Hart var tekist á í vikunni í kappræðum frambjóðenda Demókrata um forsetaefni flokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2020. Deilur innbyrðis innan flokksins voru áberandi og enginn frambjóðandi virðist vera fullkominn mótherji gegn Donald Trump, sitjandi forseta.
Frambjóðendurnir voru afar beinskeyttir í gagnrýni sinni á hvor annan. Oft og tíðum bentu frambjóðendur á að þau ættu að einbeita sér að mikilvægasta málefninu, það er hvernig væri hægt að sigra Trump, fremur en að berjast innbyrðis.
Fyrra kvöldið: Sanders og Warren
Öll spjót beindust að Bernie Sanders og Elizabeth Warren í fyrri kappræðunum. Þau hafa mest fylgi þeirra sem tóku þátt í kappræðunum fyrri. Mótherjar þeirra þeirra sögðu þau lofa upp í ermina á sér með því að boða ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir Bandaríkjamenn.
Warren og Sanders náðu þó að komast hjá því að takast beint á við hvort annað, þrátt fyrir að vera séð sem helstu keppinautar hvors annars. Í staðinn lögðu þau bæði áherslu á að ná til ungs fólks og kjósenda sem ekki séu hvítir. Þau lögðu einnig áherslu á að frambjóðandi demókrata þyrfti að hafa skýra og róttæka sýn fyrir Bandaríkin.
Helsti gagnrýnandi Warren og Sanders var John Delaney sem sakaði tvíeykið um að hafa slæma stefnuskrá, lofi öllu fögru og notist við „ævintýra hagfræði“ sem myndi valda því að Trump yrði endurkosinn.
Seinna kvöldið: Biden og Harris
Joseph R. Biden, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, og Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður og fyrrum umdæmissaksóknari, tókust hart á. Í fyrsta hluta kappræðanna fyrr í sumar tókust þau harkalega á, sérstaklega um málefni minnihlutahópa. Því voru öll augu á þeim í seinni kappræðunum.
Biden og Harris gagnrýndu hvort annað á víxl fyrir stefnu sína í heilbrigðismálum. Aðrir frambjóðendur gagnrýndu einnig Biden. Biden var ásakaður af samherjum sínum að vera með of harða innflytjendastefnu, að vera ekki nógu hliðhollur kvenréttindum og að hann væri of gjarn á að bendla sig við Obama.
Julian Castro, fyrrum ráðherra húsnæðismála og borgarþróunar, sótti til að mynda hart að Biden vegna fyrri stefnu hans í innflytjendamálum. Hann var jafnframt gagnrýndur fyrir stefnu sína í íraksstríðinu, viðskiptum og loftslagsmálum.
Óvænta stjarna seinni kappræðanna var Cory Booker, öldungadeildarþingmaður. Booker sem er fimmtugur telst afar framsækinn innan Demókrataflokksins. Hann hefur lengi barist gegn hörðum refsingum fyrir fíkniefnabrot og önnur brot sem ekki eru ofbeldisbrot.
Booker gagnrýndi Biden, sérstaklega hvað varðar fyrrum refsistefnu hans í málefnum fíkniefnaneytenda. Jafnframt sagði hann fyrrum forsetann bendla sig við Obama eftir hentugleika en víkja undan þegar stefna fyrrum forsetans væri gagnrýnd. Hann sagði Biden ekki geta valið hvenær hann bendli sig við Obama og hvenær ekki.
Deilt um Trump
Á báðum kvöldum kappræðnanna var Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, eitt helsta umfjöllunarefni frambjóðenda og spyrla. Mikið var deilt um hvort framsækinn eða íhaldssamur frambjóðandi Demókrata gæti unnið sitjandi forseta í komandi kosningunum.
Jay Inslee, einn frambjóðendanna, sagði að ekki gætu Bandaríkin lengur við unað að hafa hvítan þjóðernissinna í Hvíta húsinu. Hann sagði jafnframt að Bandaríkin þyrftu að vera staður sem fólk gæti sótt sér skjól.
Pete Buttigieg, einn frambjóðendanna í fyrri kappræðunum, uppskar mikið lófaklapp við orð sín að sama hvort næsti frambjóðandi demókrata væri vinstrimaður eða íhaldssamur þá myndu Repúblíkanar halda uppi þeim áróðri að frambjóðandinn væri öfga-sósíalisti. Því væri eins gott að berjast fyrir almennri ókeypis heilbrigðisþjónustu.
Marianna Williamson, höfundur, spíritisti og einn frambjóðendanna, sótti hart að gagnrýnendum Warren og Sanders. Hún sagðist ekki skilja hvers vegna þau væru Demókratar þar sem þeim þyki rangt að nota verkfæri ríkisins til að hjálpa fólki. Williamson varaði einnig við „myrkum öflum“ sem Trump væri að vekja upp í Bandaríkjunum.
Very low ratings for the Democratic Debate last night — they’re desperate for Trump!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 31, 2019
Trump sigurvegarinn
Þrátt fyrir að frambjóðendur Demókrata voru óhræddir við að gagnrýna Trump var óeining á meðal frambjóðendanna sjálfra þó skýr. Allir frambjóðendur Demókrata voru afar beinskeyttir í gagnrýni sinni á samherja sína og gagnrýndu hvorn annan til að mynda vegna stefnu sinnar í heilbrigðismálum, málefnum innflytjenda og stefnu sinnar í dómsmálum.
Sumir frambjóðendanna bentu á að það að takast á innbyrðis myndi einungis styrkja stöðu Trump. Fjölmargir stuðningsmenn sitjandi forseta fögnuðu átökum Demókratanna ákaft auk þess sem þeir fögnuðu hversu mikið frambjóðendurnir gagnrýndu Obama, fyrrum forseta Bandaríkjanna.
Matt Schlapp, formaður Íhaldssambands Bandaríkjanna, American Conservative Union, og dyggur stuðningsmaður Trump, skrifaði til að mynda í færslu á Twitter að Obama hlyti að líða illa að sjá fyrrum vini sína ráðast gegn honum fyrir lélega heilbrigðisstefnu og rasíska innflytjendastefnu.
Forsetinn var ófeiminn að skrifa færslur á Twitter um kappræður Demókratanna. Hann sagði til að mynda í einni færslunni að Demókratarnir gætu ekki gert Ameríku frábæra á ný eða haldið Ameríku frábærri.
Hver getur sigrað Trump?
Í næstu kappræðum munu færri frambjóðendur stíga á stokk. Til þess að komast áfram í næstu umferð þurfa frambjóðendur að hafa náð að minnsta kosti tveggja prósenta stuðningi úr fjórum skoðanakönnunum, auk 130.000 stuðningsaðila. Sem stendur hefur Sanders hæsta fjölda stuðningsaðila, eða 746.000. Þar á eftir kemur Warren með 421.000 stuðningsaðila og Buttigieg með 390.000. Harris og Biden fylgja þar á eftir með 277.000 og 256.000 stuðningsaðila.
Sanders er sá frambjóðandi sem hefur safnað hæstu upphæð framlaga með 36 milljónir Bandaríkjadala. Buttigieg kemur þar á eftir með 32 milljónir, Warren með 25 milljónir, Harris með 24 milljónir og Biden 22 milljónir. Því virðist sem Sanders, Warren, Harris, Biden og Buttigieg muni fara áfram í næstu umferð.
Fjölmargar skoðanakannanir sýna að kjósendur Demókrata vilja frekar kjósa frambjóðanda sem getur sigrað Trump en frambjóðanda sem þau séu sammála. Því verður spennandi að sjá hverjum kjósendum Demókrata treysta til að keppa við sitjandi forseta.