15. nóvember árið 2017 seldi Christie‘s uppboðshúsið í New York málverkið Salvator Mundi, Frelsari heimsins, sem, að sögn uppboðshússins, var málað af Leonardo da Vinci (1452 – 1519). Myndin, portrett af Jesú, hefur iðulega verið kölluð trúarleg útgáfa Monu Lisu, sem er eitt þekktasta málverk allra tíma. Höfundur þess, Ítalinn Leonardo da Vinci, er einn merkasti snillingur myndlistarsögunnar þrátt fyrir að til séu einungis um 20 verk (frummyndir) frá hans hendi. Salvator Mundi er reyndar eina verkið, eignað Leonardo da Vinci, sem er í einkaeigu.
Talið er að myndin Salvator Mundi hafi verið máluð í kringum árið 1500, líklega að beiðni Loðvíks XII Frakkakonungs, sem varð óvænt konungur árið 1498. Málverkið hefur síðan farið víða, meðal annars verið í eigu þriggja breskra konunga, en sú margra alda ferðasaga verður ekki rakin hér. Á uppboði í New Orleans árið 2005 var því slegið föstu að höfundur verksins væri Leonardo da Vinci. Þá hafði myndin verið hreinsuð „enda ekki vanþörf á“ eins og sérfræðingur í málverkaviðgerðum komst að orði. Árið 2011 var myndin á sýningu um Leonardo da Vinci og verk hans í breska listasafninu (National Gallery) í London. Tveimur árum síðar keypti Dmitrij Rybolevel, rússneskur auðmaður, verkið og hann seldi það svo á áðurnefndu uppboði árið 2017, fyrir þrefalda þá upphæð sem hann hafði greitt fyrir það fjórum árum fyrr, jafngildi 56 milljarða íslenskra króna.
Oft deilt um hver hafi málað Salvator Mundi
Sérfræðingar hafa löngum deilt um, og velt fyrir sér, hvort Salvator Mundi sé verk Leonardo da Vinci. Lengi vel var haldið að myndin sem seld var á uppboðinu 2017 væri eftirmynd þeirrar upphaflegu og hefði verið yfirmáluð og jafnvel breytt. Vitað er um að minnsta kosti tuttugu „eftirlíkingar“ og álitið að myndin sem eignuð er Leonardo da Vinci (sú sem seld var fyrir tveimur árum) hefði sennilega glatast um miðja átjándu öld. Þegar myndin dúkkaði á ný upp árið 1900 vissi enginn hver hefði málað hana.
Verkið er málað með olíu á tréplötu og 45,4 sentimetrar á breiddina og 65,6 sentimetrar á hæðina.
Hver keypti myndina árið 2017?
Iðulega hvílir leynd yfir kaupendum verðmætra listaverka. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Þannig var það með Salvator Mundi. Enginn vissi hver kaupandinn var og ekki heldur hvað varð um myndina. Fljótlega eftir uppboðið fóru þær sögur á kreik að kaupandinn væri líklega arabískur. Um það bil mánuði eftir að myndin var seld tilkynnti menningarmálaráðuneytið í Abu Dhabi að það hefði keypt myndina og hún yrði til sýnis á Louvre safninu þar í borg, Louvre Abu Dhabi eins og það heitir. Tilkynningin um fyrirhugaða sýningu á myndinni var síðan dregin til baka, án skýringa.
Hangir á vegg í snekkju krónprinsins
Fyrir nokkrum dögum, nánar tiltekið 10. júní, greindi vefritið Artnet News frá því að myndin Salvator Mundi héngi á vegg í snekkjunni Serene sem er í eigu krónprinsins Mohammed bin Salman. Blaðamaður Artnet News komst í samband við fólk sem hafði séð um kaupin á myndinni og flutning á henni frá New York og alla leið um borð í snekkjuna Serene. Snekkjan er mikið glæsifleyi, 134 metra langt og íburðurinn ólýsanlegur.
Forsvarsmenn Louvre safnsins í París sögðu í blaðaviðtali, eftir að fregnir bárust af Salvator Mundi um borð í snekkjunni, að þeir myndu setja sig í sambandi við krónprinsinn og falast eftir að fá myndina lánaða á Leonardo da Vinci sýningu sem opnuð verður í París í haust. Tilefnið er að liðin eru 500 ár síðan Leonardo da Vinci lést á sveitasetrinu Chateau du Clos í Amboise í Frakklandi en þar dvaldi hann síðustu ár ævi sinnar.