Mynd: Úr safni.

Árið 2019: Lífskjarasamningar undirritaðir

Eftir harkalegar kjaradeilur, þar sem gífuryrði um vitfirru og ásakanir um lélegt andlegt heilbrigði fengu að fljúga, var samið um frið á stærstum hluta íslensks vinnumarkaðar í byrjun apríl, innan við viku eftir að eitt stærsta fyrirtæki landsins fór á hausinn með tilheyrandi afleiðingum.

Þann 3. apríl lauk harðvítugri kjaradeilu stærstu verkalýðsfélaga landsins við Samtök atvinnulífsins með því að forvígismenn deiluaðila skrifuðu undir nýja kjarasamninga sem gilda fyrir um 110 þúsund manns á íslenskum vinnumarkaði, og slógu þar með tóninn fyrir hina sem ekki voru aðilar að samningnum.  

Deilan í aðdragandanum hafði verið harkaleg. Vinnustöðvanir í ferðaþjónustugeiranum voru umdeildar á sama tíma og hluti hans var í vandræðum vegna yfirvofandi samdráttar og ný en herská forysta verkalýðshreyfingar var víða innan borgarlegra afla úthúðað fyrir róttækni sína.  „Ég hef verið kölluð van­stillt, gal­in, vit­firrt. Geð­heilsa mín og and­legt heil­brigði hefur verið dregið mjög í efa,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í viðtali við Hringbraut í desember 2018.

Hún bætti við að það hefði komið henni á óvart hversu for­hert fólk leyfði sér að vera þegar það tal­aði um kröfur verka­lýðs­hreyf­ing­ar­inn­ar. „Að þær væru kokk­aðar upp af bil­uðu fólk. Leið­ara­höf­undar lýstu því yfir eins og ekk­ert væri að hér væri efna­hags­leg nið­ur­sveifla haf­in. Það var ekki talað um vægan sam­drátt. Alls konar hlutir sem voru sagðir á mjög óábyrgan og ótrú­legan máta. Fyrir mig sem mann­eskju sem hef ekki haft aðgang að risa­stóru plat­formi þá fannst mér ótrú­legt hvað fólk sem hefur aðgang að stóru plat­formi leyfi sér að segja svona, eins og ekk­ert væri, en þurfti svo ekki að draga í land,  biðj­ast afsök­unar eða nokkurn skap­aðan hlut.“

Á endanum urðu nokkrar væringar sem urðu í hagkerfinu á skömmum tíma í lok mars til þess að það liðkaðist fyrir samningsgerð. Þar skiptu meginmáli tilkynning um algjöran loðnubrest og svo gjaldþrot WOW air fimmtudaginn 28. mars. Innan við viku síðar var búið að skrifa undir nýja kjarasamninga.

Krónutöluhækkanir

Þeir gilda frá 1. apríl 2019 til 1. nóv­em­ber 2022. Launa­hækk­anir sem í þeim fel­ast eru taldar í krón­um. Almenn laun hækkuðu um 17 þús­und krónur frá 1. apríl síð­ast­liðn­um. Þau hækka síðan aftur um 18 þús­und krónur 1. apríl 2020, um 15.750 krónur 1. jan­úar 2021 og 17.250 krónur 1. jan­úar 2022. Þá var samið um ein­greiðslu til allra almennra launa­manna upp á 26 þús­und krónur sem er til útgreiðslu um næstu mán­aða­mót.

Með því að hafa launa­hækk­anir í krónu­tölum en ekki hlut­falls­tölum er tryggt að þeir sem hafi hæstu launin hækki ekki um fleiri krónur en þeir sem eru með þau lægstu.

Sér­stak­lega var samið um auknar hækk­anir fyrir þá sem vinna á taxta­laun­um. Alls munu laun þeirra sem eru með kaup­taxta hækka um 90 þús­und krónur á samn­ings­tím­an­um. Lág­marks­tekjur fyrir fullt starf verða 368 þús­und krónur 1. jan­úar 2022. Auk þess hækkar des­em­ber­upp­bót úr 89 þús­und krónum í 98 þús­und krónur á samn­ings­tím­anum og orlofs­upp­bót úr 48 þús­und krónum í 53 þús­und krón­ur.

Á árunum 2020 til 2023 getur komið til fram­kvæmda launa­auki ef hag­vöxtur verður hér­lend­is. Þetta er gert til að tryggja launa­fólki hlut­deild í verð­mæta­sköpun sam­fé­lags­ins. 

Ákvæðið á að nýt­ast tekju­lægri hópum best, en hækk­unin sem kemur til vegna hag­vaxtar legst að fullu á laun þeirra en 75 pró­sent á önnur laun. Að mati Alþýðu­sam­bands Íslands getur þessi hag­vaxt­ar­auki hækkað taxta­laun um 3-13 þús­und krónur á ári.

Í kjara­samn­ing­unum var einnig samið um styttri vinnu­viku með því að taka upp það sem er kallað „virkan vinnu­tíma“ sem verður að jafn­aði 36 stundir á viku. Hana á að inn­leiða með því að gera vinnu­tíma fólks sveigj­an­legri með því að bjóða því að kjósa sjálft um hvaða fyr­ir­komu­lag henti best á hverjum vinnu­stað.

Óvenjulegar forsendur

Þrjár meg­in­for­sendur voru fyrir gerð kjara­samn­ing­anna. Í fyrsta lagi þarf kaup­máttur launa að aukast á samn­ings­tíma­bil­inu. Sá vöxtur verður metin út frá launa­vísi­tölu Hag­stofu Íslands. Hingað til hefur sú forsenda haldið. Launavísitalan hefur hækkað um tæp tvö prósent frá apríl og út nóvember 2019.

Í öðru lagi var sú óvenju­lega for­senda sett til grund­vallar gerð kjara­samn­inga að vextir lækki „veru­lega“ og hald­ist lágir út samn­ings­tím­ann. Það þýddi að Seðla­banki Íslands þyrfti að lækka stýri­vexti til að for­sendur kjara­samn­inga haldi, en hann er sam­kvæmt lögum sjálf­stæð stofnun og hefur það meg­in­hlut­verk að við­halda verð­stöð­ug­leika.

Ekki var til­greint sér­stak­lega um það opin­ber­lega hversu mikið vext­irnir þyrftu að lækka til að for­sendur héldu en Kjarn­inn greindi frá því 4. apríl síð­ast­lið­inn að gert hafi verið hlið­­ar­­sam­komu­lag, svo­­kallað „skúffu­­sam­komu­lag“ sem er ekki hluti af opin­berum kjara­­samn­ingi, sem fól í sér að vextir yrðu að lækka um 0,75 pró­­sent­u­­stig fyrir sept­­em­ber 2020, þegar fyrsta end­­ur­­skoðun sér­­stakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjara­­samn­ingar hald­i. 

Vext­irnir voru búnir að lækka niður um það í júní 2019, 15 mán­uðum áður en fyrsta end­ur­skoð­unin mun eiga sér stað, og hafa haldið áfram að lækka síð­an. Þeir eru í dag þrjú prósent og hafa lækkað úr 4,5 prósent í apríl. Ári fyrir endurskoðun forsendunefndar höfðu vextirnir því lækkað tvisvar sinnum meira en skilyrt var að þeir myndu lækka.

Í þriðja lagi fólst í samningunum að stjórn­völd yrðu að standa við að fram­kvæma þann pakka sem þau komu með að borð­inu til að liðka fyrir gerð kjara­samn­inga undir yfirskriftinni „Lífskjarasamningar“.

42 aðgerðir stjórnvalda

Stjórn­völd lofuðu því að ráð­ast í alls 42 aðgerðir til að liðka fyrir kjara­samn­ing­um. Ríkið mat heild­ar­um­fang aðgerð­anna á 80 millj­arða króna.

Sumar aðgerð­irnar voru þá þegar fram komn­ar, en ekki frágengnar, eins og leng­ing fæð­ing­ar­or­lofs í 12 mán­uði. Aðrar hafa verið lagðar fram áður, eins og upp­bygg­ing í Keldna­landi, heim­ildir til að ráð­stafa 3,5 pró­sent líf­eyr­is­ið­gjalds skatt­frjálst til hús­næð­is­kaupa og áfram­hald­andi nýt­ing sér­eign­ar­sparn­aðar til að greiða skatt­frjálst niður íbúða­lán, en það úrræði verður fram­lengt fram á mitt ár 2021.

Það var þó einnig margt nýtt í pakka stjórn­valda. Það átti að gera breyt­ingar á tekju­skatts­kerf­inu með því að bæta við þriðja skatt­þrep­inu sem tryggja m.a. lægstu launa­hóp­unum nokkur þús­und króna skatta­lækkun á mán­uði. Sú breyting gengur í gildi um komandi áramót. Þá verða barna­bætur hækk­aðar og skerð­ing­ar­mörk þeirra hækkuð. Ráð­ast átti í fjöl­margar aðgerðir í hús­næð­is­mál­um, halda aftur af öllum gjald­skrár­hækk­unum og ráð­ast í mark­vissar aðgerðir til að draga úr félags­legum und­ir­boð­um.

Blessuð verðtryggingin

Á meðal þess sem stjórn­völd skuld­bundu sig líka til að gera var að banna 40 ára verð­tryggð jafn­greiðslu­lán frá byrjun komandi árs. Þá átti að grund­valla verð­trygg­ingu við vísi­tölu neyslu­verðs án hús­næð­isliðar frá og með árinu 2020. Hvorugt er orðið að veruleika. Á árinu 2019 jókst líka taka óvertryggðra lána til húsnæðiskaupa verulega og í októbermánuði gerðist það til að mynda í fyrsta sinn í þolanlegu verðbólguumhverfi að fleiri tóku óvertryggð lán en verðtryggð hjá lífeyrissjóðum landsins. Þá hefur verðbólga verið skapleg þorra ársins og farið lækkandi – hún er nú tvö prósent og vel undir verðbólgumarkmiði – sem hefur gert það að verkum, ásamt hratt lækkandi húsnæðisvöxtum, að staða margra verðtryggðra lántakenda á Íslandi hefur aldrei verið betri. 

Í pakk­anum voru einnig vil­yrði um að klára skoðun á því hvort að banna eigi alfarið verð­tryggð hús­næð­is­lán fyrir lok árs 2020.

Ljóst er að þá þyrfti að finna annan val­kost fyrir tekju­lægstu og við­kvæm­ustu hópa sam­fé­lags­ins á lána­mark­aði ef 40 ára jafn­greiðslu­lánin verða bönn­uð. Í pakka stjórn­valda stóð að unnið yrði með aðilum vinnu­mark­að­ar­ins að því að f­inna skyn­sam­legar leiðir og útfærslur á þeim til að auð­velda ungu fólki og tekju­lágum fyrstu fast­eigna­kaup. Ein mögu­legra leiða er að veitt verði sér­stök lán, til dæmis frá Íbúða­lána­sjóði, með þeim skil­málum að höf­uð­stóll­inn ­geti svarað til til­tek­ins hlut­falls af mark­aðsvirði eign­ar­inn­ar. „Slík „hlut­deild­ar­lán“ bæru lægri vexti og afborg­an­ir ­fyrstu árin og gerðu tekju­lágum kleift að kom­ast yfir útborg­un­ar­þrösk­uld­inn þar sem krafa um eigið fé væri lægri. Hlut­deild­ar­eig­andi fengi end­ur­greitt þegar eig­and­i ­seldi við­kom­andi íbúð eða greiddi lánið upp á matsvirði.“ Unnið er að innleiðingu slíkra lána. 

Enn er þó víða ósamið. Mesta athygli á síðustu mánuðum hefur vakið kjaradeilda Blaðamannafélags Íslands, sem samþykkti að fara í vinnustöðvanir síðla árs og hafnaði samningstilboði Samtaka atvinnulífsins í atkvæðagreiðslu í nóvember. Sú staða er enn óleyst og samkvæmt formanni Blaðamannafélagsins eru aðgerðirnar farnar í jólafrí. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar