Stóru sjávarútvegsrisarnir verða stærri
Óhætt er að segja að það hafi gengið á ýmsu hjá Brimi, áður HB Granda, undanfarin misseri. Lífeyrissjóðurinn Gildi seldi hlutabréf sín, meðal annars vegna óánægju með stjórnarhætti í félaginu. Þá kom FISK Seafood, útgerðararmur Kaupfélags Skagfirðinga, inn í hluthafahópinn en var svo farinn úr honum þremur vikum síðar. Guðmundur Kristjánsson forstjóri hefur ekki hikað við stór viðskipti við eigið fyrirtæki og notið stuðnings hluthafa til að gera það. Hinir stóru eru að verða stærri í íslenskum sjávarútvegi.
Markaðsvirði Brims, áður HB Granda, hefur hækkað umtalsvert undanfarin misseri. Á einu ári hefur það hækkað um tæplega 25 prósent en sé horft til þessa árs eingöngu nemur hækkunin rúmlega 17 prósent. Fyrirtækið er nú tæplega 70 milljarða króna virði.
Brim gerir upp í evrum og hefur veiking krónunnar gagnvart evru á undanförnu ári, sem nemur tæplega átta prósentum, því komið sér nokkuð vel fyrir fyrirtækið.
Fjárhagsstaða þess er sterk og má segja að það sé einskonar flaggskip sjávarútvegsins í Reykjavík. Heildareignir fyrirtækisins námu 650 milljónum evra, eða sem nemur 91 milljarði króna, í lok 2. ársfjórðungs. Hagnaður á fyrri helmingi ársins var 1,5 milljarður króna, en eigið fé fyrirtækisins um mitt ár var rúmlega 38 milljarðar.
Hagnaðurinn í fyrra var rúmlega fjórir milljarðar en Guðmundur Kristjánsson, forstjóri og stærsti eigandi, var ekki ánægður með þá niðurstöðu. „Hagnaður fyrirtækisins hefur verið að minnka á síðustu árum vegna styrkingar íslenskrar krónu og hærri veiðigjalda. Á seinni hluta ársins 2018 veiktist íslenska krónan og það styrkir útflutningsfyrirtæki. Árið 1992 fjárfesti HB Grandi í sjávarútvegsfyrirtæki í Síle. Þetta fyrirtæki seldi laxeldisfyrirtæki sitt á síðasta ári og fékk HB Grandi töluverðan hagnað af þeirri sölu og skýrir það að hluta góða afkomu á síðasta ársfjórðungi 2018,“ sagði Guðmundur í tilkynningu vegna afkomunnar.Guðmundur er langsamlega stærsti hluthafinn í gegnum Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem áður hét Brim. Eignarhlutur hans er nú kominn yfir 48 prósent og mun fara yfir 50 prósent eftir hlutafjáraukningu, í tengslum við kaup Brims á nokkrum sölufélögum í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur fyrir 4,4 milljarða króna. Greiðslan fer fram með hlutafé í Brimi, og því eykst eignarhlutur hans umtalsvert. Til framtíðar er þó vilji til þess að fara ekki yfir 50 prósent eignarhlut, segir í tilkynningu til Kauphallar.
Bændur í Skagafirði
Kaupfélag Skagfirðinga er risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og FISK Seafood, útgerðararmur þess, hefur látið verulega til sín taka í íslensku atvinnulífi að undanförnu. Fjárhagsstaða kaupfélagsins er með nokkrum ólíkindum, sé horft til þess að um hefðbundið kaupfélag er að ræða með dreifðri eignaraðild bænda í Skagafirði sem bakbein. Þórólfur Gíslason, kaupfélagsstjóri, hefur leitt félagið um árabil sem forstjóri og var afkoma félagsins á árinu 2018 sú besta í 130 ára sögu félagsins. Uppbygging kaupfélagsins hefur verið verulega umfangsmikil á undanförnum árum, en í lok árs í fyrra var eigið fé félagsins rúmlega 35 milljarðar og heildareignir námu 62,3 milljörðum króna.
Hagnaður af rekstri samstæðunnar á árinu 2018, fyrir afskriftir og fjármagnsliði, var rúmlega fimm milljarðar króna samanborið við 2,3 milljarða árið 2017.
Það sem helst skýrir þennan mun er söluhagnaður þar sem FISK Seafood, eitt 14 dótturfélaga Kaupfélagsins, seldi 50 prósent eignarhlut sinn í Olís og eignarhlut sinn í félaginu Solo Seafood í fyrra. Hagar hf. keyptu hlutinn í Olís, en helmingur var greiddur með reiðufé og helmingur með hlutabréfum í Högum. Kaupfélaginu bar að selja þau bréf innan 30 mánaða frá því viðskiptin tóku gildi.
Fléttur og kaup á eignum af stærsta eigandanum
Hinn 18. ágúst síðastliðinn var frá því greint að FISK Seafood hefði gert skipti á hlutabréfum við Gildi lífeyrissjóð. FISK eignaðist hlutabréf Gildis í Brimi og Gildi eignaðist meðal annars hlutabréf í Högum í staðinn.
Þarna fóru saman annars vegar hagsmunir FISK, vegna fyrrgreindra kvaða um að félagið seldi hlutabréf sín í Högum, og síðan áhugi Gildis á því að fara út úr hluthafahópi Brims.
Ástæðan fyrir því var sú að Gildi hafði haft áhyggjur af stjórnarháttum í Brimi um nokkurt skeið, eða allt frá því að Guðmundur Kristjánsson kom inn í hluthafahópinn, í gegnum Útgerðarfélag Reykjavíkur, og varð forstjóri.
Það sem helst truflaði Gildi voru viðskipti við Útgerðarfélag Reykjavíkur, þar sem Brim var að kaupa eignir af félaginu þar sem Guðmundur, forstjóri Brims, var helsti eigandi. Fyrst voru það viðskipti með Ögurvík og síðan viðskipti þar sem Brim keypti sölufélög af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem þjónustu Asíumarkað, fyrir 4,4 milljarða króna. Samanlagt hefur Brim keypt eignir af Útgerðarfélagi Reykjavíkur fyrir 16,7 milljarða króna frá því að Guðmundur Kristjánsson varð forstjóri félagsins og stærsti eigandi.
Greinandi Capacent sagði um kaupin á Ögurvík á sínum tíma að honum hafi liðið „eins á laugardagsmorgni eftir kvöld á Kaffibarnum“ þegar rýnt væri í forsendur þess kaupverðs sem var á Ögurvík. „Svarið við alheiminum og tilgangi lífsins er 42,“ sagði meðal annars í greiningu hans, og vitnað til þess að hægt væri að fá út hin ýmsu verð á Ögurvík. Töluna 42 í samhengi við svarið við spurningunni um tilgang lífsins, má rekja til bókarinnar The Hitchhiker's Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams.
Fljótt út aftur með miklum hagnaði
Í tilkynningu Gildis, í aðdraganda hluthafafundar 13. ágúst, þar sem viðskiptin með sölufélögin voru til umfjöllunar, sagði að það væri mat Gildis að þessar fyrirætlanir væru ekki trúverðugar. „Viðskiptin virðast eiga sér afar skamman aðdraganda hjá stjórn félagsins. Að mati Gildis eru þessar fyrirætlanir ekki trúverðugar og ekki hefur verið sýnt fram á að aðrar leiðir séu ekki færar til þess að ná fram sömu markmiðum, mögulega með minni tilkostnaði. Viðskipti milli tengdra aðila verða að vera hafin yfir vafa og að mati sjóðsins hefur ekki tekist að sýna fram á að þessi viðskipti séu hagfelld og nauðsynleg fyrir HB Granda (Nú Brim),” sagði í yfirlýsingu Gildis.
Kaupin á Ögurvík drógu dilk á eftir sér
Hinn 10. júlí 2019 gerðu Fjármálaeftirlitið og Brim hf. (áður HB Grandi hf.), með sér samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brots á lögum um verðbréfaviðskipti.
Fólst í sáttinni að Brim þurfti að greiða 8,2 milljónir króna í sekt, og viðurkenndi fyrirtækið að hafa brotið gegn lögum verðbréfaviðskipti, með því að hafa ekki birt innherjaupplýsingar eins fljótt og auðið var. Í tilkynningu vegna sáttarinnar eru málsatvik rakin, en málið tengist því hvernig upplýst var um samning um kaup Brims, þá HB Granda, á öllu hlutafé Ögurvíkur. Guðmundur Kristjánsson er forstjóri Brims, og stærsti eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem seldi Ögurvík til Brims. Hinn 7. september 2018, klukkan 16:18:43, birti Brim opinberlega tilkynningu þess efnis að það hefði gert samning um kaup á öllu hlutafé útgerðarfélagsins Ögurvík ehf. Nokkrum dögum áður, nánar tiltekið 29. ágúst 2018, hafði forstjóra málsaðila, Guðmundi,verið falið af stjórn hans að hefja samningaviðræður um kaupin. „Á þeim tímapunkti, að teknu tilliti til heildarmats á þeim upplýsingum sem lágu til grundvallar á þeim tíma og þeirrar tilteknu stöðu sem upp var komin, uppfylltu upplýsingarnar hugtaksskilyrði[..]um innherjaupplýsingar. Málsaðili birti ekki innherjaupplýsingarnar, né tók ákvörðun um frestun birtingar þeirra, fyrr en 7. september 2018.“ Í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins kemur fram að að Brim hefði óskað eftir því að ljúka málinu með sátt. Þar sagði að r tilgangur þeirra reglna, sem brotið var gegn, sé að stuðla að trausti til markaðarins „með því að tryggja að fjárfestum sé ekki mismunað og að þeim sé tryggður jafn aðgangur að upplýsingum.“ Sektarfjárhæðin tók ennfremur mið af tímalengd brotsins en með greiðslu sektarfjárhæðar er málinu lokið.Það sem helst truflaði Gildi voru viðskipti við Útgerðarfélag Reykjavíkur, þar sem Brim var að kaupa eignir af félaginu þar sem Guðmundur, forstjóri Brims, var helsti eigandi. Fyrst voru það viðskipti með Ögurvík og síðan viðskipti þar sem Brim keypti sölufélög af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem þjónustu Asíumarkað, fyrir 4,4 milljarða króna. Samanlagt hefur Brim keypt eignir af Útgerðarfélagi Reykjavíkur fyrir 16,7 milljarða króna frá því að Guðmundur Kristjánsson varð forstjóri félagsins og stærsti eigandi.
Greinandi Capacent sagði um kaupin á Ögurvík á sínum tíma að honum hafi liðið „eins á laugardagsmorgni eftir kvöld á Kaffibarnum“ þegar rýnt væri í forsendur þess kaupverðs sem var á Ögurvík. „Svarið við alheiminum og tilgangi lífsins er 42,“ sagði meðal annars í greiningu hans, og vitnað til þess að hægt væri að fá út hin ýmsu verð á Ögurvík. Töluna 42 í samhengi við svarið við spurningunni um tilgang lífsins, má rekja til bókarinnar The Hitchhiker's Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams.
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill forstjóra Gildis lífeyrissjóðs, sagði við Kjarnann að jafn umfangsmikil og ítrekuð viðskipti stærsta hluthafa HB Granda/Brim við félagið sjálft væru ekki bara óheppileg heldur „fordæmalaus á innlendum hlutabréfamarkaði.“
Viðskiptin voru hins vegar samþykkt af fulltrúum tæplega 90 prósent hluthafa. Þar á meðal hinum stóru lífeyrissjóðunum sem eiga stóra hluti í félaginu, Lífeyrissjóði verzlunarmanna, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Birtu lífeyrissjóði.
Gildi greip því til þess að losa um eignarhlut sinn í félaginu og skipta á bréfum við FISK í Högum. Þannig varð FISK að einum stærsta eiganda félagsins, sem breytti nafni sínu úr HB Granda í Brim á sama hluthafafundi.
FISK hefur stækkað sjávarútvegsveldi sitt mikið á undanförnum tveimur árum. Félagið keypti þriðjungseignarhlut Útgerðarfélags Reykjavíkur í Vinnslustöðinni fyrir 9,4 milljarða króna í september í fyrra, og árið 2017 keypti félagið Soffanías Cecilsson hf., rótgróið sjávarútvegsfyrirtæki í Grundarfirði, fyrir 9,5 milljarða króna. Félagið hefur því stækkað ört og víkkað út aflaheimildir sínar og vinnslumöguleika, á síðustu misserum.
FISK var hins vegar ekki lengi hluthafi í Brimi. Hinn 9. september var tilkynnt um kaup Útgerðarfélags Reykjavíkur á hlut FISK í Brimi, sem var um tíu prósent af heildarhlutafé. Kaupverðið var á genginu 40,4 og nam um átta milljörðum króna. FISK hafði eignast bréfin á genginu 36, um þremur vikum fyrr, og því var hagnaðurinn umtalsverður af þessum viðskiptum, eða tæplega milljarður. Ekki amalegt það, fyrir bændur í Skagafirði.
Frekari hagræðing í kortunum
Þessar umtalsverðu breytingar á eignarhaldi hjá Brimi og fleiri sjávarútvegsfyrirtækjum, sýna að mikil hagræðing og samþjöppun er að eiga sér stað í greininni. Þar eru hinir stóru að verða stærri, og sífellt verið að leita leiða til þess að hagræða í allri virðiskeðjunni hjá félögunum, í veiðum, vinnslu og sölustarfsemi. Það sem hefur gerst hjá Brimi er ekki óvænt, þegar horft er til þessarar þróunar. Það er hins vegar eina skráð sjávarútvegsfyrirtækið í landinu og því eðlilegt að það valdi titringi hjá einhverjum í hlutahafahópnum, þegar félag forstjóra fyrirtækisins er að selja því eignir fyrir milljarða.
Líklegt er að umræða um hámarks eign í kvóta verði háværari á næstunni, og þá hvort stærstu útgerðarfyrirtækin eru komin upp fyrir hámarkið eða í það minnsta nærri því. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12 prósent af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12 prósent. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20 prósent og í karfa ekki yfir 35 prósent.
Lestu meira:
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
7. janúar 2023Dreifing Fréttablaðsins fer úr 80 þúsund í 45 þúsund eintök á dag eftir breytingarnar
-
7. janúar 2023Tæknispá 2023: Tími gervigreindar er kominn og samfélagsmiðlar verða persónulegri
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
4. janúar 2023Hálfgerð Eurovision-stigagjöf hjá matsnefnd Hörpu sögð óhefðbundin
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
1. janúar 2023Þrennt sem eykur forskot Íslands
-
30. desember 2022Verslun í alþjóðlegu umhverfi