Síminn aftur orðinn stærstur á farsímamarkaði
Eðli fjarskiptaþjónustu hefur breyst hratt á undanförnum árum. Áður fyrr snerist hún um að selja símtöl. Nú eru verð á farsímamarkaði hérlendis með þeim lægstu í heimi og arðsemin liggur í annarri þjónustu. Þar munar mest um sölu á gagnamagni en notkun landsmanna á því hefur 150 faldast á tæpum áratug.
Síminn náði aftur að verða það fjarskiptafyrirtæki sem er með stærstu markaðshlutdeild á farsímamarkaði á Íslandi á árinu 2018. Í lok þess voru 34,5 prósent landsmanna í þjónustu hjá gamla ríkissímanum, sem var einkavæddur snemma á þessari öld.
Þetta var viðsnúningur frá árinu 2017 þegar bæði Nova og Vodafone, sem nú heitir Sýn, náðu að vera með fleiri viðskiptavini en Síminn á þessum markaði. Í fyrsta sinn var Síminn „litli“ leikandinn á þessum anga hins þrískipta fjarskiptamarkaðarins. Vert er þó að taka fram að mjög litlu skeikaði á milli fyrirtækjanna og þrískipting markaðsins var mjög jöfn.
Nova hafði náð því að verða stærsti veitandi farsímaþjónustu á Íslandi á árinu 2015. Það markaði tímamót vegna þess að Síminn hafði verið leiðandi þar frá upphafi símtala á Íslandi. Um mitt át 2008 var fyrirtækið til að mynda með 56,6 prósent markaðshlutdeild. Hún var komin niður í 32,3 prósent í árslok 2017. Það sem ýtti Vodafone yfir Símann á því ári var samruni fyrirtækisins við 365 sem tók gildi í desember 2017.
En nú hefur Síminn, samkvæmt nýjustu tölfræðiskýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar, náð forskotinu sínu aftur.
Ein lægstu verð í vestænum heimi
Alls voru 486.979 virk símakort á farsímaneti íslensku fjarskiptafyrirtækjanna. Þeim fjölgaði um 24.953 á árinu 2018, eða 5,4 prósent milli ára. Öll stóru fjarskiptafyrirtækin þrjú bættu við sig viðskiptavinum í fyrra.
Þótt Síminn sé aftur orðinn stærsta fyrirtækið á þessum markaði þá eru hin tvö sem skipta farsímamarkaðnum á milli sín með honum ekki langt undan. Markaðshlutdeild Nova er 32,1 prósent og Vodafone/Sýn er með 31,1 prósent hlutdeild.
Ljóst er að umtalsverð samkeppni hefur ríkt um viðskiptavini í geiranum á undanförnum árum. Í tilkynningu til Kauphallar Íslands sem birt var í lok febrúar síðastliðnum, vegna birtingu á ársuppgjöri Símans fyrir árið 2018, sagði Orri Hauksson, forstjóri fyrirtækisins, að það væru ýmsir áhættuþættir í rekstri Símasamstæðunnar. „Þannig er sérstaklega hart barist á íslenskum markaði fyrir fjarskipti og upplýsingatækni. Verð á farsímamarkaði eru áfram undir miklum þrýstingi og á Íslandi eru nú ein lægstu verð í farsíma í vestrænum heimi.“
Gagnabyltingin
Undanfarin þrjú ár hefur myndast stöðugleiki á skiptingu þessa markaðar eftir miklar breytingar árin á undan. Frá því að Nova hóf starfsemi í desember 2007, og næsta tæpa áratuginn þar á eftir, var nefnilega allt á fleygiferð. Þar skiptir innkoma nýs aðila ekki einungis máli, heldur líka stórbreytt neytendahegðun og tækniframfarir. Nú eru nær allir landsmenn með litlar tölvur í vasanum sem þeir nota til að lesa fréttir, nota samfélagsmiðla, hlusta á hlaðvörp eða horfa á kvikmyndir eða þætti. Þessi staða var ekki til staðar 2007, í árdaga snjallsímavæðingarinnar. Fyrsti iPhone-inn kom til að mynda á markað sumarið 2007 og fyrsti Samsung Galaxy síminn tveimur árum síðar, sumarið 2009.
Nova lagði strax áherslu á að ná í mikinn fjölda ungra notenda með því að lofa þeim fríum símtölum og sms-skeytum innan kerfis. Fyrirtækið var gagnrýnt á þeim tíma úr ýmsum áttum fyrir það að aðferðarfræði þess gæti ekki orðið sjálfbær. Það var ekki að selja fastlínu-nettengingar og að gefa þorra þjónustu sinnar. Hvernig átti það að gera staðið undir sér?
Svarið var auðvitað með gagnamagnsnotkun og því verði sem viðskiptavinirnir myndu greiða fyrir það.
Eðlisbreyting yfir í netkerfi
Tíðniheimildir fyrir 3G, fyrsta háhraðakynslóð farsímanetskerfið, voru boðnar út á Íslandi í lok árs 2006. Kerfið er í raun mun frekar netkerfi en farsímakerfi og gerði gagnaflutning mögulegan. Farsímar dagsins í dag eru því fyrst og fremst tölvur, ekki símar.
Á árinu 2014 hófst 4-G væðing á Íslandi af alvöru. Það árið fimmfaldaðist fjöldi slíkra tenginga innan farsímanetsins, en þær fela í sér tíu sinnum meiri hraða en 3G tengingarnar gerðu og voru þrisvar sinnum hraðari en hröðustu ADSL-tengingar. Um mitt ár 2014 voru 17,8 prósent allra virkra símakorta 4G-kort. Um síðustu áramót voru 77,9 prósent allra virkra símakorta á Íslandi 4G, alls 379.180 talsins.
Það kom í ljós að viðskiptavinir Nova voru í algjörum sérflokki þegar kom að því að nota gagnamagn. Á fyrri hluta ársins 2015 notuðu þeir til að mynda um 74 prósent af öllu gagnamagni sem notað var á farsímanetinu hérlendis. Vert er þó að taka fram að sú notkun sem fer fram í gegnum farsíma með tenginu við beini (WiFi) er ekki innifalin í þessum tölum.
Þótt dregið hafi úr yfirburðum Nova á þessu sviði þá er staða fyrirtækisins þar enn mjög sterk. Hlutdeild þess er 56,6 prósent. Síminn er með 26,2 prósent hlutdeild og Vodafone/Sýn með 15,4 prósent. Það gagnamagn sem streymdi um kerfi fjarskiptafyrirtækjanna jókst umtalsvert hjá þeim öllum í fyrra.
150 föld aukning á níu árum
Íslendingar notuðu 36,5 milljónir gígabæta af gagnamagni á farsímaneti í fyrra. Það er 43 prósent aukning á milli ára, en við notuðum 25,4 milljónir gígabæta árið áður.
Til að setja þá notendabyltingu sem orðið hefur undanfarin áratug, með aukinni gagnamagnsnotkun í gegnum snjalltæki, í samhengi þá var notkunin 243 þúsund gígabæti árið 2009. Umfang þess gagnamagns sem Íslendingar nota í farsímanetum okkar hefur því 150 faldast á níu árum.
Internettengingum í gegnum fastlínu heldur líka áfram að fjölga ár frá ári. Þær voru 136.556 um síðustu áramót eða um þrjú þúsund fleiri en árið áður. Hlutdeild ljósleiðaratenginga heldur áfram að aukast og nú eru 53 prósent allra tenginga landsmanna slíkar. Í árslok 2017 voru þær 42,4 prósent.
Síminn er leiðandi á internettengingamarkaðnum með 46,6 prósent markaðshlutdeild sem er svipað og fyrirtækið hefur haft á undanförnum árum. Alls fjölgaði viðskiptavinum Símans þar um tæplega tvö þúsund á síðasta ári.
Nova keppti lengi vel ekki á þessum markaði. Á því varð breyting á árinu 2016 þegar að fyrirtækið tilkynnti að það ætlaði að hefja ljósleiðaraþjónustu. Frá þeim tíma hefur fjöldi viðskiptavina fyrirtækisins vaxið hratt. Í árslok 2016 var hann 1.947 en um síðustu áramót var hann kominn upp í 13.219. Markaðshlutdeildin fór sömuleiðis úr 1,5 prósent í 9,7 prósent.
Vodafone/Sýn tapaði hins vegar á fjórða þúsund internettengingarviðskiptavinum í fyrra. Markaðshlutdeild fyrirtækisins fór úr 37,1 prósent í 33,6 prósent. Samanlagt eiga Síminn og Vodafone/Sýn þó um 80 prósent af þessum markaði.
Það frávik er að finna á internetmarkaði, sem er ekki til staðar á öðrum slíkum innan fjarskiptageirans þessi misserin, að þar er fjórði aðilinn sem gerir sig gildandi. Sá heitir Hringdu. Það fyrirtæki var með 6.741 viðskiptavini í árslok 2015. Um síðustu áramót voru þeir orðnir 10.540 og markaðshlutdeildin 7,7 prósent.
Mismunandi gangur í fyrra
Öll þrjú stóru fjarskiptafyrirtækin voru rekin með hagnaði í fyrra.
Nova, sem er í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar og viðskiptafélaga hans, og bandaríska eignastýringafyrirtækisins Pt Capital Advisors, hagnaðist mest, eða um 1,2 milljarða króna. Það var aðeins minna en árið áður, þegar hagnaðurinn nam 1,5 milljörðum króna. Alls voru tekjur fyrirtækisins 9,9 milljarðar króna á árinu 2018.
Síminn er þó áfram það fjarskiptafyrirtæki sem er með mesta veltu, en tekjur hans voru 28,5 milljarðar króna á síðasta ári. Hagnaður á árinu 2018 nam 282 milljónum króna, sem var umtalsvert minna en 3,1 milljarða króna hagnaður ársins 2017. Ástæðan var þó ekki samdráttur í tekjum eða stóraukinn kostnaður, heldur gjaldfærsla á viðskiptavild hjá dótturfélaginu Mílu upp á nánast þrjá milljarða króna. Ef ekki hefði komið til hennar hefði hagnaður Símans aukist um tæpar 200 milljónir króna milli ára.
Rekstrartekjur Sýnar voru 22 milljarðar króna í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins var 473 milljónir króna sem var langt undir væntingum. Ekkert félag í Kauphöll Íslands lækkaði meira í virði en Sýn á síðasta ári, en virði bréfa þess fór niður um 38,3 prósent.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi