Árið 2019: Ráðherra vill styðja flesta einkarekna fjölmiðla en nokkrir Sjálfstæðismenn á móti
Mennta- og menningarmálaráðherra lagði loks fram frumvarp um stuðningskerfi við einkarekna fjölmiðla snemma árs, en aðgerðirnar hafa verið í undirbúningi frá lokum árs 2016. Málið er erfitt innan ríkisstjórnarflokkanna og illa gekk að mæla fyrir því. Það tókst 16. desember.
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti þann 31. janúar drög að frumvarpi um breytingar á fjölmiðlalögum.
Meginefni frumvarpsins snerist um að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta ritstjórnarkostnað einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir styrknum áttu að vera að viðtakendur uppfylltu ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra væri fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggðist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.
Lagt var til að lögin tækju gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur myndu miðast við rekstrarárið 2019.
Gert var ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður yrði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk verktakagreiðslna fyrir sömu störf, í frumvarpsdrögunum.
Hlutfall endurgreiðslu yrði að hámarki 25 prósent af kostnaði við framangreint, þó ekki hærri en 50 milljónir til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Jafnframt kom fram í frumvarpsdrögunum að heimild væri til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu.
Í frumvarpsdrögunum var lagt til að framlag ríkisins yrði um 350 milljónir króna vegna þessa.
Miklar breytingar á skömmum tíma
Ástæða þess að ráðist var í þessa vegferð var sú að rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur kúvenst vegna tækni- og upplýsingabyltingarinnar sem hefur gerbreytt neytendahegðun og gengið nánast frá hefðbundnum tekjumódelum fjölmiðla. Fyrir vikið vilja færri greið fyrir fréttir og fréttavinnslu og hefur gert það að verkum að nýjar tegundir miðla, sérstaklega samfélagsmiðlar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla.
Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kom fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.
Það rekstrarumhverfi sem íslenskum einkareknum fjölmiðlum er sniðið er auk þess í andstöðu við það sem tíðkast víðast hvar í Evrópu. Þannig eru beinir ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla á öllum Norðurlöndunum, í Frakklandi, Lúxemborg, Lettlandi og Ítalíu.
Á hinum Norðurlöndunum, sem eru þau samfélög sem Ísland ber sig mest saman við, má rekja rekstrarstuðning hins opinbera til einkarekinna fjölmiðla aftur til ársins 1990. Í Noregi og Svíþjóð hefur stuðningurinn verið aukinn umtalsvert undanfarin misseri. Dönsk stjórnvöld kynntu einnig aðgerðir til að bregðast við rekstrarstöðu fjölmiðla í fyrra, sem fólust meðal annars í því að draga saman umfang DR, danska ríkissjónvarpsins.
Undirliggjandi var að tryggja að gagnrýnin umræða, aðhald, fjölbreyttar skoðanir og sjónarmið, menningarleg fjölbreytni, rannsóknarblaðamennska séu grundvöllur hvers lýðræðisríkis. Til þess að ná því markmiði þurfa fjölmiðlar að vera fjölbreyttir og í eigu ólíkra aðila.
Gagnrýnendur þess að ríkið styrki einkarekna fjölmiðla halda því fram að slíkir styrkir geti grafið undan sjálfstæði fjölmiðlanna. Að þeir muni ekki bíta hendina sem fóðrar þá og þar af leiðandi muni þeir ekki sinna aðhaldshlutverki sínu nægilega vel.
Sagði stjórnarmeirihluta fyrir málinu
Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í janúar og fjölmargar athugasemdir bárust við það, meðal annars frá flest öllum fjölmiðlum landsins. Margar voru jákvæðar en athygli vakti að tvö af stærstu fjölmiðlafyrirtækjum landsins, Torg sem gefur út Fréttablaðið, og Árvakur sem gefur m.a. út Morgunblaðið, gerðu miklar athugasemdir við að stærri fjölmiðlar fengu ekki meira og vildu að minni miðlar fengu ekkert.
Lilja sagði í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í mars síðastliðnum að það væri stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu þrátt fyrir að það hefði verið gagnrýnt úr ýmsum áttum, meðal annars af hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks.[
Eftir samráðsferlið voru gerðar breytingar á frumvarpinu og meðal annars bætt við stuðningi sem næmi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna. Kostnaður við það er metinn um 170 milljónir, en við endurgreiðslurnar áfram um 350 milljónir, samtals um 520 milljónir á ársgrundvelli.
Langstærstur hlutinn af heildarupphæðinni myndi renna til stærstu fjölmiðlafyrirtækja landsins, Sýnar, sem skráð er á markað, Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, og síðan Torgs ehf., sem gefur út Fréttablaðið og ýmsa aðra miðla.
Nú útgáfa af fjölmiðlafrumvarpinu var kynnt á ríkisstjórnarfundi í byrjun maí. Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 20 maí en það komst þó ekki til umræðu á Alþingi áður en þingið fór í sumarleyfi. Meginástæða þess var mikil andstaða hluta þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem vildu miklar breytingar á því þrátt fyrir að ráðherrar flokksins hefðu þegar afgreitt málið út af borði ríkisstjórnarinnar.
Málið frestast vegna ósættis
Í haust stóð til að mæla fyrir málinu í september en því var sífellt frestað vegna óróa um málið milli stjórnarflokkanna. Í lok nóvember spurðist út að óiánægjuöflin í Sjálfstæðisflokknum hefðu fengið það í gegn að endurgreiðsluhlutfallið yrði lækkað í 20 prósent en í byrjun desember kom í ljós, þegar breytt frumvarp var lagt fram, að það hefði verið lækkað enn meira. Endurgreiðslan samkvæmt því verður 18 prósent og hinn sérstaki viðbótarstuðningur, sem nemur allt að fjórum prósentum af þeim hluta af launum launamanna fjölmiðils sem falla undir lægra skattþrep tekjuskattsstofns, lækkar úr 5,15 prósentum í upphaflegu frumvarpi Lilju í fjögur prósent. Kostnaðurinn við frumvarpið var takmarkaður við þær 400 milljónir króna sem þegar hefur verið tryggðar til málaflokksins á fjárlögum, sem samþykkt voru í desember 2019.
Lilja náði loks að mæla fyrir frumvarpinu, eftir mikil átök bak við tjöldin, 16. desember síðastliðinn. Á sama tíma lögðu fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, fram eigið frumvarp um hvernig stuðningur við einkarekna fjölmiðla ætti að vera. Samkvæmt því yrði hann allur í gegnum afnám tryggingargjalds á fjölmiðla. Engin kostnaðargreining fylgir frumvarpinu en viðmælendur Kjarnans telja að það myndi kosta umtalsvert meira en frumvarp Lilju og að þeir peningar myndu að nánast öllu leyti enda hjá þremur stærstu fjölmiðlasamsteypum landsins: Torgi, Árvakri og Sýn.
Frumvarp Lilju er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur kallað eftir umsögnum fyrir 10. janúar næstkomandi.
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019