Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fengu allir hámarksstyrki frá ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum í fyrra. Um helmingur styrkjanna fyrirtækja úr þeim geira til ríkisstjórnarflokka fór til Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fengu alls um ellefu milljónir króna í styrki frá lögaðilum í sjávarútvegi á árinu 2018. Um er að ræða útgerðarfyrirtæki, fiskvinnslur, fyrirtæki sem starfa í fiskeldi og eignarhaldsfélög í eigu stórra eigenda útgerðarfyrirtækja.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í útdráttum úr ársreikningum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna sem birtir voru á heimasíðu Ríkisendurskoðunar í nóvember.
Mest fékk Sjálfstæðisflokkurinn frá slíkum fyrirtækjum, eða tæplega 5,3 milljónir króna. Það þýðir að helmingur þess fjármagns sem greiddur var frá fyrirtækjum í sjávarútvegi til ríkisstjórnarflokkanna þriggja fór til Sjálfstæðisflokksins. Af þeim 20 lögaðilum sem gáfu flokknum lögbundinn hámarksstyrk, 400 þúsund krónur, komu níu úr sjávarútvegsgeiranum. Framlög þeirra fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins námu 24 prósent af öllum framlögum lögaðila, sem voru alls rúmlega 22,3 milljónir króna.
Framsóknarflokkurinn fékk næst mest stjórnarflokkanna frá sjávarútveginum, eða rúmlega 3,8 milljónir króna. Af þeim sjö lögaðilum sem gáfu flokknum 400 þúsund krónur voru sex úr sjávarútvegi. Alls námu framlög lögaðila til Framsóknar 9,5 milljónum króna í fyrra og því voru styrkir úr sjávarútvegi, eða 40 prósent allra styrkja frá lögaðilum.
Vinstri græn fengu alls tæplega 1,9 milljónir króna frá sjávarútvegsfyrirtækjum og fjórir af þeim fimm lögaðilum sem gáfu flokknum 400 þúsund króna framlag komu úr þeim geira. Alls voru framlög lögaðila til Vinstri grænna rúmlega 3,3 milljónir króna og af þeirri upphæð kom tæplega 56 prósent frá fyrirtækjum í sjávarútvegi.
Stærstu sjávarúrvegsfyrirtæki gáfu flestum
Af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins gaf Samherji öllum flokkunum þremur í fyrra. Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn fengu 400 þúsund krónur frá sjávarútvegsrisanum og Framsóknarflokkurinn 200 þúsund.
Samherji ehf., á 7,1 prósent alls úthlutaðs kvóta á Íslandi. Síldarvinnslan heldur svo á 5,3 prósent allra aflaheimilda, en hún er í 44,6 prósent eigu Samherja auk þess sem Kaldbakur, félag í eigu Samherja, á 15 prósent hlut í öðru félagi sem á 5,3 prósent hlut í Síldarvinnslunni. Síldarvinnslan gaf bæði Framsókn og Vinstri grænum 400 þúsund krónur í fyrra.
Sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar. Það félag gaf Sjálfstæðisflokknum 400 þúsund krónur.
Samherji hefur verið í miklu brimróti undanfarnar vikur eftir umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks um mútugreiðslur, meint peningaþvætti og skattsniðgöngu Samherja, sem byggði að mestu á tugþúsundum gagna og uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu. Þegar er búið að handtaka og ákæra Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Sacky Shanghala, fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, og fjóra aðra menn fyrir að hafa þegið 103,6 milljónir namibískra dollara, jafnvirði 860 milljóna íslenskra króna, í greiðslur fyrir að tryggja félögum tengdum Samherja eftirsóttan kvóta í landinu. Auk Shanghala og Esau voru James Hatuikulipi, sem hætti sem stjórnarformaður namibísku ríkisútgerðarinnar Fishcor nýverið, Tamson 'Fitty' Hatuikulipi, tengdasonur Esau, Ricardo Gustavo, samstarfsmaður hans og Pius Mwatelulo, sem einnig tengist Hatuikulipi fjölskylduböndum, ákærðir.
Mál Samherja er til rannsóknar í Namibíu, á Íslandi og í Noregi. Þá hafa eignir verið frystar í Angóla vegna málsins og þar á sér einnig stað sakamálarannsókn.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað skömmu fyrir jól á grundvelli stjórnsýslulaga að víkja sæti við meðferð og töku ákvarðana í fjórum stjórnsýslukærum tengdum Samherja hf. Kristján var fyrir mörgum árum stjórnarformaður Samherja og hann og Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja og einn aðaleigandi fyrirtækisins, eru aldarvinir.
Kaupfélag Skagfirðinga, sem á sjávarútvegsfyrirtækið FISK-Seafood sem heldur á 5,34 prósent heildarkvótans, gaf Framsóknarflokknum 200 þúsund krónur en hinum tveimur ríkisstjórnarflokkunum 400 þúsund krónur á árinu 2018. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Vinnslustöðin gaf Sjálfstæðisflokknum 400 þúsund krónur í fyrra.
Ísfélag Vestmannaeyja gaf bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki 400 þúsund krónur.
Framsókn fékk líka hámarksframlag frá Skinney Þinganes, Eskju, Arnarlaxi, Ramma og Löxum-fiskeldi.
Vinstri græn fengu 400 þúsund krónur frá HB Granda, sem í dag heitir Brim, auk þess sem Brim, sem í dag heitir Útgerðarfélag Reykjavíkur, gaf þeim 200 þúsund krónur.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk líka 400 þúsund krónur frá HB Granda, Þorbirni, Hval, Gjögur og eignarhaldsfélaginu Hlér ehf., sem er í eigu eins eiganda Nesskipa.
Fá aðallega fjármuni frá ríkinu
Meginþorri fjármagns sem fer í rekstur stjórnmálaflokka kemur hins vegar nú úr ríkissjóði. Árið 2018 var fyrsta árið í rekstri þeirra stjórnmálaflokkanna sem eiga fulltrúa á þingi frá því að framlög til þeirra úr ríkissjóði voru hækkuð um 127 prósent, að tillögu sex flokka sem sæti eiga á Alþingi. Framlög úr ríkissjóði til flokkanna átta á þingi áttu að vera 286 milljónir króna í fyrra en urðu 648 milljónir króna eftir að sú ákvörðun var tekin. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Þegar kosið verður næst, árið 2021, munu flokkarnir átta sem náðu inn á þing í haustkosningunum 2017 verða búnir að fá alls úthlutað rúmlega 2,8 milljörðum króna úr ríkissjóði vegna áranna 2018-2021 til að standa straum af starfsemi sinni.
Tekjur Vinstri grænna voru alls 146,7 milljónir króna í fyrra. Að uppistöðu komu þær tekjur úr ríkissjóði, eða 124,5 milljónir króna. Það þýðir að 85 prósent af tekjum flokksins komu úr sameiginlegum sjóðum.
Vinstri græn fengu 16,9 prósent í síðustu kosningum og ellefu þingmenn kjörna.
Rekstur Vinstri grænna kostaði alls 112 milljónir króna í fyrra og því skilaði reksturinn töluverðum hagnaði eða alls 33,6 milljónum króna. Flokkurinn skuldaði 7,4 milljónir króna í lok síðasta árs og lækkuðu skuldir hans milli ára úr 37,5 milljónum króna.
Tekjur Sjálfstæðisflokksins voru alls 367,6 milljónir króna í fyrra en alls komu 180,7 milljónir úr ríkissjóði. Það þýðir að tæpur helmingur af tekjum flokksins komu úr sameiginlegum sjóðum. Tekjur flokksins jukust um 48,2 prósent frá árinu 2017 en þá voru þær 248,1 milljón króna.
Rekstur flokksins kostaði alls 373,7 milljónir króna í fyrra. Flokkurinn skuldaði 430,9 milljónir króna í lok síðasta árs og hækkuðu skuldir hans milli ára úr 421,8 milljónum króna.
Framsóknarflokkurinn tapaði rúmlega tveimur milljónum króna í fyrra, samkvæmt ársreikningi, en ríkisframlög voru bróðurpartur tekna flokksins. Tæplega 80 milljónir komu til flokksins úr ríkissjóði, í samanburði við 44 milljónir árið 2017. Heildartekjur flokksins námu 121 milljón í fyrra.
Lestu meira:
-
1. janúar 2020Mest lesnu aðsendu greinar og skoðanagreinar ársins 2019
-
1. janúar 2020Árið þar sem áhyggjur af peningaþvætti flutu upp á yfirborðið á Íslandi
-
1. janúar 2020Ómöguleg staða að pólitískt kjörinn ráðherra veiti sérstakar fjárheimildir til rannsókna
-
31. desember 2019Árið 2019: Endalok GAMMA
-
31. desember 2019Heilt ár á Hótel Tindastól
-
30. desember 2019Mest lesnu viðtöl ársins 2019
-
30. desember 2019Árið 2019: Allir ríkisstjórnarflokkar fengu fé frá sjávarútvegnum í fyrra
-
30. desember 2019Ár vinnandi fólks
-
30. desember 2019Hvernig líður þér, elsku vinur? Bara prýðilega, takk, ég er með ykkur öll í vasanum
-
29. desember 2019Mest lesnu fréttir ársins 2019