Hafa aldrei lánað meira til húsnæðiskaupa en í október
Tvö met voru sett í útlánum lífeyrissjóða til sjóðsfélaga sinna í október 2019. Í fyrsta lagi lánuðu þeir 26 prósent meira en þeir höfðu gert í fyrri metmánuði og í öðru lági voru útlánin 45 prósent fleiri en nokkru sinni áður innan mánaðar. Þá virðast aðgerðir stórra sjóða, um að ýta fólki frekar að óverðtryggðum lánum með því að draga úr aðgengi að hagstæðum verðtryggðum lánum, hafa skilað árangri.
Lífeyrissjóðir landsins hafa aldrei lánað sjóðsfélögum sínum meira í húsnæðislán en þeir gerðu í október síðastliðnum. Þá námu sjóðsfélagslán sjóðanna 13,9 milljörðum króna og jukust um 65 prósent á milli mánaða. Fyrra útlánamet lífeyrissjóðanna var sett í júní 2017 þegar þeir lánuðu rúmlega ellefu milljarða króna til húsnæðiskaupa. Því voru útlánin í október 26 prósent hærri en í fyrri metmánuði.
Auk þess hafa aldrei verið tekin fleiri lán hjá lífeyrissjóðum en í tíunda mánuði ársins 2019, þegar þau voru 1.144 talsins. Fyrra metið var sett í ágúst 2017 þegar útlánin voru 789 talsins. Útlánin í október voru því 45 prósent fleiri en í fyrri metmánuði. Allt ofangreint bendir til þess að töluvert líf sé í húsnæðismarkaðnum um þessar mundir.
Þetta kemur fram í nýjum hagtölum Seðlabanka Íslands um íslenska lífeyrissjóðakerfið sem birtar voru í gær.
Það vekur líka athygli að að landsmenn tóku hærri upphæð að láni óverðtryggt hjá lífeyrissjóðum landsins í október en verðtryggt, þótt afar litlu hafi munað. Það er einungis í þriðja sinn sem það gerist. Hin tvö skiptin voru í desember 2018 og janúar 2019, þegar verðbólga hafði hækkað nokkuð skarpt og var á bilinu 3,4 til 3,7 prósent, eftir að hafa verið að mestu undir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá því í febrúar 2014.
Í dag er verðbólga hins vegar nokkuð lág, 2,7 prósent, og hefur farið minnkandi undanfarin misseri. Auk þess gera flestar spár greiningaraðila ráð fyrir því að hann eigin eftir að lækka enn frekar á næstu mánuðum og muni haldast hófleg til lengri tíma að óbreyttu.
Mun fleiri lán sem tekin voru í október voru þó verðtryggð en óverðtryggð. Það þýðir að meðaltal verðtryggðra lána var umtalsvert lægra en óverðtryggðra sem bendir til þess að þeir sem eru að kaupa sér dýrari eignir, og hafi þar af leiðandi meiri kaupmátt, séu frekar að taka óverðtryggð lán sem hafa í för með sér hærri mánaðarlega greiðslubyrði.
Markvissar aðgerðir til að hamla útlánavöxt
Stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa markvisst verið að reyna að draga úr útlánum til sjóðsfélaga sinna frá því á síðasta ári. Ástæðan er sú að ásókn í lánin, sem eru á umtalsvert betri kjörum en bjóðast hjá bönkum, hefur verið gríðarleg og hlutfall sjóðsfélagslána af heildareignum margra lífeyrissjóða er nú komið upp að þeim mörkum sem þeir telja skynsamlegt að teknu tilliti til áhættudreifingar.
Kjarninn greindi frá því í nóvember að Gildi, þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, hefði tífaldað útlán sín til íbúðarkaupa frá árslokum 2015 og út árið 2018. Í byrjun tímabilsins námu útlánin 2,2 milljarði króna en þau voru komin upp í 22 milljarða króna um síðustu áramót. Þar af bættust 9,2 milljarðar króna, eða rétt tæpur helmingur viðbótarinnar, við á árinu 2018. Sú staða varð til þess að sjóðurinn réðst í að þrengja lánsskilyrði sín til að hemja útlánavöxtin. Það skilaði árangri á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 þar sem útlán á því tímabili voru aðeins lægri en á sama tímabili í fyrra.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, hefur líka gripið til aðgerða til að hamla lántöku hjá sér. Hann hefur nú haldið breytilegum verðtryggðum vöxtum sínum óbreyttum frá því í ágústbyrjun, eða í fjóra mánuði. Þá var ákveðið að breyta því hvernig vextirnir væru ákveðnir og fallið frá því að láta ávöxtun ákveðins skuldabréfaflokks ráða þeirri för. Þess í stað er einfaldlega um ákvörðum stjórnar lífeyrissjóðsins að ræða, en ekki hefur verið greint frá því hvort hún byggi á einhverju öðru en einungis vilja þeirra sem í stjórninni sitja. Frá því í nóvember 2018 og fram í maí 2019 lækkuðu breytilegir verðtryggðir vextir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna úr 2,62 prósent í 2,06 prósent, eða um 0,56 prósentustig. Þá tók stjórn sjóðsins ákvörðun um að frysta þá fram í ágúst og hækka þá svo upp í 2,26 prósent, þar sem þeir hafa verið síðan.
Í október ákvað sjóðurinn svo að breyta lánareglum sínum þannig að skilyrði fyrir lántöku voru verulega þrengd og hámarksfjárhæð lána var lækkuð um tíu milljónir króna. Auk þess var ákveðið að hætta að lána nýjum lántakendum verðtryggð lán á breytilegum vöxtum, en þau hafa verið einna hagkvæmustu lánin sem í boði hafa verið á undanförnum árum.
Þetta var gert með þeim rökum að sjóðurinn væri komin út fyrir þau þolmörk sem hann ræður við að lána til íbúðarkaupa. Frá haustinu 2015 og fram í októberbyrjun 2019 jukust sjóðsfélagslán úr því að vera sex prósent af heildareignum sjóðsins í að verða 13 prósent. Alls námu sjóðsfélagalánin um 107 milljörðum króna í byrjun síðasta mánaðar og um 25 milljarðar króna til viðbótar voru sagðir vera að bætast við þá tölu þegar tekið væri tillit til fyrirliggjandi umsókna um endurfjármögnun.
Það voru einfaldlega ekki til lausir peningar til að halda áfram á sömu braut og lífeyrissjóður verzlunarmanna hefði þurft að losa um aðrar eignir að óbreyttu til að þjónusta eftirspurnina eftir íbúðalánum. Það var stjórn hans ekki tilbúin að gera.
Samanlagt minna á þessu ári en því síðasta
Þótt október hafi verið metmánuður í útlánum lífeyrissjóða þá hefur heilt yfir verið samdráttur í slíkum lánum á fyrstu tíu mánuðum ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. Frá ársbyrjun og út októbermánuð lánuðu lífeyrissjóðirnir 79,8 milljarða króna í ný útlán, en í fyrra höfðu þeir lánað 85,9 milljarða króna á fyrstu tíu mánuðum ársins.
Undanfarin ár hafa verðtryggð lán með breytilegum vöxtum notið mikilla vinsælda hjá lántakendum, enda kjör á þeim verið þau bestu sem staðið hafa til boða. Stóru sjóðirnir þrír: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi voru lengi vel leiðandi í vaxtalækkunum á slíkum lánum en á því hefur orðið mikil breyting á síðustu misserum. Vextir LSR eru nú 2,3 prósent, verzlunarmenn bjóða, líkt og áður sagði upp á 2,26 prósent vexti og Gildi býður upp á 2,46 prósent vexti. Á sama tíma hafa kjör á öðrum lánategundum, óverðtryggðum lánum og verðtryggðum lánum með föstum vöxtum, verið bætt til að reyna að ýta lántakendum frekar í þær áttir. Lífeyrissjóður verzlunarmanna býður nú til að mynda 5,14 prósent óverðtryggða fasta vexti til þriggja ára og LSR upp á slíka á 5,5 prósent kjörum.
Viðskiptabankarnir ekki samkeppnishæfir
Stóru sjóðirnir þrír eru þó langt frá því að vera í sama flokki og viðskiptabankarnir þegar kemur að ósamkeppnishæfum kjörum. Þegar kemur að verðtryggðum breytilegum vöxtum bjóða þeir upp á lánakjör sem eru á bilinu 3,2 til 3,49 prósent á grunnlánum sem duga fyrir 70 prósent af kostnaði húsnæðis sem verið er að kaupa. Til samanburðar eru hagstæðustu kjör sem bjóðast á sambærilegum lánum á markaðnum í dag hjá Almenna lífeyrissjóðnum, 1,72 prósent, og Stapa lífeyrissjóði, 1,73 prósent. Vaxtakostnaður lántaka hjá Arion banka, sem er dýrastur viðskiptabankanna, er því rúmlega tvöfaldur á við vaxtakostnað sjóðsfélaga ofangreindra tveggja sjóða.
Lægstu óverðtryggðu vextir sem bjóðast eru þó hjá Birtu lífeyrissjóði, 1,64 prósent. Þar er hins vegar lánað að hámarki fyrir 65 prósent að virði húsnæðis og því er um að ræða lán sem fyrst og síðast þeir sem hafa mikið eigið fé á milli handanna geta tekið.
Viðskiptabankarnir sitja þó einir að þeim hópi sem þarf að taka hærra hlutfall af húsnæðiskaupum sínum að láni, þ.e. hópinn sem er með minnst eigið fé milli handanna. Þeir bjóða viðbótarlán ofan á 70 prósent grunnlán sem lífeyrissjóðir gera ekki. Því situr viðkvæmasti hópurinn á markaðnum, þeir sem eiga minnst og hafa lægstu tekjurnar, einn að óhagstæðustu lánunum á meðan að þeir sem eiga meira fé, og hafa hærri tekjur, borga mun lægri vexti.
Lestu meira:
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði
-
24. desember 2022Segja verðtryggða íbúðalánavexti mögulega vera orðna hagkvæmari en óverðtryggða
-
23. desember 2022Allir helstu lánveitendur búnir að hækka íbúðalánavexti eftir ákvörðun Seðlabankans
-
20. desember 2022Hvers vegna Efling þarf öðruvísi samning
-
17. desember 2022Ríkasta 0,1 prósentið skuldaði nánast ekkert en átti eignir upp á 330 milljarða
-
14. desember 2022Biðst afsökunar á að tilkynning um 30 prósent leiguhækkun hafi ekki verið nærgætnari
-
12. desember 2022Borgin eignast og endurselur 19 íbúðir af 81 í nýju fjölbýli í Laugarnesi
-
10. desember 2022Umdeilt leigufélag ratar enn og aftur í fréttir vegna frásagna af okri á leigjendum
-
30. nóvember 2022Leigufélagið Bríet gefur 30 prósent afslátt af leigu í desember