WOW air gríman fallin
Skiptastjórar þrotabús WOW air telja að flugfélagið hafi í síðasta lagi verið ógjaldfært um mitt síðasta ár. Þrátt fyrir það réðist WOW air í skuldabréfaútgáfu sem byggði á upplýsingum um annað. Nú er unnið að því að rannsaka, greina og eftir atvikum rifta því sem átti sér stað innan WOW air á lokametrum tilveru flugfélagsins fjólubláa.
Þann 15. ágúst 2018 birti Kjarninn frétt um skuldabréfaútboð sem flugfélagið WOW air ætlaði sér að ráðast í. Fréttin byggði á fjárfestakynningu um fyrirliggjandi áætlun WOW air út úr þeim vanda sem félagið virtist hafa ratað í. Hlekkur á fjárfestingarkynninguna, sem hafði verið sett á opin netþjón á vegum verðbréfafyrirtækisins Pareto Securities í Stokkhólmi, sem hafði umsjón með skuldabréfaútgáfunni, fylgdi með fréttinni.
Í þessari kynningu komu fram nákvæmari upplýsingar um svarta fjárhagsstöðu WOW air en nokkru sinni höfðu verið birtar opinberlega, meðal annars að eiginfjárhlutfall félagsins hefði verið komið undir fimm prósent í júní 2018.
22 mínútum eftir að fréttin birtist barst blaðamanni Kjarnans póstur frá yfirmanni þeirrar deildar hjá Pareto sem sá um skuldabréfaútboðið. Í póstinum sagði að honum hefði verið gert viðvart um að Kjarninn væri að birta trúnaðarupplýsingar um WOW air. Þeim upplýsingum ætti að eyða samstundis til að koma í veg fyrir aðgerðir að hálfu Pareto.
Kröfunni var samstundis hafnað á grundvelli þess að um væri að ræða upplýsingar sem ættu sannarlega erindi við íslenskan almenning, meðal annars í ljósi þess að WOW air væri kerfislega mikilvægt fyrirtæki. Auk þess var bent á að Pareto hefði sjálft gert upplýsingarnar aðgengilegar á Internetinu og þar væri enn hægt að nálgast þær.
Yfirmaðurinn, rétt rúmlega þrítugur Svíi, svaraði því til að þar sem það væri tiltekið í skilmálum fjárfestakynningarinnar að hún væri trúnaðarmál þá væri ólöglegt að deila henni. Auk þess sagði hann að ef það væri skoðun ritstjórnar Kjarnans að WOW air væri kerfislega mikilvægt fyrirtæki, „af hverju eruð þið þá viljandi og ólöglega að reyna að skaða fyrirtækið?“
Þung staða fyrir útboð
Þessa daga, um miðjan ágúst 2018, var að birtast mynd af WOW air sem hafði ekki birst áður, en margir höfðu óttast að væri raunveruleikinn. Mynd af fyrirtæki á barmi þess að falla. Þrátt fyrir að Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, hefði ítrekað komið fram á þessum tíma með digurbarkalegar yfirlýsingar um að allt myndi vera í himnalagi, og að fram undan væru enn frekari landvinningar, þá var hljóðið í þeim sem kunna að lesa efnahagsreikninga og rekstrartölur þungt. WOW air var í gríðarlegum vanda og miklu meiri en áður hafði opinberast.
Leiðin út úr þeim vanda átti að vera skuldabréfaútboðið. Þar stóð til að selja skuldabréf fyrir að minnsta kosti 50 milljónir evra en helst fyrir 100 milljónir evra. Útboðið hafði verið lengi í undirbúningi þegar það varð skyndilega forsíðufrétt nær allra fjölmiðla á Íslandi.
Þegar leið á útboðið varð mjög tvísýnt um hvort að takast myndi að ná lágmarksupphæðinni eða ekki. Ef það hefði ekki tekist þá hefðu allir þeir sem höfðu skráð sig fyrir skuldabréfum í útboðinu verið óbundnir af sínu boði, og útboðið í raun fallið niður með þeim afleiðingum að engir peningar hefðu skilað sér til WOW air.
Það náðist þó á endanum að selja skuldabréf fyrir 50,15 milljónir evra og sigri hrósandi var það tilkynnt að WOW air væri fyrir vind, að minnsta kosti í bili. En það reyndist skammgóður vermir.
Í kjölfarið var reynt að selja WOW air til Icelandair (tvisvar) og Indigo Partners. Þau áform gengu ekki eftir. Íslenska ríkið taldi sig enn fremur ekki hafa neinar forsendur til að ganga inn í rekstur WOW air, þrátt fyrir mikinn þrýsting þar um.
Og að morgni 28. mars 2019 fór félagið í þrot.
Var ógjaldfært í síðasta lagi um mitt ár 2018
Síðastliðinn föstudag, 16. ágúst, héldu skiptastjórar þrotabús WOW air, Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson, fund með kröfuhöfum félagsins. Þá lá fyrir að kröfum upp á 151 milljarð króna hafði verið lýst í búið, þar af 138 milljarða króna kröfum sem teljast almennar. Eins og staðan er í dag er 1,1 milljarður króna á bankareikningum WOW air upp í þær kröfur. Það þýðir að 0,7 prósent er til upp í lýstar kröfur, sem þó á eftir að taka afstöðu til hvort að verði viðurkenndar eða ekki.
Í skýrslu skiptastjóranna er farið yfir hver raunveruleg staða mála var hjá WOW air þegar skellt var í lás með hvelli í lok mars. Þar er meðal annars opinberað að við gjaldþrot félagsins hafi verið um þrjár milljónir króna lausar til ráðstöfunar á bankareikningum WOW samstæðunnar. Til að setja þá tölu í samhengi má benda á að við gjaldþrot störfuðu alls 963 manns hjá WOW air. Lausafé samstæðunnar hefði ekki dugað til að greiða nema örfáum þeirra sem þar störfuðu laun í byrjun apríl 2019.
Þar er sú niðurstaða sett fram að WOW air hafi verið ógjaldfært í síðasta lagi um mitt ár 2018. Það þýðir, samkvæmt lögfræðiorðabók Lagastofnunar Háskóla Íslands, að skuldari, í þessu tilfelli WOW air, geti ekki greitt gjaldfallnar skuldir sínar en hefur samt sem áður ekki verið úrskurðaður gjaldþrota. Í skýrslu skiptastjóranna segir að þeir telji „óhjákvæmilegt að fram fari nánari greining á því hvenær WOW var sannarlega ógjaldfært.“
Skömmu eftir að skiptastjórar voru skipaðir yfir bú WOW air réðu þeir ráðgjafarfyrirtækið Deloitte til að vinna athugun á málefnum félagsins, fjármálum þess og ráðstöfunum fyrir þrot.
Deloitte skilaði af sér ítarlegri skýrslu í lok júní síðastliðins og helstu niðurstöður hennar voru kynntar á kröfuhafafundinum fyrir viku síðan. Eftir skil á skýrslunni tóku skiptastjórar skýrslur af öllum stjórnarmönnum lykilstjórnendum og endurskoðanda WOW air. Þær fóru fram á tímabilinu 5. til 30. júlí.
Vísbendingar um blekkingar
Slík athugun skiptir meðal annars máli fyrir þá þátttakendur í skuldabréfaútboði WOW air sem fram fór í ágúst og september 2018, sem telja sig hafa verið blekktir. Margt í skýrslu skiptastjóranna og athugun Deloitte bendir til þess að sú tilfinning þeirra sé ekki byggð á sandi.
Þar segir: „Skiptastjórar telja vera til staðar vísbendingar um að upplýsingar og gögn um fjárhagsleg málefni félagsins, rekstur og efnahag og áætlanir, sem fjárfestakynning skuldabréfaútboðsins byggði á, hafi verið ófullnægjandi og ekki gefið raunsanna mynd af rekstri og efnahag WOW á þessum tíma, aukinheldur sem áætlanir hafi ekki verið raunhæfar.“
Það er niðurstaða skiptastjóranna að þátttakendur í skuldabréfaútboðinu hafi verið blekktir. Þar er meðal annars vísað í að eigið fé WOW air hefði með réttu átt að vera neikvætt um mitt ár 2018 þegar farið var af stað með útboðið. Í efnahagsreikningi sem birtur var í fjárfestakynningunni var því hins vegar haldið fram að eigið fé væri jákvætt. Þ.e. að WOW air ætti meiri eignir en skuldir.
Hlutur Arion banka
Skuldabréfaútboðinu lauk 17. september 2018. Daganna fyrir leit ekki út fyrir að Skúla og WOW air tækist að safna lágmarksupphæðinni, 50 milljónum evra, sem nauðsynlegt var að safna til að gera þá sem þó höfðu skráð sig fyrir bréfum bundna af þeirri skráningu. Á endanum skreið heildarupphæðin yfir þá tölu, og endaði í 50,15 milljónum evra.
Þar skipti aðkoma Arion banka, sem átti mikið undir sem lánveitandi WOW air, miklu máli.
Í skýrslunni segir að skömmu áður en að skuldabréfaútboðinu lauk hafi verið gert samkomulag milli WOW air og Arion banka um þátttöku bankans í útboðinu. Í samkomulaginu sagði: „WOW leitaði til bankans og hefur óskað eftir því að bankinn taki þátt í skuldabréfaútboðinu fyrir því sem upp á vantar til að WOW nái fyrrgreindri lágmarksfjárhæð útboðsins.“ Tilgangur samkomulagsins hafi verið að aðstoða WOW air í greiðsluörðugleikum og í því samþykkti Arion banki að skrá sig fyrir 4,3 milljónum evra, um 560 milljónir króna á þeim tíma, gegn því að WOW air myndi greiða yfirdráttarskuld sína hjá bankanum upp „án tafar eftir að félagið fengi andvirði fyrrgreinds skuldabréfaútboðs til sín. Þá skyldi fella niður yfirdráttarheimildina í kjölfarið,“ segir í skýrslunni. Sú yfirdráttarskuld var upp á fimm milljónir dali, sem er nánast sama upphæð og Arion banki greiddi fyrir skuldabréf í útboðinu, eða tæplega 560 milljónir króna. Með þessu dró Arion banki úr tapi sínu á WOW air. Ef yfirdráttarheimildin væri enn ógreidd þá væri hún einfaldlega almenn krafa í bú WOW air og fengist ekki greidd. Í staðinn á bankinn kröfur vegna skuldabréfanna.
Til viðbótar við uppgreiðslu yfirdráttarins fékk Arion banki, í kjölfar útboðsins, greidda þóknun vegna afléttingar á lánaskilmálum upp á 11,2 milljónir króna.
Kröfuhafar WOW air sem Kjarninn hefur rætt við segjast ekki hafa haft neinar upplýsingar um hvers eðlis aðkoma Arion banka var að skuldabréfaútboðinu í aðdraganda þess og fram að falli flugfélagsins. Þeir tortryggja einnig að þáverandi framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Títan, Ólafur Hrafn Höskuldsson, sem hélt utan um eign Skúla Mogensen í WOW air, sé sonur þáverandi bankastjóra Arion banka, Höskuldar Ólafssonar, sem hætti störfum í apríl 2019, og telja að þar hafi skapast hagsmunaárekstrar. Þeim áhyggjum hefur verið komið á framfæri við skiptastjóra þrotabúsins. Ólafur Hrafn starfar nú hjá Arion banka.
Sumir fengu greitt strax
Deloitte vakti athygli á því í athugun sinni að það hafi ekki einungis verið Arion banki sem tók þátt í útboðinu, og fékk síðan uppgreiddar aðrar skuldir strax að því loknu.
Samtals hafi 20,3 milljónir dalir, tæplega 2,3 milljarðar króna, af þeim rúmlega 50 milljónum evra, um 6,5 milljörðum króna, sem söfnuðust farið í slík verk. Flugvélaleigan Air Lease Corporation (ALC) hafi fengið tvær kröfur, aðra gjaldfallna og hina í ágreiningi, greiddar samtals upp á 10,4 milljónir dala, eða tæplega 1,2 milljarð króna. Írska fjármögnunarfyrirtækið Avolon fékk samtals grett tæplega fimm milljónir dala, tæplega 560 milljónir króna.
Skiptastjórar þrotabús WOW air eru með það til skoðunar hvort að tilefni sé til að rifta greiðslum til ofangreindra þátttakenda í útboðinu. Þ.e. Arion banka, ALC og Avolon. „Þá eru ýmis önnur atriði til skoðunar hjá skiptastjórum er tengjast fyrrgreindu skuldabréfaútboði,“ segir í skýrslunni.
Þar er einnig greint frá því að í skilmálum skuldabréfaútboðsins sé tilgreint hvernig hafi átt að ráðstafa þeim fjármunum sem söfnuðust í því. Hluti,7.5 milljónir evra, átti að fara á sérstakan vaxtareikning til að standa straum að vaxtagreiðslum af skuldabréfunum og afgangurinn inn á rekstrarreikning WOW air, að frádreginni þóknun Pareto. Þegar kom að fyrsta vaxtagreiðsludegi, sem var á aðfangadag 2018, voru ekki til staðar fjármunir á vaxtareikningnum til að greiða vextina, enda hafði WOW air þá nýtt það fé í annað.
Vilja rifta greiðslu til Skúla
Á grundvelli athugunar Deloitte hefur þrotabúið þegar ráðist í ýmsar aðgerðir, og mun ráðast í fleiri. Flestar snúast þær um samninga og greiðslur sem áttu sér stað milli Skúla Mogensen og félags hans Títan, sem var eigandi WOW air fyrir þrot, og WOW air.
Þegar hefur verið höfðað riftunarmál vegna greiðslu á tæplega 108 milljón króna frá WOW air til Títan, félags Skúla Mogensen, sjö vikum fyrir gjaldþrot flugfélagsins. Það var gert 24. júlí síðastliðinn. Greiðslan byggði á því að sumarið 2018, þegar staða WOW air var orðin mjög þröng, keypti WOW air 60 prósent í félaginu Cargo Express af Títan á 2,1 milljarð króna. Kaupverðið var greitt að langmestu leyti með nýju hlutafé í WOW air sem bókfærðist þannig sem hlutafjáraukning, þrátt fyrir að ekkert nýtt hlutafé hafi komið inn í rekstur WOW air við hana. Skiptastjórar eru með það til athugunar hvort að þetta hlutafé í Cargo Express hafi verið tekið yfir á of háu verði og „því hafi ekki verið greitt að fullu fyrir hlutafé í WOW. Þessi viðskipti tengdra aðila sæta nánari skoðun skiptastjóra.“
Þá áttu 150 milljónir króna að greiðast frá WOW air til Títan í reiðufé 30. apríl 2019 vegna sölunnar. Sú greiðsla átti að vera háð því að Cargo Express myndi greiða arð til WOW air vegna ársins 2018 sem næmi að minnsta kosti sömu upphæð. Í skýrslu skiptastjóra segir að í samningunum hafi komið skýrt fram að ef arðgreiðslan yrði hærri en 150 milljónir króna myndi WOW air halda þeirri viðbótargreiðslu. Ef arðgreiðslan yrði hins vegar lægri en sú upphæð „skyldi mismuninum umbreytt í hlutabréf í kaupanda handa seljanda.“
Þann 6. febrúar 2019 fékk WOW air greiddan 107,6 milljónir króna í arð frá Cargo Express. Sama dag og arðgreiðslan barst greiddi WOW air sömu upphæð til Títan. Sú greiðsla fór fram tæplega þremur mánuðum fyrir umsaminn gjalddaga og sjö vikum fyrir gjaldþrot WOW air. Í skýrslu skiptastjóra segir: „Á þeim tíma var WOW í miklum fjárhagserfiðleikum. Greiðslan var innt af hendi fyrir gjalddaga og fyrr en eðlilegt var. Þá skerti greiðslan greiðslugetu WOW og er það mat skiptastjóra að greiðslan hafi verið óvenjuleg eftir atvikum.“ Því hefur þrotabúið höfðað riftunarmál og vill endurheimta greiðsluna.
Greiðsla ábyrgðargjald
Annað mál sem Deloitte vakti sérstaka athygli á eftir athugun sína var í tengslum við flugvélarnar TF-MOM, TF-DAD, TF-KID og TF-SON. Þær voru allar seldar til Air Canada um síðustu áramót.
Vélarnar voru upphaflega leigðar af tveimur félögum, Moonsun Leasing og Hawk Bay. Títan, félag Skúla Mogensen sem fór með eignarhald WOW air, gerði samninga við þessa tvo aðila um gagnkvæman sölu- og kauprétt á vélunum. Títan greiddi ekkert fyrir þann kauprétt. Í skýrslu skiptastjóranna segir hins vegar að Títan hafi gert samning við WOW air um að greiða sér alls 12 milljónir dali fyrir kaupréttina. Í dag nemur sú upphæð um 1,3 milljarði króna. Auk þess greiddi WOW air mánaðarlegt ábyrgðargjald til Títan vegna leigu á vélunum.
Hluta af þeim kröfum sem urðu til vegna þessa samnings voru nýttar til að greiða fyrir aukið hlutafé í WOW air. Niðurstaða Deloitte var að erfitt hafi verið að „greina viðskiptalegar forsendur að baki svo hárri þóknun er WOW bar að greiða Títan fyrir kauprétti að flugvélum.“
Undir það tóku skiptastjórar WOW air í skýrslunni og þar kemur fram að málið sé til áframhaldandi skoðunar.
Skúli hefur sagt að það sé ekki rétt að hann hafi fengið milljarða greiðslur út úr WOW air vegna sölu Títan á kaupréttunum, sem félagið hafi fengið frítt, til WOW air. „Hið rétta er að Títan fékk umræddan kauprétt gegn því að ábyrgjast allar greiðslur WOW air í tíu ár upp á tugi milljarða vegna umræddra kaupa. Þetta var skilyrði af hálfu flugvéla leigandans. Það skal líka tekið fram að Títan fékk ekki umræddan milljarð í reiðufé heldur að mestu leyti í formi fleiri hlutabréfa í WOW air. WOW air seldi umræddar flugvélar til Air Canada gegn greiðslu í reiðufé og því augljóslega rangt að tala um að engin verðmæti hafi skapast eða átt sér stað,“ sagði Skúli í yfirlýsingu sem hann sendi síðastliðinn mánudag.
Skúli sver af sér óheilindi
Þar segir Skúli einnig að heildartap sitt og félaga í hans eigu vegna falls WOW air sé hátt í átta milljarðar króna. Það sé eðlilegt að rýna í og læra af vexti og falli WOW air. „Það er hins vegar mjög auðvelt að vera vitur eftir á og sorglegt að sjá hvernig sumir keppast við gera viðskipti WOW air tortryggileg. Það er fráleitt að halda því fram að ég og mitt fólk höfum ekki unnið að heilindum í einu og öllu við uppbyggingu og síðan við það að reyna að bjarga félaginu frá falli.“
Það er skoðun sem skiptastjórnar WOW air og hluti kröfuhafa félagsins deila ekki með stofnanda flugfélagsins.
Lestu meira:
-
16. apríl 2021Hefði átt að afturkalla flugrekstrarleyfi WOW air í maí 2018
-
15. apríl 2021Sigurður Ingi ekki ánægður með leka á WOW-skýrslu Ríkisendurskoðunar
-
27. desember 2019Árið 2019: Þegar WOW air fór á hausinn
-
6. september 2019WOW air aftur í loftið í október
-
6. september 2019Bandarískt fyrirtæki kaupir eignir af þrotabúi WOW air
-
24. ágúst 2019Leiga á íbúð sögð greiðsla á persónulegum kostnaði Skúla
-
24. ágúst 2019Vonast enn til að selja vörumerkið WOW air
-
23. ágúst 2019Seldu losunarheimildir til að borga laun fyrir marsmánuð
-
23. ágúst 2019WOW air gríman fallin
-
19. ágúst 2019Skúli segist ekki hafa fengið milljarða greiðslur út úr WOW air