­leika bréfa og miklu minni upp­lýs­inga­gjöf en fylgir því að vera skráð félag.

12. mars var birt grein­ar­gerð stjórnar Heima­valla þar sem fram kom að hún teldi ekki til­efni til að ætla að val­frjáls til­boðið hefi nei­kvæð áhrif á hags­muni Heima­valla, störf stjórn­enda og starfs­manna félags­ins. Eng­inn stjórn­ar­maður sem átti hluti í Heima­völlum ætl­aði að taka til­boð­inu á þessum tíma.

Leiguverð tvöfaldast á fáum árum

Leigjendum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og er nú áætlað að þeir séu rúmlega 50 þúsund talsins í um 30 þúsund heimilum. Það þýðir að 16-18 prósent landsmanna sem eru 18 ára og eldri eru á leigumarkaði.

Frá því að reglulegar mælingar á leiguverði hófust árið 2011 hefur leiguverð hækkað um 95 prósent á sama tíma og t.d. húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 104 prósent.

Fjölmennasti aldurshópurinn sem er á leigumarkaði er 25 til 34 ára og heimilistekjur meirihluta leigjenda eru á bilinu 250 til 800 þúsund krónur á mánuði.

Einungis átta prósent þeirra sem eru á leigumarkaði vilja vera þar samkvæmt könnun á viðhorfi leigjenda sem Zenter vann í fyrrahaust fyrir hagdeild Íbúðalánasjóðs. Þar kom einnig fram að þrátt fyrir að nærri allir leigj­endur vilji búa í eig­in hús­næð­i þá telji aðeins 40 pró­­sent leigj­enda öruggt eða lík­leg­t að þeir kaupi sitt eigið hús­næði næst þegar skipt er um hús­næði. Aðeins 57 pró­sent leigj­enda telja sig búa við hús­næð­is­ör­yggi miðað við 94 pró­sent þeirra sem búa í eigin hús­næði. Fram­boð af íbúð­ar­hús­næði til leigu sem hentar ein­stak­lingum eða fjöl­skyldum þykir auk þess lít­ið, en 79 pró­sent leigj­enda voru sam­mála um það.

Um 16 prósent leigjenda leigja af leigufélögum sem eru einkarekin og hagnaðardrifin. Þar eru Heimavellir og Almenna leigufélagið stærstu leikendurnir.

Alls áttu Heimavellir 1.892 íbúðir í lok síðasta árs en stefnt er að því að fækka þeim í 1.500 fyrir lok árs 2020.

Leigutekjur heimavalla á árinu 2018 voru um 3,7 milljarðar króna og hækkuðu um 19 prósent milli ára. Á sama tíma hækkaði rekstrarkostnaður fjárfestingaeigna um tvö prósent.

Mikil breyting varð á afkomu Heimavalla milli ára. Félagið skilaði 2,7 milljarða hagnaði 2017 en einungis 48 milljóna króna hagnaði í fyrra þrátt fyrir að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu á virði eigna hafi aukist um 39 prósent milli ára. Á móti kom að fjármagnsgjöld félagsins hækkuðu um 856 milljónir króna milli ára í tæplega 2,8 milljarða króna. Tekjur Heimavalla eru áætlaðar 3,4 milljarðar króna á árinu 2019 og skýrist væntanlegur samdráttur á því að félagið hyggst fækka eignum í sinni eigu í um 1.700 fyrir árslok.

Fimmtu­dag­inn 14. mars var aðal­fundur Heima­valla hald­inn á Hilton Reykja­vík Nor­dica. Þar var til­laga um afskrán­ingu félags­ins sam­þykkt með meiri­hluta greiddra atkvæða, eða 81,3 pró­sent greiddra atkvæða. Viku síðar var sent erindi á Kaup­höll Íslands þar sem óskað var eftir því að bréfin yrðu tekin úr sölu.

Kaup­höllin segir nei

Þann 17. apríl 2019 til­kynnti Kaup­höllin hins vegar að hún hefði tekið ákvörðun um að hafna afskrán­ing­unni. Í rök­stuðn­ingi hennar sagði gera mætti „ráð fyrir því að margir hlut­hafar sem tóku þátt í útboði félags­ins þegar hluta­bréf þess voru tekin til við­skipta í maí 2018 hafi gert það á grund­velli þess að hluta­bréfin yrðu eftir það í við­skiptum á Aðal­mark­aði Kaup­hall­ar­inn­ar.[...]Þá hafi hlut­hafar að baki 18,7 pró­sent atkvæða á aðal­fundi greitt atkvæði gegn töku hluta­bréfa félags­ins úr við­skipt­um. Telur Kaup­höllin að um veru­lega hátt hlut­fall sé að ræða og sam­ræm­ist það mati ann­arra kaup­halla í nágranna­ríkjum okk­ar[..] Ljóst er að þessir hlut­hafar geta hæg­lega „frosið inni“ með eign­ar­hluti sína komi til þess að hluta­bréf félags­ins verið tekin úr við­skipt­u­m.“

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, ákvað ásamt samstarfsfólki sínu að hafna afskráningarbeiðni Heimavalla.
Mynd: Aðsend

Þann 22. maí var greint frá því að fallið hafi verið frá til­boði AU 3 ehf.

Verð­mat sem sýndi mun hærra virði eigna

Ýmsir aðilar í við­skipta­líf­inu, meðal ann­ars hlut­hafar í Heima­völl­um, telja að mögu­lega hafi verið annar grund­völlur fyrir afskrán­ing­ar­veg­ferð stórra hlut­hafa. Þar staldra margir við mjög ítar­legt verð­mat sem Arct­ica Fin­ance, sem sá um afskrán­ing­ar­ferlið, gerði á Heima­völl­um. Um var að ræða langít­ar­leg­asta verð­mat sem gert hefur verið á félag­inu.

Virði Heima­valla miðað við mark­aðsvirði í dag er í  kringum 13 millj­arða króna. Það þýðir að skráður mark­aður verð­metur félagið á því verði. Eigið fé Heima­valla, mun­ur­inn á bók­færðum eignum og skuldum er hins vegar mun hærri tala eða 18,9 millj­arðar króna.

Á blað­síðu þrjú í verð­mati Arct­ica Fin­ance, sem hluti hlut­hafa Heima­valla höfðu aðgang að og er kyrfi­lega merkt trún­að­ar­mál, kom fram að Arct­ica Fin­ance meti eignir Heima­valla á mun hærra verði en gert sé í síð­asta birta árs­hluta­reikn­ingi og að fyr­ir­tækið telji að eigið fé Heima­valla miðað við sitt mat eigi að vera 27 millj­arðar króna. Því skeikar 14 millj­örðum króna á mats­verði Heima­valla og mark­aðsvirði félags­ins og eftir umtals­verðu að slægj­ast ef hægt yrði að afskrá félagið ódýrt en selja svo eignir þess jafnt og þétt.

Miðað við hið val­frjálsa til­boð sem hlut­höfum Heima­valla var gert vegna fyr­ir­hug­aðrar afskrán­ingar var heild­ar­virði félags­ins um 15 millj­arðar króna, eða 12 millj­örðum krónum lægra en verð­mat Arct­ica Fin­ance sagði til um. Miðað við það verð­mat ætti virði hvers hlutar í Heima­völlum að vera 2,4 krónur á hlut.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar