Árið 2019: Lífskjarasamningar undirritaðir
Eftir harkalegar kjaradeilur, þar sem gífuryrði um vitfirru og ásakanir um lélegt andlegt heilbrigði fengu að fljúga, var samið um frið á stærstum hluta íslensks vinnumarkaðar í byrjun apríl, innan við viku eftir að eitt stærsta fyrirtæki landsins fór á hausinn með tilheyrandi afleiðingum.
Þann 3. apríl lauk harðvítugri kjaradeilu stærstu verkalýðsfélaga landsins við Samtök atvinnulífsins með því að forvígismenn deiluaðila skrifuðu undir nýja kjarasamninga sem gilda fyrir um 110 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði, og slógu þar með tóninn fyrir hina sem ekki voru aðilar að samningnum.
Deilan í aðdragandanum hafði verið harkaleg. Vinnustöðvanir í ferðaþjónustugeiranum voru umdeildar á sama tíma og hluti hans var í vandræðum vegna yfirvofandi samdráttar og ný en herská forysta verkalýðshreyfingar var víða innan borgarlegra afla úthúðað fyrir róttækni sína. „Ég hef verið kölluð vanstillt, galin, vitfirrt. Geðheilsa mín og andlegt heilbrigði hefur verið dregið mjög í efa,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í viðtali við Hringbraut í desember 2018.
Hún bætti við að það hefði komið henni á óvart hversu forhert fólk leyfði sér að vera þegar það talaði um kröfur verkalýðshreyfingarinnar. „Að þær væru kokkaðar upp af biluðu fólk. Leiðarahöfundar lýstu því yfir eins og ekkert væri að hér væri efnahagsleg niðursveifla hafin. Það var ekki talað um vægan samdrátt. Alls konar hlutir sem voru sagðir á mjög óábyrgan og ótrúlegan máta. Fyrir mig sem manneskju sem hef ekki haft aðgang að risastóru platformi þá fannst mér ótrúlegt hvað fólk sem hefur aðgang að stóru platformi leyfi sér að segja svona, eins og ekkert væri, en þurfti svo ekki að draga í land, biðjast afsökunar eða nokkurn skapaðan hlut.“
Á endanum urðu nokkrar væringar sem urðu í hagkerfinu á skömmum tíma í lok mars til þess að það liðkaðist fyrir samningsgerð. Þar skiptu meginmáli tilkynning um algjöran loðnubrest og svo gjaldþrot WOW air fimmtudaginn 28. mars. Innan við viku síðar var búið að skrifa undir nýja kjarasamninga.
Krónutöluhækkanir
Þeir gilda frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022. Launahækkanir sem í þeim felast eru taldar í krónum. Almenn laun hækkuðu um 17 þúsund krónur frá 1. apríl síðastliðnum. Þau hækka síðan aftur um 18 þúsund krónur 1. apríl 2020, um 15.750 krónur 1. janúar 2021 og 17.250 krónur 1. janúar 2022. Þá var samið um eingreiðslu til allra almennra launamanna upp á 26 þúsund krónur sem er til útgreiðslu um næstu mánaðamót.
Með því að hafa launahækkanir í krónutölum en ekki hlutfallstölum er tryggt að þeir sem hafi hæstu launin hækki ekki um fleiri krónur en þeir sem eru með þau lægstu.
Sérstaklega var samið um auknar hækkanir fyrir þá sem vinna á taxtalaunum. Alls munu laun þeirra sem eru með kauptaxta hækka um 90 þúsund krónur á samningstímanum. Lágmarkstekjur fyrir fullt starf verða 368 þúsund krónur 1. janúar 2022. Auk þess hækkar desemberuppbót úr 89 þúsund krónum í 98 þúsund krónur á samningstímanum og orlofsuppbót úr 48 þúsund krónum í 53 þúsund krónur.
Á árunum 2020 til 2023 getur komið til framkvæmda launaauki ef hagvöxtur verður hérlendis. Þetta er gert til að tryggja launafólki hlutdeild í verðmætasköpun samfélagsins.
Ákvæðið á að nýtast tekjulægri hópum best, en hækkunin sem kemur til vegna hagvaxtar legst að fullu á laun þeirra en 75 prósent á önnur laun. Að mati Alþýðusambands Íslands getur þessi hagvaxtarauki hækkað taxtalaun um 3-13 þúsund krónur á ári.
Í kjarasamningunum var einnig samið um styttri vinnuviku með því að taka upp það sem er kallað „virkan vinnutíma“ sem verður að jafnaði 36 stundir á viku. Hana á að innleiða með því að gera vinnutíma fólks sveigjanlegri með því að bjóða því að kjósa sjálft um hvaða fyrirkomulag henti best á hverjum vinnustað.
Óvenjulegar forsendur
Þrjár meginforsendur voru fyrir gerð kjarasamninganna. Í fyrsta lagi þarf kaupmáttur launa að aukast á samningstímabilinu. Sá vöxtur verður metin út frá launavísitölu Hagstofu Íslands. Hingað til hefur sú forsenda haldið. Launavísitalan hefur hækkað um tæp tvö prósent frá apríl og út nóvember 2019.
Í öðru lagi var sú óvenjulega forsenda sett til grundvallar gerð kjarasamninga að vextir lækki „verulega“ og haldist lágir út samningstímann. Það þýddi að Seðlabanki Íslands þyrfti að lækka stýrivexti til að forsendur kjarasamninga haldi, en hann er samkvæmt lögum sjálfstæð stofnun og hefur það meginhlutverk að viðhalda verðstöðugleika.
Ekki var tilgreint sérstaklega um það opinberlega hversu mikið vextirnir þyrftu að lækka til að forsendur héldu en Kjarninn greindi frá því 4. apríl síðastliðinn að gert hafi verið hliðarsamkomulag, svokallað „skúffusamkomulag“ sem er ekki hluti af opinberum kjarasamningi, sem fól í sér að vextir yrðu að lækka um 0,75 prósentustig fyrir september 2020, þegar fyrsta endurskoðun sérstakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjarasamningar haldi.
Vextirnir voru búnir að lækka niður um það í júní 2019, 15 mánuðum áður en fyrsta endurskoðunin mun eiga sér stað, og hafa haldið áfram að lækka síðan. Þeir eru í dag þrjú prósent og hafa lækkað úr 4,5 prósent í apríl. Ári fyrir endurskoðun forsendunefndar höfðu vextirnir því lækkað tvisvar sinnum meira en skilyrt var að þeir myndu lækka.
Í þriðja lagi fólst í samningunum að stjórnvöld yrðu að standa við að framkvæma þann pakka sem þau komu með að borðinu til að liðka fyrir gerð kjarasamninga undir yfirskriftinni „Lífskjarasamningar“.
42 aðgerðir stjórnvalda
Stjórnvöld lofuðu því að ráðast í alls 42 aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum. Ríkið mat heildarumfang aðgerðanna á 80 milljarða króna.
Sumar aðgerðirnar voru þá þegar fram komnar, en ekki frágengnar, eins og lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði. Aðrar hafa verið lagðar fram áður, eins og uppbygging í Keldnalandi, heimildir til að ráðstafa 3,5 prósent lífeyrisiðgjalds skattfrjálst til húsnæðiskaupa og áframhaldandi nýting séreignarsparnaðar til að greiða skattfrjálst niður íbúðalán, en það úrræði verður framlengt fram á mitt ár 2021.
Það var þó einnig margt nýtt í pakka stjórnvalda. Það átti að gera breytingar á tekjuskattskerfinu með því að bæta við þriðja skattþrepinu sem tryggja m.a. lægstu launahópunum nokkur þúsund króna skattalækkun á mánuði. Sú breyting gengur í gildi um komandi áramót. Þá verða barnabætur hækkaðar og skerðingarmörk þeirra hækkuð. Ráðast átti í fjölmargar aðgerðir í húsnæðismálum, halda aftur af öllum gjaldskrárhækkunum og ráðast í markvissar aðgerðir til að draga úr félagslegum undirboðum.
Blessuð verðtryggingin
Á meðal þess sem stjórnvöld skuldbundu sig líka til að gera var að banna 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán frá byrjun komandi árs. Þá átti að grundvalla verðtryggingu við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar frá og með árinu 2020. Hvorugt er orðið að veruleika. Á árinu 2019 jókst líka taka óvertryggðra lána til húsnæðiskaupa verulega og í októbermánuði gerðist það til að mynda í fyrsta sinn í þolanlegu verðbólguumhverfi að fleiri tóku óvertryggð lán en verðtryggð hjá lífeyrissjóðum landsins. Þá hefur verðbólga verið skapleg þorra ársins og farið lækkandi – hún er nú tvö prósent og vel undir verðbólgumarkmiði – sem hefur gert það að verkum, ásamt hratt lækkandi húsnæðisvöxtum, að staða margra verðtryggðra lántakenda á Íslandi hefur aldrei verið betri.
Í pakkanum voru einnig vilyrði um að klára skoðun á því hvort að banna eigi alfarið verðtryggð húsnæðislán fyrir lok árs 2020.
Ljóst er að þá þyrfti að finna annan valkost fyrir tekjulægstu og viðkvæmustu hópa samfélagsins á lánamarkaði ef 40 ára jafngreiðslulánin verða bönnuð. Í pakka stjórnvalda stóð að unnið yrði með aðilum vinnumarkaðarins að því að finna skynsamlegar leiðir og útfærslur á þeim til að auðvelda ungu fólki og tekjulágum fyrstu fasteignakaup. Ein mögulegra leiða er að veitt verði sérstök lán, til dæmis frá Íbúðalánasjóði, með þeim skilmálum að höfuðstóllinn geti svarað til tiltekins hlutfalls af markaðsvirði eignarinnar. „Slík „hlutdeildarlán“ bæru lægri vexti og afborganir fyrstu árin og gerðu tekjulágum kleift að komast yfir útborgunarþröskuldinn þar sem krafa um eigið fé væri lægri. Hlutdeildareigandi fengi endurgreitt þegar eigandi seldi viðkomandi íbúð eða greiddi lánið upp á matsvirði.“ Unnið er að innleiðingu slíkra lána.
Enn er þó víða ósamið. Mesta athygli á síðustu mánuðum hefur vakið kjaradeilda Blaðamannafélags Íslands, sem samþykkti að fara í vinnustöðvanir síðla árs og hafnaði samningstilboði Samtaka atvinnulífsins í atkvæðagreiðslu í nóvember. Sú staða er enn óleyst og samkvæmt formanni Blaðamannafélagsins eru aðgerðirnar farnar í jólafrí.
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019