Reiknistofa bankanna (RB) keypti greiðslulausn af dönsku fyrirtæki sumarið 2017. Lausn sem danskir bankar höfðu ákveðið að hætta nota fyrir aðra greiðslulausn, MobilePay. RB keypti lausnina með það fyrir augum að hægt væri að aðlaga lausnina hratt að íslenskum markaði. Nú rúmum tveimur árum síðar er greiðslulausn RB, Kvitt, hins vegar ekki enn komin í almenna notkun.
Lausn sem danskir bankar ákváðu að nota ekki
Í júní 2017 undirritaði Reiknistofa bankanna undir samstarf við danska greiðsluþjónstufyrirtækið Swipp. Markmið samstarfsins var að innleiða nýja lausn fyrir farmsímagreiðslur hér á landi.
Swipp hafði verið tekið slitameðferð í Danmörku árið áður þegar eigendur þess höfðu ákveðið að félagið myndi hætta að starfa sem greiðsluþjónustuveitandi. Á heimasíðu fyrirtækisins segir að Swipp hafi hætt starfsemi sinni í febrúar 2017 sökum þess að danskir bankar, sem jafnframt voru eigendur Swipp, hafi sameinast um aðra greiðslulausn en Swipp. Samkeppnisfyrirtæki þeirra MobliePay var valið í staðinn.
Elsa Ágústsdóttir, markaðsstjóri Reiknistofu bankanna, sagði í samtali við Kjarnann í júní 2017 að staða Swipp hefði verið ljós þegar samstarfið var undirritað. Samkvæmt Elsu þá ákváðu eigendur Swipp að taka félagið úr afskráningarferli og breyta viðskiptamódelinu, enda hefði komið í ljós að mikill áhugi væri á undirliggjandi tækni á öðrum mörkuðum.
Aðspurð hver ástæða þess væri að RB væri að taka í notkun lausn sem danskir bankar ákváðu að nota ekki sagði Elsa hana aðallega vera vegna þess að hversu hratt væri hægt að aðlaga hana að íslenskum markaði. Lausnin hefði einnig verið hönnuð frá upphafi með það í huga að hún gæti þjónustað mörg fjármálafyrirtæki í einu.
Greiðslulausn sem fækka á milliliðum
Í upphafi stóð til að lausnin yrði tekin í notkun haustið 2017. Ferlið dróst hins vegar og var félagið Kvitt ehf. stofnað á árinu 2018. Hlutverk félagsins er að sinna þróun greiðslulausnar RB sem hlaut nafnið Kvitt.
Kvitt lausnin byggir á beinum millifærslum milli viðskiptavina og söluaðila, sem sagt peningurinn fer beint út af bankareikningi viðskiptavinarins inn á reikning söluaðila. Kvitt er því lýst sem greiðslulausn sem fækkar milliliðum.
Samkvæmt heimasíðu Kvitt felur lausnin í sér mikinn sparnað og hagræði fyrir söluaðili og þægindi fyrir kaupendur.
Kvitt var síðan kynnt í sérblaði Fréttablaðsins í byrjun árs 2018 og var lausnin jafnframt prufukeyrð hjá samstarfsaðilum Kvitt, þar á meðal Krónunni, Ikea, Elko, Húsasmiðjunni. Haft er eftir starfsmönnum RB í umfjöllun Fréttablaðsins að þær prófanir hafi gengið vel.
Hugbúnaður fyrir 80 milljónir
Lítið hefur hins vegar heyrst um Kvitt síðan greiðslulausnin var kynnt til leiks á samfélagsmiðlum í október í fyrra og voru tekjur félagsins núll krónur árið 2018, samkvæmt ársreikningi Kvitt ehf..
Í ársreikningi félagsins kemur jafnframt fram að Kvitt ehf. hafi keypt hugbúnað af móðurfélagi sínu, Reiknistofu bankanna, að fjárhæð 80 milljónir króna í fyrra. Jafnframt segir í ársreikningunum að hluti af starfsemi Kvitt ehf. sé að innleiða aðkeyptan hugbúnað og selja aðgang að honum.
Um er að ræða greiðslulausn Swipp sem keypt var af danska fyrirtækinu sumarið 2017, líkt og kom fram hér fyrir ofan.
RB í eigu íslensku bankanna
Í svari RB við fyrirspurn Kjarnans um tekjur Kvitt ehf. á árinu 2019 segir að lítið hafi verið að gerast með Kvitt-lausnina síðustu mánuði. Hún sé ekki komin í almenna notkun og innan RB sé verið að ræða næstu skref.
Reinkstofa bankanna er þjónustufyrirtæki sem þróar og rekur fjármálalausnir, þar á meðal öll megin greiðslukerfi landsins. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er hlutverk þeirra að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja en helstu viðskiptavinir RB eru fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög.
RB er í meirihluta eigu stóru viðskiptabankanna þriggja. Í eigendahópnum eru einnig Kvikubanki, Valitor, Borgun og Sambandi íslenskra sparisjóða.
Skerfur Apple af hverri færslu trúnaðarmál
Arion banki, Landsbankinn og Íslandsbanki byrjuðu að bjóða viðskiptavinum sínum að greiða með greiðslulausn bandaríska tölvurisans Apple í maí 2019. Með Apple Pay geta notendur iPhone, Apple Watch, iPad og Mac-tölva greitt fyrir vörur og þjónustu í verslunum
Í svari Íslandsbanki við fyrirspurn Kjarnans, um ástæðu þess að greiðslulausnin Apple Pay hafi orðið fyrir valinu hjá bankanum, segir að bankinn hafi áður kynnt greiðslur með síma í Android símum en til þess að bjóða upp á sömu þjónustu í iOS símum fæli það í sér samstarf við Apple um greiðslulausn. Jafnframt segir í svarinu að mikil eftirspurn hafi verið eftir þessari þjónustu hér á landi. Svipaða sögu má segja um svör Landsbankans.
Í svari Arion banka segir að þegar bankinn hafi farið af stað með að skoða farsímagreiðslulausnir hafi verið byrjað á að spyrjast fyrir um stöðluðu greiðslulausnirnar frá aðilum eins og Google Pay, Samsung Pay og Apple Pay. Arion banki hafi jafnframt unnið með Deja mobile við að þróa sérstaka greiðslulausn fyrir Android tæki.
Bankarnir þrír gefa ekki upp hver skerfur Apple er af hverri færslu þar sem það sé trúnaðarmál milli bankanna og Apple.
Vonar að Apple Pay ýti við markaðinum
Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri RB sagði í viðtali við Vísi í sumar að hún hefði viljað sjá Íslendinga vera fljótari að tileinka sér farsímagreiðslur og að hún vonaði að vinsældir Apple Pay ýtti við markaðinum.
Aðspurð hvort samkeppnin við Apple Pay myndi reynast erfið fyrir Kvitt nefndi hún að þetta væri ekki alveg sömu lausnirnar.
„Kvitt gengur út á það að millifæra frá einum reikningi til annars, ólíkt Apple Pay sem er tengt korti. Kvitt er þannig skilvirkari og ódýrari leið sem byggir á innviðum í greiðslumiðlun,“ sagði Ragnhildur og benti jafnframt á að talsverðar breytingar væru væntanlegar á korta og greiðslumörkuðum, meðal annars vegna innleiðingar PSD2-tilskipunarinnar hér á landi.
Breytingar á greiðsluþjónustu í kjölfar innleiðingar PSD2
PSD2 tilskipunin er uppfærsla á samræmdu regluverki í kringum greiðsluþjónustu á Evrusvæðinu. Tilskipunin gerir meðal annars þriðja aðila, þar á meðal greiðsluþjónustufyrirtækjum, kleift að virkja greiðslu beint við banka neytanda. Ef samþykki eiganda reiknings liggur fyrir þá þurfi ekki nokkurt viðskiptasamband að vera á milli þeirra og viðskiptabankanna sjálfra.
Dæmi um lausn sem kynni að falla undir breytinguna er Apple Pay. Með notkun lausnarinnar gætu viðskiptavinir greitt með símanum sínum án þess að þurfa að nota greiðslukort.
Um þessar mundir er verið að færa þessa tilskipun í lög um alla Evrópu, þar á meðal á Íslandi þó enn sé nokkuð í að hún taki gildi hér á landi. Í umfjöllun Seðlabankans um tilskipunina segir að kreditkortanotkun á Íslandi sé mun algengari en í öðrum ríkjum Evrópu en samkvæmt bankanum er kostnaður samfélagsins af þeim mun meiri en vegna debetkorta. Kreditkortum fylgi milligjöld og minna gagnsæi í viðskiptum, en öllum færslugjöldum sé að öllum líkindum velt út í verðlag.
Því segir Seðlabankinn að búast megi við lækkun á verði fjármálaþjónustu nái aðrir greiðslumöguleikar að keppa við kreditkortaþjónustu með innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi.