Árið 2019: Aðskilnaður ríkis og kirkju kemst rækilega á dagskrá
Ráðherra kirkjumála, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sagði í lok árs að sjálfstæð kirkja, óháð ríkisvaldinu, samrýmist betur trú- og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan njóti í íslenskri stjórnskipan. Þingmenn fjögurra annarra flokka hafa lagt fram frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju. Rúmur þriðjungur þjóðar er ekki í þjóðkirkjunni.
Í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra landsmanna sem skráðir eru í þjóðkirkjuna mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt og eru nú 231.154.
Það þýðir að fjöldi þeirra sem skráðir eru í þjóðkirkjuna hefur dregist saman um 21.915 frá ársbyrjun 2009.
Á því tímabili hefur Íslendingum fjölgað um 43.498, en þjóðkirkjunni hefur mistekist að ná þeim fjölda til sín líka. Samanlagt eru hafa því rúmlega 65 þúsund Íslendingar ákveðið að ganga ekki í þjóðkirkjuna á síðastliðnum árum. Alls standa nú tæplega 132 þúsund landsmenn utan þjóðkirkju.
Þetta kemur fram í nýlegum tölum frá Þjóðskrá Íslands um skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög.
Staðan í dag er því þannig að rúmlega 36,5 prósent landsmanna standa utan þjóðkirkjunnar. Fyrir rúmum áratug stóð fimmtungur landsmanna utan hennar.
Boða skref í átt að aðskilnaði
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði í byrjun síðasta mánaðar að óhjákvæmilegt væri að stefna í átt að fullum aðskilnaði ríkis og kirkju. Í grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið sagði hún að nýtt samkomulag, sem undirritað var í september síðastliðnum, milli ríkis og þjóðkirkjunnar feli í sér að hún verði ekki lengur eins og hver önnur ríkisstofnun. „Hún mun fremur líkjast frjálsu trúfélagi sem ber ábyrgð á eigin rekstri og fjárhag. Þessar breytingar eru til mikilla bóta og óhjákvæmilegt að stefna áfram á sömu braut í átt að fullum aðskilnaði. Þangað til og þrátt fyrir samkomulagið mun þjóðkirkjan áfram njóta stuðnings og verndar íslenska ríkisins á grundvelli ákvæðis stjórnarskrárinnar.“
Áslaug Arna sagði í greininni að sjálfstæð kirkja óháð ríkisvaldinu samrýmist betur trúfrelsi og skoðanafrelsi en sérstaðan sem þjóðkirkjan hefur notið í íslenskri stjórnskipan. „Í mínum huga er ekki spurning um það að kirkjan getur vel sinnt öllum verkefnum sínum og þar á meðal sáluhjálp og margvíslegri félagslegri þjónustu óháð ríkinu. Ég er einnig þeirrar skoðunar að margir muni fylgja kirkjunni að málum þótt fullkominn aðskilnaður verði á endanum á milli hennar og ríkisvaldsins.“
Þremur dögum síðar sagði hún í viðtali við RÚV að aukið ákall væri um það í samfélaginu, að sjálfstæði trúfélaga og lífskoðunarfélaga sé algjört. Hún sagði vinnu til að svara þessu ákalli væri þegar komin af stað. Markmið þeirrar vinnu væri að skilja að ríki og kirkju.
Meirihluti virðist vera fyrir aðskilnaði
Meirihluti virðist vera fyrir því á Alþingi að setja aðskilnað kyrfilega á dagskrá. Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata auk þingmanns Vinstri grænna og eins utan flokka, þar sem lagður er til aðskilnaður ríkis og kirkju.
Í umsögn um málið hefur Biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, sagt að það sé ekkert forgangsmál að kirkjan sé hluti af ríkisvaldinu. „Að viðhalda tengslum kirkjunnar við ríkisvaldið er í sjálfu sér ekki forgangsmál kirkjunnar. Skyldur kirkjunnar liggja fyrst og fremst í því að rækta og viðhalda tengslunum við þjóðina.“
Tillagan er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd.
Flestir landsmenn hlynntir breytingum
Samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem var birtur fyrir í byrjun nóvember er meirihluti Íslendinga hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju, eða rúmlega 55 prósent, en það er svipað hlutfall og undanfarin ár. Ríflega fimmtungur er hvorki hlynntur né andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju, og tæplega fjórðungur er andvígur.
Munur er á viðhorfi fólks eftir því hvað það kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag. Þeir sem kysu Pírata eru líklegastir til að vera hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju, en þeir sem kysu Framsóknarflokkinn líklegastir til að vera andvígir. Á eftir þeim koma kjósendur Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Í niðurstöðunum kemur fram að um þriðjungur Íslendinga beri mikið traust til þjóðkirkjunnar. Það er svipað hlutfall og í fyrra en þá lækkaði það frá fyrri mælingum. Nær þriðjungur ber hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar og um þriðjungur ber lítið traust til hennar.
Um 19 prósent eru ánægð með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands.
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019