Boris Johnsson hefur verið forsætisráðherra frá því 23. júlí síðastliðinn en á þessum stutta tíma hefur hann gengið í gegnum margt. Hann missti meirihlutann á þinginu á þriðjudaginn síðastliðinn og neðri málstofa þingsins samþykkti í gær að hann þyrfti að sækja um frestun á útgöngunni til 31. janúar næstkomandi, en það var ekki samkvæmt óskum hans.
Johnson sagði í dag að hann vildi heldur vera „dauður úti í skurði“ en að fresta Brexit frekar. Hann telur frestun algjörlega tilgangslausa. Hann lagði til í gærkvöld að boðað yrði til þingkosninga þann 15. október næstkomandi áður en Bretar eiga að ganga úr Evrópusambandinu. Þingið hafnaði tillögunni.
Reynir aftur eftir helgi
Forsætisráðherrann ætlar að reyna aftur á mánudag að fá þingið til að samþykkja tillögu um þingkosningar í október. Neðri málstofa breska þingsins samþykkti í gær að hafi samningar um útgönguna ekki náðst fyrir 18. október, beri forsætisráðherranum að fara til Brussel og semja um seinkun á útgöngunni til 31. janúar næstkomandi. Þannig vildu þingmenn tryggja að ekki verði gengið úr ESB án samnings.
Verkamannaflokkurinn hefur ekki viljað samþykkja þingkosningar, þar sem þingmenn flokksins óttast að þeim verði seinkað fram yfir útgöngudaginn, sem áætlaður er 31. október og að Bretland gangi þá úr ESB án samnings.
Afstaða Johnson hefur verið skýr. Hann hefur sagt að náist ekki samningar fyrir 31. október sé best að ganga úr sambandinu án samnings. Hann gagnrýndi Corbyn harðlega í gær fyrir að styðja ekki tillögu um þingkosningar og sagði að ef hann yrði forsætisráðherra myndi hann grátbiðja leiðtoga ESB um frestun og að líklega yrði útgöngunni frestað um mörg ár undir hans stjórn.
Fleiri pólitískar ófarir hafa þó dunið yfir. Phillip Lee, þingmaður Íhaldsflokksins, gekk í fyrradag til liðs við Frjálslynda demókrata í stjórnarandstöðunni. Það hafði þær afleiðingar að Johnson hafði ekki lengur meirihluta á breska þinginu. Lee sagði í yfirlýsingu að hann teldi leiðina sem ríkisstjórn Johnson hefði valið í Brexit vera skaðlega.
Ekki allir á eitt sáttir í Verkamannaflokknum
John McDonnell, einn af forystumönnum stjórnarandstöðunnar, sagði að Verkamannaflokkurinn vildi kosningar en að forgangsmál þeirra væri að koma í veg fyrir útgöngu úr ESB án samnings.
Hann gekkst jafnframt við því að innan flokksins væru ekki allir á eitt sáttir um æskilega tímasetningu þingkosninga og bætti því við að forystan væri að ráðfæra sig við lögfróða einstaklinga og stjórnarandstöðuflokka varðandi hvað væri best að gera. Í þættinum BBC Breakfast sagði McDonnell að honum þætti betra að halda kosningar „fyrr en síðar.“
Corbyn tjáði sig á Twitter í gær og sagði að þegar Brexit án samnings væri út af borðinu í eitt skipti fyrir öll þá ætti þingið að leita umboðs fólksins svo hægt væri að ákveða framtíð landsins.
When No Deal is off the table, once and for all, we should go back to the people in a public vote or a General Election to decide our country’s future. pic.twitter.com/lT6wuJxikJ
— Jeremy Corbyn (@jeremycorbyn) September 4, 2019
Bróðir Borisar hættir
Töluvert var fjallað um bróðir forsætisráðherrans í breskum fjölmiðlum í dag en Jo Johnson tilkynnti í morgun að hann segði af sér sem ráðherra og þingmaður Íhaldsflokksins.
Frá þessu greindi hann á Twitter-síðu sinni en þar sagði hann að þjóðarhagsmunir og persónulegir hagsmunir hefðu skarast.
Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Jo Johnson hættir í ríkisstjórn vegna Brexit en hann sagði af sér sem samgönguráðherra í ríkisstjórn Theresu May í nóvember síðastliðnum því hann studdi ekki útgöngusamning hennar.
Í þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu árið 2016 greiddi Johnson atkvæði með áframhaldandi veru Bretlands í ESB en hann er töluvert hallari undir Evrópusambandið en bróðir sinn.
It’s been an honour to represent Orpington for 9 years & to serve as a minister under three PMs. In recent weeks I’ve been torn between family loyalty and the national interest - it’s an unresolvable tension & time for others to take on my roles as MP & Minister. #overandout
— Jo Johnson (@JoJohnsonUK) September 5, 2019
Dóttursonur Churchills rekinn úr flokknum
Þingmenn breska Íhaldsflokksins greiddu síðan í fyrrakvöld atkvæði gegn Johnson í þinginu til að stöðva útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings en tillagan sem breska þingið samþykkti með 27 atkvæða mun gaf þverpólitískum hópi þingmanna dagskrárvald í þinginu. Alls greiddi 21 þingmaður Íhaldsflokksins atkvæði með tillögunni þrátt fyrir að Johnson hefði hótað þeim brottrekstri úr þingflokknum. Atkvæðagreiðslan var sú fyrsta í þinginu eftir að Johnson tók við embætti.
Einn af þeim sem var rekinn úr Íhaldsflokknum í fyrradag var Nicholas Soames, afabarn Winston Churchills sem var forsætisráðherra í seinni heimsstyrjöld og aftur nokkrum árum síðar.
Sitt sýnist hverjum
Þegar fjölmiðlar eru skoðaðir í Bretlandi þá má glögglega sjá mismunandi áherslur í umfjöllun þeirra. Sumir miðlar kalla Corby kjúkling fyrir að „þora ekki“ í kosningar og aðrir telja Johnson vera búinn að mála sig út í horn með framferði sínu og aðgerðum.
En hvað sem því líður má búast við áframhaldandi sviptingum í breskum stjórnmálum á meðan stjórnmálafólk finnur út úr því hvernig það ætlar að leysa úr flækjum tengdum Brexit.