123RF

Aukið flæði bankaupplýsinga það sem koma skal

Með nýrri Evróputilskipun gefst fólki tækifæri til að velja að deila fjármálagögnum sínum með fyrirtækjum sem hyggjast bjóða þeim upp á fjármálatengda þjónustu. Samkvæmt Persónuvernd er mikilvægt að fyrirtæki útskýri vel skilmála fyrir viðskiptavinum sínum en tilgangur hennar er jafnframt að fræða almenning um þær hættur sem eru fyrir hendi. En hvað ber að varast?

Þessa dag­ana er verið að færa nýja til­skipun Evr­ópu­sam­bands­ins um greiðslu­miðlun í lög um alla Evr­ópu – þar á meðal á Íslandi – þó nokkuð sé enn í að hún taki gildi hér á landi. Þessi til­skip­un, sem í dag­legu tali er kölluð PSD2, kveður meðal ann­ars á um rétt­indi fólks til að velja að deila fjár­mála­gögnum sínum með fyr­ir­tækjum sem hyggj­ast bjóða þeim upp á fjár­mála­tengda þjón­ust­u. 

Meniga kynnti í byrjun þessa mán­aðar fyrstu lausn sinnar teg­undar á Íslandi sem gerir bönkum og fjár­tækni­fyr­ir­tækjum kleift að bjóða við­skipta­vinum sínum „enn betri og örugg­ari þjón­ustu“ í sam­ræmi við nýj­ustu Evr­óputil­skip­anir um greiðslu­miðlun og per­sónu­vernd. Um fjórð­ungur íslenskra heim­ila er í dag skráður á Meniga.­is.

Í til­kynn­ingu frá fyr­ir­tæk­inu segir að til­skip­unin ásamt nýjum lögum um per­sónu­vernd (GD­PR), sem tóku gildi á síð­asta ári, taki af allan vafa um það að neyt­endur ráði því sjálfir hver fái aðgang að þeirra fjár­mála­gögnum og hvernig megi nota þau. Henni sé fyrst og fremst ætlað að auka sam­keppni og nýsköpun í fjár­mála­þjón­ustu til ein­stak­linga.

„Óeig­in­gjarnar ástæður liggja að baki“

Meniga hefur í fram­hald­inu ákveðið að veita bönkum og fjár­tækni­fyr­ir­tækjum aðgang að grunn­þjón­ustu Meniga sem gerir þeim kleift að sam­eina fjár­mála­gögn ein­stak­linga með upp­lýstu sam­þykki þeirra. „Að­gang­ur­inn er í formi öruggrar skýja­þjón­ustu og hefur í för með sér að bankar og fjár­tækni­fyr­ir­tæki geta nú boðið sínum not­endum upp á að sækja og vinna með færslur frá öllum stóru bönk­unum á Íslandi svo lengi sem not­end­urnir gefa fyrir því sam­þykki sitt,“ segir í til­kynn­ing­unn­i. 

Ómar Þór Ómars­son, mark­aðs­stjóri Meniga, segir í sam­tali við Kjarn­ann að margt svipað sé að ger­ast úti í heimi. Sem dæmi tekur hann „open bank­ing“ sem á íslensku myndi kall­ast opin banka­starf­semi en hún felur í sér að við­skipta­vin­ur­inn hefur meiri stjórn á upp­lýs­ingum sín­um.

Ómar bendir á að þetta sé í fyrsta sinn á Íslandi sem slíkt kerfi er til boða hér á landi. Hann segir að óeig­in­gjarnar ástæður liggi að baki þessum nýj­ungum hjá Meniga. „Þetta er tæki­færi fyrir fyr­ir­tæki að búa til sniðugar lausnir,“ segir hann. Þá geti þriðji aðili notað gögn sem ann­ars hann hefði aldrei getað kom­ist í eða haft aðgang að. Ómar telur þetta bæta hag neyt­enda og bjóða upp á nýjar og spenn­andi vör­ur. 

Facebook hyggst koma á fót eigin rafmynt

Stjórn­endur Face­book til­kynntu í byrjun sumars að fyr­ir­tækið hefði í huga að koma á fót eigin raf­mynt. Raf­myntin mun bera heitið Libra og mun vera not­endum aðgengi­leg árið 2020.

Hægt verður að nota raf­mynt­ina til að greiða fyrir hluti í dag­legu lífi auk þess verður hægt að nota hana til þess að greiða fyrir hluti eða þjón­ustu á net­inu.

Face­book stað­hæfir að fjár­hags­upp­lýs­ingar verði ekki not­aðar til þess að sér­sníða aug­lýs­ingar á sam­fé­lags­miðlafor­rit­inu.

Verði Libra að veru­leika verður fjár­mála­kerfi þess ekki stjórnað af seðla­banka. Hægt verður að borga fyrir ýmsa þjón­ustu með raf­mynt­inni, að því er kemur fram í frétt The New York Times um málið. Slíkt geti bætt sam­keppn­is­stöðu Face­book við önnur sam­fé­lags­miðlafor­rit sem bjóða upp á greiðslu­þjón­ustu, líkt og hið kín­verska WeChat.

Nái Libra vin­sældum hjá 2,4 millj­örðum not­endum Face­book, gæti það haft veru­leg áhrif á fjár­mála­kerfi heims­ins. Ýmsir banda­rískir og breskir emb­ætt­is­menn hafa einmitt lýst yfir áhyggjum sínum af slíkri þróun sam­fé­lags­miðl­aris­ans.

Þá hefur komið fram að Libra muni vera stjórnað af the Libra Associ­ation, sem ekki verði rekið í gróðr­ar­skyni. Libra muni not­ast við svo­kall­aða Blockchain, eða skjala­keðju, líkt og raf­myntin Bitcoin ger­ir.

Fyr­ir­tæki munu borga fyrir að kom­ast í gögn Meniga

Ómar áréttir að með þessu sé Meniga ekki að selja gögn, heldur sé fyr­ir­tækjum leyft að nota gögn not­enda þeirra – með þeirra leyfi. Ekki nægi að nota gam­alt sam­þykki heldur þurfi að end­ur­nýja umboð­ið. 

Ómar tekur sem dæmi svo­kallað Apple Pay en fjöldi Íslend­inga nýtir sér þjón­ustu tækniris­ans. Þá gef­ist not­endum tæki­færi til að leyfa Apple að milli­færa pen­inga fyrir sig, það er fyr­ir­tækið fær leyfi til að fram­kvæma milli­færslu fyrir not­and­ann. 

Fyr­ir­tæki munu þurfa að borga fyrir að kom­ast í gögn Meniga. „Við munum rukka hóf­legt gjald til að fyr­ir­tæki geti kom­ist í gögn­in,“ segir Ómar. 

For­stjóri Meniga, Georg Lúð­víks­son, segir að mark­miðið sé að hjálpa ein­stak­lingum að ná sem mestu út úr heim­il­is­fjár­mál­un­um, hvort sem það sé með app­inu þeirra eða í gegnum þjón­ustur þeirra við­skipta­vina og sam­starfs­að­ila. „Með því að gera bönkum og fjár­tækni­fyr­ir­tækjum kleift að hjálpa sínum við­skipta­vinum að sam­eina heim­il­is­fjár­málin á einn stað von­umst við til að sjá sífellt fleiri og betri heim­il­is­fjár­mála­vörur fyrir ein­stak­linga og fjöl­skyldur á Ísland­i,“ segir for­stjór­inn. 

Apple Pay komið til landsins

Kort­haf­ar Lands­bank­ans, ­Arion ­banka og Íslandsbanka geta tengt kortin sín við App­le Pa­y en boðið var fyrst upp á þjónustuna hér á landi í byrjun maí síðastliðins. ­Með App­le Pa­y ­geta not­end­ur iPho­ne, App­le Watch, iPa­d og Mac-­tölva greitt fyrir vörur og þjón­ustu í versl­unum víða um heim sem og á net­inu. Banda­ríska tölvu­fyr­ir­tæk­ið App­le hefur boðið upp á greiðslu­þjón­ust­una frá 2014 en hún­ hafði þar til í maí ekki verið aðgengi­leg með íslenskum greiðslu­kort­u­m.

Í til­kynn­ingum frá Arion banka og Lands­bank­anum sagði að með App­le Pay nytu við­skipta­vinir áfram allra fríð­inda og trygg­inga sem tengj­ast greiðslu­kort­unum þeirra. Jafn­framt sagði að App­le Pa­y væri ein­falt og öruggt í notkun en þegar greiðslu­kort er tengt við App­le Pay, vist­ist korta­núm­erið hvorki í tækið né á net­þjóna Apple.

Þess í stað væri sér­stökum sýnd­ar­núm­erum úthlut­að, þau dulkóðuð og geymd með öruggum hætti í því tæki sem notað er, hvort sem það er iPho­ne sími, App­le Watch úr eða Mac ­tölva. Jafn­framt þyrfti not­andi að auð­kenna sig með fingrafara- eða and­litsskanna iPho­ne sím­ans áður en greiðsla er fram­kvæmd.

Á vefsíðu Íslandsbanka kemur fram að til að tryggja öryggi viðskipta geymi Apple Pay engar upplýsingar um viðskiptin sem hægt er að rekja né deili þeim upplýsingum með þriðja aðila.

Aðal­at­riðið að heim­ild sé til staðar

Vig­dís Eva Líndal, sviðs­stjóri erlends sam­starfs og fræðslu hjá Per­sónu­vernd, segir í sam­tali við Kjarn­ann að greiðslu­þjón­ustutil­skipun Evr­ópu­sam­bands­ins sé ætlað að heim­ila þessa opnu banka­starf­semi en að margir aðilar séu að hefja und­ir­bún­ing að því að nýta sér hana. Þá segir hún að margir tæknirisar, á borð við Face­book og App­le, hafi stigið inn á fjár­mála­mark­að­inn að und­an­förn­u. 

Hún segir að þeir sem ætla vinna með fjár­hags­upp­lýs­ingar ein­stak­linga þurfi líka að fara að per­sónu­vernd­ar­lög­unum (GD­PR). Þar sé aðal­at­riðið að heim­ild sé til staðar fyrir notkun á gögn­um, vinnslan sé gagnsæ gagn­vart ein­stak­ling­un­um, sem og að öryggi sé trygg­t. 

Skil­málar geta verið mjög flóknir

„Þeir sem nýta sér til­skip­un­ina verða að útskýra fyrir sínum við­skipta­vinum hvaða vinnsla per­sónu­upp­lýs­inga er und­ir, á ein­faldan og skýran hátt. Við þekkjum það út frá skil­málum að þessi mál geta verið mjög flók­in,“ segir Vig­dís og bendir á að sam­þykkja verði mis­mun­andi mark­mið vinnsl­unnar hvert í sínu lagi. „Það þarf alltaf að vera ljóst hvað verið er að sam­þykkja, t.d. hvort við­kom­andi sam­þykki að búið sé til per­són­u­snið um hann eða hvort hann sam­þykki að hann fái mark­aðs­setn­ing­ar­póst.“

Í raun­inni er hægt að nálg­ast PSD2 út frá tveimur vinklum, að mati Vig­dís­ar. Ann­ars vegar sé verið að opna mögu­leika fyrir ein­stak­ling­inn og auka frelsi hans hvað varðar þjón­ustu. Á móti komi að fyr­ir­tækin öðlist allar upp­lýs­ingar um þennan til­tekna ein­stak­ling. Það geti skapað ýmsar áskor­anir og sið­ferði­leg álita­efni, til að mynda hvað varðar áreið­an­leika upp­lýs­ing­anna og hvernig nýt­ing þeirra getur aukið hættu á mis­munun milli þjóð­fé­lags­hópa. 

Miklar breyt­ingar framundan

Vig­dís bendir á að vænt­an­lega verði miklar breyt­ingar hér á landi í kjöl­far þess að greiðslu­þjón­ustutil­skip­unin komi til fram­kvæmda og jafn­vel séu Íslend­ingar þegar farnir að sjá merki um þær breyt­ing­ar. Hér á landi sé fólk almennt nýj­unga­gjarnt og taki nýrri tækni opnum örm­um, en ein­stak­lingar þurfi að vera með­vit­aðir um þær áhættur sem fylgt geti slíkri tækn­i. 

„Eitt af hlut­verkum Per­sónu­verndar er að fræða almenn­ing um þær hættur sem eru fyrir hend­i,“ segir hún. Þær felist meðal ann­ars í því að gögnin sem seld eru geti verið röng eða nið­ur­stöður vill­andi. „Með­ferð upp­lýs­inga af þessu tagi er vanda­söm og það þarf að stíga var­lega til jarð­ar. Þetta getur til að mynda aukið mis­munun milli þjóð­fé­lags­hópa,“ segir hún. Þá sé hægt að draga vill­andi álykt­anir um fólk eftir því hvar það búi, hvar það versli í mat­inn og svo fram­veg­is. „Þessi fyr­ir­tæki verða að hafa það í huga og haga starf­semi sinni á þann hátt að hún upp­fylli kröfur per­sónu­vernd­ar­lög­gjaf­ar­inn­ar.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiInnlent